16.2.2007 | 19:15
Ég vissi það alveg
Það varð ljóst í gær að ekki þyrfti eldgos til að Byrgis, Breiðavíkur, Kópavogs og öll hin málin dyttu út af dagskránni fljótlega. Klámhátíð á Íslandi! Bloggandi fjölmiðlamenn eru strax farnir að þreifa fyrir sér og búnir að leggja "mál "síðustu vikna til hliðar.
En svo er það ég og pestin. Nú er ég búin að vera á röltinu frá kl.16.00. Ætla að reyna að sofna með eðlilegu móti í kvöld. Mér er ekki lengur illt í hálsinum, en hausinn er eins og troðinn bómull. Ég fæ hóstaköst svakaleg og þá fæ ég illt í hausinn. En nú borðaði ég smá kvöldmat, Helga bauð uppá kjúkling með steiktum kartöflum og góðri sósu. Svo er hún að fara eitthvað út, en Björn bróðir minn kemur einhverntíman í kvöld til að gista.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2007 | 13:26
Á sóttarsæng
Jú- jú - ég er heima. Það tekur sjálfsagt helgina alla að verða almennileg aftur. Eg sofnaði nú alveg í gærkvöldi þó ég væri búin að sofa allan daginn. Líklega hefur panodil skotið hjálpað til. En ég hafði ekki lengi sofið þegar ég rumskaði og var að kafna úr hita, svitinn lak af mér. Ég endurskoðaði náttklæðnaðinn og endaði með að henda því öllu fyrir borð. Kannski dáldið mikið, ég var með flísteppið líka undir sænginni.
Nóttin öll varð svo heldur ónæðissöm og undir morgunn fann ég út hvers vegna. Ég hafði gleymt Otrivin nefúðanum með mentolbragðinu. Ég hefði átt að fá mér púst í hvora nös fyrir svefninn. En af því ég gleymdi því var nefið algerlega stíflað og þá er ekki hægt að anda með því. Ég var semsagt í alla nótt eins og silungur á lækjarbakka, að reyna að gleypa loft í gegnum munninn. Og af því varð ég svo þurr og pirruð í hálsinum, leið bara verulega illa. Kannski var ég meira að segja farin að hugsa hvað myndi gerast ef hálsinn bólgnaði meira? Ég hef lesið um það í sögum og gott ef ekki séð í "Húsinu á sléttunni", að það hefur þurft að stinga gat á háls sem hefur lokast. En reyndar var það nú víst eins og RS vírusinn, eitthvað sem hét barnaveiki og þess vegna bara fyrir börn.
Þegar sambýlingar mínir voru farnir í vinnu og skóla, og ég að láta vita af ástandi mínu í mínum skóla, fékk ég mér nefdropa og sofnaði. En ég gat ekki sofið endalaust og nú var mér eiginlega hvergi illt nema í hausnum. Ég fór frammúr og rölti einn hring í húsinu. Frekar var ég drusluleg. Kannski bara af hungri? Ég hafði ekkert borðað síðan í gærmorgun. Ég hellti á könnuna, ristaði tvær brauðsneiðar og fékk mér jógúrt. Þetta varð góður morgunmatur og ég fletti Mogganum með. Svo lagði ég mig fram að hádegi. Ég held semsagt að ég sé að skána. Nefrennslið, táraflóðið og heyrnarleysið er það sem angrar mig núna, og sennilega einhver smá hiti.
En ég er allavega ekki verri en i gær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2007 | 20:45
Óóóó - mig auma
Ég er með pest. Druslaðist heim úr skólanum fyrir hádegi og hef eiginlega sofið síðan. Samt er ég ekkert skárri. Hvað skyldi þetta heita? það var sagt í útvarpinu að tvær pestir væru í gangi. Flensan og RS vírusinn. Þetta er örugglega ekki flensa, þá lægi ég nærri rænulaus með 39 - 40 st. hita og talaði tungum. Þó ég hafi sofið í dag get ég alveg staðið upp og þykist hafa það nokkuð á hreinu hvað ég tala um. Nei þetta er ekki flensan. RS? Þeir segja að það sé eitthvað sem leggst á smábörn og svo ekkert meir. Engin lýsing á einkennum eða rök fyrir því að fullorðið fólk fái að vera í friði.
Mér er skítkalt, mér er illt í hálsinum og hósta og hnerra til skiptis. Samt er kvefið allt pikkfsat í mér. Sultardropinn á nefbroddinum má heita óslitinn frá því um iðjan dag í gær. Mér er illt í hausnum og hef enga matarlyst, nema þá helst ávexti og kók.Mér er illt í eyrunum og heyri mjög takmarkað, hvorki það sem ég vil eða vil ekki heyra. Og það er slæmt.
Auðvitað reyni ég að beita þeim meðulum sem ég þekki á óværuna. En ég bara veit ekki hvað kemur verst við hana. Þess vegna ét ég engiferrót balndaða með hvítlauk og sítrónu, (í ákaflega litlum vökva). Strepsil og Dekadin til að mýkja hálsin og íbúfen til að slá á verkina. Fyrir svefninn æla ég svo að skella í mig tvöföldum Panodil shot, eða var það hot? ég man það ekki.
Ég hugsa að ég sofi í flísbuxunum sem ég keypti til að ganga norður Kjöl og svo í samsvarandi peysu. Verst hvað ég kvíði fyrir að skipta úr fötum í "náttföt". Ég er vafin í flísteppi núna yfir fötin og skelf eins og hrísla. Það bendir allt til að ég verði heima á morgun, verst að þar er alltaf eitthvað að gerast. Og ég missi þá af því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.2.2007 | 19:56
Er ekki komið nóg af ofbeldi?
Ég ætla bara að láta vita strax af því að mér leið alltaf vel í Skógaskóla. Að vísu áttum við að vera komin í herbergin okkar kl. 22.00 og ljósin voru slökkt kl.23.00, en við fengum góðan mat og máttum fara labbandi í búðina í Skarðshlíð einu sinni fyrir jól og einu sinni eftir. Við gátum fengið að tala við foreldra okkar á laugardögum, en þá var klukkutíma símatími. Oftast voru það foreldrarnir sem hringdu. Við fengum að fara heim á jólunum. Stelpur máttu reyndar aldrei fara á strákavist og þeir ekki til okkar, en við fengum að vera úti í klukkutíma síðdegis á hverjum degi og þá gátum við verið öll saman.
Auðvitað vorum við miklu meira úti, enda veðrið alltaf gott undir Fjöllunum. Þarna var bara rooosalega gaman og ég er næsta viss um að ekkert okkar var á vegum barnaverndarnefndar. það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem unglingar voru þarna af einhverjum vandræðalegum ástæðum, og aldrei að vita nema einhver muni stíga fram í þessu fári sem nú gengur yfir og segja frá því að í Skógum hafi hann átt sína verstu daga. það birtist eitthvað nýtt á hverjum degi svo maður veit ekkert hvað gæti poppað upp næst.
Þurfa fjölmiðlarnir að lýsa þessu öllu í smáatriðum? Væri ekki nóg að gefa út tilkynningar svohljóðandi: " Að allir þeir sem telja sig hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldi og misnotkun á Íslandi frá 1930 til þessa dags, skuli hafa samband hér eða þar"? Öðruvísi held ég að þetta taki engan enda. Fyrir margt saklaust fólk er þessi umræða í fjölmiðlum daglega ekkert nema ofbeldi. Kannski þarf eldgos eða aðrar hamfarir til að beina athyglinni annað. Það liggur við að manni finnist komið nóg. Fyrirgefðu Sigmar, þetta er ekkert persónulegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2007 | 20:47
Bílar með áfengisskynjara?
Ég hitti um helgina fólk sem fullyrti að bíllinn sinn færi ekki í gang ef sá sem reyndi að starta hefði smakkað vín. Og ég held að þau hafi trúað þessu. Meira að segja sögðust þau hafa hitt mann sem ætti bíl með sömu eiginleikum. Þetta er nú varla rétt?
Það voru fleiri viðstaddir og ein kona á þriðja glasi ákvað að prófa bílinn sinn nýja. Ekki hafði verið talað um svona gildrur þegar kaupin voru gerð. Hún fór og startaði og auðvitað rauk hann í gang. Þetta á semsagt ekki við um alla nýja bíla, en bendir allt til að Volvo og Citroen hafi einhverja dulda hæfileika. En af hverju er það þá ekki auglýst. Og hverjum dettur í hug að kaupa sér Ciroen á 21. öldinni. Við áttum einu sinni bíl af þeirri gerð - sem aldrei skyldi verið hafa. Ömurlegt að opna bílskúrinn á morgnana og sjá þennan ræfil liggjandi á gólfinu eins og dauðan flóðhest. Og ef hann komst svo út úr skúrnum mátti helst ekki fara útaf malbiki svo maður fengi ekki þá tilfinningu að allt væri að hrynja í sundur.
En ef þeir eru farnir að setja í hann svona leynivopn gegn fyllibyttum er það kannski einhvers virði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2007 | 19:05
Það er allt á rétri leið
En ég er með kverkaskít, sem einhver myndi líklega kalla hálsbólgu. Eigi skal ég þó leggjast flöt svo lengi sem báðir fætur eru jafnlangir og leusir við beinverki.
Fyrirsögnina skilja þeir sem "málið" varðar, en málið er búið að vera til nærri því í eitt ár. Þetta er semsagt dulmál. Örugglega fúlt að lesa blogg sem ekki er öllum ætlað að skilja.
Ég þarf ekki að læra í kvöld, en brotaverkefnið okkar Helgu frá því á sunnudag var víst bara furðu vel heppnað. Eiginlega átti ég ekki von á því.
Fyrir þá ættingja sem eru í útlöndum get ég sagt að hér er þokkalegt veður, lítið frost og enginn vindur. Og það á að hlýna seinna í vikunni. Fjölskyldan í Rvk. fer til Boston um helgina og verður í viku. Pabbinn verður reyndar í Las Vegas.
Það er ennþá skíma á vesturhimni og ég sá hana í austri kl. 8.00 í morgun. það er að koma vor!
12.2.2007 | 21:17
Myndin frá Möggu frænku
þegar hún Magga dó þá fengum við arf, stórt málverk frá Þingvöllum, 1.20x80 - alveg passlegt á vegginn yfir sófanum. Málverk var ekki svo lítill fengur á okkar heimili, alvöru málverk, ekki eftirprentun eða plakat eins og helst höfðu þakið stærstu veggina fram að þessu. Alvöru málverk og í þetta líka flottum ramma, gylltum og fimm tommu breiðum. Já hún var ekkert blávatn hún Magga frænka, lærð nuddkona og bjó ein alla sína tíð - og safnaði málverkum.
Það var meira að segja nafn í einu horninu, alvöru málarar setja alltaf nafnið sitt í hornið. Jóhannes stóð þar, ekkert meira, enda óþarfi, þessi Jóhannes skrifaði nafnið sitt öðruvísi en allir aðrir Jóhannesar. Þeir sem hafa vit á myndlist vita vel að það er bara um einn svona Jóhannes að ræða.
Liðu nú árin við barnauppeldi og vinnu. Sum árin voru erfiðari en önnur, það þarf nokkrar krónurnar til að vinna sig út úr húsbyggingu og ala upp börn. En erfiðu árin voru aldrei alvond. Þó krónurnar væru fáar til á stundum var engin ástæða til að örvænta, við vorum aldrei fátæk. Við áttum myndina frá Möggu og þeir sem hafa ráð á að láta alvöru málverk, 1,20x80, eftir Jóhannes - í gullramma, hanga á stofuveggnum - þeir eru ekki fátækir.
Með vaxandi þroska fór að bera á listrænum tilþrifum hjá eldri syninum. Hann teiknaði á öll blöð sem hann komst yfir og bara hreint ekki illa. Hann æfði sig jafnvel að skrifa nafnið sitt með handbragði listmálara og á endanum svo glæsilega að engin skömm var að neðst í horninu á myndunum.
En jafnframt þessum æfingum fór drengurinn að hafa skoðanir. Hann hafði um það ákveðin orð hvað honum fannst fallegt - eða ljótt. Svo sem allt í lagi með það, allir hafa skoðanir og benti bara til nauðsynlegs sjálfstrausts að þora að segja þær upphátt. En allt hefur sín takmörk. Einn góðan veðurdag lýsti hann því yfir að Þingvallamyndin, myndin eftir Jóhannes, væri forljót! Og það sem verra var, húsbóndinn tók undir þetta. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði hann ekki orð á því fyrr, en honum hafði alltaf þótt málverkið frá Möggu "ömurlegt skilirí". Samt var hún frænka hans en ekki mín.
Þeir vildu myndina af veggnum og helst upp á hauga. Ég gat ekki sætt mig við þetta uppþot. Þó málverkið væri ekki lengur það eina í húsinu var það samt Þingvallamynd, eftir Jóhannes, í gylltum ramma. Þingvallamynd tekur maður ekki og hendir bara si svona. Hugsið bara til Jóhannesar - og Möggu. Það er til fullt af myndum sem fólki finnst ljótar, en eru þó mikils virði. Þeir hafa bara ekkert vit á myndlist þessir feðgar.
Ég lægði öldurnar með því að samþykkja að taka myndina af þessum vegg þegar sonurinn kæmi með aðra í staðinn, eftir sjálfan sig og nafnið fagurlega flúrað í horninu. Þeir féllust á þetta og ég fékk vopnahlé til að undirbúa gagnsókn.
Næst þegar ég var ein heima tók ég myndavélina og tók myndir af málverkinu. Nærmyndir og fjærmyndir og eina alveg sérstaklega af nafninu í horninu. Ég festi Jóhannes á filmu svo enginn vafi væri hvað hann hafði málað. Ég vissi hvernig ég ætlaði að leiða feðgana á rétta braut og bjarga myndinni.
Þegar búið var að framkalla skrifaði ég bréf sem ég setti svo í umslag ásamt myndunum og skrifaði utaná til Foldu í Rvk. En það er gallerí sem selur listaverk og þar vinnur fólk sem hafur vit á svona hlutum. Fólk sem ég, þessa dagana, átti líklega meiri samleið með en núverandi smbýlingum.
Í bréfinu lýsti ég myndinni og bað um aldursgreiningu, nánari deili á Jóhannesi og svo óskaði ég eftir verðhugmynd. Svo fór ég á pósthúsið, nú liði ekki á löngu þar til ég gæti spjallað betur við mína menn.
Ótrúlegt hvað pósturinn getur verið snöggur stundum. Síðdegis næsta dag hringdi síminn. Karlmaður kynnti sig og sagðist vera sá sem réði ríkjum í Foldu. "Það er bara svona" hugsaði ég, "ekki verið að draga það". Líklega vildi hann tryggja sér myndina strax. Ég duldi gleði mína og sagðist ánægð með skjót viðbrögð. Spurði svo hvort hann gæti nokkuð sagt mér um Jóhannes? Jú-jú - hann gat það.
Jóhannes þessi hafði verið einn þeirra málara sem kallaðir voru "alþýðulistamenn" um miðja tuttugustu öldina. "Sko til, ekki alveg óþekktur" hugsaði ég. En hann hélt áfram: Jóhannes hafði helst unnið sér það til frægðar að vera ótrúlega afkastamikill, myndir eftir hann skiptu hundruðum, að minnsta kosti. "Jæja", sagði ég, "hvað heldurðu hún gæti kostað"?
Hann mátti eiga það að ég heyrði ekki votta fyrir brosi í röddinni þegar hann svaraði mér. Þetta er maður sem kann sig. "Ég gæti trúað að það væri svona þúsund kall" sagði hann, "og það er þá eiginlega mest fyrir rammann, hann er nokkuð góður". "Nú já", sagði ég -------og hann bætti við: "En það má ætla að svona myndir hafi meira tilfinningalegt gildi fyrir eigandann, sumar eru alveg ómetanlegar þannig". Hughreystandi! Ég brosti kalt í símann, ekki skyldi þessi maður heyra annað en eintóma ánægju í minni rödd. Ég þakkaði fyrir og kvaddi.
Hvað skyldu líða mörg ár þangað til hann sonur minn kemur með myndina stóru, sem hann ætlar að mála og merkja í hornið með listamannsnafninu sínu? Það má ekki dragast lengi, tilfinningalegt samband okkar Jóhannesar aykst dag frá degi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.2.2007 | 21:20
Það gerist allt í einu
Um leið og ég kom heim úr vinnu á föstudaginn lögðum við Grínverjur af stað til fjalla. Við fórum til þess að halda hátíðlega "Hinsegin daga" í sveitinni. Við bjuggum í góðu húsi í boði Landsvirkjunar og borðuðum um kvöldið dýrindis sjávarréttasúpu sem Landsvirkjun eldaði fyrir okkur. Við vorum 10 í þetta sinn en erum 16 í allt. það geta ekki alltaf allar komið með. Við áttum þarna skemmtilegt kvöld með ýmsum uppákomum og síðan góða nótt í góðum rúmum, misjafnlega breiðum.
Við vorum þrjár sem þurftum að fara heim fyrir hádegi í gær, en hinar eru þar kannski enn. Svo í gærkvöldi var þorrablótið fjölskyldunnar, vel heppnað að vanda með spurningakeppni og fleiru góðu. Ég varð svo lánssöm að lenda í vinningsliðinu í þetta sinn, samt vorum við færri, en líklega miklu vitrari.
Svo kom nóttin og nú er ég svo heppin að vera komin með barn í húsið. Reyndar barn í stærra lagi svo það varð eftir úti á lífinu þegar við fórum í koju. En það lifir lengi sem einu sinni var. Ég sofnaði sætt og rótt, en vaknaði svo um miðja nótt af því að "barnið" var ekki komið heim, alveg eins og þegar ég átti þau sjálf á sínum tíma. Ég lá þarna og sperrti eyrun þangað til hún kom, en það var sem betur fer ekki löng bið. Þá sofnaði ég aftur, alveg eins og forðum. Í hádeginu í dag kom svo Einar með dætur sínar úr Rvk. og líka Sandvíkurfjölskyldan. Þá voru hér fjögur af sex barnabörnum og það var gaman að sjá þær minnstu saman.
Nú er ég að velta mér uppúr almennum brotum með stóra barninu, því á að skila á morgun. Það er ekki tekið út með eintómri sældinni að fóstra börn - eða unglinga.
Hún heldur kannski að bíllinn sinn sé bilaður, ég vona nú frekar að hann sé bensínlaus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.2.2007 | 13:41
Ég vaknað í vitlausu rúmi
þegar ég vaknað í morgun tók það mig dálítinn tíma að ná áttum. Ég heyrði í vindinum úti og það hrikti í húsinu. Skyldi vera kominn bylur? hugsaði ég og leit út að glugganum. En þar var enga dagskímu að sjá, enda klukkan bara sjö. Ég vakna alltaf á sama tíma hvar sem ég er og hver dagur sem er. Ég fann bólfélaga minn kúra sig upp að hægri öxlinni, en ekki bærði hann á sér. Þetta hús var hlýtt og notalegt, dýnan góð og sængin fín. Ég lagðist á hvolf og félaginn sneri sér þá á hina hliðina.
Svo reyndi ég að blunda aftur, en veðrið hélt mér vakandi. Kannski myndum við ekki komast í burtu frá þessum einangraða stað? Kannski kæmist ég ekki í þorrablótið sem á að vera í kvöld? Það var spáð einhverri snjókomu um helgina, og með þessu roki yrði þá fljótt ófært. Ég veltist þarna í klukkutíma, en þá vorum við báðar vaknaðar og fórum á fætur. Það birtir orðið fyrir kl.9 og það snjóaði ekki neitt. Við komumst heim eins og til stóð.
Mér varð í nótt og morgun margoft hugsað til þeirra ferðafélaganna sem vor "Úti að aka".Hvers vegna er það svona rosalega viðkvæmt fyrir karla að bæla hjónarúm með öðrum af sama kyni? Treysta þeir ekki sjálfum sér?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.2.2007 | 20:50
Landnámsmenn - löng saga
Einn góðan veðurdag, sem var þó hreint ekkert góður, heldur verulega kaldur og fúll stórhríðardagur á miðjum þorra, voru börnin í fimmta bekk að vinna við landnámsmannaverkefni. Svoleiðis verk er einmitt svo viðeigandi að gera á þorranum. það er alveg í anda þessara karla sem bitu á jaxlinn og létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna.
þau klipptu út karla og límdu á stórt spjald og síðan var þeim sniðinn viðeigandi fatnaður. Úr gömlum tuskum og flíkum sem þau höfðu með sér að heiman og lágu nú í einni allsherjar hrúgu á gólfinu. Allir máttu nota frá öllum, svo kapparnir og konur þeirra áttu völ á fjölskrúðugasta fatnaði. Ullarsneplar og lopatætlur voru þarna líka svo jafnvel mátti útbúa hunda og kindur og það gerðu líka sum sem dugleg voru.
Kennarinn þurfti að bregða sér frá en skildi hurðina eftir opna í hálfa gátt fram á ganginn. Þeir sem áttu leið hjá sáu börnin sitja og klippa, niðursokkin og áhugasöm - flest. Þó kom ég þarna að og var þá húsvörðurinn að smala Sigga inn fyrir dyrnar, kannski hafði hann verið búinn að klæða sitt fólk, eða þurf að sinna öðrum áríðandi erindum frammi á gangi. Í leiðinni sá húsvörðurinn ínn í stofuna, þar sem þau sátu öll og klipptu út, úr gömlu flíkunum foreldranna. "Aumingja Jói" sagði hann við mig frammi á ganginum, "það er nú varla hægt að láta hann fást við þetta, hann situr nú bara þarna inni og klippir út peysuna sína". Ég hugsaði með mér hvað þessi húsvörður væri vitlaus og lítið inni í fræðslumálunum, vissi ekki neitt um fatahönnun landnámsmanna. En ég var ekkert að hafa orð á því. Hann var hvort sem er bara ráðinn til að kunna á kranana og læsa húsinu á kvöldin.
Litlu seinna kom kennarinn til mín þar sem ég sat frammi í anddyri. Hann var með ráðaleysislegan uppgjafarsvip á andlitinu og virtist hreint ekki snortinn af því gleðilega landnámi sem fram fór í stofunni. Landnámsmenn og konur í þessu hugarástandi hefðu aldrei komist lengra en til Færeyja.
Hann hélt á samanbrotinni flík og fletti henni nú í sundur. Glæsileg mussa í skopparastíl, með áprentuðum myndum og stöfum við hæfi. " Viltu sjá hvað hann Jói gerði við nýju peysuna sem hann Siggi keypti í Hveragerði um daginn"? Sagði hann skjálfandi röddu. Almáttugur! Ermin kllippt í sundur svo hún rétt lafði við og fullt af götum út um allt. Stafir klipptir úr í heilu lagi. Peysan var gjörsamlega ónýt.
Siggi hafði á sínu rápi hent af sér peysunni í miðja landnámsmannahrúguna og hinn svo að sjálfsögðu tekið þar það sem honum fannst flottast. Hver segir að landnámsmenn hafi allir verið jafn sauðarlegir í klæðaburði?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 197639
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar