7.2.2007 | 20:58
Kvöld fyrir "Sunnlenska"
Miðvikudagskvöld og Sunnlenska komið. Þá er vikan meira en hálfnuð. Allt er bundið í einhverskonar fastar skorður. Ég veit að ef þetta ræflislega blað kæmi einverntíman ekki, gæti ég átt erfitt með svefn næstu nótt. Reyndar er það núna bústnara en stundum áður.
Mér fannst aðalfréttin í Sunnlenska núna vera sú um lokun Krónunnar næsta mánudag. Hvort sem verslun í þessu húsi hefur heitað Höfn, Kjarval eða Krónan þá hef ég verslað þar meira og minna frá upphafi búskapar. Byrjaði reyndar í gömlu Höfn og ég man ekkert hvað þá var í húsinu sem nú er verslunarhúsið. Það var þó alltaf þar. Kannski kjötvinnsla Hafnar? Ég er hrædd um að Bónus hér verði að bæta sig ef við eigum nú ekki að fara aftur að leita "út fyrir hérað" til aðdrátta. Bónus í Hveragerði er þó ágæt búð, kannski það verði að duga.
það vill enginn kaupa Eden, sem hefur nú verið nokkuð lengi á sölu. Það er kannski varla von, allt þar þyrfti verulegra endurbóta við og ekki víst að reksturinn í þessu sama gamla formi stæði undir því. það þarf sennilega að gera eitthvað róttækt. Kannski rífa allt saman og byggja nýtt?
Í gær var spilakvöld kvennaklúbbsins, árlegur viðburður og bara vel mætt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2007 | 20:57
Grínverjur funda stíft
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2007 | 20:43
Einu sinni átti ég gemsa
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2007 | 20:21
Hér er göltur um gölt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2007 | 20:52
Fjárans flensan
Ég segi ekki ljótari orð, en hún ætti þau þó virkilega skilið. Þorrablótinu sem átti að vera í kvöld varð að fresta af því að blikksmiðurinn bratti, sem ætlaði að hafa okkur í sínu húsi, gat ekki reist höfuðið frá kodda í morgun. Hann er því langt frá því að vera "brattur" núna. En það þýðir ekki að væla yfir því. Í staðinn buðum við einni fjölskyldu í kjötsúpu hér heima. Og blótið verður bara eftir viku.
Ég nenni ekki að glápa á þetta "Júróvisjón". Alveg nóg að heyra álengdar. Stundum hef ég haldið fram þeirri kenningu að maður njóti tólistar betur með lokuð augu, maður truflast þá ekki af því sem er að sjá. En nú er sama þó ég sjái ekki neitt, ekkert sem ég heyri finnst mér varið í. Og af hverju er stelpan alltaf að láta fólkið í salnum góla eins og Bítlarnir væru á ferð? Fólk, og þó frekar krakkar, gólar oft í múgæsingi eða hrifningu, en þarna bara passar það alls ekki. Tilefnið er ekkert.
Talandi um "Júró", það er ekkert slæmt að lenda í 8. sæti á heimsvísu. Við höfum margoft verið í 16. sæti á "júróvísu" og bara komist þokkalega í gegnum það.
Krrrææst! ætlar þetta engan enda að taka? Hvernig stendur á að það er hægt að búa til ágæt lög á Íslandi allt árið um kring, en svo fer allt í svona ömurlegan baklás þegar síst skyldi?
Vá! - nú sagði hún að "best væri að halda fjörinu áfram". Ef ég get bent á eitthvað, þá vantar einmitt fjörið í þetta. Ég vil fá almennilegt rokk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.2.2007 | 23:12
Hann Max er týndur
Ein helgin enn og líka kominn febrúar. það á að fara að lesa passíusálmana í útvarpinu og þá eru Páskarnir á næsta leiti. Rosalega líður þetta hratt.
þemadagarnir eru búnir í skólanum. Við enduðum þá í dag með skrúðgöngu. Allir krakkar og flest annað starfsfólk skólans þrammaði í suddarigningu hringinn í kringum íþróttavöllinn.þegar við fórum framhjá Fjölbraut varð þar uppi fótur og fit og allir gæjarnir þustu í bíla sína til þess að elta okkur og keyra í kringum krakkaskarann með stælum. Og við sem héldum að þau væru orðin þroskuð í þeim skóla?
Þessir þrír dagar liðu eins og í ljúfum draumi. Enginn þurfti að læra nokkurn hlut, en kannski lærðum við samt heilmikið. Við vorum að kynna okkur líf og siði í öðrum löndum. það heitir "Fjölmenningarþema". Stundum áður á svona þemadögum, hefur verið mikill erill í skólanum, mikið haft fyrir að útbúa eitthvað sem síðan verður til eintómra vandræða. Drasl út um allt. En í þetta sinn var lítið þess háttar vesen og það sem eftir liggur er bara vel viðráðanlegt. Þetta voru góðir dagar.
Hann Max er týndur. Hann var við byggingarvinnu í Háaleitishverfinu í Reykjavík í dag og bara gufaði allt í einu upp. Hann hefur aldrei áður verið einn um nótt, enda bara tveggja ára og sjálfur eins svartur og nóttin. Labrador, aleinn í rigningu og roki og ratar ekki heim til sín. Alla leið austur fyrir fjall. Ég er einskonar amma hans og veit ekki hvort ég sef mikið í nótt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.2.2007 | 20:02
Ef ég færi "Út að aka"
Þá myndi ég velja mér bíl sem ég gæti treyst. En það gerðu þeir ekki, félagarnir sem ég var að enda við að lesa um. Það var nafnið og útlitið á doríunni sem réði valinu. Og það var gott. Sagan hefði aldrei orðið eins skemmtileg ef þeir hefðu ferðast á venjulegum bíl.
Öll vandræðin og klúðrið sem þeir félagar segja svo skemmtilega frá hefðu þá aldrei orðið. Þeir segja svo hreinskilningslega og persónulega frá samskiptum ferðafélaganna hvort sem er í illu eða góðu. Miðaldra kallar í fýlu. Þeim kemur ekki alltaf vel saman, hver á að sofa hjá hverjum og svo margt fleira. Mér finnst reyndar merkilegt að engir þeirra virðast hafa treyst sér til að sofa saman í hjónarúmi.
Ég hefði alveg viljað vera með Einari Kárasyni í San Francisco, en þó hefði ég ekki viljað sofa hjá honum. Þó hefði veri gaman að vera fluga á veggnum. það er langt síðan ég hef lesið bók og hlegið upphátt hvað eftir annað. Takk fyrir skemmtunina Ólafur og Einar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.2.2007 | 20:43
Fyrsta kvöldsala á Selfossi
Ég vann hjá Dodda í Ölfusá tvö sumur. Þá var útivinna ungra mæðra bundin við sumartímann af því að þá var hægt að fá barnapíur. Mín barnapía hét Ella Ástráðs og var frábær. Kaupfélagsbakaríið var við hliðina á Ölfusá og þar voru þá bakaradrengirnir Guðni, Ingólfur og Gummi Ben. Þeir komu í kaffinu að fá sér Sínalco og súkkulaði. Guðni og Ingólfur urðu bakarar, en Gummi er tónlistarmaður og les fréttir í útvarpinu.
Þriðja sumarið var ég óákveðin hvort ég ætti að vinna af því að þá var orðið einu barni fleira.
Þá gerðist það í apríllok að húsbóndinn flutti til Svíþjóðar að vinna í skipasmíðastöðinni Kockums. það var tími atvinnuleysis á Íslandi og karlar fluttu í hópum til annarra landa að leita að peningum. Þeir voru eins konar Pólverjar þess tíma. Hann var ekki fyrr farinn úr landi en ég lallaði til Dodda, ekkert hafði ég bílprófið þá, enda bíllinn, Opel´55, varla við kvenna hæfi. Ég nennti ómögulega að vera bara ein heima með tvö börn.
Doddi tók mér vel, en sagðist því miður vera búinn að ráða það sem hann þyrfti til sumarsins. Hann sagðist þó hafa verið að hugsa til min, hafði dottið í hug að taka uppá þeirri nýbreytni að hafa búðina opna lengur en til 6. Væri ég kannski til í að koma kl.6 þegar hinar færu og vera ein áfram til 10? Ég var alveg til í það, þurfti bara fyrst að tala við Ellu. Hún var ekki sein til svars og ég byrjaði næsta dag. Þar var opnuð fyrsta kvöldsala í verslun á Selfossi. Við slógum Kaupfélaginu við!
þarna var ég svo ein á kvöldin í langan tíma. Sd. kom aftur frá Svíþjóð og þá gat hann hugsað um börnin á kvöldin. þetta var með því betra sem ég hef unnið við á ævinni. Alein réði ég yfir fjögurhundruð fermetra magasíni, þar sem allt fékkst. Fatnaður, matvörur, leikföng, snyrtivörur, rafmagnstæki, sælgæti, og skór.
Ég labbað alltaf í vinnuna og tókst þessi ár að ná milliferðatímanum niður,úr 15 mín í 5.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.2.2007 | 20:09
Sauðfjárverndin
Einhverjir muna sjálfsagt eftir tilkynningum í útvarpi frá "Sauðfjárverndinni". Í hádegisauglýsingum útvarps, sem var þá bara ÚTVARPIÐ, ekkert rásarugl með eitt eða tvö, mátti reglulega heyra eitthvað á þessa leið: "Bændur, hugið vel að ánum um sauðburðinn", sauðfjárverndin. "Nú er tímabært að taka fé á gjöf", sauðfjárverndin.
Einhverjir hafa sjálfsagt haldið að þessi góða vernd væri falin í skúffum einhverrar stofnunar bændasamtaka, en það var nú ekki. Það var hann Jón Konn. Gamall maður og fyrrum barnakennari sem notaði ellilaunin sín til að stuðla að góðri meðferð á kindum. Hann átti heima í litlu húsi sem stóð kirkjumegin við það hús sem einu sinni hýsti hreppsskrifstofuna, en er nú veitingastaðurinn Menam. Hann bjó þarna einn og þegar hann fór út gekk hann við tvo stafi.
Eftir að hann dó hefur enginn tekið að sér að vernda kindur á Íslandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.1.2007 | 21:58
Kaupfélag Árnesinga
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar