Færsluflokkur: Dægurmál

Þá bara fer ég alveg í flækju

Eins gott að svona kosningavesen er ekki árlega. Nú eru farnir að slæðast frambjóðendur inn á kaffistofuna til okkar. Komu tveir í dag. Mér finnst þetta alveg alveg einstaklega óþægilegt. Ekkert endilega af því þeir koma í kaffitímanum, Það væri eins ef þeim tækist að króa mig af í lauginni. Það er bara eitthvað svo pínlegt að hlusta á fullorðið fólk reyna að telja öðru fullorðnu fólki trú um að það geti bjargað heiminum.

Ég held að þetta sé eitthvað úr uppeldinu. Ásamt mörgu öðru var mér innprentað að enginn skyldi upphefja sjálfan sig, og allra síst á annarra kostnað.Og ef ég verð vitni að þessháttar athæfi fer ég bara alveg í flækju.

Það skal heldur enginn reyna að segja mér að þetta aumingja fólk trúi í alvöru sjálft öllu sem það segir.          Þess vegna borða ég hratt í kaffinu þessa dagana og kem mér í var annarsstaðar eins fljótt og ég get.


Það sem skiptir máli í pólitík

Ég er að hekla kjól á hana Siggu. Fór reyndar áðan og sótti hana svo hún gæti mátað, ætli hún fái ekki að vera nokkra daga. Það er allt í lagi að skilja hana eftir eina heima á meðan ég er í vinnunni og ekki þarf ég að hafa áhyggjur af að hún verði svöng. Sigga er svo dæmalaust fyrirhafnarlaus dúkka.

Á meðan ég sat og saumaði kjólinn saman áðan hlustaði ég á kastljósið með öðru eyranu. Auðvitað pólitík. Og ég var einu sinni búin að lofa að tala ekkert um pólitík. En ég var samt að hugsa, það er ekki hægt annað en hugsa. Og það sem ég hugsaði var um útlitið og framkomuna hjá þessu fólki, sem sat þarna og lýsti ágætum sínum og síns flokks. Ég er nú ekkert alveg viss um hver er hvar eða hvað. En eitthvað veit ég,  og ég var að hugsa um það. Útlit og framkoma skiptir máli.

Ef Halldór hefði látið Guðna verða formann en ekki Jón, hefði kannski flokkurinn byrjað að vaxa um leið. En þá hefði verið svo áberandi að Guðni væri skemmtilegri en Halldór, og það vildi Halldór ekki. Þess vegna valdi hann Jón, sem er bara álíka skemmtilegur og hann sjálfur. Sem sagt ekkert skemmtilegur.  Örugglega er Jón blessaður ákaflega vel gefinn og klár kall, en hann er ekki týpa til að sitja í sjónvarpi við hliðina á Katrínu og Þorgerði og stráknum í Skarði. Þar hefði Guðni komið miklu betur út, og það er það sem skiptir máli í pólitíkinni í dag. Útgeislun, lúkkið og húmorinn!


Óteljandi rottur léku sér í geislanum

Í mörg ár hefur verið venja á minu heimili að skreppa í bíltúr af og til. Þegar krakkarnir voru litlir var farið í ferðir um nágrannasveitirnar, oft upp í hrepp og Hveragerði var vinsæll staður. Börnin stóðu gjarnan afturí eða héngu á milli framsætanna spyrjandi um allt það sem fyrir augun bar. Þau  kunna líka alveg að rata um nágrannasveitirnar börnin mín. Reyndar voru smábörn nú oftast höfð í burðarrúmum eða stól. Ég held við höfum alltaf átt einhver svoleiðis ílát.

 Þetta voru svokallaðir "sunnudagsbíltúrar" og tóku klukkutíma eða tvo.                         þá vorum við komin á sæmilega bíla sem komust leiðar sinnar yfirleitt áfallalaust.          En á undan því gekk á ýmsu. Áður en farið var að rúnta um með krakka hringlandi afturí á sunnudögum áttum við ýmis farartæki sem varla var treystandi út fyrir bæjarmörkin, sem þá hétu nú reyndar bara hreppamörk. Og  ekki víst að þorandi væri að hafa krakka afturí. Hann gat dottið útum glugga sem ekki var hægt að loka eða niður um glufu í gólfinu. (Kannski er þetta nú fullgróf lýsing).

Þegar ástandið var svona ræddi ekki um langar ferðir. Bílasalan var nokkuð ákveðinn viðkomustaður, (skiljanlega) og svo var vinsælt að fara í myrkri upp á ruslahauga. Það var vegna þess að þar var allt fullt af rottum. Ruslinu var nefnilega sturtað bara si svona í hrúgu og svo kannski mokað yfir öðru hvoru. Þegar bílljósunum var beint yfir haugasvæðið mátti þar sjá rotturnar í hundraðatali hopa og skoppa um allt.             Þær blinduðust í geislanum og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Þetta fannst mörgum hin besta skemmtun. Það þurfti ekki alltaf að kosta svo mikið að gera sér dagamun á þeim árum!


Margt að sjá í Flóanum

Karlakórinn hélt tónleika á Stokkseyri síðdegis. Þegar ég var að ganga frá eftir hádegið fékk ég þá "brilliant" hugmynd að koma mér hjá því að elda kvöldmat.  Ég gerði samsæri við hana Mundu, hún á hann Hemma sem er líka í kórnum. Við reyndar sögðum körlunum líka frá því að við ætluðum að bjóða þeim í humarsúpu "Við fjöruborðið" eftir tónleikana. Þeir urðu  að fara saman á bíl svo við gætum komið á eftir á hinum.

Svo fór allt eins og til stóð. Við vorum komnar niðureftir svona rétt fyrir hálf sjö og þá átti kórinn eftir þrjú lög. Við smygluðum okkur í salinn og sátum til enda. Það voru alveg svona sextíu manns á tónleikum, sem þykir gott á sunnudagssíðdegi í miðjum vorönnum. Þegar lokið var fórum við í súpuna og þar gekk allt eins og best gat verið. Þarna var allt fullt af fólki, ég hugsa að það sé bara oftast þannig. Humarsúpan á Stokkseyri er víðfræg. Indælir strákar þjónuðu okkur og þar með einn sem lauk tíunda bekk hjá okkur fyrir örfáum árum. En árin eru nú líka undrafljót að líða.

  það fór ekki hjá því að sumir gæfu okkur hornauga. Karlarnir voru nefnilega enn í kórfötunum. Smóking með vínrauðum linda og alles. Við hins vegar vorum bara svona ríflega sunnudagsfínar. Kannski hefur einhver hugsað að þarna væri verið að halda uppá tvöfalt gullbrúðkaup, "en ósköp eru þær druslulegar svona samanborið við þá". Ef við gerum þetta aftur næsta ár ætlum við að mæta í síðkjólum. Það er ótrúlega gaman að gera etthvað öðruvísi og láta "venjulega" fólkið hafa eitthvað að spekúlera.

Svo var súpan búin og þá fórum við sitt par á hvorum bíl, að skoða nýbyggingahverfi þeirra Stokkseyringa. Það er nú ekkert annað að við eina götu, sem heitir víst Ólafsvellir, er verið að byggja að minnsta kosti átta hús. Og það er víst ekki það eina sem byggt er á Stokkseyri þessa dagana. Það er ekki langt síðan árin liðu  mörg í röð að ekki var slegið upp hundakofa þar í neðraVið snerum svo heim, hvað þá heilu húsi.  þarna komun við að vænu parhúsi í byggingu og þar var flaggað á nýreistri þakgrindinni. Reisugilli, en ekki nokkra sál að sjá sem gerði sig líklega til að bjóða okkur í bæinn. En í næstu húsum sáum við hvar kíkt var út um rifur gluggatjalda. "Hvað í ósköpunum var þessi smokingklædda hersing að vilja þarna"?

Við snerum svo heim á leið og ekki er sú leiðin löng. Við sáum hrossin við vegamótin að Eyrabakka. Þar hafa þau verið öll árin allan veturinn, útigangsgrey sem fá þó víst vel að éta. Við sáum umferð í Tjarnabyggðinni. Þar eru nú risin  hús og malarhaugar um allt benda til að meira standi til. Við sáum fermingargjafirnar bornar út ú veislunni sem var í kórhúsinu í dag. Sennilega mest umslög? Við sáum að verið var að þvo gluggana á TRS eða Símanum eða hvað þetta nú heitir. Gluggarnir voru alla vega þvegnir vel.

     Við sáum veiðibjöllurnar í stórum hóp á hótelplaninu að gæða sér á ruslinu sem enginn hirðir. Kannski er það gert með vilja "munið okkar minnstu bræður". Og við tróðumst í gegnum traffíkina á Rauðholtinu sem varla er fært núna vegna byggingarframkvæmda fyrirtækisins sem hefur selt okkur bensín öll árin undir nafninu ESSO. En heitir nú eitthvað sem enginn botnar í. "NEMO ONE"  kannski? Ef samráð gleymist með nafnbreytingunni einni geta fleiri notað þetta bragð. Mislukkaðir frambjóðendur gætu látið prenta t.d. bara seinna nafnið sitt á kjörseðlana, þá fattar enginn að þetta er sá sem gerði hinn eða þennan skandalann í fyrra?

Um leið og heim var komið hringdi dyrabjallan og á tröppunum stóðu tvær litlar ókunnugar stúlkur, svona 4 og 5 ára, og spurðu hvort ég ætti tómar flöskur. Ég átti engar tómar, sunddeildin er nýbúin að vera hér á ferð. Þær voru með tvo Bónuspoka, nokkrar flöskur í öðrum en enga í hinum.  Ætli þetta sé atvinnuvegur eða afþreying smábarna á Selfossi í dag? Hvað veit maður.  Útivistartíminn var alla vega löngu liðinn.


Allt að lifna

Það var svo frábær rigningarsuddi í morgun að mér fannst synd að ekki fengju allir að njóta þess. Ég opnaði vermireitinn sem er á baklóðinni til að fræin og smáplönturnar fengju smá vökvun. Þar var gaman á að líta. Fræin eru hreint engin fræ lengur, þau eru orðin að litlum grænum laufblöðum. Og litlu plönturnar eru farnar að vaxa. Eftir vökvunina set ég gluggana aftur yfir og nú verður ekki langt að bíða þess að allt standi þarna í blóma. Já sumarið er örugglega komið.

Í pottinum

Ég var að koma úr sundi. Synti 300 og fór í potta. Ég byrja alltaf á þeim sjóðheita, en þar er aldrei nokkur maður. Hinn var í morgun þéttsetinn, og í þetta skipti eingöngu af körlum. Það voru fjórar konur í lauginni og allar syndandi hver sína einhver hundruð metra, en karlarnir sátu í pottinum og grobbuðu, heyrði ég þegar þangað kom.

Sumir gulbrúnir, sögðu sögur af koníaksdrykkju á börunum á Canarí og hvað þeim hafði tekist vel upp í viðskiptum við innfædda, þegar þeir voru "að kaupa fötin á konuna".  Aðrir lýstu snilldartöktum sínum við matargerð og sögðust jafnvel ekki slá af við grillið í garðinum þó blindbylur geisaði á miðjum þorra. Einhverjar lýsingar voru líka á færni þeirra í viðskiptum við nútímafarartæki, sem þurfa nú aldeilis aðra umönnum en Willys jepparnir hér áður, ég tala nú ekki um Ferguson traktorana ´51, sem voru með startarann í gírstönginni,en það vissi enginn.  Bændur á Íslandi voru að því komnir að skila trakrorunum öllum til útlanda aftur vegna þessa galla. Það var nú lágmarkið að hægt væri að koma þessu þarfaþingi í gang.

Í þessum potti hafði sem sagt ekki nokkur maður áhuga á pólitík, eða veðrinu, eða neinu því sem er að gerast í bæjarmálunum. Er annars eitthvað að gerast? Ég satt að segja veit það ekki, ég ætlaði að komast að  því í pottinum en það mistókst.


Já Villi - þú ert á réttri leið -

 -þó í seinna lagi  sé.  Svo bara reyna að fá Eymundsson til að leigja á horninu og þá verður allt gott eins og í gamla daga.  Ég held hann hafi búið þarna þegar hann var að selja fátæka fólkinu farmiðana til Vesturheims. Rándýrt, alveg ríflega fimmtíu krónur miðinn held ég. Það urðu margir að selja allt sem þeir áttu fyrir farinu. En sumir áttu ekki neitt svo hreppurinn varð að borga. Skárra en að sjá fyrir heilli fjölskyldu árum saman. Kannski fjölskyldu sem fjölgaði sér stöðugt og ekki treystandi á að öll börnin sáluðust jafnóðum.

Spurning hvort ekki mætti reka ferðaskrifstofu í húsinu með bókabúðinni. það er hvorugt verulega eldfimur rekstur. Bændaferðir gætu kannski fengið þar inni, þeir selja grimmt til Kanada.

Það er svolítið merkilegt að ég hef hvergi fundið neitt um nokkurn ættingja minn sem fór vestur. Mínum frændum var víst skipt í tvær fylkingar. Helmingurinn hafði það bara nokkuð gott og hafði engan áhuga á að flytja burt, en hinn átti ekki nokkurn skapaðan hlut sem hægt væri að selja fyrir farmiða til betra lífs. Líklega hefur bara enginn farið neitt nema hann Jónas. En hann fór bara til Danmerkur og dó.                                  Ég vildi alveg eiga frændfólk ,í Gimli til dæmis, þá gæti ég alltaf verið að fara þangað í heimsóknir.


Vorið og "grasveðrið"

Maður á aldrei að kvarta undan rigningunni, hugsið ykkur bara ef hún væri ekki? Þá væri hér bara aldeilis ekkert líf.

Nú er í alvöru farið að vora undir fjöllunum. Þar kemur sumarið alltaf mörgum vikum fyrr en hér hjá okkur. Það var ekki að ástæðulausu sem ég sagði hér um árið að ef ég ætti eftir að eiga heima annarsstaðar en uppi í hrepp skyldi það vera undir fjöllunum. En svo fór nú allt á annan veg, líklega er engin leið að taka svona ákvarðanir þegar maður er átján ára. En það var bara alltaf svo gott veðrið þar. Sólskin og blíða eða suddavæta í logni. Það var grasveður.


Ef húsin voru svona ómetanleg

menningarverðmæti - hvers vegna í ósköpunum var þá ekki annaðhvort ríki eða borg búið að taka þau að sér, og setja þar inn einhverja starfssemi sem ekki hefur í för með sér eins mikla brunahættu og veitngahúsin? Þó eldurinn hafi kannski ekki komið upp í veitingahúsi í þetta sinn, hefur maður oft og iðulega heyrt að hvergi sé meiri hætta á eldsvoða en þar. 

Mér fannst líka eitthvað klaufalegt orðalagið hjá manninum í sjónvarpinu í gær þegar hann sagði "að við ættum að forðast að vera með stórbruna í borginni"?                              Eru virkilega einhverjir til sem ekki forðast "að vera með bruna"? 


Rúnturinn

Alltaf er ég að muna eftir einhverju sem aumingja nútímafólkið fær aldrei að reyna. Rúnturinn í Reykjavík. Ég vann einn vetur í Skáltúni, sem þýddi að ég var í bænum flest kvöld ef ég átti ekki kvöldvakt. Að vísu minnir mig að þá færum við alltaf í Þórskaffi, stundum fimm daga vikunnar. En það kom líka fyrir að við færum á rúntinn.

En svo veturinn sem ég var í Húsmæðraskóla Reykjavíkur var þessi dýrðlegi hringur staðurinn sem við skólastúlkur slitum skónum okkar á kvöld eftir kvöld.  Hallærisplanið var fastur viðkomustaður, þar hófst reyndar okkar ganga, þar sem við komum ofan af Sólvallagötu. Svo gengum við á móti umferðinni, austur Austurstrætið, Lækjargötu og svo um Austurvöll út í Aðalstræti. oft kom fyrir að við næðum ekki hringnum áður en búið var að "húkka" okkur uppí bíl. En svo voru kvöld sem við röltum hring eftir hring án þess að nokkur hefði áhuga á okkur.

  Ef við urðum mjög þreyttar kom fyrir að við færum á Hressó í kók, annars vorum við bara á rölti. Laugardagskvöld voru þó öðruvísi. Þá dubbuðum við okkur upp og fórum í Glaumbæ. Það er enn eitt sem allir eru að missa af. Glaumbær brann eins og fleira í miðbænum, en þar var geggjað að vera. Líka fórum við stundum á Hótel Borg og þar man ég eftir að hafa tjúttað við einhvern frábæran ókunnugan dansara og við vorum alein á gólfinu. Eftir dansinn gaf söngvari hljómsveitarinnar, Harald G.Haralds, mér merki og vildi tala við mig. það var til að segja mér að ég flaggaði undirpilsinu. Bleiku stífuðu undirpilsi. Líklega er það vegna þessa að ég man svo vel eftir þessum dansi.

Það var ekki fyrr en skólanum lauk, einhverntíman í maí, að fór að sjá almennilega á mér.  Ég var nefnilega ólétt í öllu fjörinu þennan vetur. En það gerði ekkert til ég var hraust eins og fíll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband