Svo var það undir Fjöllunum.

Um miðja nítjándu öld fór ung kona, frá Suðurkoti í Krísuvík, austur í Rangárvallasýslu í vinnumennsku.  Hún hét Dýrfinna Kolbeinsdóttir, var tuttugu og fjögurra ára og móðir tveggja barna, óskilgetinna. Soninn Sigurð atti hún sautján ára gömul en dótturina Ólöfu þegar hún var tuttugu og þriggja ára.

Margir ungir menn fóru á þessum árum úr sveitunum til sjóróðra á Suðurnesjum og vel gæti verið að einhver þeirra hafi sagt henni frá öllu því góða sem sveitirnar þar eystra höfðu að bjóða. Og vel getur líka verið að afkoma hennar við sjóinn hafi verið slík að frá litlu væri að hverfa.  

Einhverja ættingja átti hún þar eystra og liklega hefur hún farið sem ráðskona frekar en óbreytt vinnukona. Vinnukonum var ekki fært að sjá fyrir tveimur börnum.

Árið 1856 þegar eldra barnið var níu  ára en það yngra þriggja gifti hún Dýrfinna sig bóndasyninum í Hvammi undir Eyjafjöllum, Sigurði Sigurðssyni, og hélt svo áfram að eiga börn. 

 Þau eignuðust sjö börn, og var hún Sigurbjörg önnur langamma mín í móðurætt yngst þeirra.

Sigurbjörg ólst upp í Hvammi. Þar var myndarheimili og nóg að snúast eins og víðast í sveitum á þessum tíma. Börnin voru mörg og vinnufólk líka. Svo var þar gamalt fólk sem þurfti að hugsa um.  Ömmur og afar og  vinnufólk sem ekki var lengur vinnufært.  Á þeim árum voru engin dvalar eða hjúkrunarheimili, gamalt fólk var bara á bæjunum svo lengi sem það lifði. 

Ein systranna í Hvammi, Margrét, giftist og bjó á Seljavöllum. Á þessum árum var útgerð  frá söndunum í Rangásvallasýslu. Á vormánuðum var róið þaðan árabátum og voru margir mann á. Líka voru fjallamenn á vertíðum í Vestmannaeyjum og fóru þá á milli á bátum. Alloft urðu slys af þessu og fórust þá stundum margir menn. Þannig fór með hann Gísla manninn hennar Margrétar, hann fórst við Eyjafjallasand ásamt mörgum öðrum.

Sigurbjörg var yngst systranna og var á Seljavöllum hjá Margréti, sjálfsagt bæði til hjálpar og félagsskapar.  Ekki var Margrét ein í mörg ár. Til hennar kom ráðsmaður Hjörleifur Jónsson frá Lambafelli. Tóku þau svo saman og fluttu búferlum í Landeyjarnar.

Sigurbjörg fylgdi þá systur sinni og átti nú nokkur ár heima í Litlu Hildisey. Ekki var hjá bændafólki í Rangárvallasýslu, eins og prestum og hreppsstjórum þessa tíma, eins mikið lagt uppúr "réttum ráðahag" unga fólksins.  Og það var ekki gert veður útaf því, að hún Sigurbjörg á Litlu Hildisey ,og hann Gottskálk bóndasonurinn í Stóru Hildisy, yrðu skotin hvort í öðru, enda þokkalega ættuð bæði tvö.  

Þau hófu svo búskap í Vatnshól í Austur Landeyjum. Þar var mannmargt heimili, búskapur blandaður eins og víðast þekktist og húsbóndinn við sjó á vetrarvertíðum.    Þá fór hann uppúr áramótum og var í burtu til vors.

Svona var þetta á flestum bæjum, karlarnir fóru á sjóinn, höfðu yfirleitt áður en farið var séð til þess að skilja konuna eftir ólétta, með búið, börnin og öll mannaforráð.

Langamma hafði að vísu tvær mágkonur sínar til hjálpar og tengdafaðir hennar var líka drjúgur við útiverkin. Þarna fæddust með tímanum þrír synir og var Hreiðar móðurafi minn einn þeirra. Einnig voru þar fósturbörn eins og víða þekktist.

Síðasta afrek húsfreyjunnar í Vatnshól, í þessu lífi var að fæða stúlkubarn, sem ekki komst þó upp. Og eftir það náði Sigurbjörg langamma mín ekki heilsu.                    Hún dó í Vatnshól árðið 1910.


Hver var svo þessi strákur sem hún var gefin?

Það var hann Björn Bjarnarson, sem seinna varð líka langafi minn. Björn var fæddur í Skógarkoti í Þingvallasveit. Hann var sonur Björns Eyvindssonar, sem þar var vinnumaður og Sólveigar Björnsdóttur. 

Í bók sinni um Hraunfólkið segir Björn Th. Björnsson frá öllum þeim býsnum af börnum sem komu í heiminn í Skógarkoti. En hann Björn langafi hafði það fram yfir þau flest að vera skilgetinn, enda ekki Kristjánsson.  

Því hefur verið vandlega viðhaldið í okkar ætt að Sólveig var dóttir Þingvallaprests. Sem að vísu, þegar hér var komið, var hættur öllum prestsskap og orðinn undirlagður af holdsveiki. Hafði heldur aldrei mikill kennimaður verið, ölkær og afkastalítill um flest. En prestur var hann engu að síður og allir hans forfeður.  

Björn Eyvindsson tók það fyrir, eitt vorið, að rölta yfir í Skorradal þar sem uppboð var haldið á jörðinni Vatnshorni. Hann hafði ætlað sér að festa þar kaup á ýmsum nauðsynjahlutum til búskapar af því þau hjúin voru þá að byrja að búa á jarðarparti í Kjósinni. En það fór nú svo að þegar uppboðinu lauk var hann orðinn jarðeigandi í Vatnshorni og hafði borgað með 800 dölum (sem þá voru peningarnir á Íslandi) og hann taldi upp úr vettlingunum sínum. 

Nú fluttu ungu hjónin að Vatnshorni og með þeim sonurinn Björn.  Þar óx hann svo upp í búskapnum og þótti liðtækur við flest. Fjögurra ára var hann látinn sjá um að sækja og reka kýrnar og þótti ekki frásagnarvert. Hann lærði snemma að lesa og skrifa og þar sem pappi hans var hreppsstjóri, óskrifandi, varð það hans hlutverk að sjá um bréfaskriftir og embættisfærslur fyrir hreppinn.  

Uppúr tvítugu fór hann til búnaðarnáms í Noregi og var þar í tvö ár, en þaðan fór hann svo til Danmerkur og vann við landbúnað í eitt ár.  Eftir heimkomuna ferðaðist hann um og kenndi bændum ýmsar nýungar í búskap. Jarðabætur, framræsla og túnræktun var nokkuð sem hann kynnti fyrir bændum á suður og vesturlandi. Hann keypti svo jörðina Hvanneyri með fylgikotum á 15.000 krónur og stofnaði þar búnaðarskóla.Til þess fékk hann stuðning margra bænda í Borgarfirði, sem lánuðu honum jarðir sínar að veði.          

Hann var alla sína tíð talinn mörgum árum á undan sinni samtíð. Hann stóð fyrir innflutningi á furðulegustu landbúnaðartækjum. Þúfnabani og hestvagnar voru þar á meðal og höfðu margir horn í síðu hans fyrir illa meðferð á hestum, þegar hann beitti þeim fyrir vagna og heyvinnutæki. Hann ruddi götur um landið til að geta notað vagna.

Af einhverjum ástæðum seldi hann Hvanneyri og flutti í Mosfellssveitina. Glæfralegar framkvæmdir og undarleg uppátæki öfluðu honum ekki vinsælda og kannski gekk ekki vel að standa í skilum með jarðarverðið. En það varð ekki aftur snúið með það starf sem hann hóf í Borgarfirðinum. Hann bjó síðan lengst af í Grafarholti í Mosfellssveit og varð áhrifamaður um margt.  Embættin og verkefnin sem hann stóð fyrir  eru svo mörg að illt er upp að telja. En lagning símans um landið,  stofnun S.S. og upphaf kaupfélaga og ungmennafélaga, eru dæmi um það sem hann stóð fyrir, og gefur dálitla mynd af þessum langafa mínum sem átti heimasætuna frá Stuðlum, sem ekki mátti eiga "auðnuleysingjann með skáldagrillurnar".


Er bókaskápur heima hjá þér?

Ég komst nýlega að því að bókaskápar með mörg hundruð eintökum eru ekki til á öllum heimilum.  Mér fannst þetta svolítið skrýtið fyrst, en er nú að jafna mig á því. Það hafa akkert allir áhuga á að sanka að sér bókum í hundraðatali. Ég hef það reyndar ekki heldur, en einhvernvegin gerist þetta samt og er heldur ekki eingöngu mín sök.

Við fórum nefnilega á bókamarkaðinní Perlunni í dag.  Það er alveg sama þó maður fari á hverju ári, alltaf er þar fullt af eldri bókum sem gaman væri að eiga, eða þó aðallega að lesa. Og þar sem ekki er þarna leiga eða lánastarfssemi er eina ráðið að kaupa. Verst þetta með plássið í skápnum. Ég er alveg til í að losa mig við eitthvað af því gamla en til þess þarf að leita samkomulags á heimilinu, það gæti orðið torsótt. 


Langamma frá Stuðlum

Ég hef stundum skrifað um eitthvað fá fyrri árum, ágrip af sögunni stóru um upphaf ættar minnar fyrir vestan og norðan. En um langafa og ömmur hefur lítið verið sagt. Ég átti þó tvö sett af hvoru eins og allir aðrir. Nú ætla ég bara  að segja örlítið frá einni langömmu,  henni Kristrúnu, sem var heimasæta á Stuðlum í Reyðarfirði.

Hún var dóttir hans Eyjólfs sem var þar bóndi og hreppstjóri, en bar auk þess titlana "kúskur" og "hómópati".  Kúskur myndi sennilega vera "leigubílstjóri í frístundum"núna.

Bóndadóttir í sveit á austurlandi uppúr miðri nítjándu öld. Stuðlar eru ekki við sjóinn heldur  í dalnum inn af fjarðarbotni. Ekkert var þá álver í þeirri sveit. Heimasætur þess tíma stóðu ekki í neinu útsláelsi, þær voru til hjálpar á heimilinu, frekar innanbæjar en utan og um leið lærðu þær það sem þurfti til að búa sig undir giftingu.

Hann Eyjólfur var hreppsstjóri og hómópati. Hómópatar voru þeir sem fengust við lækningar án þess að hafa til þess nokkra menntun. það er líklegt að þess vegna hafi það verið að hann tók til sín á heimilið ungan mann sem var sagður "sjúklingur með skáldagrillur".   Þessi piltur var þarna til heimilis nokkurn tíma. Ekki var hann rúmfastur með öllu, hafði enga döngun til vinnu, en fór gjarnan í gönguferðir upp að fossinum, með heimasætunni Kristrúnu. Nú á tímum væri hann sennilega á örorkubótum vegna þunglyndis og gæfi út litla ljóðabók á tveggja ára fresti. 

Það kom að því að gönguferðirnar urðu of margar og of langar,  og endaði með því að auðnuleysinginn var sendur burt af heimilinu. Langamma mun þó hafa sloppið óspjölluð frá þessu ævintýri, en til að engin hætta væri að aftur slægi saman var hún nú send til Danmerkur þar sem hún skyldi nema þau fræði sem húsfreyjum á betri bæjum kæmi vel að kunna. 

Þar var hún eitt ár, en á meðan gerðu hreppsstjórinn í Reyðarfirði og hreppsstjórinn í Skorradal með sér samkomulag um giftingu barna sinna. Þegar hún kom aftur til Íslands beið hennar mannsefni, sem hún þó ekki þekkti, og var ekki beðið með brúðkaupið. Hún kom aldrei aftur til Reyðarfjarðar eða að fossinum fríða, sem hún talaði um við barnabörnin sín mörgum árum seinna. 


Hvernig voru fötin hennar langalangömmu?

Á hverjum einasta degi gerist eitthvað skemmtilegt í skólanum. Við erum að læra um Jón Sigurðsson í samfélagsfræði.  Jón Sigurðsson var ákaflega merkilegur maður. Það hlýtur að vera af því að um hann hefur verið skrifað í margar bækur og öll börn á Íslandi yfirgefa skólann sinn aldeilis viss um að að hann "Jón forseti" hafi bjargað Íslandi öllu á sínum tíma.

Mér varð það nú reyndar á að fara svo í skóla mörgum, mörgum árum seinna og þar var þá kennari sem hreint ekki var sannfærður um ágæti Jóns og var ekkert að lúra á því. Sagði hann hafa verið drykkfelldan og latan til náms. Enda hefði hann ekki lokið neinu prófi, eftir tólf ára hangs við  Kaupmannahafnarháskóla. 

En það var nú ekki sjálfur Jón sem ég ætlaði að tala um. Þegar við erum í tímum að læra um eitthvað sem gerðist fyrir óralöngu síðan, jafnvel tvöhundruð árum eða meira, þá er ég stundum aðalpersónan í bekknum. Mér finnst svolítið merkilegt hvað krakkarnir hafa mikinn áhuga á því sem einu sinni var, einhverju sem er svo órafjarri að þau geta með engu móti gert sér grein fyrir því. það verður oft til þess að umræður utan efnis verða líflegar og spurningar nokkuð krefjandi, og þá er það sem ég kem til sögunnar.

Kennarar eru ekkert að dylja það að þeir eru ekki alveg með allt á hreinu frá þessum tímum, en mér dugir ekkert undanhald í þeim efnum. "Ég er svo gömul að ég hlýt að vita allt".  Þetta er þeirra bjargfasta trú og ég verð að reyna að standa undir væntingum.  Í dag þurfti ég semsagt að svara fyrir: Klæðnað kvenna, svona hversdags, á átjándu öld, giftingarmál og barneignir ungra Íslendinga á sama tíma, og ýmislegt varðandi húsnæði og aðbúnað almúgans á landi hér.

Ég held í alvöru að tímaskynið þeirra sumra sé ekki alveg í lagi. Þess vegna reyndi ég í dag að gera þeim ljóst hvað margir afar þeirra hefðu verið til frá byrjum nítjándu aldar. Við komumst að því að langa langafar þeirra margra hefðu verið krakkar 1805. Og þá hefðu þau um leið átt að skilja að ég get með engu móti verið frá sama tíma. Nema þau haldi bara að ég sé eilíf.


Þegar sólin skín

Þá hættir maður að vera lasinn, það er gaman að fara í vinnuna og það er gaman þar allan daginn. Glugginn á skólastofunni er galopinn en það kemur enginn andvari þar inn af því það er algert logn.Við svörum spurningum úr Hrafnkelssögu og vinnum verkefni í efnafræði. Krakkarnir leika sér í frímínútum eins og á vordögum. Verst hvað þau sækja í að fækka fötum af eintómu sólskini.

Eftir vinnu er ekki hægt að vera inni, þó er heilsunnar vegna ekki vert að fara í langa göngu. Bíltúr gerir líka gott. Nokkra hringi um bæinn fyrir kvöldmat. Göturnar enn þaktar ryki, sem heitir svo svifryk þegar það þyrlast upp undan bílnum. Einn hring um bílasölurnar, ótrúlega mikið af bílum sem hægt er að kaupa þar. Óvenju vel raðað í stæðin, þeir hafa dundað við það í blíðunni strákarnir. Fullt af fólki á göngu, með hunda eða krakka. Flestir þó með húfu og vettlinga, það er ekki hlýtt þó að sólin hafi skinið í allan dag.  Við annan brúarendan eru þrír karlar, þeir eru að troða  vír ofaní stóra holu í gangstéttinni.  Hinumegin við brúna er líka hola í stéttinni, en þar stendur bara einn maður og horfir ofaní? Skyldi einhver vera á leiðinni yfir til hans með vírinn? Eru göng undir brúnni? Ég yrði brjáluð að skríða svona langa leið í lokuðum göngum. Einu sinni man ég að minkur var notaður til að draga svona víra, kannski var eitthvert dýr á leiðinni undir brúna?


Heilsufræði fyrir 8.bekk

Ég svaf hálf illa í nótt, hóstaköst með reglulegu millibili og varla náðist að blunda á milli. Þess vegna var ég steinsofandi til kl. átta, en hringdi þá og tilkynnti forföll dagsins í skólanum.

Í næstu viku á ég að mæta í reglulegt eftirlit hjá heimilislækninum og viku áður en það skellur á fer ég alltaf í blóðprufu. Það þýddi að ég varð að fara í þá prufu í dag hvort sem ég hafði til þess heilsu eða ekki. Blóðprufur eru teknar frá átta til tíu og maður verður að mæta svangur. það var þess vegna ekki annað að gera en druslast á lappir og koma sér útá sjúkrahús.

Ég var hins vegar búin að ákveða að fara svo seinni partinn á læknavaktina og láta lækna mig af þessari fjárans pest. Ég var komin um kl. hálf níu og þá biðu nokkuð margir. Konan í afgreiðslunni (kona 1) virtist vel vöknuð og tók mér vinsamlega. Mér datt í hug að spyrja hana hvort svo "vel" vildi til að sjúklingur hefði "fallið frá" svo smuga hefði kannski myndast hjá einhverjum lækninum?  Hún gáði að þessu en því miður var hvergi von um tíma. Allt í lagi sagði ég, ég kem þá bara á vaktina síðdegis. Já, hún sagði að það væri þá á milli fjögur  og átta.

Svo settist ég og beið.  Mér var alveg sama hvað ég þurfti að bíða lengi. Heima hefði ég hvort sem er ekkert gert annað en bíða eftir að klukkan yrði fjögur og þarna var þó alla vega fólk á ferðinni.

Það gengur yfirleitt furðu fljótt þarna í blóðprufunum og það leið ekki á löngu þar til ég var komin inn til "blóðkonunnar".  Sú sem tók á móti mér er mér nokkuð kunnug og hún hefur alltaf farið vel með mig. Sonur hennar er með mér í bekk. Hún tók strax eftir því að ég var með ræfilslegra móti og spurði um það. Jú - jú ég sagðist vera búin að vera með pest í einhverjar vikur og ætlaði að koma síðdegis til að láta lækna mig.  "Þú ferð bara strax", sagði hún. Nei, ég sagði það ekki hægt, ég væri búin að spyrja. "Jú víst er það hægt" sagði þessi góða "blóðkona". "Þú ferð bara fram og lætur skrá þig hjá hjúkkunum og svo koma þær þér að". Ég rétt komst hjá því að hún leiddi mig eins og barn til "konu 1" og talaði þar máli mínu. Ég lofaði að reyna.

Þegar ég kom fram var löng röð hjá tölvukonunni. Hún var svo löng að áður en ég komst að var "kona 2" komin henni til aðstoðar. Ég var fegin því og fór í röðina hjá henni.     Ég fór svo  alveg eftir fyrirmælum "blóðkonunnar".  Bar mig aumlega, studdi mig við borðið og riðaði aðeins á fótunum. Sagði svo rámri röddu: "Ég verð að komast til læknis srax". Þetta gekk allt eins og "blóðkonan" hafði spáð, ég átti bara að bíða hjá hjúkkunum þangað til einhver doktorinn gæti gert mér skil.                                     "Þú gætir þuft að bíða nokkuð lengi" sagði "kona 2".                                                   Ég forðaðist að líta á "konu 1", mér fannst einhvernvegin að ég væri að "snúa á hana".

Ég settist svo innst á ganginum og beið. Nú var ég komin á aðalganginn og bjó mig undir að bíða lengi. Og fljótlega áttaði ég mig á því að biðin yrði ekki leiðinleg, það var mæðraskoðunardagurinn í dag. Ég gæti kannski orðið einhvers visari?  En það fór nú ekki svo. það liðu varla tíu mínútur og þá var kallað í mig. 

Læknirinn sem tók við mér var ókunnugur, ég er svo heppin að þurfa sjaldan að nota þessa þjónustu, þess vegna eru læknar mér oftast ókunnugir. það er gott. Hann hlustaði mig og bankaði, lýsti ofan í hálsinn og skrifaði svo resept.  Einhver ófriður í lungunum og hálsinn bólginn. Pillurnar eiga að laga það á viku og ég má alveg fara að vinna, bara ekki með neinum látum. Ég lofaði því, en sagði honum ekkert að ég væri í 8. bekk og þar væri sjaldan mjög rólegt.


Álfar og tröll

Ég veit það núna, hvað það var sem lagði mig aftur í rúmið. Heimsóknin í Álfa og tröllasfnið á fimmtudaginn. Við fórum með alla krakkana í skólanum til að skoða þetta safn og vissulega var gaman að sjá það. En ég fór tvisvar inní Ísheimana, þar sem jakarnir stóru eru og norðurljósin braga um vegginn. Félaga minn langaði til að fara aðra ferð og auðvitað samþykkti ég það.

Ég var samt alveg ágætlega klædd, nema bara vantaði trefil og húfu. Svo var ég líka alveg hætt að hugsa um einhverja pest, maður getur nú ekki eytt vormánuðunum í að velta sér uppúr veikindum.  Nú er mér sagt að ég sé örugglega komin með lungnabólgu, ætli ég verði ekki að fara á læknavaktina á morgun.

En hvað með það, ég get alveg mælt með ferð í gegnum þetta safn.  Það var "fagur dagur", eins og einhversstaðar stendur,(var það Bangsímon?) þegar við fórum í þennan bíltúr og á heimleið fórum við upp "að austanverðu", sem þýðir um Gaulverjabæjarhrepp hinn forna. Ég hef oft rekið mig á í svona ferðum hvað margir fullorðnir eru fávísir um sitt nánasta umhverfi. Satt að segja eru sárafáir sem hafa hugmynd um hvað bæir og kennileiti í nágrannasveitunum heita og aldrei hef ég í skólaferðum heyrt neinn lýsa leiðinni með sögum eða öðrum frásögnum. Krakkarnir eru svosem ekkert öll að spyrja mikið, en nokkur þó og mér finnst synd að enginn virðist geta svarað þeim. 


Ekki gott....

....ástand á mér. Þessi helgi átti að vera svona "góð helgi", sem þýðir að maður geri það sem þarf, eða dettur í hugann, bara svona "óforvarendis". Að vísu byrjaði föstudagurinn vel, með ferð í tvær búðir og eina heimsókn í Jórutún. Laugardagur fór líka eðlilega af stað. Bónus eftir síðbúna fótaferð, síðbúið heitir hér níu eftir að maður reynir að bæla sig frá kl. sjö. 

Svo komu Guðmundur og Dýrlef í hádeginu og voru í heimsókn góða stund. Hún er farin að ferðast víða og er ekkert feimin við að vera á ókunnum stað - þegar mamma er ekki með. Það heitir "móðursýki" hjá litlum börnum. 

Svo þegar leið á daginn í gær fór að draga af mér. Ég varð sveitt og roluleg, en líka svo kalt að ég endaði undir sæng. Þar með var sá dagur orðinn að engu. Ég reyndi þó að hreyfa mig og sinna því sem húsmæður eiga að sinna, en það varð heldur tilþrifalítið.

Og í morgun bara fór ég ekkert á fætur. Augljós einkenni sögðu mér að ég væri veik, svo mikið veik að ég hringdi í lækni. Það er þó hægt að gera það, mér hefur alltaf skilist að læknar væru eitthvað sem engin leið væri að ná sambandi við nema panta tíma fimm vikur fram í tímann.

Mér varð nú reyndar ekki mikil hjálp af þessu samtali. Stúlkurödd sagði mér, eftir að ég hafði lýst einkennum, að ég væri líklega með einhverja af þessu umgangspestum og ætti bara að hafa það náðugt næstu daga. Eiginlega fannst mér þetta grunsamlega barnaleg rödd. Það var alveg sama þó ég segði henni að ég væri búin að fá þessa pest fyrir hálfum mánuði og taldi mig hafa haft það náðugt í fjóra heila daga þá.  Og sæmilega heyrn hef ég ekki fengið síðan. Henni var alveg sama um það. 

Reyndar veit ég ekki við hverju ég hafði búst. Varla lyfjagjöf í gegnum símann og ég vissi nú vel sjálf að ég var ekki spítalamatur svo ekki þurfti ég hennar orð til að sannfæra mig um að ég myndi lifa helgina. En að hún skyldi segja mér að vera heima, alla vega á morgun, fannst mér slæmt. Hún spurði hvað ég væri gömul svo hún gat alveg vitað að ég væri svo þroskuð að ég gæti ákveðið það sjálf.  Hún bauð mér lika að líta inn, einhverntiman í næstu viku, ef ég yrði ekkert skárri.

Það er eins og sumu fólki finnist bara allt í lagi að segja manni að hanga heima á vinnudegi. Mér bara finnst það hreint ekki í lagi, hundleiðinlegt að vera hér alein yfir engu og svo missir maður alltaf af einhverju skemmtilegu í skólanum.

Ég át eina Ibúfen eftir hádegið svo ég gæti setið uppi nógu lengi til að skrifa ykkur þessa sorgarsögu. Kann nokkur ráð til að bæta ástandið? Kannski er til læknir á blogginu sem segir mér hvort ég á að gegna þessu stúlkubarni?


Víst er riklingur fiskur

Ég bara verð að mótmæla núna. Það eru mistök dómara að búa til spurningar sem hægt er að svara á marga vegu. Riklingur er fiskur og hann er líka steinbítur og hertur fiskur eða bara harðfiskur.  

Ég bara verð að skjóta þessu á hann Davíð. Hann hefur annars verið vaxandi stjarna í mínum huga og sá vöxtur hefur tengst því að hann er hættur að bulla eins voðalega og hann gerði hérna um árið þegar hann lagði alla áherslu á að vera fyndinn.  Þá fannst mér hann ekkert fyndinn.

En núna í seinni tíð hefur hann opinberað gáfur sem mann grunaði ekki áður að hann ætti til og er meira að segja sallafínn í jakkafötum.Hann þurfti bara að finna sér stað í sviðsljósinu og hélt í byrjun að allt fengist með fyndninni. Misskilningur.

Ég kom fyrst auga á hans nýju ímynd þegar við í sömu tuðrunni bárumst að landi í Aðalvík á Ströndum fyrir nokkrum árum. Þá var hann ekki lengur fyndinn. Maður að mínu skapi, og þess vegna fyrirgef ég honum þetta með riklinginn - í þetta sinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 197636

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband