18.10.2008 | 22:03
Fyrir krónprinsessuna í Glasgow
Krónprinsessur eru þær sem fæðast fyrstar af öllum prinsessunum. Nú vill svo til að í Glasgow í Skotlandi dvelur ein af krónprinsessum Íslands, hún er ljóshærð og skemmtileg, í nýjum prinsessufötum og hún er nafna mín.
Ég ætla að segja henni og sýna, hvers vegna ég hef verið svona löt í blogginu undanfarið.
Um síðustu helgi voru foreldrar þínir í útlöndum að eyða gjaldeyri og á meðan átti ég að passa systkinin Ívar og Júlíu. Það gekk ágætlega með Ívar til að byrja með, hann kom bara með mér í skólann, svaf og borðaði. Júlía var fyrstu dagana hjá ömmu Báru.
Á föstudaginn fór svo allt úrskeiðis. Ég fór í sumarbústaðarútilegu með Grínverjunum og afi þinn varð að taka við að passa Ívar, gefa honum að borða og láta hann sofa. Það tókst ágætlega, hann er nú líka orðinn 13 ára.
Við Inga fórum fyrstar af okkur Grínverjum, tvær á bíl og það var rigning. Af því það hefur margoft sýnt sig að Grínverjur eiga efitt með að rata, ég tala nú ekki um í dimmviðri, þá töldum við vissast að merkja leiðina við gatnamót. Að vísu rigndi svo mikið á köflum að næsta dag sáum við engin merki um þessa vönduðu aðgerð, en þá hafði hún líka lokið sínu hlutverki. Við undum okkur svo þarna í bústaðnum við hannyrðir, sögur, góðan mat og grín, langt fram eftir kvöldi, eiginlega fram á nótt. Töluðum ekkert um peninga, hlutabréf eða banka, enda eigum við allar eitthvað sem er miklu dýrmætara og skemmtilegra að tala um.
Ein hafði þó víst lent í því að tapa einhverju smáræði í sjóði og en bankakonan sem hafði ráðlagt henni þessa óráðsíu baðst margfalt fyrirgefningar og bauðst svo til að passa fyrir hana í staðinn. Sennilega kemur hún út í stórgróða þegar allt kemur til alls. Barnapíur vaxa ekki á trjánum og eru svo gjarnan á ofurlaunum.
Þegar heim var komið á laugardag fórum við svo til að sækja Júlíu til ömmu Báru. Það var frábært veður og fallegt á Sandskeiðinu þegar við keyrðum austur aftur..
Á sunnudeginum fóru afi þinn og Ívar í messu. Fermingarbörnin eiga að mæta í kirkjuna á sunnudögum og foreldrar með, en nú voru þau hvergi nærri svo einhver varð að fara í staðinn. Afanum fannst ræðan ekki skemmtileg og fann til með krökkunum að þurfa að mæta alla sunnudaga. Þeir fóru ekki í súpuna.
Á meðan fór Júlía út með brauð í poka til að gefa fuglunum, þeir hafa nú reyndar alveg nóg eins og er, reyniberin sem ég náði ekki til að tína af trjánum þekja nú allar götur og garða. En henni fannst bara að þeir mættu fá brauð líka.
Eftir hádegið fórum við svo upp í sveit. Fyrst fórum við inn í Mýri til að gá hvort Emil væri búinn að tæta kartöflugarðinn. Hann var búinn að því og þar er nú helmingi meira pláss en var í sumar. Eins gott, í vor setjum við niður meiri kartöflur og sáum meiri rófum en nokkurntíman áður. Ef allt fer til fjandans lifum við af landinu. En auðvitað fer ekkert til fjandans.
Það er orðið haustlegt í Mýrinni, en einstaka plöntur eru þó grænar, þær sem aldrei fölna eða fella lauf. Eru bara eins allt árið, sígrænar. Svo heimsóttum við ömmuna og fórum í heimsókn á einn bæ að auki.Þegar við komum heim kíkti Sandvíkurfjölskyldan aðeins inn og frænkurnar horfðu á Dodda, einu sinni eða tvisvar - eða kannski oftar. Doddi er málið hjá Dýrleifu.
Svo var ég nú bara að vinna alla vikuna, en mikið rosalega er ein svona vika fljót að líða, eftir þriðjudag er strax kominn föstudagur. Það er af því nóg er að snúast og alltaf er gaman. Í gær endaði stundaskráin mín á hreysti - útitíma í hellirigningu. Samt var ekki kalt og ég var með myndavélina í vasanum. Ég fann í leiðinni garð með blómstrandi rósum og hvítum berjum. Það var flott.
Á meðan ég var að ljúka vinnunni fór mamma þín í búð og keypti slátur. Það var líka afmælisdagur Júlíu og þegar ég kom heim voru þær mættar í sláturgerð - Júlía klædd í þennan líka fína Mjallhvítarkjól, sem reyndist bara vel í slátrinu. Júlía er nefnilega prinsessa líka þó þú sért krónprinsessan. Við vorum ekki lengi að hrista þessa sláturgerð fram úr ermunum. Hvorug hafði þó áður gert svona uppá eigin spýtur fyrr, en allt bendir til að það hafi heppnast.
Í dag var svo afi þinn að hjálpa til í húsinu hjá Guðmundi en ég tók til í bílskúrnum og bakaði svo lummur af því Jóhanna og Dýrleif komu, og svo Lalli og Júlía, mamma þín sendi þau út svo hún gæti undirbúið afmælisveisluna í friði. Svo komu Einar frændi úr Vogunum með Heiðu og soninn Birki Örn. Dýrleifu fannst mikið merkilegt að sjá þetta " litla sæta barn", eins og hún sagði.
Myndaröðin er nokkuð rétt, nema bara þær tvær sem áttu að vera fyrstar eru síðastar.
Ég þarf að æfa mig meira í myndabloggi.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Æææ hvað mér þykir vænt um þetta :D
Gaman að sjá þessar myndir og að lesa um hvað þið gerið:D.. haha, gott að þið funduð leið til að rata í þennan bústað! og ég verð að segja að ég er sammála afa um messurnar, samhryggist fermingarbörnunum innilega að þurfa að fara í þessar messur, en eg lifði þetta af og ívar gerir það örugglega:D
ég vildi að ég hefði verið með ykkur í slátrinu, gerið þetta aftur á næsta ári með mér! og þegar ég kem heim þá fæ ég mýrskar kartöflur með jólamatnum.. naaamm:D
Hlakka svo til að koma heim og vera partur af þessu prugramme aftur
elska þig :*- Krónprinsessan :D
Helga Krónprinsessa (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 00:03
Mikið var þetta skemmtileg færsla sem þú gerðir fyrir krónprinsessuna og myndirnar góðar sérstaklega fyrsta myndin og fjórða myndin með litlu stúlkunum og svo sú næst síðasta. Mér finnst þær snilld.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 19.10.2008 kl. 13:14
Þetta var sko alvöru blogg!
Josiha, 19.10.2008 kl. 13:23
Gaman fyrir krón(u)prinsessuna í Glerskó að fá svona skemmtun, hér átt þú myndavél ásamt fleiru. Lalli ætlar að notfæra ´ser kaffivélina fyrir gæsaferðina í nótt, vona að morgunkaffið sé ekki ákaflega mikilvægt hjá ykkur í fyrramálið.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 19.10.2008 kl. 21:29
Ætli hann verði ekki að fá svona græju í jólagjöf?
Honum er velkomið að nota hana fram eftir vikunni, þá hef ég ástæðu til að bjóða uppá púrtara ef kerlingar líta inn síðdegis.
Helga R. Einarsdóttir, 19.10.2008 kl. 22:06
Þetta var aldeilis skemmtileg færsla, þú átt endilega að öppdeita svona oftar fyrir Krónprinsessuna (og okkur hin).
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 00:36
Mér var boðinn púrtari
mýrarljósið (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 21:25
Já gott að sjá að það er verið að leiðrétta það hversu mikilvæg þú ert kæra frænka. Ég hef ekki náð að hitta þig síðan að kartöflurnar voru drifnar upp þarna rétt um fyrsta snjó.. eða í kringum kreppu byrjun 10 okt. Mikið kapp var lagt í að gera sökkulinn tilbúin fyrir veturinn og karöflurnar gleymdust greyin. En þær fóru upp eftir dágott frost 9°C eða svo og slatta af snjó. Gullaugað var drulla mest allt en íslenskar ferlega góðar og fínar og endalaus uppskera.Þó að bölsýnis spár Vilbergs hefðu spáð fyrir allt annað.Til hamingju með sláturgerðina.
Erla, Villi og Emil (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.