Ég sá svolítið skemmtilegt í dag

 Og það var ekki bara eitt. Í dag var svona dagur sem mann langar til að spila aftur og aftur. Veðrið var þannig að maður sá að vorið er handan við hornið. Ég byrjaði í fyrsta tíma á því að fá 9.5 fyrir enskuverkefni sem ég gerði í síðustu viku. Ég geri stundum svona tilraunir að gamni mínu. Krakkarnir í bekknum mínum voru öll góð, þau eru það alltaf. En þessa dagana eigum við reyndar dálítið bágt, bekkjarfélagi okkar missti mömmu sína í bílslysi í vikunni sem leið og það er erfitt fyrir alla.

Síðdegis vorum við I.J.að telja útúr skoðanakönnun og sjáum nú fyrir endann á því. Einu sinni héldum við að þetta tæki engan enda. Þegar við fórum út töluðum við svo mikið um útgáfu fjáröflunarbóka sem við erum að fara að vinna í , að við gleymdum báðar að skipta um skó. Hún sagði reyndar eftirá að ég hefði verið búin að taka útiskóna úr hillunni og komin úr inniskónum, en þá var bara snúið til baka og farið í inniskóna en hinir settir aftur í hilluna. Svona er gaman.

En það sem ég ætlaði að byrja með var strákur í núnda bekk. Töffari af bestu sort, og í hverju haldið þið hann hafi verið? "Blue Bell" gallabuxum og uppreimuðum strigaskóm, alveg nákvæmlega eins og ég átti fyrir óralöngu síðan. Nú heitir þetta eitthvað allt annað, en er þó alveg eins.  Stráksa vantaði bara svartan glansandi mittisjakka með loðnum kraga þá hefði hann verið eins og gæjarnir í Skógum árið 1961.


Fermingarpeningarnir í sellófan?

Nú er okkur boðið í tvær fermingarveislur. Það er orðið langt síðan síðast - finnst mér, en eru þó víst ekki nema þrjú eða fjögur ár.   Síðast þegar ég var í svona veislu minnir mig að lítið væri um pakka. Kannski bara einn eða tveir og svo bunki af umslögum. Mér fannst það eitthvað svo fátæklegt þó ég vissi að í umslögunum væri fullt af seðlum.

Afmælis og fermingarveislur breyttu alveg um svip og urðu miklu skemmtilegri þegar sellófanpappírinn var fundinn upp og maður gat fengið að sjá hvað er í pökkunum.      Þess vegna finnst mér ég illa svikin þegar svona er komið. Umslögin eru ekki einu sinni glær, svo maður veit ekkert hvað mikið er í þeim.  Ég er fegin að ekki er enn farið að gefa "bara peninginn" í stórafmælisgjafir.  Þegar,eða ef, að því kemur dugir varla einhver smáaur fyrir fimmtugsafmæli.  En bara án gríns. Hvað er eiginlega börnum gefið í fermingargjafir þetta árið? Einhverjar fermingar eru byrjaðar, hvað hafa börnin fengið?

Fyrir ákaflega mörgum árum fékk ég hest og beisli, úr og skartgripi og þótti gott.        Ég fékk þá líka hvíta litla sálmabók, merkta mér, með skrautletri eftir mesta snilling, alla vega þess tíma, í skrautritun, frænda minn Steindór Björnsson frá Gröf.  Þessa bók á ég enn, og svo nokkur armbönd. Beislið hangir hér úti í skúr, en Skjóni minn er löngu fallinn.


Veður fyrir allt hitt

Í dag er veður til að gera það sem verður útundan í góða veðrinu. ( Sem ég man nú ekki hvenær ég sá síðast) Það er veður til að þríf, það er veður til að fara í búðir, það er veður til að hekla barnateppi, það er veður til að grafa upp páskadótið og dúkana, það er veður til að setja Ella Press á fóninn og laga til í skúffunum. Það er líka veður til að baka og finna eitthvað skemmtilegt í matreiðslubók til að elda í kvöldmatinn. Eitthvað sem mig hefur lengi langað í en enginn annar vill. Eitthvað sem er svo lítið mál að elda að ég tek ekki eftir því. það er veður til að vera ein heima allan daginn, eða fara á flakk og gera akkúrat það sem mér dettur í hug - kannski ekki neitt.

Og alltaf er best fyrir vestan

Af einhverju er það að við förum vestur aftur og aftur, þó löngu sé þar lokið öllum kirkjumyndatökum. Af einhverri Vestfjarða þráhyggju gerðist ég áskrifandi "Bæjarins besta"  og las þar allt sem skrifað stóð eins og ég væri að leita frétta af mínum nánustu. Af einhverjum ástæðum líður mér óskaplega vel nærri sjó. Í litlu þorpi utaní hlíðinni sem hallar niður að firðinum, þar finnst mér gott að vera. Kannski er það eitthvað tengt forvitninni, að sjá útá sjóinn og fylgjast með skipaferðum. Kannski stórum skipum sem eru að koma frá öðrum löndum eða litlum trillum sem koma með fisk að landi. Ristir hann djúpt í dag? Kannski er það eitthvað tengt fortíðinni, forfeðrum og mæðrum sem ég aldrei sá og aldrei sáu mig? Samt er ég alin upp inní miðju landi, í þeirri sveit sem bæir eru einna lengst frá sjó á Íslandi öllu.  Ég sá bara sjóinn á Hulduhólum hjá afa og ömmu. Sitjandi við stofugluggann gat ég horft í kíki tímunum saman út á sundin blá. Þar var fullt af skipum á leið inní höfnina í Reykjavík, örugglega öll að koma frá útlöndum.

Það er ein langamma eftir. Hún Sigríður langamma sem fæddist á Eyri í Skutulsfirði.  Hún var einkadóttir foreldra sinna, Magnúsar Kolbeinssonar húsmanns frá Hnífsdal og Kristínar Magnúsdóttur sem ólst upp á Eyri.  Amma Magnúsar var hún María Svarthöfðadóttir, sú sem ég hitti eina sumarnótt á Borg í Skötufirði. 

Magnús og Kristín voru ekki lengi á Eyri, þau bjuggu um tíma í Tungu, en síðast er vitað um hann einan í Engidal.  Kristín var 38 ára þegar Sigríður fæddist en Magnús aðeins yngri. Sigríður langamma hefur trúlega fylgt foreldrunum þar til hún fór að sjá um sig sjálf en engar heimildir á ég um það. 

Hún var  28 ára þegar S.Guðrún amma mín fæddist og þá bjuggu þau Einar Ari á Seljalandi, sem ég trúi að hafi verið þar sem nú heitir Seljalandsdalur. Fáum árum seinna voru þau svo komin í Fremri Hnífsdal og þar fjölgaði börnunum fljótt.

Næsta víst er að langafi hafi sótt sjóinn eins og karlar gerðu í sjávarplássum þar vestra, en langamma gætt bús og barna. Systurnar voru orðnar fimm haustið 1898 og Guðrún amma var þeirra elst, níu ára.  Og enn var von á barni.

Sonurinn fæddist svo 10. desember og hefði þá átt að vera kátt í kotinu og jólanna beðið með óþreyju. En það var nú ekki svo. Drengurinn litli var frískur og sýndist ætla að lifa. Hann var skírður Sigurður Elías. Kannski var það nafnið hennar mömmu hans, sem var nú nokkuð ljóst hvert stefndi.   Hún langamma Sigríður komst ekki á fætur eftir þessa fæðingu. Hún dó á þessu sama ári, 29. desember.

Og langafi stóð einn uppi með börnin sex, örugglega allsendis vankunnandi um  börn og þeirra þarfir.  Það var ekki annað ráð en að koma þeim fyrir. Amma , níu ára, fór að Búð í Hnífsdal og átti að vinna fyrir sér.  Sigurður litli dó um tveggja ára aldur, en systurnar komust allar vel til manns.

 


Þar var allt í eymd og volæði

Hafísinn lokaði siglingaleiðum norðanlands og vestan og allt inn í Breiðafjörð.               Á Vestfjörðum voru frosthörkur með bágindum og bjargarskorti, á einmánuði var þar oftast yfir 20 stiga frost. Búpeningur var skorinn af fóðrum víða um land og enga björg var að hafa frá sjó vegan ísa sem lokuðu fiskimiðunum. Landsmönnum fækkaði á milli ára . "Þeir sem fæðast eru færri en hinir, sem deyja".  "Þegar Clausen héraðslæknir á Ísafirði hafði legið í gröfinni meira en ár hafði enginn eftirmaður hans komið þangað vestur.      En kúabóluvessa fékk hann sendan frá landlækni eftir sem áður".  

"Menn meiðast útvortis og innvortis, menn taka sótt og liggja vikur, mánuði og ár. Konur ala börn með sótt og harmi -  og  enginn læknar - nema dauðinn". Skrifa bændur á Vestfjörðum og óska að birt verði í Þjóðólfi til að minna ráðamenn þjóðarinnar á þennan gleymda landshluta.   Svona var ástandið þar vestra árið 1861, þegar hjónunum Valgerði og Jens, á Laugabóli í Ögursveit, fæddist á miðri Góu, drengur sem var þeirra fimmta barn.  Einar Ari var hann skírður og hafði þá Einar fæðst fimm árum fyrr, og dáið. Börnin fæddust oft til þess eins að deyja.  

Þessi hjón eignuðust átta börn, en ekki lifðu öll. Þau bjuggu fyrst á Laugabóli, en þar hafði jens alist upp hjá foreldrum sínum. En með vaxandi barnafjölda varð það erfitt og ungu hjónin fluttu, fyrst að Efsta-Dal en síðan að Hrafnabjörgum. Þar fæddist þeirra yngsta barn og  þaðan  fermdist hann Einar Ari, langafi minn, árið 1875.  Seinna  bjó þessi fjölskylda í Þernuvík, en þá voru börnin flest uppkomin.

Eilífir flutningar frá bæ að bæ, benda til að heldur þröngt hafi verið í búi og leitin að betri kjörum endalaus og vonlítil.  Björgin var að stórum hluta sótt til sjávarins og drengir voru ungir látnir róa með. Og oftast leið ekki langur tími frá fermingunni þar til unglingarnir þurftu að sjá um sig sjálfir. 

Á þessum tíma hafði Eyri við Skutulsfjörð (Ísafjörður) nýlega fengið viðurkenningu sem kaupstaður í annað sinn, og þangað hefur ungt fólk úr sveitunum vafalaust sótt til að leita sér vinnu.  Það gerði hann langafi minn um leið og hann fór að heiman.  Hann var tuttugu og átta ára þegar hann var búinn að eignast hana Sigríði langömmu fyrir konu og þau áttu sitt fyrsta barn, sem var hún Sesselja Guðrún amma mín.  Þau bjuggu í Hnífsdal þegar dæturnar voru orðnar fimm, og lifðu allar, sem ekki var algengt.

Í desembermánuði fæddist sonurinn sem skírður var Sigurður Elías.  Rétt fyrir jólin og amma var niu ára, en sú yngsta ársgömul.  Langamma dó fyrir áramótin og Einar Ari stóð þá einn eftir með börnin sex. Hvað hann gerði þá blessaður veit ég ekki, en líklegt þykir mér að hann hafi beðið Guð að hjálpa sér og síðan látið hreppstjórann um afganginn. 


Að gefa presti dóttur sína

Í eldgamla daga þóttust þeir heppnir sem fengu tækifæri til þess. Hann Einar Högnason, bóndi og stúdent, í Skógum undir Eyjafjöllum, var einn þeirra. Þó hann væri skólagenginn og af mikilli  prestaætt hafði honum ekki tekist að fá brauð, en hann bjó góðu búi og átti allmörg börn.

Þegar Jón Pétursson prófastur á Frostastöðum í Húnaþingi falaðist eftir dóttur hans fyrir son sinn Jón þurfti Einar ekki lengi að hugsa málið, og þótti varla taka því að nefna það, við stúlkuna eða móður hennar, áður en hann svaraði játandi. Það var ekki einasta að ungi Jón Jónsson væri prófastssonur og prestlærður, heldur var hann af Bólstaðarhlíðarætt frá móður sinni. En sú ætt þótti með þeim merkilegri norðanlands, ef ekki Íslandi öllu, á þeim tíma.  

Þrítug var hún Elín frá Skógum orðin prófastsfrú í Steinnesi í Húnavatnssýslu og þar átti hún börnin sín átta. Valgerður Þórunn langamma mín var sú fimmta í þeim hópi.         En þarna fór eins og víðar á þessum tíma, það voru alltaf allir að deyja, og það gerði líka hann Jón prófastur í Steinnesi, bara ríflega fimmtugur.    Þá var Valgerður ekki nema fjórtán ára og elsta systirin um tvítugt. 

Elín varð að yfirgefa Steinnes. Þegar prestar og prófastar dóu á þessum árum fengu ekkjurnar oftast eitt ár til að koma sér í burtu. Þeir prestar sem á eftir komu voru misjafnlega umburðarlyndir og með svo mörg börn sem Elín var trúi ég að henni hafi verið hollast að pilla sig í burtu sem fyrst. Ekkert barnanna var gift þegar þetta var og liðu allmörg ár til þess. En þegar elsta dóttirin Elísabet giftist lækninum  í Bæ í Króksfirði fór Elín til hennar og dó þar 1894 - 83 ára gömul. 

Elín hefur staðið vel að málum þegar kom að giftingum barnanna, læknar og prestar voru hennar tengdafólk. Og þannig kom hún Valgerði vel fyrir í Stærri Árskógi hjá honum Tómasi langafa. Þá var  hún orðin 27 ára gömul. Tíu mánuðum eftir giftinguna fæddist fyrsta barn ungu prestshjónanna í Stærri Árskógi. Hann Steingrímur litli kom í heiminn, en fékk ekki að vera nema stutt. Hann dó fáum dögum eftir tveggja ára afmælið sitt. 

Sex árum seinna flutti fjöskyldan að Völlum Í Svarfaðardal og þar bjuggu þau þar til Tómas lést 54 ára gamall.  Ekki er hægt að segja að lifið hafi gngið vel á Völlum þessi ár. Báðum var hjónunum algerlega ómögulegt að búa sæmilegu búi. Embættisverkin voru ekki borguð og var hann enginn maður til að standa í innheimtu. Og ekki tók hún að sér að rukka fyrir hann. Hún var fín frú og hafði alist upp við að svo skyldi vera. Hann var einstaklega glæsilegur maður og almælt að hann ætti kærustu í hverri sókn þar nyrðra. Það var bara ekkert launungarmál. Það mátti því segja að  heimilislífið og búskapurinn, hafi þessi ár á Völlum, verið ein rjúkandi rúst .

En þau eignuðust fimm börn sem komust upp. Hann Hallgrímur afi minn var einn þeirra.  Eftir lát Tómasar flutti Valgerður út á Hofsós, en þar voru þá flest börnin búsett.   Seinna fór hún með dætrum sínum til Þingeyrar þar sem hún lifði fram yfir áttrætt.

Þá fékk hún líklega tækifæri til að vera það sem hún var fædd og uppalin til:            "Frú Valgerður". Ég fann leiðið hennar í elsta horni  kirkjugarðsins þar. Í skjóli gamalla reynitrjáa stendur mosavaxinn steinn með áletrun.      "Valgerður Jónsdóttir prestsfrú frá Völlum"


"Þar sem háir hólar"

Á Steinsstöðum í Öxnadal, " Þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla", fæddist hann Tómas langafi minn. Sá þriðji þeirra sem ég geri hér skil með skrifum. Já hann fæddist heima hjá henni Rannveigu ömmu sinni, en hún og hennar fjölskylda hafði búið á Steinsstöðum í mörg ár. Þar hafði ógæfan orðið þegar pabbi hennar, hann Hallgrímur prestur, drukknaði í vatninu fyrir ofan Hraun. Vatninu sem varð til fyrir mörg hundruð árum, kannski þúsund, þegar fjallið hrundi fram í dalinn og skildi Hraundrangana eftir í einstæðingsskap við efstu brúnir. Einkennilegt að í þessu vatni skyldi finnast fiskur, en það var þó svo, og hann fór eftir messu á sunnudegi til að draga netin. En kom ekki til baka.

Það voru góðviljaðir sveitungar og frændur sem hjálpuðu honum Jónasi, bróður Rannveigar, til að komast í nám, en það varð til lítils. Hann hrundi þarna niður stigann úti í Kaupmannahöfn, braut á sér löppina og dó svo, sennilega af eintómri fátækt og einstæðingsskap. Áður var hann þó búinn að yrkja fullt af flottum ljóðum, kvæðum og vísum. Var víst líka skotinn í stelpu fyrir norðan, einhversstaðar í Mývatnssveitinni.     En svona fór nú fyrir honum og mamma hans hallaði sér að henni Rannveigu eftir það. Enda var hún sómakona, hún Rannveig. 

Já þarna fæddist hann Tómas langafi 1847, og ólst upp fyrstu árin, en seinna fluttu þau svo að Grund í Eyjafirði. Hallgrímur pabbi hans var bóndi, nokkuð vel stæður og sendi soninn í skóla.  Tómas varð svo prestur í Stærri Árskógi og gifti sig henni Valgerði langömmu. Þar fæddist Hallgrímur afi minn.

Séra Tómas  fékk svo flutning að Völlum í Svarfaðardal og þjónaði kirkjum í þeirri sveit og líka út í Ólafsfirði. Það hefur ekki verið auðveld leiðin til messunnar í Ólafsfirði á jólunum. Um Múlann, líklega oftast gangandi, í misjöfnum veðrum. Hann langafi var víst oft hressingar þurfi í þeim ferðum. Og líklega hefur honum stundum verið yljað undir feldi á þeim bæjum sem hann kom til.  (Lausleg þýðing)  Hann var í drykkfelldara lagi og talinn nokkuð kvensamur. 

Búmaður var hann enginn en einstaklega góður ræðumaður og hafði fallega söngrödd. Hann var gestrisinn og félagslyndur, en heldur erfiður í sambúð. Hann átti sex börn með henni langömmu og eina dóttur utan hjónabands. Elsta soninn misstu þau innan við tíu ára aldur og er leiðið hans rétt innan við hliðið í gamla garðinum í Stærri Árskógi.    Hin  börnin komust öll upp.  Tómas langafi minn dó í mars 1901 og er leiðið hans í suðvesturhorni kirkjugarðsins á Völlum. 


Nú er ég komin hálfa leið

Með frásagnir af langömmum og öfum.  En er ótalið  það sem ég á af því tagi í föðurætt.

Það má segja að ég sé flókin samsetning. Það sem komið er, frá Austfjörðum, Þingvallasveit, Rangárvallasýslu og jafnvel aðeins af Suðurnesjum. En það á eftir að verða flóknara. Alveg svo, að nærri útilokað er fyrir mig að svara, væri ég spurð: "Hvaðan ertu ættuð"?


Hvar er málfarsráðunautur stöðvar tvö?

Eða er hann ekki til? Í kvöldfréttum var talað um "verðin sem fengust fyrir uppskerur síðasta árs"! Er ekki eitthvað undarlegt við það?  Svo var þar  líka sagt að svínakjötið hafi hækkað vegna launahækkana? Hvers vegna bara svínakjötið?  Gera grísirnir meiri kröfur en t.d. lömbin?

Vínið gerir engum gott - þeir drukknuðu í Þjórsá

Þeir fóru syngjandi fyrir neðan garð í Þrándarholti - blindfullir. Höfðu orðið seinir fyrir á heimleið af Bakkanum, það var farið að skyggja og snjófukt í loftinu. Kaupstaðarferðin hafði gengið vel.   Það var bærilegt verðið sem þeir fengu fyrir sokkaplöggin og álftarfjaðrirnar. Þeir höfðu heldur ekki svo lítið fyrir að ná álftunum í sumar. Eltu þær uppi í sárum, inní Vötnum. 

Þeir áttu alveg fyrir því að fá sér á glas til að hressa sig á heimleiðinni.                        Það er ekki vitað hvað þeir sungu og aldrei komu þeir heim til sín eftir þetta. Skarðsselsbræður, Hreiðar og Bergsteinn, drukknuðu í Þjórsá 15. nóv. 1848. Líklega komust þeir út í Árnesið, þar fundust merki þess að þeir hefðu áð, en yfir austari álinn komust þeir ekki. Lík Hreiðars fannst í Traustholtshólma vorið eftir.

Hann Hreiðar litli í Hvammi var fjögurra ára þegar hann missti pabba sinn í þessu slysi. Um það bil 20 árum seinna lagði hann af stað á vertíðina í Vestmannaeyjum, einn kaldan dag í byrjun þorra.  Hann hafði gengið þessa leið áður, þetta var ekki hans fyrsta vertíð. Ungir menn í sveitum sunnanlands sóttu sjó frá eyjum hvert vor og í þetta sinn  varð hann samferða nokkrum strákum úr Holtunum. 

það er drjúgur spölur að ganga ofan af Landi niður í Landeyjar og veðrið var með verra móti, bleytuhríð og strekkingsvindur. Hlífðarfötin voru ekki gerð fyrir bleytu, kannski, ef hann hefði haft rænu á að fara í sjófötin utanyfir sig, hefði þetta verið bærilegt. Stakkurinn átti þó að halda vatni.

Hann var veikur þegar hann kom að Stóru - Hildisey og þar lá hann í lungnabólgu fram á miðja Góu. Ekkjan Ragnhildur Gottskálksdóttir hjúkraði honum vel og bað hann koma við þegar vertíðinni lyki.  Hreiðar frá Hvammi gerðist svo ráðsmaður í Stóru - Hildisey og seinna eiginmaður Ragnhildar og bóndi þar.

Þau fluttu svo að Vatnshól og höfðu þangað með sér hann Gottskálk  langafa minn. Gottskálk langafi ólst svo upp í Vatnshól og tók þar við búi eftir föður sinn. Systur hans tvær voru með honum í búskapnum og Hreiðar "gamli" var líka lengi liðtækur. Gottskálk fór á vertíð til Eyja hvert ár, hann var alltaf hjá sama formanni, Sigurði Ólafssyni á árabát sem hét Fortúna. Hann þótti góður sjómaður,"fiskinn svo furðu sætti og með afbrigðum skemmtilegur til sjós" stendur í einni af bókum Þórðar í Skógum.

Hann var "léttlyndur og gamansamur og greindur bókamaður" er líka einhversstaðar skráð. Mig grunar að heimilishagir í Vatnshól hafi ekki verið alveg í takt við þessa lýsingu á bóndanum. Mikið af gömlu fólki, þar á meðal Arndís, mamma Hreiðars gamla, var komin þar ofan frá Hvammi  og hún varð eldgömul. Lifði t.d. son sinn Hreiðar.   Tvær fullorðnar systur bóndans, ekki spennandi félagsskapur, kannski farnar að pipra. Fullt hús af börnum og konan heilsulaus.  Gottskálk var listasmiður og fór víða í smíðavinnu. Ef mér leyfist að orða þetta á nútímavísu. Ef hann var í landi var hann á eilífu flakki út um allar sveitir og skemmti sér konunglega. Hann sinnti þó alltaf því sem þurfti heimafyrir og gerði það vel.

Hún Sigurbjörg langamma dó stuttu eftir fæðingu fjórða og síðasta barnsins.          Hreiðar afi minn var næst elstur. Tveimur árum seinna hætti Gottskálk búskap og flutti til Vestmannaeyja. Hann gifti sig þar aftur, konu úr Landeyjunum,  og stundaði sjóinn í allmörg ár. Hann gerði út á eigin bát og var síðasti formaður í Vestmannaeyjum sem gerði út árabát. Að síðustu var hann þó kominn með mótor í bátinn.                      Hann lést í Vestmannaeyjum 1937.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 197635

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband