10.8.2008 | 23:24
Sumar á Selfossi - og áfram svo- við getum þetta vel - og betur næst
Ég var bara nokkuð liðtæk í hátíðarhöldum gærdagsins. Var komin rúmlega níu í morgunverðinn, sem við Grínverjur höfum nú sótt samviskusamlega í allmörg ár.
Mér finnst heldur leiðinlegra að vera þarna í kjallaranum, sérstaklega á þessum tíma, þegar sólin hefur ekki enn náð að komast fyrir hornið á húsinu. En veðrið var gott og öll framkvæmd til fyrirmyndar. Kjallarinn var hérumbil hlýlegur með tjöld á veggjum og harmonikukarla í horni. Okkur tókst að sitja þarna rúman klukkutíma, en ekki grunar mig hversu margir komu á meðan til að fá sér hressingu í morgunsárið. Þessi dagskrárliður hefur náð fótfestu og verður vonandi aldrei af okkur tekinn.
Svo röltum við af stað heim á leið, en gáfum okkur alveg tíma til að líta til búða og spjalla við fólk. Við byrjuðum í Kaupfélaginu, sem verður aldrei annað en Kaupfélag, enda get ég ómögulega munað öll þau nöfn sem sú búð hefur haft undanfarin ár og ég treysti því ekkert að Nóatúnsnafnið sé komið til að vera um aldur og æfi. Kaupfélagið er það og verður. Þar rákumst við á dúndurútsölu sem engin hafði áður heyrt af.
Þar vaknaði fyrsta spurning. Hvers vegna notar nú ekki þessi verslun sem er þarna tækifærið og auglýsir svakalega útsölu, hengir föt á slár fyrir utan og doblar einhvern frá kjötborðinu til að spila á gítar úti í blíðunni? Ekkert líf var í Kjarnanum, utan þess sem er þar alla daga. Við héldum áfram. Í Kaffi Krús hafði verið auglýst eitthvert geim, en það var bara ekki byrjað. Obbb obbb obb - BLAZE - þar var allt að gerast. Fullt af fötum á slám úti á stéttinni, konur að skoða - samt er þetta karlabúð- og búðarkonan úti til viðtals og límdi spjöld á slárnar. Það mátti prútta! Svona eiga kaupmenn að vera, taka þátt í hátíðinni. Svo var Bókakaffið hans Bjarna með borð úti eins og flesta góðviðrisdaga og það er gott. En þetta var líka það eina sem við sáum alla leið austur í "Júróprís". Ekkert lífsmark nokkursstaðar. Eftri hádegið fór ég á rúntinn og kannaði þessi mál aðeins betur. Alvörubúðin sýndi lífsmark. Ég sannfærðist um að við eigum langt í land að læra að halda hátíð. En það kemur, ekki gefast upp, við gerum betur næst.
Þarna voru þessi venjulegu gróðatæki aðkomumanna, litabolti og tívolí, en ekki mikið af okkar eigin framtaki. Að vísu var markaður í bílakjallaranum, en þangað komst ég ekki. Sú staðsetning er meingölluð.
Ég vil sjá, á þessum degi, allar dyr opnar og vörur og fólk úti á stéttum.
Sumar á Selfossi á alltaf að vera sömu helgina. Við eigum alltaf að vera heima um þessa helgi og við eigum að halda fjölskyldugrill sumarsins. Ég vil að Pizzusalar gefi bita í hádeginu, á borði fyrir utan í svona góðu veðri. Hestamenn eiga að bjóða á bak, ekki bara teyma undir smábörnum, heldur bara venjulegu fólki skrepp niður að Glóru eða svo. Það er svo ótalmargt hægt að gera, mér bara dettur ekki allt í hug í einu. Nú kom þó ein ( frekar brjáluð hugmynd). N1 gæti lækkað besínverið alveg helling, bara á Selfossi þennan eina dag. Þeir rugla nú annað eins með það.
Svo fór ég á sléttusönginn í gærkvöldi og það var alveg brilljant.
Ég veit að mér er málið skylt en ég ætla samt að hrósa strákunum, og líka stelpum í Árborgarliðinu fyrir þeirra þátt í þessari hátíð. Þið stóðuð ykkur með stakri prýði.
En það er bara fótboltaliðið sem heitir þetta. Árborg kemur málinu ekkert við. Hátíðin heitir "Sumar á Selfossi". Þetta er okkar hátíð og allra sem vilja heimsækja okkur aðra helgina í ágúst. Og það á alltaf að vera gott veður.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sumarkveðjur frá mér.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 11.8.2008 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.