"Allir eru ótaldir gestir"

Þokkalegt, mig var farið að undra hvað fáir litu inn til mín í dag. Samt er ég í fríi og gæti tekið á móti gestum í röðum. Að vísu kom mamma og stóð við um miðjan daginn, en hún hefði hvort sem er ekkert getað kvittað. Hún fékk bara kaffi. En teljarinn á kvittinu er semsagt ónýtur, þegar ég skoðaði nánar höfðu margir komið en bara sloppið ótaldir út, eins og ótíndir dónar. Æ- ég meinti ekkert með þessu - takk fyrir komuna samt.

Hvítkálshausarnir breyttust í peninga

Ég man að ég spurði mömmu einu sinni hvað þau pabbi ættu mikla peninga og hvað þau ætluðu eiginlega að gera við þá? Hún sagði að þau ættu enga peninga og þótti mér það með ólíkindum. Öll þau ósköp af káli og gulrótum sem búið var að skera og búnta og senda með Mumma í Sölufélagið. Að bera það á borð fyrir mig að eftir allt það streð ættu þau hreint enga peninga fannst mér illa heppnaður brandari.

Að einhverju þyrfti að kosta til við uppbyggingu nýbýlis og fóðrun á fimm krökkum var ekki inní myndinni hjá mér.  Þó mikið væri sent af grænmeti til Reykjavíkur var líka ótrúlegt magn af því étið beint uppúr moldinni - okkur fannst ekkert varið í það soðið.Hvítkál og blomkál, rófur og gulrætur spændum við í okkur daginn út og inn. Sprungnir hvítkálshausar - bestir inní miðjunni, blómkálsdvergar og úrgangsgulrætur. það var heldur hreint ekki sama hvernig gulræturnar voru. Þær bestu voru frekar mjóar og örlítið glærar, helst úr sandgarði. Við átum ekki bara garðávexti, hundasúra var lostæt, mér fannst blöðin betri en stönglarnir. Og kerfillinn á ruslahaugnum var góður, á bragðið eins og kóngabrjóstsykur. En það var ekki gott að borða of mikið af honum.

Þó að við stæðum svona á beit flesta daga sumarsins var líklega þó nokkuð sem þurfti að kaupa til heimilisins. Alla vega var alltaf verið að panta í Kaupfélaginu, vörur sem komu svo með mjólkurbílnum, og svona eftirá skil ég að líklega hafi þurft að borga það. Svo kom alltaf öðru hvoru maður frá Selfossi til að rukka fyrir rafmagnið. Hann hét Langi - Sveinn og fékk alltaf kaffi og pabbi gaf honum útí það. Þeir þarna á Selfossi höfðu víst eitthvað með rafmagnið að gera þó staurarnir með rafmagnslínunni væru beint fyrir utan eldhúsgluggann og það voru karlar frá Eyrarbakka sem settu á þar. Böddi, Bragi og Hilmar voru þar örugglega. Einu sinni þegar Langi- Sveinn var farinn heyrði ég að pabbi sagði við mömmu "að hann hefði látið hann hafa þann síðasta rauða". Ég vissi að Sveinn kom til að ná í peninga og enginn peningur var rauður nema 500 kall. Hann hafði semsagt tekið eina 500 kallinn sem til var! Í marga daga eftir þetta var ég hlaðin áhyggjum. Hvernig myndi fara fyrir okkur peningalausum? þó einhverjir tíkallar hefðu orðið eftir dygðu þeir varla lengi. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að engir peningar væru til í húsinu.

Að til væri banki eða inneign í Sölufélaginu vissi ég ekkert um, enda hefði mér ekki fundist mikið til þess koma. Beinharðir peningar í einhverrri hirslu heima voru það eina sem mér fannst skipta máli. það var ágætt ráð til að herða á okkur á sendingardögunum sem voru mánudagar og fimmtudagar, að segja okkur, eða kannski aðallega mér, hvað mikið fengist í Sölufélaginu fyrir kálpokann eða gulrótabúntið. það kom kapp í mig að við gætum sent sem mest og taldi svo og reiknaði hver gróðinn ætti að verða af sendingunni þann daginn. Svo hélt ég líklega að Mummi kæmi með poka af peningum til baka eftir hverja ferð og þeir fjölguðu sér þannig jafnt og þétt einhversstaðar í fórum pabba. Pabbi var sá sem geymdi fjármuni heimilisins og hann gaf mömmu alltaf smá ef hún fór til Reykjavíkur.  Pabbi fór líka stundum til Reykjavíkur, eða á Selfoss. En að hann færi þá í banka eða í Sölufélagið vissi ég ekkert um. Ég komst ekki að því að svoleiðis stofnanir væru til fyrr en ég fór fyrst til Púlla tannlæknis, svona tíu ára gömul. Hann hafði stofuna sína nefnilega á lofti Labdsbankans. 

En ég man hvað mér fannst alltaf óþægilegt þegar pabbi keypti eitthvað stórt, eða lét mömmu hafa peninga til kaupstaðarferðar. Var nú alveg víst að hann ætti nóg eftir?þegar ég svo seinna fór að fá pening til að fara á böll fannst mér alltaf gott ef ég átti afgang, þá þurfti ég minna næst og sjóðurinn rýrnaði minna hjá pabba. Þá vissi ég þó orðið að það sem til var geymdi bankinn - að mestu. Og ég vissi þá líka að ávísanir gerðu sama gagn og seðlar. Á þessum tíma hef ég líklega verið það sem kallað er "nirfill". En á síðari árum hef ég komist að því að þó maður sé safnari og ýmislegt dragist að manni, er ekki einfalt mál að safna peningum. Og skiljanlegt finnst mér núna að mamma skyldi svara mér eins og hún gerði "að þau ættu enga peninga" án þess að sýnast verulega áhyggjufull.


Ein skítlétt

 Páskafrí - ótrúlega gott að geta sofið þegar aðrir fara í vinnu. Allt öðruvísi en helgarnar, þegar allir hinir fá að njóta líka. Samt var ég komin á fætur kl.8.00 í morgun, ég þurfti aðeins að snúast í kringum sjálfa mig og svo fór ég í bæinn með Guðbjörgu og Júlíu af því það var verið að taka nefkirtla úr Júlíu. 

Synd að fara svona illa með lítil börn, en amma var afturí hjá henni á heimleiðinni og sagði músasögur. Hún átti ósköp bágt, en reyndi að skæla ekki svo hún gæti fylgst með því sem fram fór í sögunni. Svo sofnaði hún í Kömbunum og er víst bara nokkuð brött núna. Ein gáta.

 Fjandsamlegur fiskunum

Fingraaflraun valin

Brot af glímubrögðunum

Betri en kelda talin.

 


"Hvar ertu núna"?

Ég er ekki að auglýsa eftir neinum sérstökum. Ekki gömlum kærasta eða vinnufélaga sem ég hef ekki hitt í tuttugu ár. Ég er bara að hugsa um fólk svona yfirleitt. Það kemur svo oft fyrir að mér dettur einhver í hug, einhver sem ég kannski fylgdist með í uppvextinum eða vann með nokkur ár. Svo hefur þetta fólk bara horfið eitthvað út í buskann og sést ekki meir.

Krakkarnir í hverfinu. Einu sinni voru þau hlaupandi hér um allt, undir og yfir girðingar, diglandi á bjölluna seint á kvöldin og svo hlaupin fyrir hornið þegar að var gáð. Grafandi snjóhús í skaflana á lóðinni, og brjótandi niður snjóhús fyrir krökkunum í næstu götu. Rólóinn var alþakinn krökkum, í smábarnaleikjum á daginn og fótbolta um kvöld. Boltarnir flugu um lóðirnar í kring og gróðurhúsin voru í stórhættu.

Það er lítið um krakka þar núna, allir orðnir gamlir í hverfinu. Reyndar sumir svo gamlir að þeir eru farnir á elliheimili eða til himna. Þá kemur nýtt fólk í húsin og aðrir krakkar á róló.  Mér finnst líka alltaf gaman þegar ég sé einhverja, sem léku sér í sandkassanum eða spörkuðu bolta fyrir tuttugu árum, koma með sín börn til að sýna þeim rólóinn. það er ekki vandi fyrir þá sem það gera að rifja upp allt sem einu sinni var, rólóinn er nefnilega enn, fjörutíu árum seinna, alveg nákvæmlega eins og einu sinni var.

Ég er þó nokkuð viss um að einhver hefur skipt um sand í kassanum og nú eru engar girðingar sem skilja róló frá lóðunum í kring. Þær eru löngu ónýtar og við höfum ekkert verið að reisa nýjar. það er semsagt frjálst flæði frá öllum húsum á róló og kannski höldum við þar grillpartí fyrir fullorðna á ljúfu sumarkvöldi og syngjum "Ertu þá farinn og hvar ertu núna"?


Eins og pipar undir stertinn ---

-----á ofstækismönnum. Hann Egill Helgason er með alltof margar kellingar í þættinum sínum núna. Hann ræður ekkert við þær. Þessi úrslit í Hafnarfirði varða nú sennilega til þess að ofstækisfólkið verður æstara en nokkru sinni fyrr og var þó orðið næsta nóg.

Hitaveitustokkurinn

Mér finnst sorglegt að hann skuli hafa verið rifinn. Þessi umferðaræð sem lá frá Reykjum  í Mosfellssveiinni alla leið að Öskjuhlíðinni í Reykjavík.  Þegar við vorum á Hulduhólum hjá ömmu og afa komumst við allt sem þurfti eftir þessari einstöku gönguleið. Við vorum send í Kaupfélagið, gangandi á stokknum.  Við fórum fram að Hamrafelli og niður í Kamp, þar sem Braggakotið var, gangandi á stokknum. Við fórum upp að Reykjalundi, þar sem afi var stundum að vinna, þá fórum við eftir stokknum. Hlaupandi, valhoppandi og skoppandi á þessari steyptu kúptu braut, og svartar tjörurendurnar með vissu bili, það mátti ekki stíga á þær. Svona fórum við útum alla sveit.

Seinna þegar ég vann í Skálatúni fór ég meira að segja oftar en einu sinni og tvisvar til Reykjavíkur arkandi á þessum einstaka hitaveitustokk. Í hælaháum skóm á ball í Þórskaffi eða bara í búðaferð á frídegi. Það sparaði fargjaldið með rútunni.  Þegar ég síðast hitti þennan fornvin minn var langt komið að eyða honum. Svolítill spotti á milli Hulduhóla og Skálatúns var þó óskemmdur og ég tók myndir. Þær get ég þó alltaf sýnt afkomendunum og sagt þeim hvernig ég ferðaðist um Mosfellssveitina "í gamla daga".


Vísnagátur

Ég heyrði einhversstaðar að fleiri en nokkurn grunaði hefðu gaman af að ráða svona vísur - eða gátur.  Ég ætla að láta tvær fljóta og sjá hvort einhver hefur svörin.

 

Ólga blóðs í æðunum

Annatími smábændum

Hofmóður í heimskingjum

Hinsta úrráð félausum. 

 

 

Bruna greitt á breðanum

Byggðarlag í Skagafirði

Burðartré í bursthúsum

Barnaleikfang peningsvirði. 


Hvað varð um "vini Hafnarfjarðar"?

Það eru ekkert mörg ar síðan ég fékk skjalfesta staðfesingu þess að ég væri vinur Hafnarfjarðar.  Mér var gert þetta einstaka tilboð og auðvitað tók ég því.

Á þeim tíma fengum við vinirnir vinsamlegt bréf frá bæjarstjóranum, við fengum kort af bænum og svo líka annað kort sem sýndi þekkt búsvæði dverga og álfa í þessum fallega kaupstað. Við fengum "lykil" að bænum og afsláttarkort í búðir og söfn. það var flott að vera vinur þessa bæjar.

Þetta var örugglega skömmu eftir að sædýrasafninu var  lokað af því þar var allt að fara í drasl . Ísbjörninn sullaði kolskítugur í ennþá drullugri lauginni og eitthvað af skepnunum var farið að stelast út á nóttunni af því girðingarnar héldu ekki.

Álverið var þá nýtt og fínt vestur í Straumsvík og rollubændur í útjaðri bæjarins sáu þar rjúka í birtingu á morgnana. En svo fór þessi nágrannabær að teygja sig niður af brekkubrúnum og vestur með ströndinni. Enginn sá neitt að því að nálgast þennan vinnustað, kannski bara gott að geta labbað í vinnuna? Ég er að meina - að mér sem vini Hafnarfjarðar finnst ekkert að þessu áli þarna, og það hefur enginn þar neytt fólk til að byggja sér hús í túnfætinum. það velur það sjálft.  

En á meðan ég man, það var meiningin að ég fengi endurnýjað áfsláttarkort árlega og svo bjóst ég alveg við jólakorti frá bæjarstjóranum, svona öðru hvoru. En nú eru bara bændur við Þjórsá búnir að leggja undir sig póstþjónustuna í Firðinum og þykjast allt í einu eiga þar fullt af vinum. Mér er stórlega misboðið.

Ég hefði  verulega gaman af að vita hverjir þessir öðlingsbændur eru, ég væri alveg til með að benda þeim á að velja sér vinni annarsstaðar, kannski á Hvammstanga?         Ég vil fá að eiga mína vini í friði. 


Kvenna hvað?

Í síðustu færslu gleymdi ég einu sem ég mun aldrei skrifa um og finnst raunar allt of mikið af hér á síðunum.  Allt þetta kvenna kja----- (sorrý). Á hverjum einasta degi birtist manni einhver boðskapur um kvenna hitt og þetta, femínist eitt og annað. Kvenréttindaher eilíflega berjandi á einhverjum ímynduðum óvinum.

Það er eins og þessar blessaðar konur, (eru jú oftast konur), séu uppfullar af minnimáttarkennd og í eilífri vörn fyrir það hvernig Guði þóknaðist að skapa þær. Væri ekki nær að bregðast við á jákvæðari hátt og reyna að sætta sig við tjónið? Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir neitt og erum þegar grannt er skoðað sá hluti mannkyns hefur heiminn í hendi sér. En það verður aldrei sannað með svona leiðinda suði. 


Það kemur fyrir ---

að maður verður að skrifa um ekki neitt. Svoleiðis er ástandið á mér í dag, ég hef ekkert um að tala. Ekki skrifa ég um pólitík, það eru nógir aðrir til þess og svo er hún líka hundleiðinleg á prenti.  Ekki dettur mér í hug að skrifa um fréttirnar í Mogganum. Mogginn er nú einu sinni til þess að segja okkur fréttirnar og eigum við ekki að ætlast til að það sé gert sómasamlega. Samt er fullt af fólki sem virðist aldrei hafa neitt að segja frá eigin brjósti, lætur sig hafa það að margtyggja upp það sem stendur í blöðunum.

Í dag er reyndar "blaðadagurinn" hér á Selfossi, öll vikulegu heimablöðin komu inn um lúguna í dag. Og það var bara furðu margt í þeim núna. Vantar fullt af fólki í vinnu útum allt, göturnar á Selfossi eru handónýtar og svo á að byggja rosalega flott hús niðri á Stokkseyri. Alveg röð af turnum, húsum og blokkum meðfram sjónum. Ekki samt svona amennilegt bryggjuhverfi eins og er til allsstaðar. Kannski er það ekki lengur flott? En ég fer nú ekkert að skrifa um það. 

Það tekur því heldur ekki að segja frá stjórnarfundinum sem ég hélt hér heima á mánudaginn, eða ballettsýningunni sem ég fór á í Borgarleikhúsinu á þriðjudag. Hún Urður var að dansa þar og bauð ömmu að koma, en það var nú á þriðjudaginn.  Svo var ég að vinna á árshátíð 9. bekkjar í gær, kom ekki heim fyrr en að ganga tíu. Það var flott leikrit, tvær sýningar, en það þarf nú ekki að hafa orð á svo sjálfsögðum hlut, auðvitað eru krakkarnir flottir þegar þau vilja það.

Ég ætla heldur ekkert að vera að tala um veðrið, eða vorið sem liggur í loftinu. það eru nú allir að skrifa um það. "Þessi yndislega blíða um allt land". Krakkarnir henda af sér spjörunum um alla skólalóð og svo finnur enginn neitt þegar farið er að leita á snögunum inni.  Einhver var líka að tala um lóuna og tjaldinn og alla hina fuglana sem eru að koma til landsins. Ekki fer ég að taka fram fyrir hendurnar á þeim. 

Það er sama hvað mér dettur í hug, allt hefur verið skrifað um áður. Og svei mér þá, hvernig á annað að vera?  Það er ekki hægt að finna endalaust upp á einhverju nýju. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband