Hjúkk! Ég dreifði ólöglega, en slapp fyrir horn

Þegar hún nafna mín kom um daginn til að búa hjá okkur í hálfan mánuð þurfti auðvitað að endurskipuleggja matarforða heimilisins. Unglinga langar til að borða ýmislegt sem við eigum ekki alltaf til. En það var alla vega til nóg af morgunkorni. Í gegnum árin hafa krakkarnir alltaf komið öðru hvoru til að gista svo ég hef passað að eiga til Cheerios, bæði Hony nut og hinsegin, Coco Puffs og svo eitthvert stafadæmi sem ég held nú að sé aðallega vinsælt í Ameríku.

Nafna þurfti þess vegna ekki að hafa áhyggjur af morgunmatnum. En fyrsta daginn þegar hún var að búa sig af stað í skólann, og fór í skápinn til að sækja pakka af einhverju þessu, heyrði ég að hún kallaði: "Amma, hvað er í gangi"?  Auðvitað vissi amma, nývöknuð og morgunfúl, ekkert "hvað var í gangi".  "Þetta er allt eldgamalt", sagði hún þegar ég kom fram. Haaa - sagði ég á móti.  "Það eru allir pakkarnir löngu útrunnir". Núú - svaraði ég - og sá svo sem ekkert að því.  "Tveir eru síðan 2004 og einn 2005 - ertekkílagi?"  Jæja, sagði ég og var nú farin að skilja að stúlkunni þóknaðist ekki að snæða morgunkorn af annarri árgerð en 2007.

  þar sem þetta var ákaflega árla morguns og hvorug okkar í standi til frekari málalenginga opnaði ég ísskápinn í snatri og fann þar jógurtdós dágóða sem ég rétti henni. Hún tók fegin við, en hafði áður sópað útúr skápnum öllum birgðum heimilisins af útrunnu morgunkorni. Ég myndi víst ekki komast hjá endurnýjun þar.  Við fórum svo í búð síðdegis og keyptum vænan pakka af Kelloggs Special K ( megrandi) sem hún var ánægð með, svo lengi sem hún var hér.

En það voru pakkarnir fjórir af Cheerios , Honý nut og Coco puffs og stafadæmi sem stóðu nú á eldhúsborðinu. Ekki hendir maður mat? Þetta var á miðjum þorra og fuglarnir komu alla daga til að fá eitthvað gott í gogginn. Ég var búin með reyniberin sem ég tíndi handa þeim í haust. Satt að segja var ég farin að draga úr gjöfinni, enda frekar snjólétt á þessum tíma. En þarna fann ég stað fyrir morgunkornið. Fuglarnir éta allt og af hverju þá ekki svona mat? Ég vissi þá heldur ekkert um skaðsemi útrunnins morgunkorns. Ég tók pakkana  og dreifði öllum þessum matvælum ólöglega um lóðina.

  Sem betur fer eru nú öll ummerki löngu horfin af blettinum, og pakkarnir með dagsetningunum eru urðaðir úti í Ölfusi.


Sumir safna bréfum

Og flestir sem eru stórvirkir í því eiga bréf í mörgum fyrirtækjum. En svoleiðis söfnun er varla mjög spennandi þegar allt er í frjálsu falli. Vonandi "hressist Eyjólfur". Ég hef aldrei lagt mig eftir að safna svona bréfum. Einhvernvegin urðu til nokkrar krónur í Samvinnubankabréfum, sem síðar urðu Íslandsbankabréf og á endanum Glitnisbréf, hvað sem svo verður. En eins og ég sagði, allt gerðist þetta án verulegrar fyrirhafnar eða ákveðins vilja til bréfasöfnunar. 

En ég hef ýmsu safnað í gegnum árin. Ég hef safnað frímerkjum og ég hef safnað mynt.   Í mörg ár safnaði ég fyrstadagsumslögum, það verður verkefni elliáranna að koma þeim fallega fyrir í möppum. Þau eru víst að mestu verðlaus. Einu sinni fór ég að kaupa bangsa í öllum flugstöðvum sem ég heimsótti í útlöndum. Ég hætti því þegar kistan í forstofunni var orðin full. Það er kistan hans pabba, sem hann kom með dótið sitt í þegar hann flutti frá mömmu sinni, í sveitina, 11 ára gamall.  Hann notaði hana svo fyrir bækurnar í garðyrkjuskólanum. 

Ég er svo illa haldin af steinasöfnunarfíkn að það er varla hægt að fara með mig í ferðalög um landið. Sérstaklega verður að varast leiðir sem liggja með fjörum. Borgarfjörður eystri, Glerhallavík og Snæfellsnes eru hættusvæði.  Jafnvel sólbakaðar strendur Ameríku hafa orðið fyrir barðinu á mér og einu sinni fórnaði ég lítersflösku af eðallíkjör fyrir stóran stein í handfarangri. 

Ég safnaði fjölærum blómum í mörg ár og á tímabili var ég í sambandi við karl í Noregi sem sendi mér afleggjara af Fukshium. Ég átti orðið 30 mismunandi afbrigði, þá dó karlinn. Nú safna ég trjám. Í sveitinni get ég plantað óteljandi trjám og það er svo spennandi að gera tilraunir með tegundir. Hvað getur lifað þar? Ég hef ekki hugmynd um hvað sortirnar eru orðnar margar.

Ég safnaði póstkortum í mörg ár, átti nokkra söfnunarfélaga í Noregi. Við skiptumst á kortum af ýmsum gerðum og úr öllum heiminum. Þegar allir skiptivinirnir nema einn voru dánir þá hætti ég. Ég held hann sé lifandi ennþá og vinni hjá Norsk Hydro. 

Ég safna pínulitlum bollastellum og öðru svona mini mini - helst frá útlöndum. Og ég safna bókum og myndum. Ég á örugglega mörg þúsund myndir.Bækurnar sem ég helst kaupi eru þó svolítið óvenjulegar. Ég fell fyrir óskrifuðum bókum, flottar svoleiðis bækur, línustrikaðar og kannski með gyllingu á ég nokkrar, en þær eru sjaldan óskrifaðar lengi. Ég finn þeim oftast eitthvert verkefni.Það er örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki í bili. Ef ég eignast fleira en eitt af einhverju kallar það oftast á enn fleira. Þetta heitir víst söfnunarárátta.


Ég er "Lost" einn ganginn enn

Nú bara reyni ég ekki meir. Þegar "Lost" byrjaði aftur varð ég voða glöð og ætlaði að horfa eins og ég gerði áður. Ég reyndi samviskulega að tolla við tvo þætti en gafst svo upp. Þetta er orðið eitthvert endalaust rugl sem vonlaust er að sitja undir. Maður verður alveg ruglaður, eða bara "lost" af að reyna að fylgjast með því.

Annars hef ég verið ákaflega laus við að bindast sjónvarpsefni órjúfanlegum böndum. Kannski sem betur fer. Nú hef ég í bili fundið mér samastað hjá Hálandahöfðingjanum og Aðþrengdu eiginkonunum, sem eru reyndar á sama kvöldi svo ég verð að þrauka nokkuð lengi þá. En á móti kemur að þá er ég búin með það sem ég þarf að sjá í vikunni, allt nema Spaugstofuna, sem ræðst af tilviljunum og skemmtanalífi hvort ég sé á laugardegi eða sunnudegi. Gott mál.  "Heimurinn", sem hefur verið á mánudögum, er reyndar algert klassaefni og allt í lagi að sjá svoleiðis  öðru hvoru. 

 

 


Hér veður allt í pestum

það er ekki glæsilegt að lesa lýsingarnar, af heimilum og frá skólum. Flensa, hálsbólga, kvefpest, upp og niðurgangur með tilþrifum.  Ég verð að viðurkenna að í okkar skóla er ástandið hreint ekki svona slæmt.  Þar sem eru ríflega fimmtíu starfsmenn er ekki mikið að fimm eða sex séu heima af einhverjum ástæðum. Og á meðan ekki vantar meira en tvo eða þrjá krakka til jafnaðar í 25 manna bekk erum við bara í góðum málum.

Að vísu verð ég að viðurkenna að það ældi einn á ganginum í dag og allmargir eru vart viðmælandi fyrir ýmsum truflunum í talfærum. Hæsi, hóstaköst, heyrnarleysi og miklar hnerrahviður teljast þessa dagana ekki til tíðinda. Sjálf er ég enn með eymsli í hálsi og þyngsli í höfði. Heyrnin er takmörkuð og framganga öll hin druslulegasta.

Þess vegna fór ég í dag og lét laga mig almennilega til, fór í klippingu og svo endurbætur á snyrtistofu. Hver veit nema mér takist að lifa mig inní útlitið og verði á morgun "ný og betri, innan sem utan"?


Svifryk og annað ryk

 Nú verð ég að viðurkenna að ég veit ekki allt.  Sennilega veit ég bara frekar lítið.          En hingað til hef ég þó talið mig vita að eitt lítið korn sem svífur um í andrúmsloftinu heitir ryk - korn. Það er svo ógnarlítið að enginn sér það.  Þegar þær aðstæður skapast að mörgum sinnum milljón svona rykkorn komast á kreik, er mikið ryk í loftinu. Það má þá alveg sjá eins og í þoku, öll þessi trilljón korn sem flögra um og setjast á allt sem úti er. þau eru jafnvel svo ósvifin að troða sér inn um hverja þá smugu sem þeim tekst að finna.  Ég með mína takmörkuðu visku myndi segja "að þá væri mikil rykmengun í loftinu".  En hvað er þá þetta "svifryk"?

Helgin öll

Þessi helgi var tileinkuð því þarfa verkefni að reyna að ná fullri heilsu.                         Ekki er enn ljóst hvernig til tókst.    Eftir hádegið í gær fórum við í jarðarför í Selfosskirkju. Blessuð sé minningin hans Péturs. Það var full kirkja og það var kalt úti og miklar og góðar kökur með kaffinu í hótelinu.  það voru svo góðar kökur að eftir að við fórum í Bónus síðdegis ákvað ég að sleppa því að elda kvöldmat. Bara brauð og graflax og svoleiðis smá snarl.  Mamma datt þá inn, en fékk engan mat frekar en við.

Hún hafði verið í Rvk. að skemmta eldri borgurum í ráðhúsinu með Ragga Bjarna og borgarstjóranum. Hún var komin til að gista af því árla sunnudags ætlaði hún að setjast í rútu sem átti að flytja hana í 85 ára afmælisveislu á Blönduósi.  Mamma er nú ekki nema bráðum 82, en á morgun hefði pabbi orðið 85. Það var gömul vinkona þeirra sem hélt veisluna á Blönduósi.   En aftur til laugardags. Af því mamma fékk engan kvöldmat gáfum við henni smá bjór fyrir svefninn og tókst með því að koma henni í koju fyrir 11. Við vorum að ná heilsu og fórum því snemma að sofa.

Í dag var svo farið snemma á fætur og fyrir tíu var mamma komin í rútuna og engar áhyggjur af henni meir - í bili.   Svo fórum við til Rvk. í óvænta heimsókn á Hraunteig. Þau komu frá Ameríku í gær og við þurftum bara aðeinsað sjá þau.  Ekki tókst okkur að ná þeim í rúmi þó tímaruglið væri aðeins að trufala. Við tókum stúlkur tvær, Urði og Unu,  og eina vinkonu með, sem heitir Karen og ókum niður í bæ. Á meðan áttu foreldrarnir að fara hamförum við tiltekt og þrif.

Við ókum niður Laugaveginn.        Sólin náði ekki niður á milli húsanna. Það var kuldagjóla og ryk og rusl þyrlaðist um götuna og framan i  þessar fáu útlendu hræður sem hröktust um  á milli lokaðra búða og veitingastaða. 

Við komum niður að tjörn, en þar var ekki andskotalaust að finna bílastæði. Undarlegt með þessi þingmannastæði - hvers vegna má ekki venjulegt fólk nota þau á sunnudögum á meðan það gefur öndunum brauðbita eða biður Guð fyrir sér í Dómkirkjunni?  Loklsins gátum við skellt okkur í stæði, í boði Glitnis og ekki langt að ganga að tjarnarbakkanum. Það er ekki í einu, heldur öllu, sem bankarnir eru að toppa löggjafarsamkunduna.  það var eins gott að ekki var langt að labba. það var skítakuldi.

Stelpurnar reyttu brauðið í fuglana sem létu eins og þeir hefðu aðldrei fengið ætan bita. það tók ekki langan tíma að tæma pokann. En þá kom maður til okkar og gaf okkur fullt af pylsubrauði. Hann var örugglega að drepast úr kulda og reyndi nú að koma úthlutunarstarfinu á aðra svo hann kæmist fyrr heim í hlýjuna. En auðvitað var þetta góður maður.   Aftur komin í bílinn á stæði Glitnis, vorum við harla fegin og settum hitann á fullt. Ekki var nú þetta skynsamlegur liður í endurhæfingaráætlun helgarinnar.

Nú fórum við rúnt vestur undir Seltjarnarnes, til að kenna stúlkunum hvar það nes væri og hvað það héti.  Bíltúr er til einskis ef ekki fylgir eitthvað gáfulegt og uppbyggilegt. Ég fæ aldei nóg af að býsnast yfir því fólki sem aldrei segir börnunum sínum neitt um það sem fyrir ber í umhverfinu. Jæja næsti viðkomustaður var ESSO sjoppan nýja við Umferðamistöðina. Það er sjoppa sem ég skil ekki. Hverjum datt í hug og hvers vegna að dengja þessu niður þarna? Er nú ekki nóg af bensínstöðvum í bænum? Og verða nú ekki allir hinir að fá að hafa stöð við götuna? Svona bara í endanum á flugbrautinni? þarna fengum við ís og pylsur og voru allir sáttir.  þegar við fórum aftur í bílinn spurði ég Urði hvaða kirkja þetta væri sem við sáum? Amma, auðvitað Hallgrímskirkja, þú sagðir mér það þegar ég var þriggja ára GetLost.  Eki slæmt, og hefur þó átt heima í Boston alla ævi. 

Við skiluðum stúlkunum heim, en þar var allt vel á veg komið í tiltektinni.                 Svo fórum við aftur heim með viðkomu í einni búð. Það var dýrindis gluggaveður um allt Suðurland í dag og við fórum um þrengsli og Óseyrarbrú. 


Til þess eru "verðin" að varast þau

Einu sinni sagði mér mætur maður að ég skyldi varast þetta með "verðin". Ég get sagt "lömbin þagna" en aldrei "verðin" hækka eða lækka.  Auðvitað segir maður að verðið hækki þegar það á við, en oftar skulum við þó vona að það lækki.  

Ég fór í Bónus áðan eins og fleiri. Verðið er óbreytt á hillunum, en þegar til kassanna kemur,  (skondið að lesa þetta. Nærri eins og "til kastanna kemur"sem væri líka hægt að nota þarna)  eru dregnar nokkrar krónur af svo útkoman verður skárri.                          En hvers vegna skyldi verðinu á hillunum ekki vera breytt?  Á þetta ekki að verða varanlegt?


Fegin er ég

Að það er komin helgi. Kannski hefði ég átt að vera lengur heima um daginn þegar ég fékk pestina. Alla vega hef ég alveg síðan verið með hellu fyrir eyrunum og dottið í svitakóf reglulega þrisvar á dag. Helgina ætla ég þess vegna að nota til að ná fyrri frískleika. 

En það þarf samt að gera sitthvað fleira. Í fyrramálið kemur fjölskyldan heim frá Ameríku. Það er alltaf gott þegar einhverjir koma heim. Núna eru bara þrjú af börnunum tólf, þá tel ég allt saman, tengda og barnabörn og heimatilbúin börn, það eru bara þrjú af þessu öllu hér á landi. En það byrjar að lagast á morgun. Við þurfum að fara í jarðarför á morgun og svo kemur mamma til að gista á milli partýa, tvær nætur. 

Sjónvarpið fór alveg með mig í gær. Ég horfi ákaflega lítið á sjónvarp og undanfarið hafa það eiginlega bara verið Spaugsstofan og eignkonurnar. Svo auðvitað fréttir, ég er  fréttafíkill. En í gær dúkkar allt í einu Hálandahöfðinginn upp á eftir Kastljósinu og hann er alltaf góður. þarna komu sem sagt tveir þættir á sama kvöldinu sem ég gjarnan vildi sjá. Og það bara gerði ég. Þá er ég bara búin með nærri allt sjónvarpsgláp vikunnar á einu kvöldi.


Hvað ef veröldin okkar hrynur?

Ég segi bara svona. Manni getur nú dottið í hug að ein vandræði gætu tekið við af öðrum.  það byrjaði með pósti sem tilkynnti mér nýtt lykilorð, sem ég á aldrei eftir að læra - eða þannig. þetta voru nú fýluviðbrögð sem gætu runnið af mér. Svo ætla ég í sakleysi mínu að kommenta á eina örlitla færslu. Innskráð og falin mínu nýja lykilorði.    En - nei takk, "þú mátt ekkert kommenta á þesa færslu takk". "Jú víst" -  ég klikkaði aftur, og fékk sama svarið. "Éttann sjálfur"! fylgdi síðasta klikkinu sem loksins leyfði mér að ljúka ætlunarverkinu. 

Það hefur flögrað að mér undanfarið hvort hér gæti orðið "heimsendir", og við verðum kannski allt í einu bara alls ekki til?  Ég viðurkenni að ég hef búið mig undir einhverskonar endalok, en auðvitað jafnframt vonað að þau verði aldrei.  Ég hef búið mig undir það með því að ákveða að þá muni ég leita annarra leiða og aldrei láta segja mér að "hætta þessu bara". Svoleiðis "komment" eiga bara heima í "mannheimum".


Einn af nítján bræðrum

Öskudagur. Ef rétt reynist sú gamla trú að hann eigi sér átján bræður veðurfarslega, verður heldur hráslagalegt næstu vikur. En það er allt í lag, vorið er á næsta leiti, við sjáum það á birtunni.

Í dag voru engin börn í skólanum, við notuðum tímann til að gera allt sem við þurfum að gera barnlaus. Það er alltaf heilmikið sem safnast upp á milli starfsdaga. Öðru hvoru sáum við út um gluggana nokkra krakka hrekjast um göturnar í gjólunni og snjófuktinu. Klædd í furðulegustu föt og máluð í öllum regnbogans litum.   Með plastpoka, nokkuð stóra, en misjafnlega úttroðna. það er ekki öllum jafn vel gefið að bjóða sig fram til að skemmta fólki. 

Ég átti síðdegis leið í búð, og á meðan ég var að bíða afgreiðslu komu þar inn fjórar litlar stúlkur, furðuklæddar, kaldar og hraktar eftir daglangt hark á götunum.  Ein þeirra hafði orð fyrir hópnum og spurði heldur uppburðarlítil hvort þær mættu syngja? "Já", sagði konan.  Þær byrjuðu sönginn og rauluðu kuldabláum vörum:"Snert hörpu mína himinborna dís" o.s.frv.  "Þrjár í viðbót", sagði konan, heldur hvöss þegar söngurinn hljóðnaði. "Nei, við erum bara fjórar", sagði sú sem talaði. "Þrjár vísur í viðbót, þetta kvæði er fjórar vísur", sagði konan og var ekkert glaðleg. "Við kunnum ekki meira" sagði stúlkan. "Aftur þessa þá" sagði  búðarkonan "góða". 

Það er eitt sem ekki má láta á sig sannast í skemmtanabransanum, maður gefst aldrei upp. Og þær byrjuðu aftur.   "Snert hörpu mína ...... ".  þetta lét sú gamla gott heita og stakk að þeim poka með einhverjum glaðningi. Þær flýttu sér út í kuldann, sennilega fegnar að sleppa.

En það er líklega heldur enginn leikur að vera búðarkona á öskudaginn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 197638

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband