12.9.2010 | 20:57
Pönnukökur með rjóma og appelsín í gleri
Ég hef ekki farið í réttir í fimmtán ár, en nú var minn tími kominn og allir vegir færir.
Áður fór ég helst alltaf á móti safninu á miðvikudegi og svo í Hrunaréttir á fimmtudegi, það var áður en réttadögunum var breytt til hagræðis fyrir kaupstaðafólkið og kannski til góða fyrir þá sem ráku sjoppurnar í réttunum. En í mínum réttum var aldrei sjoppa, bara nesti að heiman, pönnukökur brotnar í horn með rabbarbarasultu og rjóma og svo appelsín í gleri. Þetta var löngu áður en við vissum að hægt væri að setja öl í dósir og bjór var ekki til. Tungnaréttir voru á miðvikudegi, svo þangað hef ég aldrei komið.
Nú fór ég þó ekki á móti safninu, fór ekki af stað að heiman fyrr en eftir kvöldmat á fimmtudag og svaf svo heima hjá mömmu um nóttina. Hún ætlaði að sjá til hvort hún kæmi með mér og þá átti ég að vera bílstjórinn á hennar bíl. Það er ljótt að segja frá því, en alltaf þegar ég er með mömmu á ferð þá heimta ég að keyra, reyni að láta sem ég sé að gera henni til þægðar að leyfa henni bara að sitja í og njóta lífsins, en ég held hún sjái í gegnum mig og viti að kjarkurinn minn vill helst hafa þetta svona.
Í þetta sinn vildi þó mamma helst ekki fara af stað um leið og ég, mér dugði ekkert minna en að mæta helst um leið og byrjað væri að rétta kl. 10.00. Hún vildi heldur koma seinna með einhverjum öðrum.
Þess vegna fékk ég far með Guðbjörgu dóttur minni og fjölskyldu, þau voru jafnfús og ég að taka daginn snemma. Þau sóttu mig svo á heljarstórum Toyota jeppa og við vorum fljót uppí réttir. Ég hef áður farið í réttirnar með ýmsu móti. Fyrst, áður en ég man og þegar réttirnar voru hinumegin við Litlu-Laxá fyrir framan Túnsberg, þá bar pabbi mig á bakinu uppeftir en svo var ég gjarnan reidd heim af einhverum góðum manni, sem lánaði pabba þá líka hest. Fyrsta ferðin mín ríðandi á eigin vegum endaði með kollsteypu við réttarvegg, þegar hann Gamli- Rauður snarstoppaði eftir að hafa valhoppað með mig síðasta spölinn. Ég hafði víst ekki mikla stjórn á því ferðalagi, kannski sex eða átta ára, en ég slasaðist ekki. Einu sinni fór ég á henni Skjónu minni, ótaminni með folald í eftirdragi. Það stóð til að skilja folaldið eftir heima, var ekki fínt að vera á folaldsmeri, en þá vildi Skjóna ekki fara, maður ræður ekki alltaf sínum ferðum. Einu sinni var ég á Skjóna mínum og reiddi litla stúlku á hnakknefinu, þá var ég orðin stór og réði yfir eigin hesti- sem var taminn og lét að stjórn.
Réttirnar eru orðnar gamlar, samt ekki eldri en ég, ætli ég hafi ekki verið svona tólf ára þegar þær voru byggðar og þá átti ég kindur svo ég fékk þar dilk til umráða. Þar stóð "Gröf Hvammur Garður" við hliðið og við rákum út til vesturs. Þannig var raðað dilkunum þá, ætlast til að rekið væri út þar sem hentugast væri fyrir rekstrarleiðina.
Þá voru engin plastmerki á kindunum, heldur eingöngu notast við eyrnamörkin og svo brennimörkin á hornum fullorðna fjárins. Markið mitt, "sýlt á báðum og biti aftan hægra" , var skráð í markaskránni og er þar held ég enn. Markaskráin er nú ekki lengur ómissandi rit í réttunum, nú sá ég að þeir sem allt áttu að kunna höfðu A4 örk í plastvasa í hendi og þar voru skráð númer og nöfn þeirra sem áttu fé á fjalli. A7 þýðir Hrunamannahreppur og svo er númer fyrir hvern bæ. Ég og mínir fylgifiskar lærðum númerið á Grafarbakka og í Auðsholti og eftir það var nóg að gera. Útilokað að fara í réttir og gera ekki neitt.
Það var fullt af fólki og fjölgaði stöðugt. Þarna sá ég fólk sem hefur komið í réttirnar frá því fyrst ég man, ekki til að draga fé, heldur til að hitta sveitungana. Það er fyrir marga aðalmálið og ég fann sjálf að það var mitt erindi í þetta sinn. GK blaðamaður sonur minn, kom í réttirnar í embættiserindum, að taka myndir fyrir Sunnlenska fréttablaðið. Hann ætlaði svo að skreppa í Skaftholtsréttir og koma til baka. Ég hef aldrei áður farið í réttirnar í Eystri- hreppnum, þær eru alltaf á sama degi og okkar, þess vegna greip ég tækifærið og fékk að sitja í hjá honum. Mér fannst gaman að koma þar, en við stöldruðum ekki lengi, bara til að ná nokkrum myndum svo fyllsta jafnræðis væri gætt í fjölmiðlinum. Skaftholtsréttir eru fallegar og vel uppgerðar, þar er hægt að láta fara vel um sig á réttarvegg og hafa góða yfirsýn. Ég þekkti þarna líka heilmargt fólk, ég þekki svo marga, er alltaf að sjá það betur og betur.
Þega við komum til baka hafði enn fjölgað fólkinu og enn var eitthvað ódregið, veðrið var eins og best gat verið. Mamma hafði komið á meðan við vorum þar eystra, en í þetta sinn kom hún ekki með pönnukökur eða appelsín í gleri. Líklega væri það nú mitt hlutverka að taka við, en ég stóð mig ekki í því. Ekki í þetta sinn. Við GK komum aðeins við í búðinni í Árnesi og fengum okkur prins og kók, það varð að duga. Það var gaman að hitta kaupmanninn í Árnesi.
Svo voru réttirnar búnar og ég notaði það sem eftir var dagsins til að keyra um sveitina meða mömmu mér við hlið. Það var kjötsúpa á borðum hvar sem komið var og allir jafnglaðir að fá gesti.
Þetta var í síðasta sinn sem réttað er í gömlu réttunum. Nú verður þar allt jafnað við jörðu og svo byggðar nýjar glæsilegar réttir sem verða tilbúnar að ári. Hvernig dilkunum verður raðað þar eða hvað þeir verða margir veit ég ekki en ég veit þó að enginn verður þar merktur "Gröf Hvammur Garður", við eigum ekki lengur kindur til að draga í dilk. En ég er nú aldeilis fullviss um að ég á samt erindi í réttirnar - til að draga fyrir alla þá sem kenna mér númerin sín, og svo til að hitta alla gömlu sveitungana- sem ég er ekki í nokkrum vafa um að vilja hitta mig. Hrunamenn eru og verða alltaf besta fók.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir samveruna
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 12.9.2010 kl. 21:07
Fékk Gummi sér kók?!? Suss! Hann sagðist vera hættur að drekka kók. Svo les maður bara þetta á blogginu hjá móður hans! OMG!
Jóhanna, 13.9.2010 kl. 13:00
Njjaah- líklega var það appelsín sem ég gaf honum.
Helga R. Einarsdóttir, 13.9.2010 kl. 16:00
Alltaf finnst mér skemmtilegra að lesa eitthvað svona heldur en einhverjar fréttatengdar vangaveltur af mbl.is
GK, 14.9.2010 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.