14.11.2009 | 22:17
Jákvætt blogg - dúkurinn hennar ömmu
Fyrir nokkrum vikum var ég að róta í skápunum hjá mömmu, taldi mig víst vera að taka til eða eitthvað í þá áttina. Ég var í þetta sinn stödd í suma og prjónaskápnum. Þar er fullt af garni og efnum, prjónaprufum, uppskriftum og útsaumsdóti. Hægt að finna þar ýmislegt skemmtilegt.
Ég dró fram efnisstranga, nokkuð gulnaðan, vandlega samanbrotinn. Þegar ég rakti hann í sundur kom í ljós að þetta var áteiknaður dúkur hringlaga alveg bærilega stór. Alla vega var heilmikið teiknað á hann, sem átti alveg eftir að sauma í. Ekkert saumagarn fylgdi.
"Hvað er þetta"? spurði ég mömmu, sem sat í stólnum sínum og fylgdist með mér, álengdar. Hún telur það vissara. Mér hættir svolítið til að henda ekki sömu hlutum og hún myndi henda, eða stinga niður í poka minn því sem hún telur algerlega út í hött að geyma. Við eru samt stundum sammála.
Hún sagði þetta dúk sem hún hefði fundið í fórum mömmu sinnar(ömmu minnar) eftir að hún dó. Hefði svo bara gleymt honum í skápnum. "Þetta er ekkert drasl, örugglega hör". Það var reyndar nokkuð ljóst að dúkurinn var frá forsögulegu tímabili, í einu horninu hafði verið skrifað á hann að hann ætti að kosta 7.50, það gat ekki verið nýlega skrifað. Svona frá 1940-43 hélt mamma. "Hún amma þín var ekki að sauma svona dót eftir að barnabörnin fóru að fæðast", sagði hún. Og þar sem ég er elsta barnabarnið, fædd´44 er aldurinn á dúknum nokkuð ljós.
Ég spurði hvort henni fyndist ekki kominn tími til að gera eitthvað í málinu? Jú hún var svo sem alveg með á því, en það var ekkert garn. Má ég ekki bara kaupa garn og sauma svo, spurði ég. Jú það mátti ég alveg - og þá gerði ég það.
Ég taldi ekki vikurnar, en þær voru ekki margar. Ég get aldrei dundað við það sem er löngu ljóst að þurfi að ljúka. Ég tala nú ekki um þennan dúk, hann var löngu tímabært að ljúka við. Í hvert sinn sem mamma kom við og sá hvernig gekk, sló hún sér á lær og upphrópaði . "ja hérna, það held ég hún amma þín skemmti sér yfir þessu núna".
Amma er vitanlega á himnum, en auðvitað vona ég að hún sé ánægð með mig.
Já -það ætla bara ég rétt að vona, og ég er líka að hugsa um að semja við mömmu um að ég fái að eiga dúkinn. Hún hefði hvort sem er örugglega hent honum í næstu tiltekt. Ég veit ekkert hvað sporin í honum eru mörg, en bara hringurinn utanum er kappmellaður með 1830 sporum. Hitt nennti ég ekki að telja.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 197259
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er dæmalaust fallegur dúkur
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 14.11.2009 kl. 22:57
Mikið óskaplega er þetta fallegt.
En ef það á að henda prjónauppskriftum og einhverju prjónatengdu þá er ruslatunnan á Dverghólum 10. Hún tekur við öllu svona!
Kveðja
Berglind Haf
Berglind Haf (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.