Ekki var ég fyrr búin að átta mig á milljörðunum --

-- þegar ég fæ nú nýtt að læra. "Billjarðar"-- það er líklega orðið sem við munum nota til að telja peningana okkar á næstu áratugum. En hvað skyldi  svo koma á eftir því?
mbl.is Ofboðsleg verðmæti í jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handónýtt þing!!!

Svona dagur, eins og á Alþingi í dag er algerlega ónýtur fyrir okkur sem erum með þetta lið í vinnu. Klögumál og rifrildi, "þú gerðir víst"  og "ég gerði ekki neitt", eilift a..s..ta.. vesen við að plokka augun hvert úr öðru eins og hrægammar í eyðimörk.

Hvað þarf að gerast hérna á skerinu svo þið farið að vinna vinnuna ykkar? Sveiattan bara!!! 


mbl.is „Pólitískt áhlaup á mig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag gerðist þetta- verður 4. júní sögufrægur dagur?

Rangæingar sjá svarta bólstra yfir jöklinum. Veðurstofan mælir aukinn gosóróa ofaní jörðinni. Öskurykið byrgir fyrir fjallasýn í lágsveitum og allt til Borgarfjarðar.  Fuglarnir eru hljóðir og fólkið andar með nefinu.

Ný borgarstjórn í Reykjavík hélt blaðamannafund á blokkarþaki í Breiðholti- vonandi gengur þeim vel að læra það sem þarf til að sinna sínu verkefni. 

En ég missti af útsendingu frá þeim fundi af því ég var á miklu merkilegri viðburði.

Ég var í skólanum að kveðja tíunda bekk. Það er nokkuð sem ég reyni að missa aldrei af. Unga fallega fólkið sem við kveðjum, mörg eftir tíu ára samveru, er bara yndislegt. Á öllum þessum árum er ekki annað hægt en að tengjast þeim dulitlum tilfinningaböndum. Að fá tækifæri til að fylgjast með frá fyrsta bekk og uppúr er einstakt. Litlir pjakkar sem fyrir fáum árum skriðu undir stól, lokuðu augunum og töldu sig týnda ef eitthvað þurfti að vanda um fyrir þeim, stelpur sem í öðrum bekk stöppuðu niður fótum og hrinu hátt ef þær fengu ekki að teikna prinsessur í öllum tímum.  Öll með tölu eru þau nú svo frábært fólk, svo fín í sparifötunum - strákarnir með bindi og stelpurnar á pinnahælunum í fínu kjólunum. Þau eru svo falleg og þau eru svo glöð, með endilanga framtíðina fyrir sér og hlakka til. Þetta getur ekki orðið annað en frábært og yndislegt líf. Það vona ég líka, að þeim gangi öllum allt sem best, þessum elskum. Og þó að við, skólafólkið, höfum stundum verið "leiðinleg" við þau, held ég svei mér þá að þeim þyki bara vænt um okkur líka, það finnum við á þessum árlegu kveðjustundum. Takk fyrir samveruna elsku krakkar mínir - þið eruð best. 


Það er ekki mikið við að fást á heimavelli?

Brýnustu umræðuefni Alþingis í dag eru um það hvort Össur eigi að fá að safna í hóp til að fara til Gasa - á okkar kostnað væntanlega. Líklegt að hann gæti kippt þar öllu í liðinn af sinni alkunnu snilld?  Svo var  verið að rífast um hvort væri í lagi að feminísera fjárlögin, með einhverjum viðbótarnefndum  af kvenmannskyni. Sem auðvitað ættu að fá borgað í samræmi við aðrar nefndir. Ég kann reyndar ekki alveg nógu vel að segja frá þessu kvennabrölti, en það sem ég heyrði fannst mér í minna lagi merkilegt. 

Er ekkert mikilvægara hægt  að tala um á  Alþingi Íslendinga í dag?

 

 


mbl.is Íhugi að slíta stjórnmálasambandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski þarna verði bara goshver?

getur ekki allt gerst í náttúrunni og þarna myndi þá verða einu náttúruundrinu fleira á Íslandi.
mbl.is Enn mikil gufa úr gíg Eyjafjallajökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í góðum tengslum við grasrótina"?

Sem á ópólitísku máli myndi þýða að manneskjan sé vinsæl hjá sínum undirmönnum jafnt sem vinnuveitendum, alltaf til í að tala við hvern sem er og geri engan mannamun. Þægileg og tilbúin að hlusta á alla.

Steingrímur ráðherra sagði í kvöldfréttum "að kannski, vegna anna, hefði  undnanfarið vantað uppá grasrótarræktun hjá honum og fleirum - vegna anna hefðu ekki gefist tækifæri til fundahalda eins og þyrfti". Mér finnst að fundir séu enginn vettvangur fyrir grasrætur. Þar mæta sárafáir gallharðir aðdáendur viðkomandi pólitíkusa til þess eins að klappa og hallelúja. Við erum ekki á svoleiðis fundum. Við erum á vinnustöðunum okkar, við erum úti í bæ  og jafnvel stundum vildum við komast á kontórinn hjá viðkomandi, ráðherra eða bæjarstjóra eða bara bæjarstjórnarmanni. Þá eigum við ekki að þurfa að knékrjúpa með löngum fyrirvara og panta tíma, sem svo "því miður" gæti orðið aflýst á síðustu stundu. Við viljum hitta mann og annan þegar okkur liggur eitthvað á hjarta og það gæti bara verið núna!! Alveg eins og þegar ég þarf allt í einu að fara í klippingu vil ég geta talað við svona fólk þegar mér dettur eitthvað "mjög áríðandi" í hug. Á margara vikna biðtíma fer úr mér allur vindur og ég kannski bara gleymi erindinu. Auðvitað eru ákveðin takmörk um nætur og helgidaga, en á vinnutíma á þetta fólk ekki að loka sig inni í einhverjum fílabeinsturnum. Það er  vinnufólk hjá okkur og getur bara alveg hagað sér sem slikt.


Svona á að gera þetta

Heldur seinlegra að kjósa svona, sagði einhver í kvöldfréttunum, en hvað hefur maður þarfara að gera á laugardegi í maí en að dunda í kjörklefanum við að merkja við nöfn skynsamra og skemmtilegra samborgara?
mbl.is Kosin í hreppsnefnd í Borgarfirði eystri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig verður svona skítlegt innræti til?

Ég bara spyr eins og fávís kona? Er þetta í genunum eða uppeldinu- eða hefur einhversstaðar verið rekinn skóli sem kennir svona óþverraskap?

Þetta er einfaldlega ótrúlegt og sennilega er engin refsing til sem betrumbætir það tjón sem hefur orðið á þessum manni frá því hann fæddist í heiminn - alsaklaus skulum við ætla? Hann mun alltaf byrja aftur þar sem frá var horfið- en við skulum reyna að forðast hann í lengstu lög.


mbl.is Pálmi segir fréttir af sér uppspuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af svona ævintýrum

Þetta er það sem okkur vantar, skemmtilegar fréttir og frásagnir af lífinu og náttúrunni í kringum okkur. Jákvæðar fréttir svo við gleymum stundarkorn eilífðar barlómnum, sukkinu, glæpamennskunni og svínaríinu sem fer svo allt of mikið fyrir í fjölmiðlum.

Lífið getur alveg verið gott og skemmtilegt, bara ef við gefum því gaum með réttu hugarfari.


mbl.is Fuglar hröktu kisu ofan af þaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frambjóðendur á ferðinni

Undanfarna daga höfum við í skólanum fengið gesti í kaffitímanum. Frambjóðendur hafa verið að koma til að kynna sig og sumir líka til að reyna að kynna sér okkar hugmyndir, störfin okkar, aðstöðuna  í skólanum og jafnvel einhverjir  spurt um kjörin okkar. Þetta er líklega ekki auðvelt fyrir alla, sumum bara vorkennir maður verulega og reynir að leiða talið að einhverju öðru skemmtilegra.

Það hefur komið í ljós að margt af þessu fólki hefur ekki hugmynd um skólann.       Hvað eru þar margir nemendur, hvernig er bekkjum skipt á milli þessara tveggja húsa sem skólinn er í? Jafnvel ekki hugmynd um að honum sé yfirleitt skipt.                 Áhuginn á okkur og okkar málefnum virðist af skornum skammti.                             Satt að segja hefur mér oft fundist forráðamenn bæjarins sýna okkur lítinn áhuga.       Á öldinni sem leið kom það fyrir að skólanefnd kæmi einu sinni á vetri og labbaði í gegnum skólann á miðjum degi, helst þegar allir voru í tíma og rólegt á göngum.       Nú veit ég ekkert hver er í skólanefnd nema ég leiti eftir því í fundargerðum eða nefndalistum.    Ég hef stundum sagt að það ætti að skylda skólanefndarfólk og æðstu stjórnendur bæjarins til að vera í skólanum einn dag á vetri, frá morgni til loka skóladags, svo það hefði einhverja hugmynd um hvernig vinnan okkar er.               Þetta er jú sá staðurinn  sem notar megnið að öllum peningunum sem úr er að spila hjá bænum-  eða svo er mér sagt. Þegar ég hef látið þetta heyrast  þá eru svörin gjarnan þessu lík: " já, alveg frábær hugmynd" eða " já, þessu verður að koma í framkvæmd". En það er svo annað mál þegar til kastanna kemur, enginn vill vita af okkur nema í gegnum tölvu.

Fyrir ári síðan unnu áttundu bekkingar  við það á vordögum að skipta um jarðveg í innigörðunum. Í Vallaskóla við Sólvelli eru tveir garðar í miðri byggingunni og hefur þar verið illgresisbæli frá því skólinn var byggður. Nú tóku kennarar sig til með börnunum og mokuðu moldinni með illgresisrótum í hjólbörur og fluttu út á kerru. Svo var settur jarðvegsdúkur, sem síðan var þakinn með sandi sem krakkarnir mokuðu og keyrðu inn.  Umhverfisdeild útvegaði tækin og tólin og sá um flutning á mold og sandi.                   Það var óskað eftir að  eignadeild bæjarins lyki svo verkinu með hellum eða pöllum.   Það vantar ekki deildirnar, þær eru fleiri en ég þekki með nöfnum.

Nú árið er liðið og enn hefur ekkert gerst. Einstaka rót hefur orðið eftir og fíflarnir eru að brjótast uppúr rifum á dúknum. Hvað skyldi frambjóðendum í heimsókn finnast um garðana okkar? Þeir vita kannski ekki betur en að svona skuli þetta bara vera?                     Hvað skyldi kjósendum finnast, sem koma nú bráðum í skólann að kjósa, í annað sinn eftir aðgerðina stóru, og sjá að hún er að fara fyrir bý? Nú er verkafólkið að ljúka níunda bekk og hver veit nema þau kveðji okkur úr tíunda að ári an þess að sjá árangur erfiðisins, ekki þori ég að spá um það. Myndirnar eru, tvær ársgamlar, af skólabörnum í erfiðisvinnu og svo ein sem sýnir fíflana blómstra undan dúknum nú á vordögum. 

DSCF5182DSCF5176DSCF8192


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband