Þar var einu sinni "Svarti skúr"

Mér sýnist ekki vanþörf á að fræða svolítið betur börnin sem einu sinni voru ekki fædd. En stærri börnin voru þá komin út að leika sér hér allt í kring. Þau voru á Víðivöllum malarbornum í brennó á kvöldin og þau fóru í yfir niðri við Svarta skúr. Svarti skúr stóð á horni Vallholts og Rauðholts og var vinsæll staður. Þau voru líka oft að sulla við Álftavatn en það var þar nærri sem Jón Birgir byggði sér seinna hús. Það var austan við húsið hjá ömmu hans og afa, Jónu og Eiríki. Goði hefur örugglega stundum sullað þarna með krökkunum. Goði var hundurinn hans Eiríks. Eiríkur var nefnilega bóndi. Hann bjó alvöru fjárbúi úti á Árbæ.

það voru líka byggð mörg hús í timburhrúgunum hjá Fúsa, en það munið þið nú kannski.  Ég held að Fúsi hafi aldrei amast þar við nokkrum krakka. Þá voru allar götur ómalbikaðar og allir garðar girtir sérstaklega. Rollurnar hans Gunnars á Fossi gengu hér um bæinn um nætur og ruddust yfir girðingar og inn í garða til að éta það sem þær ekki máttu. Ég man hvað ég var hamingjusöm þegar þær fóru hér inn einu sinni sem oftar og átu ofan af gullregninu. Ég vissi nefnilega það sem þær ekki gruaði , að gullregnið er eitrað, svo þær hafa fengið í magann.

Einu sinni um hánótt tókst mér að ná rollu með tvö lömb. Ég var ein heima með krakkana og fór út á náttfötunum þegar ég heyrði jarmað. Bílskúrinn var óbyggður þá, en ég dró hana inn í þvottahús og batt hana þar við miðstöðvarrör. Gáði að marki og fann það svo í markaskránni minni. Ég var nefnilega einu sinni bóndi sjálf og átti alltaf mark og markaskrá. Mitt mark er "Sýlt á báðum og biti aftan hægra". Jæja, ég fann út að Gunnar á Fossi átti þessa skaðræðisskepnu og hringdi svo í lögguna. En það var eins og að tala við steininn. Þeir gátu ekki tekið að sér að fangelsa rollu með tvö lömb, ekki einu sinni til að hafa hana bara í haldi fram til morguns. Það var ekki gustuk að vekja Gunnar. þeir gáfu mér það eina ráð að geyma hjörðina þangað til bændur færu á fætur. Þar sem augljóst var að skjátan hafði gert sér gott af gróðrinum í garðinum og það myndi væntanlega skila sér frá henni með morgninum nennti eg ekki að standa í fjárgæslu í þvottahúsinu það sem eftir lifði nætur. Ég leysti böndin og rak svo þennan óboðna gest með saklausum lömbunum fram fyrir Grýlupotta. Örugglega hefur hún snúið aftur og troðið sér inn í næsta garð. 


Ætla bankarnir að gefa okkur með sér?

Heyrði ég rétt? Ætla bankarnir að láta okkur, óbreytta viðskiptavini njóta gróðans með sér? Það væri nú bara sanngjarnt. Gamlar konur sem hafa verið í viðskiptum við sama banka áratugum saman eiga ekkert nema gott skilið.

Bankabókin góða, 50 ára gömul með bílnúmerinu hans pabba, væri svo vel að því komin að fá svona eina millu fyrir hvert ár ævi sinnar.  Hún hefur allan þennan tíma geymt einhverjar krónur. Jafnvel á árum húsbygginga og þrenging átti hún alltaf eitthvert smáræði svo hún gæti lifað áfram. Spurning hvernig henni yrði við ef hún fengi glaðninginn í evrum?

Einu sinni var allt svo miklu einfaldara. Þá sváfum við húsmæður í austurbænum þangað til ekki var lengur vært fyrir þörfum barnanna. Nú vakna húsmæður hér fyrir allar aldir til að koma börnunum frá sér og hlaupa svo í vinnu.

Einu sinni röltum við með barnavagna í Valló fyrir hádegið til að kaupa fiskinn í hádegismatinn og komum svo við í kaffi hjá hver annarri. Það tók bara korter að sjóða ýsuna.  Nú er ekkert Valló til. Krakkar eru fluttir á milli staða í bílstólum og engin er heldur heima til að hella á könnuna fyrir hádegið. Þetta skiptir svo sem ekki máli. Það er enginn hádegismatur. 

Einu sinni var hér engu húsi læst, á einstaka stað kannski um blánóttina. Nú hafa margir þjófavarnarkerfi í gangi lengst af sólarhringnum.

Einu sinni unnum við kannski Danina - en ekki í þetta sinn.

Var ekki allt betra "þarna einu sinni"? 

 


Til hvers erum við með þetta fólk í vinnu?

Í fréttum frá Alþingi heyrir maður og sér þetta fólk í eilífu skítkasti hvert á annað. Heilu dagana er það að upphefja sjálft sig á annarra kostnað. Krökkum í skóla er kennt að það sé ljótt að gera lítið úr öðrum og að umræður skuli vera málefnalegar. Þarna fer heldur lítið fyrir málefnunum og margir virðast hafa það eina hlutverk að grafa upp óhroða um andstæðinga.

Lögunum er svo dælt út á síðustu vikunni fyrir frí, enda eru þau mörg svo arfavitlaus að stórtjón er af.  Svo er í öðru orðinu talað um "virðingu Alþingis". Hvernig í ósköpunum  eigum við bera virðingu fyrir svona löguðu. Alþingi er ekki húsið, ef þið haldið það, það er fólkið sem þar á að vera að vinna.  Alveg eins og skóli væri ekki neitt ef þar væri ekki fólk.  Mér finnst ekki gott að borga fólki há laun fyrir að munnhöggvast opinberlega, sveiattan. 

 


Ég verð að sinna skyldunni

það var stjórnarfundur í kvöld. Stjórn Kvennaklúbbs Karlakórsins kom hér og úðaði í sig ostum og kexi. Við tókum líka nokkrar örlagaríkar ákvarðanir sem koma til framkvæmda á vordögum.  það er örugglega miklu þægilegra að stýra svona félagsskap heldur en þeim sem eru að brölta í pólitík. Engin hefur gert sig líklega til að segja sig úr félaginu, enda ekkert skárra til að ganga í.  Það virðist alltaf nauðsynlegt að ganga í eitthvað aftur, er alveg útilokað að vera bara í friði heima hjá sér - eða fara í sund? 

Ég er fegin að ég er ekki í skólanum á Eyrarbakka, þá hefði ég verið send heim í dag, og ég hef bara ekkert að gera heima svona á mánudegi.  það eru að hefjast þemadagar hjá okkur í skólanum. Eftir hádegi á morgun og alveg fram að helgi þurfum við ekki að læra nokkurn skapaðan hlut, getum mætt töskulaus og bara með nesti. Við eigum að nota tíman til að kynnast menningu annarra landa. 


Hversu breið eru Héðinsfjarðargöng?

Ég annaðhvort heyrði í fréttum, eða las, að breidd Suðurlandsvegar muni "verða ákveðin eftir arðsemisáætlun".  Þá datt mér í hug hvort eins hafi verið farið að við gerð Héðinsfjarðarganga? Eða er þetta eitthvað alveg nýtt á Íslandi? Hvað skyldu göngin vera breið?

Ég hef líka verið að hugsa (og ekki segja mér bókavörður að þar sé x) um alla þessa gáma við Sundahöfn. Og ég hef séð miklu stærri gámahafnir í útlöndum. Aldrei myndi ég þora að flytja búslóðina mína á milli landa. Væri aldeilis viss um að minn gámur gæti aldrei fundist aftur í öllum þessum fjölda. 

Ég hef líka stundum velt því fyrir mér hvort ég geti endalaust fundið upp á einhverju til að skrifa hér. Þetta hlýtur að taka enda. En svo róaðist ég þegar ég áttaði mig á því að ég skrifa það sem ég hugsa, og einu sinni var mér sagt að ég hugsaði allt of mikið. Reyndar ráðlagt að hætta því bara. Ég hef stundum reynt það en veit núna að það er ekki hægt. Ha ha , ég finn alltaf upp á einhverju.  Maður bara sest niður og byrjar.

Meira að segja núna er ég að blogga um ekki neitt en samt skrifa ég og skrifa. Samt er ég í dag búin að skrifa tveggja síðna grein sem ég ætla að koma í birtingu. Og ég gæti víst haldið áfram endalaust.  Ég var líka í dag á veiðum víðs vegar um bæinn. Ég var að leita eftir frauðplastplötum til að nota í skólanu. Ég var sem sagt að vinna á frídegi, er það nokkur hemja?


Laugardagur í lífi mínu

Þetta varð laugardagur til lukku hjá sumum en sorgar hjá öðrum. Ég gaf  mér tíma til að fylgjast með því á meðan ég gerði það sem gera þurfti.

Fótaferð var með eðlilegu móti, ég vakna auðvitað alltaf á sama tíma en tókst að blunda aftur og liggja til rúmlega níu. S.d. fór í bakaríið og sótti rúnstykki og svo í heimsókn til pabba síns. Hann gerir það oftast á laugardags eða sunnudagsmorgnum. Morgunverkin voru samkvæmt venju og enduðu með því að ég fletti Mogganum, Fréttablaðið nenni ég ekki að opna nema ég eigi akkert annað líf  framundan. Ég setti í þvottavél og gekk frá því sem ég þvoði í gærkvöldi. Hafísinn er kominn nærri landi fyrir vestan. Einu sinni sáum við borgarísjaka fyrir utan Bolungarvík í júlí. Þá var 4 stiga hiti þar á tjaldstæðinu um nóttina.

Þegar ég var búin að setja grjónin í pottinn skruppum við í búð. Við förum einu sinni í viku svona almennilega búðaferð, en svo kem ég bara við í Bónus á leiðinni heim úr vinnunni ef eitthvað vantar.  Ég keypti meira af frystivörum en til stóð svo ég varð að taka til í frystiskápnum þegar heim kom. Tók þar út tvo væna sviðakjamma sem ég setti í pott og sauð. Ég kom öðrum vörum fyrir á sínum stað á meðan ég eldaði grjónagrautinn.

Það er hægt að ganga í Frjálslynda flokkinn fyrir 2000 krónur. Er það ekki fjárkúgun?  Ég hringdi á Hraunteiginn, en þar var enginn heima. Þau eru víst farin upp í Borgarfjörð. Ég fór líka út í skúr og vökvaði blómin sem eru þar í vetrardvala. það eru blóm sem eru út á sumrin og þau fá ekki vatn nema einu sinni í mánuði. Ég taldi líka flöskur í poka fyrir endurvinnsluna og tók til ruslapoka sem eiga að fara á haugana. það eru dagblöðin, þessi endalausu blöð sem engin leið er að setja í tunnuna þar sem ekki er hreinsað rusl nema hálfsmánaðarlega.

Solla "vargatítla", mér finnst þetta alveg yndislegt orð, var að halda ræðu á einhverjum fundi. Líklega ræðu sem hún ætlar að slá sér upp á, en einhvernvegin fer það alltaf á hinn veginn fyrir henni. Mér er alveg sama um Sollu. það kom enginn í grautinn í dag svo við laukum hádegismatnum í einsemd. Eftir hádegið fór S.d. á haugana með pokana og kom við á verkstæðinu til að skila kastara sem hann hafði í láni. Á meðan þreif ég baðið. Þegar hann kom heim fór hann á moppuna og ég skúraði eldhúsið. Gólfin hér eru smstarfsverkefni. Ég setti í aðra þvottavél. Guðjón Arnar var kosinn formaður frjálslyndra með lófaklappi.

Ég sttist niður og lauk SUDOKU dagsins, það var fljótlegt. Mér finnst fúlt að það er ekki lengur heil síða af sudoku í Blaðinu á laugardögum. Nú þarf ég ekki lengur að opna Blaðið. Ég hreinsaði til í þvottahúsinu.

Ég tók sviðin úr pottinum og bjó til sviðasultu og hlustaði á meðan á "Orð skulu standa"  það er góður þáttur og þar hef ég komist að því að Davíð Þór er jafn vel gefinn og henn er skemmtilegur.  Um leið og handboltinn var að byrja fórum við út og í heimsókn í Sandvíkina. Dýrleif Nanna er orðin svo dugleg við allt mögulegt. Hún verður örugglega farin að ganga áður en hún verður eins árs. Það voru allir að fara á þorrablót í sveitinni nema barnafjölskyldan og Gummi bró átti að leika Jesú. Hann vildi helst fara svo heim eftir þann væntanlegga leiksigur, var víst ekki of viss um ágæti sitt í hlutverkinu. 

Margrét tapaði fyrir Magnúsi í varaformannskjörinu. Mér er alveg sama um þau bæði. Finnst samt svolítið forvitnilegt núna hvað hún gerir.  Við fengum lánaða þrjá DVD diska og fórum svo heim um leið og Íslendingarnir unnu leikinn. Eins gott að hann varð ekki lengri. Ég setti rófur í pott og bjó svo til rófustöppu með sviðasultunni sem ég varð að setja í frystinn smá stund svo hún yrði almennileg. Framsóknarmenn settu enhverja stelpu af Suðurnesjum í 3. sætið á Suðurlandi þegar þeir voru búnir að rífast um það í allan dag. Hún er þó víst Harðardóttir eins og fleiri og ætti kannski að duga.

Logi var í fréttunum. Hann er allur að lagast aftur, varð eitthvað svo ólíkur sjálfum sér þegar hann skipti um konu. Kannski er hann búinn að gefast upp á að verða sá gæi sem hann ætlaði. Svo kom Jón Ólafsson og hann er alltaf góður, og Spaugsstofan var frábær.     Ég er "Ísmaur".  Júróvisionið læt ég eiga sig að tala um, þar var ekkert sem heillaði mig. Svona var nú þessi dagur - en hann er ekki búinn.


Dagur til að gera allt

Það er í dag sem ég ætla að gera allt það sem hefur orðið útundan síðustu vikur. Taka svo vel til og þrífa að samviskan leyfi mér að leika mér næstu helgar. Þorrablót um næstu, útilega þar næst og svo fellur eitthvað til. Kannski læt ég í kvöld vita hvernig þetta gengur hjá mér.

Færi ég í Bónus í náttbuxunum?

Tískan er takmarkalaus. Ef unglingum í dag er sagt að eitthvað sé í tísku þá eru þau flest fús til að taka þátt. Nú eru það náttbuxurnar. Einstaka kennarar fá hroll um sig alla þegar krakkarnir mæta í skólann í náttbuxum á köldum vetrarmorgni. En ég veit að undir þessum buxum eru aðrar og engin hætta á að þeim verði kalt.                                    

Ég held líka að hrollurinn stafi ekki af áhyggjum vegna heilsu barnanna.  Frekar af íhaldssömum og fordómafullum hugsunarhætti. 

Hvað með það að klæða sig á óhefðbundinn hátt? Hvers vegna eru rósóttar flónelsbuxur eitthvað verri en gauðrifnar gallabuxur?  þær eru alla vega töluvert hlýlegri. Svo lengi sem unglingarnir eru sæmilega hreinir og hylja megnið af því holdi sem er þeim svo mikil uppljómun á þessum árum finnst mér þau mega vera í þeim fötum sem þau vilja og hafa ráð á. (eða foreldrarnir) 

Stundum verður mér hugsað til minna eigin unglingsára og þess sem þá var í tísku. það var langt frá því að sveitastúlkur gætu hlaupið til og keypt það sem flottast var hverju sinni. En vissulega var tíska og mamma var iðin við að sauma á mig hverja flíkina af annarri. þegar ég var á Skógum man ég eftir peysum, úr lituðum lopa, sem voru svo kembdar með ullarkömbum. Við prjónuðum svona stelpurnar og vorum flottar.

Ef ég ætti núna, (og væri mjó), bleiku dragtinna sem ég skartaði þegar ég mætti í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, myndi ég slá í gegn. það kemur allt aftur og tískan fer í hringi. Ég hafði hannað og heklað hana sjálf og hún var æði! 

En eiginlega er ég fegin að "hafa verið uppi" á árunum áður.  Ég var nefnlega allt of tilbúin að taka þátt í því sem óvenjulegt var.  Og ég þori ekki að ábyrgjast hvert það gæti leitt mig núna á tímum takmarkalauss frjálsræðis.


Er mínum raunum ólokið?

Ég verð kannski fúl aftur. Nú er mér bannað að kommenta hjá kafaranum, var þó aldeilis ekki að segja neitt ljótt. Ég bara vildi láta hann vita þá skoðun mína að stærstu bófarnir á Íslandi væru að mínum dómi "ósnertanlegir" og yrðu aldrei látnir gjalda fyrir ódæðin. Kannski var það nóg, kannski er ég "hleruð".  Svo þegar ég opnaði síðuna mína áðan var hún öll í vitleysu. Villa ,villa, villa, villa stóð í öllum hliðardálkunum og svo langar ruglaðar klausur inná miðja síðu? Gæti verið að norsararnir væru á bakvið þetta?  Ég á norska mágkonu, hvaða sambönd hefur hún?

Ég er ekki lengur fúl

Þetta var bara tímabundið vandamál, tók ekki nema tíu mínútur. Tölvan fraus í dag og svo uppfærði ég allt innvolsið í henni og það tók klukkutíma. Og svo gleymdi ég að koma við í búðinni. Ég var semsagt öll í klúðri og reyndi að koma því yfir á aðra. Alveg dæmigert.

það vorar snemma þetta árið, þrestirnir halda það líka og eru hættir að éta reyniberin sem liggja í haugum á bakvið hús. Hvað skyldu þeir annars hafa í gogginn, ekki eru ormarnir farnir að brjótast upp um klakann sem enn er í jörðinni? Hvort sem þessi hlýindakafli verður langur eða stuttur munar um hann, vikunum til vors fækkar með hverri helgi.

það var notalegt hjá okkur í sundinu í dag. Strákarnir syntu heil ósköp og svo máttu þeir fara í pott. Þeir hentust allir í barnalaugina og voru komnir þangað ofaní þegar vörðurinn í turninum kallaði í hljóðkerfið að þeir ættu að fara uppúr strax, af því að ryksugan væri þar að vinna. Hann hefði nú getað sagt þeim það áður en ofaní var komið. En þeir voru ekki seinir á sér að flýja. Virtist helst sem þeir héldu að sugan væri sett í laugina til að éta börn. þeir komu allir til mín í litlu laugina, en skrímslið elti ekki. Þar lágum við svo í nokkrar mínútur þangað til tíminn var búinn.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 197646

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband