Blámóðan mikla

Það sá ekki til fjalla á Suðurlandi í dag. Jú aðeins Ingólfsfjallið sást í blárri móðu sem annars byrgði fyrir fjallasýn. En það var nú heldur engin þörf á að góna til fjalla akkúrat núna. Dagurinn þétthlaðinn verkefnum.Ég byrjaði á að lesa Moggann rúmelga átta, það var ekkert merkilegt í honum, ekki neitt. Svo kom að fréttablaðinu og þar var örlítið skárra. Þar var auglýst eftir skólastjóra fyrir skólann minn, af hverju auglýsir ekki bærinn í Mogganum?  Ef eiginmaðurinn hefði ekki hjólað niður á bensínstöð að sækja Fréttablaðið þá hefði ég ekkert séð þessa auglýsingu.  Ekki svo sem eins og ég gæti nokkuð orðið skólastjóri, en hvað með alla hina, sem kannski eiga ekki einu sinni hjól?

Svo var mamma líka í Fréttablaðinu. Smáklausa eftir hana um 70 ára afmæli hernámsins á Íslandi. Þá var hún fimmtán ára kvennaskólamær og bjó á Suðurgötu 2 í Reykjavík. Það var mynd af henni  líka, ein ný og svo önnur 70 ára gömul.                 Ekki var nú meira í þessu blaði. Ég opnaði tölvu og leit eftir pósti og fési.          Pósturinn færði mér áminningu frá skólasystrum um hitting um næstu helgi - austur í Mýrdal. Kannski heppin eða kannski ekki? ég kemst ekki í þetta sinn elsku stelpur, en njótið stundarinnar hvort sem verður í öskunni eða annarsstaðar. 

Næst var svo búðarferðin og tók ekki nema korter að fylla í allar eyður skápanna svo dugi næstu viku. Og kostaði bara smáaura. 

Sóttum svo stóra kerru og fylltum með öllu ruslinu sem ég hef rótað upp af lóðinni undanfarna daga. Greinar, gras mosi grjót, leifar af öllu því sem blómstraði á síðasta sumri.  Og ég ákvað svo að fara með á haugana, þessa margumræddu nýju ruslahauga. Þegar við komum niður fyrir Karlakórshús sáum við mikinn reykjarmökk stíga til himins og héldum fyrst að Geirakotsbændur væru að brenna sinu. En svo kom á daginn að þarna lá í loftinu vegaryk ógurlegt sem hreinlátir bæjarbúar þyrluðu undan bílum og kerrum. Ruslahaugavegurinn er ómalbikaður og umferðin var þétt. Þegar þangað kom var okkur vísað til garðaúrgangssvæðis og tæmdum þar kerruna.                           Þarna er ekki gott að henda rusli í þurrviðri og roki, það er það eina sem ég ennþá veit, hef aldrei farið í rigningu.

Svo skiluðum við kerrunni, fórum heim og skiptum um ham.  Hélldum síðan í austurátt. Á Hvolsvelli kíktum við aðeins á fótboltaleik, en það var ekki sjón að sjá fyrir liðið sem við hefðum ætlað að halda með, svo við fórum bara.  Slógum í og keyrðum alla leið inn að Fljótsdal að skoða gos. Þar var fullt af fólki og bílum og gosið sást ágætlega.        Samt ekkert mikið betur en í myndavélunum á Þórólfsfelli, og engar drunur heyrði ég. En það er alltaf gaman að keyra um Fljótshlíðina á vorin. Lömb á túnum og bændur að slóðadraga, einn á jeppanum, en annar á fjórhjóli. Alveg gekk það fram af mér hvað bændur þarna eiga mikið af hrossum, margir tugir á mörgum túnum og nærri nagað að rót hjá sumum. Við Kaffi Langbrók voru hjólhýsi og húsbílar og fellihýsi í röðum. 

Á Hvolsvelli er verið að byggja við Hlíðarenda og sýndist ekki veita af. Þar var fullt af ferðafólki. Móðan bláa byrgði sýn uppá Rangárvellina, Heklu og Búrfellið mátti aðeins greina eins og í bláum draumi. Mér er sagt að blámóðan sé sending frá Evrópusambandinu, umfram mengun sem við fáum í skiptum fyrir öskuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband