Hún Rúna er komin á toppinn

Það er engin skömm að segja frá því, bara eiginlega alveg nauðsynlegt. Hún Rúna vinnufélagi minn komst á toppinn í dag. Og hafði helminginn af fjölskyldunni með sér. 

  Nú halda allir að Rúna hafi náð einhverju góðu takmarki, svona eins og fólk gerir oft á ævinni. En það var nú gott betur. Ég veit ekki hvort ég kann að skrifa þetta fræga útlenda nafn rétt, en það hljómar: Kilimanjaro? Er ég nærri því? Já ég get svarið það 20.02.07 voru þau komin alla leið upp, til hamingju með það. 

Ég náði líka áfanga í dag, ég fór í vinnuna. En það verður nú bara að viðurkennast að ég er enn svolítið undarleg, og mér er sagt að ég verði þannig eitthvað áfram.                Gott að vera undir það búin. 

En ég átti eftir að ljúka  sögu húsdýraeldis hér í Rauðholti.                                       Nú var bara eitt barn eftir heima, strákurinn Guðmundur, töluvert yngstur.                 Og mér segja þau eldri, að svoleiðis börnum leyfist allt.  Ekki datt honum þó í hug að fara fram á hund. Sagan um fyrirætlanir föðurins í því sambandi loddu við í gegnum öll  árin, og hann var hændur að pabba sínum.

En gullfiska?  Nú var orðið til búð á Selfossi sem seldi svoleiðis dýr og allt með sem þau þurftu. Jú - jú, hann mátti fá fisk og best að hafa þá tvo svona uppá félagsskapinn.    Við keyptum stóra kúlulaga skál og tvo fiska. Þeir voru skrautlegir á litinn og strákarnir í búðinni sögðu að það þyrfti ekkert að setja hjá þeim dælu. Þetta voru alveg sérstakir fiskar, sem þurftu enga dælu. Gott mál.  En þeir þurftu þó mat? Jú heldur betur, og af honum fékkst nóg í búðinni.  Við fórum heim með aflann og bjuggum svo um þessi skrautlegu síli í skálinni góðu. Þetta var glæsilegt. Og svo fengu þeir mat.          Og hefðu síðan átt að lifa vel og lengi, eiga hrogn og seyði og "úti væri þá ævintýri".

En það var nú aldeilis ekki. Auðvitað dóu þeir, hvor á eftir öðrum. Ég man ekki eftir hvað margra daga eða vikna búsetu hér á bæ. En einhvernvegin er það svo að gullfiskar fanga ekki í manni hjartað, alla vega ekki mitt. Mér var skítt sama þegar ég sturtaði þeim ofaní klósettið hverjum á eftir öðrum. En svona má ég auðvitað ekki segja. Það var sonur minn sem átti þá og hann var örugglega leiður yfir þessum  endalokum fiskeldis í Rauðholti. 

Reyndar var nú enn einu sinni reynt að ala hér fisk. Það var þegar öll börn voru að heiman flogin. Okkur gömlu datt þá í hug að það gæti verið "smart" að hafa stóra skál með gylltum fiski á skenknum í eldhúsinu. Og skálin var jú til.    Í þetta sinn skyldi ekkert fara úrskeiðis. Það var keyptur fiskur, á litinn eins og rauðagull. Honum fylgdi matur. Bara pínulítið, fiskar eru oftast drepnir á ofeldi sagði maðurinn í búðinni.    Flottir steinar, tíndir í fjörum á Snæfellsnesi og Borgarfirði eystri, slípaðir með eigin vél í bílskúrnum, vor lagðir á botninn og svo vatnið, mátulega kalt, eða volgt.                  Hann var flottur maður!   Og ekki nóg með það, hann var skírður.   Gulli skyldi hann heita, þessi dýrindis fiskur sem átti að stytta okkur stundirnar í ellinni. 

Það liðu einhverjar vikur, eða jafnvel mánuðir. Gulli lifði góðu lífi, fékk lítið að borða en sýndist þó stækka. Hann var svona fiskur sem átti að verða töluvert stór. Eins og á Lubba áður var kastað á hann kveðju þegar farið var eða komið, en hann sýndi nú engin merki  þess að hann skildi hvort við værum að fara út eða inn. Kannski er það rétt að gullfiskar séu vitlausustu skepnurnar í heiminum.  

Eftir allnokkurn tíma tókum við eftir því að Gulli stækkaði mest á maganum. það gat þó enganvegin passað, hann fékk svo lítinn mat. Og óhugsandi að hann væri óléttur?     Það hafði þá gerst í búðinni - fyrir mörgum mánuðum? Okkur hafði alveg láðst að spyrja manninn um meðgöngutíma fiskanna. 

En brátt varð ljóst að Gulli var hvorki óléttur eða saddur. Hvað eftir annað kom það fyrir að hann komst ekki niður að fjörusteinum Borgarfjarðar eystri þegar hann ætlaði þangað að sækja sér mat. Og jafnvel henti það að hann varð afvelta eins og pestarrolla. Þá maraði hann í hálfu kafi við yfirborð vatnsins í fallegu kúlulaga skálinni. Aumingja Gulli, hann var greinilega fárveikur.  Og til að gera langa sögu stutta og dauðastríðið ekki eins átakanlegt, þá bara dó Gulli. Á skenknum í eldhúsinu var einn morguninn skál með vatni og skrautsteinum í botni. Og kúlulaga roðagylltur fiskur flaut þar við yfirborðið - á hvolfi.  En vissulega var þetta "smart" litasamsetning.


Kettir og fuglar

Á okkar heimili var einu sinni reynt að hafa gæludýr, en aldrei þó miklið af þeim. Krakkana langaði í hund, það var hundur í sveitinni sem hét Kjói og hann fékk stundum að koma í heimsókn. Af hverju gátum við ekki bara fengið okkur hund sjálf?  Ég hefði verið alveg til í hund, en samt hef ég alltaf reynt að segja sjálfri mér að þeir eigi heima í sveit þar sem fólk er með þeim á daginn. Aleinn innilokaður alla daga, það er hundalíf sem ég óska engum.

En það sem tók af skarið var húsbóndinn Ef hundur kæmi á heimilið myndi hann flytja út í bílskúr. Afdráttarlaus og einföld yfirlýsing, en engin ástæða fylgdi. Krakkarnir trúðu víst að hann myndi standa við þetta og hættu suðinu.  Við komumst aldrei að því hvaða ástæður lágu að baki. Kannski var þetta bara dulbúin tilraun til að fá að vera hjá bílnum í skúrnum. En hún semsagt mistókst.

En köttur? Það mátti ræða það. Og það reyndar varð úr að við fórum niður í sveit og fengum þar lítinn svart og hvítflekkóttan kettling, "rosalega sætan". Angórukött.  En kettlingar vaxa og þeir eru ekki allir jafn yndislega ljúfir. Og þessi tiltekni kettlingur varð ótrúlega fljótt stór, og hann varð kafloðinn, þó helmingurinn af hárunum væri stöðugt í flygsum út um allt hús.  Og hann var þeirrar einstöku náttúru að vilja ekkert með fólk hafa, nema til að fá að borða stöku sinnum. Þess í milli hékk hann á klónum á sófum og stólum og nagaði líka það sem honum fannst gott á bragðið.  Honum var komið til himna. 

  Nú kom röðin að páfagaukum. Krakkarnir eignuðust nokkra þannig fugla sem lifðu og dóu eftir dúk og disk. Allir dóu þeir að lokum. Sá síðasti, hvítur man ég, dó úr hræðslu í búrinu sínu þegar kattarkvikindi fór inn um gluggann og var þar í herberginu hjá honum heilan dag. Ömurlegt andlát.

Svo liðu mörg ár og enginn nefndi skepnu af neinu tagi. Ja - ekki nema hann Sigurblakk sem var bara úti í hesthúsi eins og allir almennilegir hestar.  Já - þá einn góðan veðurdag kemur nágrannakona í heimsókn og segir þau tíðindi að finkuparið hennar - eða auðvitað einhvers af krökkunum, þetta er allt skilið eftir hjá foreldrum í fyllingu tímans. Já finkuparið hafði fjölgað sér svo um munaði og hún bauð unga - ókeypis.

Þegar hér var komið sögu vorum við orðin þrjú hér heima, tvö þau eldri farinn sinn veg. Yngsti sonurinn  var sá sem átti að eignast finkuungann. Jú -jú - við gátum alveg tekið einn fugl, við áttum búrið frá páfagaukunum. Og hófst nú finkubúskapur sem stóð í nokkur ár. Meira að segja urðu fuglarnir tveir í búrinu á tímabili, en annar var þá vondur við hinn og kroppaði líklega gat á hausinn á honum. Hann dó.

Svo varð þá sá upphaflegi einn eftir og árin liðu. Strákurinn hafði búrið fyrst í sínu herbergi, en svo þrengdist þar og þá var það bara flutt í annað herbergi sem stóð autt. Hann átti sitt eigið herbergi og hét Lubbi. Það var húsbóndinn sem skírði hann. Hafði hann eftir allt saman dreymt dulda drauma um hund? 

Ég man ekki hvert tilefnið var en það var haldin veisla. Allt húsið undirlagt og Lubbi settur fram á þvottahúsborð á meðan. Finkur kunna ekkert að vera í veislum. Hann gleymdist þar frammi. Reyndar fór bara vel um hann og á hverjum morgni þegar húsráðandi fór til vinnu var síðasta kveðjan, "bless Lubbi" og svo aftur kominn "sæll Lubbi". Og ég get svarið það að Lubbi gerði mannamun og kvaddi og heilsaði þessum einkavini sínum eins og finkur heilsa sínum nánustu. Þegar ég fór út leit hann ekki á mig - og ég ekki á hann - við vorum  ekkert náin.   þarna lifði Lubbi í nokkur ár og átti líklega sitt blómaskeið. Enginn talar við fugl í búri sem er lokaður inni í herbergi, en þarna var hann í miðri traffíkinni. En svo kom sá dagur að Lubbi heilsaði ekki í hádeginu. Hann var orðinn gamall og hefur vonandi fengið hægt andlát í svefni á prikinu sínu. Hann var jarðsettur á bak við bílskúr, með viðhöfn. 


Er Max týndur eða fundinn?

 Gæti verið að hann Max væri týndur - og fundinn - án þess að hans nánustu vissu af því? Og ég veit ekki einu sinni hvarnig ég get haft samband við fóstrann. Það er sitt og hvað sem "ömmur" þurfa að fást við. Sumt er reyndar mjög skemmtilegt.

Ég nefndi örugglega um daginn verkefnið með almennu brotunum sem við nafna mín unnum í sameiningu síðla á sunnudagskvöldi, en vissum þá báðar ákaflega lítið um svoleiðis brot.  Það er búið að skila okkur blaðinu, með einkunn. Átta komma núll takk fyrir. Geri aðrir betur.  


Mér leiðist svona "kvennavesen"

Ég er bara ekkert fyrir þetta vesen, enda ekki alin upp við tilstand þó Þorrinn eða Góan byrjuðu eða tækju enda.  Þá hétu líka konudagar og bóndadagar en engum datt i hug að í því fælist nokkuð annað en dagsetningin. Í seinni tið hefur svo þessum dögum fjölgað óhóflega, og yngra fólki er talin trú um að þetta og hitt sem leiðir til fjárútgjalda sé "eldgömul hefð".  Bull.

Ég hef ekkert á móti blómaframleiðendum, en þessar aðferðir hafa alltaf pirrað mig. Það er verið að gera fólk að fíflum og notaðar til þess heldur lágkúrulegar aðferðir.  Hver vill láta það spyrjast að hann vilji ekki gefa konunni sinni blóm, eða mömmu sinni? Þegar allir "eiga að gera það og hafa gert alla tíð".               

Af hverju geta blómakaupmenn ekki bara reynt að kenna fólki að kaupa sér blóm um hverja einustu helgi, ef það þá langar í blóm? Og láta bara mömmur, pabba, konur og kalla, kærustur, hunda og ketti liggja á milli hluta í þeim efnum.  Ég er líklega afturhaldssöm og fúl (vegna veikinda) en ég er bara á móti því að við gleypum allt sem að okkur er rétt í þeim tilgangi einum að græða á okkur.  Ég bara "kaupi" það ekki.    

En ég er að skána, það leynir sér ekki.


Eins og riðuveik rolla

Þetta er ekkert sniðugt, ég hefði ekki farið í skólann í morgun og ég veit hreint ekki hvort ég fer á morgun.  Í nótt var það árans hóstinn sem angraði mig, ef ég lagðist útaf byrjaði endalaust hóstakast. Ég fékk mér þá annan kodda og hafði vel hátt undir hausnum, þá hætti hóstinn. En ég er bara ekki vön að sofa hálf sitjandi svo nóttin fór að mestu í vaskinn. 

Einhverntíman um miðja nótt læddust hér inn tvær ungar stúlkur og þegar dagur rann og allt varð ljóst, kom á daginn að það voru þær tvær sem á þriðjudag ætla að leggjast í langferð saman.  Ef viðeigandi foreldrar lesa, sjá þeir að mér urðu á mistök þegar ég taldi lömbin inn.

Ég er enn með hellu, en þó aðallega öðru megin. Ef ég halla mér, er ég hálf ringluð þegar ég rís upp aftur, ráfa eiginlega eins og riðuveik rolla smá stund. Þess vegna er best að vera ekkert að leggja sig - svo lengi sem ég stend undir sjálfri mér.

Þokkaleg lýsing!  Nú ætla ég að líta á "Silfrið".


Vantar raddþjálfun hjá RUV

Ég horfði nærri því á allan júróvisíon þáttinn í kvöld.  Það er meira en ég gerði kvöldin sem þessi níu lög voru valin. En ég var samt með það nokkuð á hreinu hvaða lag væri best. Ekkert var þó sem mér fannst alveg "brilliant"!  En Hún Heiða komst ekki einu sinni á blað og það er verulega dularfullt. Sannar reyndar, held ég, að það er eitthvað annað en gæði laganna sem ræður því hvar þau lenda.  En skiptir þetta annars nokkru máli? Við komumst aldrei nærri vinningi í keppninni sjálfri, þó ekki væri nema af landfræðilegum ástæðum. 

En ég má til að segja eitt, sem er reyndar fúlt nöldur. Ef blessunin hún Ragnhildur lendir oftar í því að stýra svona þætti, er þá ekki hægt að senda hana í raddþjálfun? Maður er dauðþreyttur eftir svona kvöld, að hlusta á hana skrækja með hálskirtlunum út um nefið. Hún hlýtur sjálf að vera algerlega búin á því. Kannski hafði ég svona vonda tilfinningu fyrir þessu akkúrat núna af því mér er illt í kirtlunum og nefið hálf stíflað.   En fólk sem þarf að nota röddina mikið fær víða tilsögn og hjáp við að virkja fleiri líkamshluta til gjörningsins. Ég veit t.d. að maginn kemur þar mikið við sögu. 


Lögreglustjórinn í Reykjavík

Hann lofar góðu. Það er helst á honum að skilja að ökuníðingar eigi skilið að fá rassskell og það fleiri en einn og tvo. Gott hjá honum. Bara spurning hvort hann á eftir að reka sig á veggina sem kerfiskarlarnir hafa hlaðið allt í kringum sig?  Vonandi tekst honum sem best að fá stuðning til að taka á þessum óþjóðalýð.

 Svo var annað til umræðu hér áðan.  Þegar maður fer með notuð föt í rauðakrossgáminn, þá lenda þau væntanlega hjá umræddum rauðum krossi, en hvað svo? Fara þau öll til útlanda? Ef mig langar til að gefa útigangsmönnum á Íslandi föt, hvert á ég þá að snúa mér?  Mér finnst alltof mikil áhersla lögð á útlönd í hjálparstarfi hérna. Við eigum því miður sjálf fullt af fólki sem er hjálpar þurfi, en fáum litlar vísbendingar um hvernig við getum orðið því að liði. 

Í þriðja lagi: Af hverju í ósköpunum gátu þeir ekki haft Spaugstofuna á undan í kvöld, og geymt Jón Ólafsson þangað til á eftir. Jón er góður, en það eru bara svo miklu fleiri sem horfa á Sp.st.  Börn og gamalt fólk og svo ég sem er enn frekar léleg og verð örugglega sofnuð uppúr tíu.


Hert viðurlög við ofsaakstri

Uss - uss - uss - illa farið með góðan dag. Logn og sólskin úti, allir að gera eitthvað skemmtilegt - nema ég. Ég fór á röltið frekar snemma og var alveg þokkalega viðmælandi. Svo eftir hádegið ætlaði ég að lggja mig, skreið undir sæng og lokaði augunum. En mér tókst ekki að sofna, og þegar ég get ekki sofnað hættir mér til að fara að hugsa og það varð í þetta sinn. Ég hugsaði svo mikið að ég var á endanum orðin heitvond undir sænginni og henti henni af mér og settist hér.  Það sem ég hugsaði var tengt fréttum morgunsins um ofsaakstur vegadólga á suðvesturhorninu.

Hvers vegna er ekkert gert til að stöðva þetta brjálæði? Það er löngu ljóst að þau meðul sem nú eru notuð eru einskis nýt. Umferðaráð, gefur út tilkynningar um vel heppnaðar ráðstefnur, þing og fundi. þar sem skipað var í nefnd sem skila skyldi áliti til þingsins sem haldið verður------- . Sagan endalausa. Þetta ráð er jafn liðónýtt og neytendasamtökin. Ráðstefnur um umferðaröryggismál skila engu.                    

Löggan getur ekkert gert. þeir eru svo fáir að þeir komast varla yfir að keyra hvern annan í kaffi. En þó þeir hafðu ekkert annað að gera gætu þeir heldur ekkert gert. Þessir óvitar sem halda um stýri skaðræðistækjanna bera enga virðingu fyrir löggunni frekar en öðru.  

En það er eitt sem gæti komið illa við þá og það finnst mér að Bjö.Bja. ætti að laga núna áður en hann hættir. Nú þarf hann ekki að hafa áhyggjur af einhverju "sæti".  Hann gæti breytt viðurlögum við ofsa og ölvunarakstri. Það á að hirða skírteinið á staðnum af þessum fáráðlingum og gefa þeim kost á AÐ TAKA BÍLPRÓFIÐ AFTUR EFTIR FIMM ÁR.  Sumir þeirra hafa reyndar ekkert bílpróf, en þá yrði því frestað um fimm.  Sekt ætti að sjálfsögðu að fylgja, og væri hún ekki sanngjörn ca. verðmæti druslunnar sem svona er misnotuð? 

Ég skil alls ekki hvers vegna ráðamenn eru svona tregir til að herða viðurlög. Eru þeir hræddir um að krakkinn hennar Bibbu systur gæti lent illa í því? Eða að atkvæði táninganna lentu þá á röngum stað.  Varla kemur fyrir þá sjálfa að haga sér svona í umferðinni, ekki er það þess vegna? Svona viðurlög væru fælandi, það myndi, vonandi, draga úr því að krakkarnir tækju þessa áhættu. Það kæmi við kaunin á þeim sjálfum.

Verstur fjandinn að það virðist alltaf þurfa að veltast með allt mánuðum saman í enhverjum nefndum og ráðum. Er það bara til að einhverjir gæðingar fái tækifæri til að skrifa tíma á aðgerðina? Sjaldnast skila þessar nefndir nokkru afgerandi og aldrei neinu svo að það sé litið á það sem kórrétta niðurstöðu. þarf að senda til "yfirnefndar" og síðan umræðu hjá einhverjum öðrum.    Og á meðan leikur allt lausum hala á vegum og götum. Þið vitið það vel en eruð bara ekki menn til að taka á þvi - svei.   Svona var ég orðin vond undir sænginni. 


Ég má ekki fara út í dag

Einu sinni var haft vit fyrir mér, en nú geri ég það sjálf. Ég finn núna mest til í maganum, en það eru bara harðsperrur af hóstaköstunum. Það má sjá það í jákvæðu ljósi. Ef ég hósta í viku eða hálfan mánuð verð ég komin með flotta magavöðva. Gott mál hóstaköst. Svo er ég með ónot í bakinu, það er örugglega af því að liggja alltof lengi flöt. Þetta eru samt engin "legusár" það þarf lengri tíma til að þau komi.

En í dag ætla ég að vera sem mest á röltinu. Það eru ennþá hóstaköst, hnerrar og heyrnarleysi, en enginn hiti. Ég ætla að passa mig vel svo ég lendi ekki í leiðinda lungnaveseni eins og hefur komið fyrir nokkra sem ég þekki. Veðrið er alltof gott til að vera innilokaður, eiginlega vorveður. Ég vona bara að þeir njóti þess sem geta og eigi góða helgi.


Verður að vera yfirdráttur?

Ég bara spyr svona eins og kjáni.  Í Kastljósinu í kvöld spurði Helgi Seljan  viðmælanda sinn hvort hann fyndi fyrir okri bankanna á yfirdrættinum sínum? Hvernig gat hann spurt svona? Er skylda að vera með yfirdrátt?  Hinn gaf heldur lítið út á það og það lá við að mér fyndist að hann langaði til að lýsa því yfir að hann væri bara ekki með neinn yfirdrátt. 

Það er kannski vissara að láta í það skína að maður sé yfirdrætti hlaðinn svo maður eigi von á að vera hossað hærra í fjármálaheiminum.  Það er eitt að vera með yfirdráttarheimild og svo annað mál hvort hún er nýtt. Ég hef blessunarlega aldrei haft neitt af yfirdrætti að segja, hef enga heimild, enda ekki debetkort og ekki áhuga á því heldur. Ekki á ég heldur ávísanahefti og hef aldrei átt. Nú eruð þið örugglega orðin viss um að ég sé ein af þeim hamingjusömu sem aldrei þarf að borga neitt, en - sorrý - ég borga allt - og gettu nú.

   Þá er næsti möguleiki - að hún hafi fengið flensuna í heilann - og bilast. Nei ekki heldur, en ég er að reyna að hanga uppi fram yfir níu. Heyrnin er ekki orðin góð og hausinn er fullur af kvefi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband