Það eru "góðar fréttir"

Að sjónvarp allra landsmanna býðst nú til að taka við "góðum fréttum" frá hvaða óbreyttum borgara sem er. Það var mikið að einhver kom auga á þörfina á slíku í þessu eilífa  - svartnættis - hernaðar - slysfara - pólitíkur - rifrildis - rugli, sem hefur allt of lengi verið það sem okkur hefur helst verið sagt frá í daglegum frettum.

Ég kann líka nokkrar góðar fréttir þó ég ætli ekki að trufla Boga með þeim að sinni:        1. Ég er komin heim.

2. Aldeilis ólöskuð og við bestu heilsu.

2. Hestakránni á Skeiðunum eldar kokkurinn alveg frábæran mat.

3. Í þessari sömu hestakrá er  þjónustan frábær og heiti potturinn góður.

4. Ég á stórkostlegar skólasystur, sem hrjóta ekki.

5. Kvennareiðin tókst held ég vel þrátt fyrir moldrok. Þær voru sumar nokkuð krímóttar þegar þær komu á leiðarenda í kránni. -  Þarna hefði ég getað sagt að einhverjar hafi verið moldfullar ( í munni nefi og augum), en það hefði þá örugglega einhver fært til verri vegar.

6. Þessar vindþurrkuðu konur sungu bæði hátt og vel.

7. Þær voru farnar fyrir miðnætti.

8. En við fórum seint að sof og sváfum vel. 

 


Kvennareið og árgangshittingur

Ég er að fara út úr tölvuheiminum. Ég er að fara að hitta skólasystur mínar og vera með þeim um helgina. Bara stelpurnar! Á sama stað verða 110 konur frá hestamannafélaginu Sleipni í sinni árlegu kvennareið. Það er allt að gerast. Ég mé ekkert vera að þessu. Góða helgi.

"Margt getur skemmtilegt skeð"

Líklega dugir engin meðalævi til þes að kynnast öllum undrum náttúrunnar. Í dag var ég svo heppin að læra ennþá eitt um hegðun ánamaðkanna. Ég taldi mig þó þekkja þá nokkuð vel þar sem ég hef  umgengist þá  meira og minna hvert sumar alla mína ævi.  Bústna garðorma í kálgarðinum, myndarlega skota í baklóðinni og horaða úthagamaðka undir kúadellunum í sveitinni. 

Undir skemmtilegri mynd í einu dagblaðanna í dag stóð svohljóðandi klausa: "Sílamávarnir undu glaðir við sitt þegar bóndi í Hvalfirðinum plægði akur sinn og velti upp gnægð ánamaðka sem komnir voru inn í land að njóta veislufanganna í vorsólinni". 

Hvorki vissi ég áður að þessar slepjulegu  skepnur dveldu að jafnað við sjóinn á vetrum eða þá heldur að þeir nytu þess sérstaklega að baða sig í sólinni. En hvað veit ég, þeir lifa jú aðallega neðanjarðar? Og "svo lengi lærir sem lifir".


Fjársjóður úr fortíðinni

Mér leggst allataf eitthvað til. Ég er að fara um helgina að hitta skólasystur mínar úr Skógaskóla. Við ætlum að vera saman tvo daga og eina nótt, leika okkur eins og við gerðum einu sinni, rifja upp skammarstrik og reyna að muna hver átti hvaða kærasta hvenær.  Vegna þessa var ég í kvöld að leita að fornminjum í skápunum. Minningabókum myndum og skólablöðum. Mér varð vel ágengt og get skellt á þær ýmsu sem var löngu talið gleymt að eilífu.

En ég fann líka svolítið annað. Ég fann blað sem ég keypti fyrir ca. 40 árum af tveimur litlum drengjum. Þeir gengu í hús og seldu 16 síðna blað með eigin kveðskap fyrir 10 krónur.  Nú eru skáldin orðin stór, þeir eiga konur og börn, gott ef ekki barnabörn líka sem vel gætu verið að semja ljóð til að prenta og selja. Varla trúi ég þó að 10 krónur yrðu þá látnar nægja. Afarnir kunna meira fyrir sér nú en þá og myndu aldrei sleppa krakka út til að selja blað fyrir svo fáar krónur. 

Ég ætla að birta hér eina vísu eftir hvorn, hitt ætla ég að geyma. Kannski læt ég þá einhverntíman vita hvað ég á, og kanna hvort þeir væru kannski til í að kaupa af mér? 

Geggjun: 

Kírinata Páls og Kírinata Kristjáns 

þeir skera sig á háls

svo hausinn verði frjáls. 

Gata:

Út´á götu ég nú geng 

þar er margt að horfa á

Þar sé ég mann í einum keng,

og annan sem segir mjá mjá. 

 

 


Áfram Árborg!

Knattspyrnuvertíðin er byrjuð. Ég komst að því í kvöld þegar taskan með upphitunarbúningum K.s.f. Árborgar lenti með þungum dynk á þvottahúsgólfinu.  Mér er það hin mesta ánægja að setja gallana þeirra í vél svona tvisvar á ári - eða þrisvar. Það er hægt að sýna stuðning með fleiru en að mæta á völlinn. Annars hef ég alveg mætt þar - stundum ef það er gott veður.

Við verðum að standa saman

Fólk sem býr í bæjum, í húsum, sem standa á lóðum, við hliðina á nágrannanum. Fólk sem býr við þessar aðstæður verður að sýna samstöðu. Þá er ekki hægt að haga sér eins og búið sé á örreytiskoti í afskekktri sveit.

Ég er að tala um njólann. Við verðum að standa saman gegn þessari ótrúlega kraftmiklu jurt sem er tilbúin að leggja undir sig allan heiminn fái hún frið til þess. Þegar við fáum lóð tökum við á okkur skyldur við samfélagið. Við erum skyldug til að gera hreint fyrir okkar dyrum og hreinsa til svo illgresið dreifi sér ekki frá okkur um allt hverfið.

Og bærinn verður að styðja okkur í stríðinu, annars er til lítils barist. Og bærinn verður að nota öll þau ráð sem í boði eru. Ég hef heyrt þetta suð um umhverfisgæsku og friðun skordýra, en njólinn er óvinur sem skemmtir sér yfir slíku eins og skrattinn. Ef ekki má eitra þá verður að nota hendurnar. Útá það gengur sú kenning, en ekki að hafna eitrun til þess eins að láta allt fara á kaf í illgresi. Bæjarfélög sem þannig eru hirt ( eða vanhirt) verða aldrei snyrileg. Það er ekki nóg að horfa upp í loftið og dást að trjátoppunum, ef maður hnýtur um fíflaþúfu eða njólastöngul í öðruhverju skrefi.


Hvað gerum við nú?

Júróvisíón búið, kosningarnar búnar, búið að ferma flest alla krakka á Íslandi. Hvað getum við nú gert?

Dagurinn í gær var hjá mér bara ágætur "venjulegur laugardagur". Að vísu þurfti ég að byrja á að fara í þokkaleg föt og fara í skólann eins og mánudagur væri.  En í þetta sinn bara til að kjósa og drífa mig svo heim aftur. Þar fór ég úr "kosningafötunum" og í útifötin. Við fórum í sveitina með nesti og nýja skó og G&L líka.

Við vorum þar svo allan daginn við skógarhögg og timburvinnslu, áburðargjöf, klippingar og annað sem gera þarf í stórum skógi á vorin.  Það var indælt veður, eins og er reyndar oftast þarna. Við gleymdum alveg öllu því sem á gekk í byggð og í fjölmiðlum. Þetta var bara góður laugardagur. Siggi "veðurviti" eyddi heilum veðurfréttatíma í vikunni til að reyna að sannfæra okkur um að þessi dagur héti "kjördagur", en það tókst honum ekki, laugardagur var það.

Við horfðum svo á Júró án þess að hafa af því verulegar áhyggjur. Ekki grunar mig hvers vegna þessi kvenmaður vann og gæti ekki rifjað upp brot úr laginu þó líf lægi við. En það gerir ekkert til. Eins var með kosnigasjónvarpið, ég  var ekkert yfirmáta spennt útaf því. Var nokkuð viss um að Bjarni kæmist inn og fór að sofa um tvöleytið.

Sandvíkingar komu hér rúmlega tólf og höfðu þá leitað að kosningapartíi um allan bæ. Ekkert slíkt var að finna nema þá helst hér, þar sem hjónakorn á sjötugsaldri sátu í stofunni sinni og biðu eftir að eitthvað gerðist. En það bara gerðist aldrei neitt. Þegar kjördæmin eru svona fá er kosningasjónvarp ekkert nema vandræðin við að láta tímann líða.  Svo kom öðru hvoru upphrópun um að hér eða þar væri "æðislegt stuð" eða  "óbærileg spenna", en myndavélin sá aldrei neitt slíkt. Kannski lá það bara í loftinu og festist ekki á filmu.


Er til annað líf?

Ég þori ekki að treysta þvi. Alla vega finnst mér að ekki megi fresta til morguns því sem hægt er að gera í dag og aldeilis útilokað að sleppa því að gera eitthvað skemmtilegt, af því að það megi bara gera seinna. Ég heyrði nefnilega í vikunni af uppátæki hennar nöfnu minnar og barnabarns. Henni datt í hug að skreppa til Vestmannaeyja  eitt kvöldið, af því hún var stödd í Þorlákshöfn og sá Herjólf. Hún hafði svo sem ekkert sérstakt að gera næsta sólarhringinn. Auðvitað hafði hún samband við móður sína og fékk grænt ljós, og fór svo bara. Kom aftur með seinni ferðinni næsta dag.

Ég minntist þess hvað ég hefði verið tilbúin í eitthvað svona á hennar aldri, en þá var bara aldeilis "öldin önnur". Ég átti engan bíl og ég átti heima í sveit. Og ég hefði eingöngu fengið rautt viðvörunarljós frá mömmu ef ég hefði orðað, þó ekki væri nema, rútuferð til Akureyrar í júni.  Júní var nú reyndar mesti annatíminn heima, mér hefði aldrei dottið í hug að fara fram á frí frá maí til sept. ekki fyrir utan þetta sem ég fékk árlega í júlíbyrjun í þrjá daga til að reka á fjall.

En mér datt ýmislegt í hug og nefndi það svona "meðal annarra orða" þar sem við mamma skriðum dögum saman og grisjuðum gulræturnar.  "Það væri örugglega gaman að fara á síld norður á Siglufjörð eitthvert sumarið" ? "Útilokað, hver á þá að grisja, reyta kálgarðinn og  pakka gulrótunum"?  Mig langaði til að verða þerna á millilandaskipi, en var vinsamlega bent á að þá kæmi ég kannski ekkert aftur heim.

Ég var í ár úti í Noregi, þegar ég var 19 ára, og var alveg til í að vera lengur. En það gerði ég ekki.  Ég var víst einstaklega eftirlát dóttir og gerði bara það sem ætlast var til af mér. Líklega er það eitt af því fáa sem ég sé eftir, að ég skyldi ekki vera svolítið óþægari!

Ef manni dettur eitthvað skemmtilegt í hug þá á maður að framkvæma það, svo lengi sem það er ekki glæpur eða kemur illa við annað fólk.  Það er ekkert hægt að treysta á þetta "seinna líf".


Fall er fararheill

Ég var að lesa hjá einni bloggvinkonu minni um óhapp sem henti systur hennar í sundi í dag. Ég veit að Fjóla er þaulvön allskyns áföllum og íþróttameiðslum og átti seint von á að ég gæti toppað hana. En það er ekki útilokað að ég hafi gert það í dag.

Fimmtudagarnir byrja alltaf á leikfimi hjá okkur. Í þetta sinn máttum við bara leika frjálst - með bolta. Nokkrir strákar skutu á körfu, stelpurnar fóru í einhvern "stelpu boltaleik", en ég og nokkrir strákar náðum okkur í handbolta og skutum á mark. Markmaðurinn var bara nokkuð góður. Ég sólaði upp hægri kantinn á dágóðri ferð og var að nálgast skotstöðu þegar ég af einhverri ótrúlegri lagni steig ofaná vinstri tána með þeirri hægri.

Það sem svo gerðist var líkast því sem alhliða gæðingur spyrnti við fótum í miðjum skeiðspretti. Í því tilfelli flýgur knapinn framaf, en í mínu fór það þannig að efrihlutinn hélt áfram í átt að markinu, en fætur stóðu sem fastast eftir á gólfinu. það var ekki von á öðru, ég féll með tilþrifum endilöng á hægri síðu. Ég hef oft séð íþróttamenn detta í sjónvarpi, en tel að svo glæsilega hafi ekki verið dottið árum saman. Og ég veit líka að íþróttamenn liggja ekki lengi séu þeir yfileitt færir um að standa upp, sem ég taldi mig vera. Þess vegna reis ég upp af gólfinu, tók tvö skref og skaut á markið. Markmaður varði. Ég náði frákastinu og skoraði mark sem lengi verður í minnum haft.

Seinna fór ég svo að leita eftir eymslum eða áverkum, en fann ekkert af slíku. Ekki vorum við skólasystur þó alveg frá því, í sundinu seinna í dag, að aðeins vottaði fyrir marbletti á hægri kálfa og vorum sammála um að það mætti vel telja til íþróttameiðsla.


Það er svo "fíflalegt"

Af hverju hreinsar fólk ekki fíflana frá lóðunum sínum? Þó það sé götumegin og               "í verkahring bæjarins" finnst mér að okkur lóðaeigendum sé bara engin vorkunn að halda þessu sómasamlega hreinu af grasi og fíflum. Og með því komum við í veg fyrir að þeir sái sér inn á lóðirnar, þar er víst alveg nóg við að fást.  "Hreppurinn" gerir heldur aldrei neitt fyrr en það er of seint. Fíflar sem er sargað ofanaf í júnílok eru löngu búnir að fjölga sér þúsund sinnum og hlægja bara að krakkanum sem situr á rassinum á stéttinni með klóru í hönd. Fífillinn veit af reynslunni frá í fyrra að rótin fær að vera í friði og hann  getur byrjað að vaxa aftur um leið og krakkinn er búinn að færa sig yfir á hina rasskinnina. Svo sáir hann sér enn meira næsta vor. Ég þekki til í sveitarfélögum þar sem illgresi er eytt í alvöru og með árangri. Ég veit að það er hægt og ég veit að þar eru færri fíflar í lóðum en hér hjá okkur. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband