Færsluflokkur: Dægurmál

Von á hustvindum

DSCF2178DSCF2191DSCF2216DSCF2208DSCF2214DSCF2180DSCF2186DSCF2187Hann spáir vitlausu veðri, svona alvöru haustáhlaupi með roki og rigningu.

Þess vegna fórum við snemma á fætur og brunuðum í sveitina til að bjarga verðmætum. Maður á alltaf að taka mark á slæmri spá.

Í Mýrinni var allt með kyrrum kjörum, aðeins hreyfing á hæstu trjátoppum en blíða við jörð og rófurnar og gulræturnar gáfu frá sér ánægjustrauma sem lýstu áköfum vexti.

Við tókum nú samt niður fortjaldið og komum öllum lausum hlutum í húsaskjól, sjálfsagt að nota ferðina. Seinna þarf svo að breiða akryl yfir aspasinn, planta einu tré eða tveim og sitthvað annað sem tilheyrir vetrarkomunni.

En eins og var í dag sýndist veturinn langt undan- en haustið kannski á næstu grösum.


Haust eða síðsumar?

DSCF2157DSCF2154DSCF2161DSCF2162DSCF2169DSCF2173September er meira en hálfnaður og sumarið hefur enn ekki kvatt. Það hlaut að fara þannig eftir kalt vor og síðbúið sumar, við eigum það skilið.

Þetta fann ég á rölti í kringum húsið í dag.


Þá var komið haust

Scan10004Einn réttadagsmorgunn fyrir einhverjum árum fór ég ríðandi að heiman á henni Skjónu. Skjóna var varla meira en tryppi, ótamin og myndi víst aldrei verða tamin af því hún hafði lent í þeirri ógæfu að eignast folald. Á þeim árum var ótímabær folaldseign talin vísbending um að mertriyppið myndi aldrei verða almennilegt reiðhross, hún Skjóna var dæmd til áframhaldandi framleiðslu folalda, sem ekki var gert ráð fyrir að yrðu móður sinni fremri á nokkurn hátt. Það var talið víst að saltið í tunnunni væri þeirra eina framtíðarkrydd í tilverunni.En alla vega, þennan septembermorgunn lögðum við Skjóna af stað í réttirnar, með hnakk og allt, en þá var ekkert sjálfgefið að ellefu ára stelpa á mislukkaðri folaldsmeri hefði hnakk til umráða. Það átti að skilja folaldið eftir heima með öðrum gagnslausum hrossum, en þegar til kom þvertók Skjóna fyrir að fara án afkvæmisins, eins og það var nú líka ómerkilegt, brúnt merfolald- lausaleiks eins og mamman. Það varð að hafa það, við tókum afkvæmið með. En þar með var fj---- laus. Allt hrossastóðið- tryppi, folaldsmerar og aflóga truntur vildu koma líka. Ferðin varð því heldur sneypuleg, ég á Skjónu í miðju stóðinu sem rekið var af þeim sem höfðu stjórn á reiðskjótum sínum.

En það sem ég ætlaði í upphafi að segja-- á leiðinni í Hrunaréttir þennan dag voru stráin á bakka Litlu-Laxár öll hrímuð af frosti, þá var komið haust.  Hér fylgir mynd af henni Skjónu með okkur systkinum- áður en hún "lenti í ógæfunni".


Sólskinsdagur í Skorradal

DSCF1943DSCF1928DSCF1932DSCF1964Jæja- ég var búin að lofa að segja ykkur frá.Ferðin hófst í morgun kl.10.30 í sólskini og blíðviðri. Við tókum stefnu á Þingvelli, í aðra röndina með það í huga að fara Uxahryggi, en þegar til kastanna kom völdum við frekar Kjósarskarðið. Þar vorum við jú líklega nær því að fara sömu leið og hann Björn langalangafi, þegar hann fór frá Skógarkoti yfir í Skorradalinn til að kaupa sér jörð. Líklegast hefur hann farið yfir Leggjarbrjót og svo Síldarmannagöturnar, eða eitthvað þar nærri. Svo flutti hann að Vatnshorni með konuna sína, hana Solveigu dóttur Björns Pálssonar Þingvallaprests og drenginn Björn sem seinna varð langafi minn.Lóan var farin að hópa sig í Kjósinni, það styttist til haustsins, og í Hvalfirðinum var strekkingsvindur.Okkur hafði verið sagt að koma að Fitjum fyrir hálf tvö af því að þá skyldi lagt af stað fram að Vatnshorni og yrði rúta fyrir þá sem ekki voru bílum búnir til ófæruferða. Þegar að Fitjum kom var það nokkurt fjölmenni fyrir og ungt fólk stóð úti á vegi og vísaði leið, það var ekki alveg komið að brottför. Við komumst fljótlega að því að okkur myndi fært alla leið þó ekki værum við á ofuréppa og einnig fengum við í aftursætið mann sem ferðaðist "bara" á Skoda, sem útilokað var að kæmist alla leið. Þessi maður reyndist okkur hið mesta happ, þar sem hann var öllu kunnugur í sveitinni og fræddi okkur um margt sem við annars hefðum ekkert heyrt um, jafnvel flaut þar með innansveitarslúður sem ekkert er vert að ræða frekar.Enn var beðið, þó klukkan væri vel yfir hálf og fljótlega komumst við að því að það var ekki að ástæðulausu. Forsetinn var væntanlegur í ferðina og hafði eitthvað tafist.Samferðamaðurinn sagði það ofur eðlilegt að Ólafur kæmi með, þar sem hann væri ættaður þarna úr sveitinni, reyndar frá næsta bæ við Vatnshorn. Svo kom á endanum svartur glæsijeppi með fána á húddi og honum var plantað í röðina- fyrsti bíll á eftir rútunni hans Sæmundar, sem lagði nú af stað yfir ána. Leiðin var seinfarin, en svo stutt er þarna á milli bæjanna að við komumst að Vatnshorni á korteri eða svo og gengum síðasta spölinn. Þarna varð svo samankominn fjöldi manns, sennilega nærri 150 var talað um seinna. Skógræktarfólk frá Noregi var þarna, flestir framámenn í skógrækt á Íslandi, líka norskir fulltrúar hinna ýmsu "kommuna", eða sveitarfélaga þar eystra. Fulltrúar ráðuneyta, hreppsnefndin í Skorradal, sóknarnefndin og sveitungar bæði búsettir og burtfluttir. Þetta var greinileg mun merkari samkoma en við höfðum búist við, höfðum víst ekki alveg gert okkur grein fyrir því hversu merkilegt pakkhúsið í Vatnshorni var og er.Upphaflega pakkhúsið flutti hann Björn langafi með sér heim frá Noregi þegar hann lauk búnaðarnámi þar ytra. Þá var það hús algert undur í sveitinni. Hús úr timbri uppá þrjár hæðir hafði aldrei nokkrum manni dottið í hug að myndi rísa í Skorradal. Það pakkhús sem í dag var vígt er nákvæm eftirmynd þess gamla og að nokkru leyti byggt úr sömu viðum, en að öðru leyti er notað timbur úr skógi Skorradals.Það voru haldnar nokkrar ræður, flestar á skandinavisku svo allir skildu. Hulda á Fitjum talaði, en hún á mestan heiður af þessu öllu ásamt Skógrækt ríkisins, og skógræktarstjóri hélt tölu einsog sést á mynd. Svo ávarpaði forsetinn samkomuna og norskir gestir líka. Að lokum var klippt á borðann og kom þá í ljós að húsið var fullt af félögum úr Þjóðdansafélaginu sem komu fegnir út og tóku til að dansa og syngja þarna fyrir utan. Líklega hefur ekki verið meiri hátíð haldin í sveitinni svo árum skipti. Svo var nú aftur snúið að Fitjum og þar boðið til veislu í skemmunni. Hulda bauð gestum að ganga þar inn, en sagðist svo ekki ætla að blanda sér frekar í það mál, því aðrir væru þar sér færari á því sviði. Og svo sannarlega var það rétt hjá henni, fyrir innan tóku félagarnir Beggi og Pascal á móti okkur með vín og mat á borðum. Skemman fylltist af fólki og líklega vel það.Þegar allir voru sestir var gengið um salinn og boðið staup af bláberjavíni, heimagerðum eðaldrykk og svo var tekið til matar.

Svo komu fleiri ræður og gjafir voru afhentar frá vinum í Noregi. Ein frænka mín, ættuð frá Vatnshorni var þarna og flutti vísur eftir stórskáld og svo sjálfa sig, sem kemur ekki á óvart.                                   Ég heilsaði henni seinna og kynnti mig, og hún taldi sig þá vita deili á mér og bað að heilsa, sérstaklega einni frænku minni, henni Solveigu Jónsdóttur. Þið hinar frænkur verðið bara að þola það.    Ég náði mér í annað staup af bláberjavíninu um leið og ég fór aftur út í sólskinið.     

Þegar klukkan var að verða sex yfirgáfum við Ólafur Ragnar Skorradalinn, hann til að fara lengra norður að hitta norska kónginn, sem er þar einhversstaðar að veiða, en við til að komast heim á Selfoss að horfa á fréttirnar.   Pílagrímsferð í Skorradal er lokið og mega ættingjar gjarnan vita að þar var búsældarlegt í dag, og líklega er skógurinn heldur hávaxnari núna en þegar forfeðurnir bjuggu þar á árum áður.

Kærar þakki fyrir mig Hulda á Fitjum, þetta var yndislegur dagur.


Þegar klámið var gert útlægt úr Fossnesti

Á "góðu árunum" voru ekki seld klámblöð í Fossnesti. Við, "staffið", ákváðum það bara sjálfar án þess að spyrja kóng eða prest- þýð: stjóra eða eigendur. Ef sölumenn buðu þessháttar varning sögðum við "að svoleiðis væri ekki selt hér" og komumst upp með það. Einhver hafði þó víst komist þarna inn áður en við tókum völdin og hann sendi blöð í pósti þegar þau komu út-- við bara endursendum blaðapakkann og þegar við höfðum gert það nokkrum sinnum kom kauði og vildi vita hvers vegna henn fengi allt í hausinn og við bara sögðum honum að viðskiptum væri lokið.
Ég man ekki einu sinni hvað þessi blöð hétu, en ég man hvernig "kauðinn" leit út,hann var eimitt með "svoleiðis" svip.
Það kom að því að við fengum alveg frið fyrir öllum svona "perraútgáfum",í einhver ár, alveg þangð til Davíð Þór laumaðist inn á skrifstofu og gerði sölusamning fyrir Bleikt og Blátt.
Hann samdi þá víst við karlmann og taldi honum trú um að þetta væri skemmti og fræðslurit, eimitt það sem ferðafólk og austurbæingar þyrftu helst að lesa.
Ég man reyndar ekki eftir að þetta B&B blað næði neinum hæðum í sölu, var innpakkað í plast og innanhússkarlar(leigubílstjórar) þorðu líklega ekki í okkar viðurvist að láta sjá að þeir hefðu áhuga á að skoða það.
Sennilega hrundi svo þetta skírlífisvígi eftir að okkar ráðstjórn lauk, en var á meðan var og ég man ekki eftir mikilli eða örvæntingarfullri eftirspurn, var víst hægt að komast af án þessa- eða finna það í Hafnarsjoppunni?

Berin í ár- eru þau frá í fyrra?

Í byrjun ágústmánaðar er oft farið að spá í berjasprettuna og útlit fyrir saft og sultugerð haustsins.
Nú er kominn ágúst en ég hef ekkert heyrt af útlitinu þetta árið? Reyndar jú frá einum stað, Borgarfirði frétti ég að í ár yrðu engin ber. Kannski ekki skrýtið, harðindin í vor hafa gert sitt til að skemma.
En það er annað svolítið- eða mikið undarlegt, sem ég hef bæði heyrt um og séð.
Á krækilynginu- ég hef séð það þar- eru berin frá í fyrra ósnert og heil, þau sem ekki hafa verið tínd síðasta haust?
Ég sá lyng í Þykkvabænum alþakið svörtum berjum, tíndi töluvert og smakkaði- þau voru öll bragðvond og þurr.
En þar voru engir grænjaxlar eða hálfþroskuð ber.
Og þetta sést í Borgarfirðinum líka.
Ég yrði voða glöð ef einhver gæti frætt mig um þetta- hvers vegna eru berin frá í fyrra enn á lynginu?

Svona vitleysu má ekki gera þegar skrifað er um líf eða dauða

Á forsíðu Mbl. er nú frétt sem segir að - reyndar fyrst níu, en nú þrettán, sé enn saknað við Útey.
Sé farið inná norska vefinn má þó lesa að það eru 22 persónur enn ófundnar.
Níu ákveðnar manneskjur, sumar nafngreindar, en aðrar skráðar á heimastað.
Svo eru átta persónur frá Trøndelag og fimm frá Østfold- þarna er því talað um tuttugu og tvö sem enn eru ófundin. Vonandi finnst eitthvað af þeim á lífi.
mbl.is Þrettán er enn saknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðu árin

Ég væri alveg til í að spóla til baka.
Árið er 1958 og ég var fermd í vor, í laxableikum kjól sem mamma saumaði og hárið sítt og þykkt bylgjaðist niður á bakið.
Í þessum kjól ætla ég svo að syngja með kirkjukórnum þegar Félagsheimili Hrunamanna verður vígt í haust.
Ég fékk hann Blesa minn í fermingargjöf, hann er rauðblesóttur og glófextur stólpagripur.
Heklugosið kom árið 1947, þegar ég var þriggja ára og ég man ekkert eftir því.
Það er ekkert verið að búast við gosi þar aftur, eða þá frá öðrum eldfjöllum.
Ég hef aldrei fundið jarðskjálfta.
Stríð í útlöndum koma okkur ekkert við.
Það var heimstyrjöld að enda í útlöndum þegar ég fæddist, en síðan hefur ekkert verið að gerast þar- nema þá kannski í Kóreu, en það er svo óskaplega langt í burtu.
Einhversstaðar í heiminum er kall sem heitir Tító og svo Stalín á öðrum stað, en ég veit það bara af því pabbi notar nöfnin þeirra stundum til áhersluauka við verkstjórn.
Lumumba er undir sama hatti,en við höldum frekar uppá hann.
Ég hef aldrei prófað að reykja, hvað þá smakkað áfengi. Kannski rak ég þó tunguna aðeins í stútinn þegar strákarnir fundu ginflöskuna á hænsnaloftinu, en alla vega var það svo vont að ég vildi ekki meira.
Mig grunar ekki núna að ég eigi eftir að búa heilt ár í Noregi og fara bæði til Ameríku og Rússlands.
Ég veit ekki einu sinni að í Ameríku sé strákur sem á eftir að verða forseti sem seinna verður skotinn.
Ég gæti ekki skýrt orðið "hryðjuverk" þó ég ætti líf að leysa.
Ég hef aldrei átt kærasta og hef engan áhuga á að eignast neinn.
Mig grunar ekki að einhversstaðar í heiminum séu fleiri tugir ungra drengja sem ég á eftir að verða skotin í seinna.
Bílslys eru nærri óþekkt.
Skilnaðir hjóna eru fáheyrður skandall og gerast bara af "lauslæti"-- yfirleitt konunnar.
Stelpur eiga ekki að eignast börn utan hjónabands-- ég veit ekki með stráka?
Suðurlandsskjalfti kom víst einhverníman fyrir löngu, en það gerist aldrei aftur.
Ef einhverntíman gýs aftur á Íslandi verður það örugglega bara í Heklu, hún er eina fjallið sem gýs.
Ég hef ekki hugmynd um Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökul eða þá að Vatnajökull gæti gosið- hann er bara stærsti jökullinn á landinu- 2119 metrar.
Á fyrri hluta ævinnar var allt svo einfalt og hættulaust, nú veit maður hreint ekki hvort óhætt sé að fara út úr húsi.
Það sem gerðist í Noregi í dag finnst mér núna að gæti alveg eins komið fyrir á Íslandi á morgun.

Má ekki mikið útaf bregða? bera?

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var talað við mann hjá umferðarráði um hraðakstur á mótorhjólum.

Ekki í fyrsta sinn sem þessi maður S.H. svarar fyrir þá stofnun, og eiginlega finnst mér hann orðinn svo gamall í hettunni að flestir séu löngu hættir að hlusta á það sem hann hefur gáfulegt að segja. Í þetta sinn heyrðist mér þó að hann væri titlaður "sérfræðingur", sem kannski skal engan undra, eftir allan þennan tíma væri skömm að því ef hann væri ekki orðinn flestum sérfróðari um allt sem snýr að akstri, umhirðu og hverslags meðferð allra mannbærra ökutækja.Samt, eftir öll þessi ár, var það fyrst núna í kvöld sem S.H. sagði eitthvað sem ég tók eftir og man enn. Hann sagði "að á svona miklum hraða mætti ekkert útaf bregða svo ekki yrði slys". Ég hef alltaf haldið að þarna ætti að segja "útaf bera", en kannski er það bara vitleysa í mér?  Hvort sem er, þarna er sniðug aðferð rótgróinna kerfiskalla til að láta taka eftir því sem þeir segja. Bara rugla svolítið orðum og beygingum svo áheyrendur hrökkvi upp af "standi" vanans og sinnuleysisins. 


Í grónum garði

Áðan gekk ég í blíðunni í gegnum garðinn stóra sem er við vinnustaðinn minn- Vallaskóla.
Veðrið er yndislegt og allur gróður uppá sitt besta.
Þessi garður var skipulagður og gróðursettur árið 1978 held ég- þegar landbúnaðarsýning mikil var haldin hér á Selfossi. Þá var reist gróðurhús fyrir framan vegginn þar sem stofa 19 er núna og þar í plantað dalíum og rósum. Skólinn náði þá ekki lengra í austur en þetta, stofa 19 var í enda hússins og svo var óbygt svæði allt að Reynivöllum.
Fyrir framan gróðurhúsið var svo matjurtagarður og skrautrunnar og tré í kring, sem þá voru flest ósköp lítil, en sýndu þó hvað garðyrkjumenn gætu ræktað hér á landi. Sumt sjaldgæfar og lítt reyndar tegundir.
Allur skólinn var undirlagður og í íþróttasalnum var komið fyrir básum frá hinum ýmsu greinum garðyrkjunnar. Skógræktar, grænmetisframleiðendum, rósabændum, pottablómaræktun og fleira sem ég man ekki.
Einnig öllum þeim sem þjóna landbúnaðinum á Íslandi.
Þar var líka Mjólkurbú Flóamanna og kynnti sína framleiðslu.
Þá var M.B.F. til - stolt bænda á Suðurlandi og einn stærsti vinnuveitandinn á Selfossi.
Í anddyrinu var svo "græna veltan" í gangi alla dagana, ég held að sýningin hafi staðið nærri viku.
Græna veltan var tombóla og vinningarnir blóm og grænmeti- örugglega fleiri vinningar en núll og það var gríðarleg traffík þar. Allt útisvæði frá Sólvöllum að Reynivöllum og Engjavegi var svo undirlagt af traktorum vinnuvélum og tækjum ýmisskonar og stór skemma var við Reynivelli þar sem nú er leikskólinn Álfheimar.
Þar inni voru kýr og kindur, hestar, svín, geitur, kanínur og hænsni - bara allur búfénaður sem bændur í sveitum landsins lifa af.
Sama sumar var svo minnir mig haldið hér landsmót ungmennafélaganna, Það var líflegt á Selfossi það árið.
Gróðurhúsið var svo tekið niður og rósir og grænmeti fjarlægt, en trén fengu að standa og standa mörg enn.
Að vísu er nú orðið nokkuð þéttur skógurinn en hefur þó verið grisjað og þarf að grisja meira.
Einstaka tré eru þarna þó svo sjaldgæf og verðmæt að ekki má fyrir nokkurn mun farga þeim, þar þurfa kunnáttumenn að skipta sér af.
Í upphafi ætlaði ég nú bara að segja hvað mér fannst gaman að ganga um garðinn í blíðunni áðan.
Allt nýslegið og snyrtilegt, svo fínt að til fyrirmyndar er.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband