Loksins lífsmark. Ég hef haft annað fyrir stafni og bara eins gott að gera úr þessu eina framhaldssöguna enn.
Ég fór í skólaferðalag á fimmtudaginn, þá var 29. maí en við tókum ekkert sérstaklega eftir því.
Veðrið var bara frábært og krakkarnir 60 sem við fórum með voru alveg þokkalega jákvæð þó að í þetta ferðalag þyrftu þau að fara að mestu gangandi.
Við vorum flutt með rútum uppá Ölkelduháls og gengum svo þaðan niður Hveradalinn og niður í uppsveit Hveragerðis. Þessi ferð var bara skemmtileg og allt gekk eins og í sögu. Það var stoppað í nesti og sullað í læknum og krakkarnir léku sér eins og lömb á vordegi.
Þó þau séu komin í níunda bekk gátu þau ekki annað en haft gaman af ferðinni og það gerði, alla vega ég, líka. Mér er sagt að þetta séu einir sex til sjö kílómetrar.
Við komum heim í skóla um hádegi og þá var "skólinn" búinn þann daginn hjá krökkunum en ég átti nokkra tíma eftir og fann mér eitthvað til dundurs á vinnustað. Rétt fyrir þrjú fundum við allsnarpan jarðskjálftakipp í skólanum, en gerðum ekkert veður útaf því. Það var líkast því að einhver skellti hurð heldur hraustlega.
Dundið, sem var bókaflutningar, entist mér þó ekki nema rétt fram yfir þrjú og þá var mér líka orðið óbærilega heitt í gönguflíkunum. Sólbökuð var ég líka svo lá við skaða. Ég samdi um það við Rúnu að ég fengi að fara heim í fyrra lagi.
Eftir að heim kom byrjaði ég á að skipta um föt og strjúka yfir sólbrunann. Fletti svo Mogganum lauslega. Svo settist ég hér við tölvuna og bjó mig undir að setja inn myndirnar sem ég tók í ferðinni.
Ég heyrði drunurnar fyrst og var strax nokkuð með á nótunum, enda var húsið nærri því um leið farið að hristast til eins og korktappi í stórsjó. Ég stóð upp og sneri mér við og sá þá að veggurinn virtist við það að slíta sig lausan frá gólfinu. Ég stökk í gegnum ganginn og fram í forstofuna, opnaði út og stökk út á tröppur. Berfætt.
Bíllinn stóð í innkeyrslunni og ruggaði af einni hlið á aðra. Ég sá að fjallið var horfið í þéttum rykmekki. Ég sá ekkert annað lífsmark í kringum mig. Það var enginn í öllu hverfinu nema ég. Ég stökk niður af tröppunum og út að götunni. Kannski voru þarna liðnar þrjár sekúndur frá því skjálftanum lauk. Fínu steinarnir sem hann Hemmi lagði hér í innkeyrsluna fyrir fáum árum voru allir á rúi og stúi og endinn á gangstéttinni reis uppá rönd.
Sonur nágrannans kom út úr húsinu á móti. "Þessi var soldið öflugur" kallaði hann, og ég stökk af stað til hans. Berfætt. Yfir götuna, og prísaði mig sæla fyrir að vera ekki lengur eina lífsmarkið í austurbænum. Við stóðum svo þarna saman og horfðum á rykkmökkinn líða inn með fjallinu austanverðu og eyðast smám saman upp með Soginu. Það var vestan andvari.
Þarna stóðum við svo tvö, en samt svo alein, ég hélt í ljósastaurinn og kannski strákinn líka, ég man það ekkert. Þetta er stór strákur, reyndar alveg maður. En hann var og er einn af krökkunum í hverfinu og þau verða alltaf krakkar.
Þá kom þabbi hans og beygði uppað húsinu sínu á tveimur hjólum, hentist út og spurði "eru allir heilir"? Við önsuðum engu, hann sá það nú víst? Ég losaði takið á staurnum, og kannski stráknum líka, hann elti pabba sinn inn í húsið, en ég sneri til baka yfir götuna. Berfætt.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já Helga það er ekki skemmtileg lífsreynsla að upplifa svona sterkan skjálfta. Ég sjálf var á 4.hæð í blokk sem er skelfilegt og ég upplifi það aftur og aftur í huganum Stend sjálfa mig að því að sitja og stara út í loftið og virðist ekki vera að hugsa um neitt. Fyrr en allt í einu... skýst þessi minning óvart upp í hugann.
En hvernig var umhorfs inni hjá þér Helga?
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 2.6.2008 kl. 22:09
"Framhaldssaga" Rannveig, ég reyni að gera svo mikið úr þessu sem mögulegt er. Kannski alveg til 17. júní.kv.
Helga R. Einarsdóttir, 2.6.2008 kl. 22:26
HÆ hæ Helga.
Það er nú gott að enginn slasaðist!
Þetta var ekki skemmtileg lífsreynsla. Ég var stödd í Miðgarði og ég veit ekki ennþá hvernig ég komst út! Finnst eins og ég hafi flogið (ég hlýt að hafa hlaupið hratt!!). Þetta verður dagur sem maður mun muna!! ÉG er allavegana ekki til í að upplifa þetta aftur. En vonandi er allt í góðu hjá ykkur heimafyrir.
Kveðja
Berglind
p.s. er búin að sjá ganstéttina fyrir utan hjá þér. Lítur ekki vel út.
Berglind Hafsteins (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 22:38
Þetta minnir mig á hvað ég gerði fyrst eftir að við JKL fórum út úr húsinu, við sátum á tröppunum og ég spurði tvo unglingsstráka hvort þeir hefðu fundið skjálftann ...aðrar mannverur sá ég ekki strax.
Bíð spennt eftir framhaldi. G nótt.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 3.6.2008 kl. 01:09
Hæ hæ Helga og takk fyrir framhaldssöguna, alveg eins og hjá mér eftir skjálftann þá var eins og maður væri einn í heiminum, aleinn fyrir utan skólavist, hangandi á bílnum sínum sem rétt áður hafði hoppað og skoppað, hjúkk hvað ég var feginn að sjá húsvörðinn birtast í skólahurðinni kv Halla
Halla (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 16:50
þetta er mognuð frásögn og ég hef nú verið að hugsa til þín. Ég vona að það sé ekki allt brotið og bramlað inni hjá þér og að húsið hafi ekki skemmst.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 3.6.2008 kl. 19:26
Mér finnst verst að ég hafði ekki vit á að líta til fjallsins, það hefur örugglega verið magnað.
mýrarljósið (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.