Og svo er ég bara farin

Í fyrramálið ætla ég að telja nokkrar dönskubækur og svo kveð ég bekkjarsystkinin mín kl. 10.00. Eftir það fer ég aftur í kjallarann og færi síðustu tölur í bókatalningunni inn á skólabókatíðindi ársins.

Auðvitað verð ég ekkert ein við þetta, við verðum væntanlega allar í kjallaranum af því við höfum lítið annað að gera þegar búið er að senda krakkana aftur heim. Þá getum við gert áætlanir um athafnir okkar og afrek næstu daga hjá breskum.

Ég veit ekki hvort mér tekst að senda lýsingar af ferðinni netleiðis á undan mér heim, en vonandi verður bara gaman. Við leggjum í hann kl.13.15 á morgun og lendum í Manchester eftir myrkur þar í landi. Bless.


Það er grasveður

Loksins, ég var farin að hafa áhyggjur af gróðrinum, það var enga framför að sjá langa lengi. En svo fórum við í dag til Reykjavíkur og þegar við komum aftur heim var allt rennandi blautt og ég get svarið það að grasið á blettinum hafði vaxið svo sýnilegt var.

    Í gær var ég við útskrift tíunda bekkjar, hundrað krakkar kvöddu skólann okkar í þetta sinn. Ég fer alltaf á þessa athöfn þó ég þurfi þess ekkert endilega, mér bara finnst gaman að sjá þau svona fín og falleg. Eins og vinkona mín og vinnufélagi sagði svo réttilega í gær " það er alveg merkilegt hvað manni getur þótt vænt um börn sem eitthvert ókunnugt fólk á". 

En við höfum líka verið með þeim mörgum frá því í fyrsta bekk, alla virka daga hvern einasta vetur og reyndar nú orðið frá því síðla sumars og fram á sólbjart vorið. Án þess að meina nokkuð misjafnt gæti ég trúað að einhver börn séu með okkur lengur en foreldrunum yfir skólamánuðina.  Það er ekkert skrýtið að okkur þyki vænt um þau.

Í dag fór ég svo til Ingibjargar og keypti sumarblómin, áttatíu stykki í þessari ferð og verða sjálfsagt fleiri áður en lýkur. Ég ætla bara að reyna að koma þessu niður áður en ég fer út á mánudag. það er af sem áður var þegar ég var með söluna sjálf og gat bara tínt plöntur í beð eftir því sem ég hafði tíma til. Reyndi þá að vísu alltaf að vera búin að koma öllu niður áður en salan byrjaði fyrir alvöru.

Svo vorum við síðdegis hjá systrunum á Hraunteig af því foreldrarnir fóru í brúðkaup. Það var bullandi þoka á heiðinni á heimleiðinni..


Skólaferðalögin

Nú er ég í 8. bekk og fór í vorferðina í dag. Með hverju árinu sem líður kynnumst við nýjum leiðum, öðrum stöðum og fleiri sögum. Ég hef farið í Þrastaskóg, í Stokkseyrarfjöru, austur að Skógum, í Paradísarhelli, í Seljavallalaug  og í Þórsmörk.

En áttundi bekkur fer á Reykjanesið. Við fórum í dag útúr hringtorginu við Hveragerði og um Ölfusið út með hlíðum Heiðarinnar. Við vorum í rútu sem líklega tók alveg 60-70 manns, sem sagt - rútubíl af stærstu gerð. Fyrsti viðkomustaður var við Strandakirkju, það var sól og blíða og nestið var borðað þar. Svo fórum við um slóðir væntanlegs Suðurstrandavegar og sáum reyndar stikur í hrauninu sem sýndu að þar væru framkvæmdir í bígerð.

Leiðin lá svo um Krísuvík og að Kleifarvatni þar sem krakkarnir  hlupu að vatninu, leið sem nú er nokkuð lengri en einu sinni var. Þar var farið að kula og draga fyrir sól, líklega þess vegna voru þau nokkuð færri en við áttum von á sem fóru úr skóm og sokkum til að sulla. Eftir að við fórum svo af stað aftur fór rútan að stynja og hiksta í brekkunum og endaði með að hún gafst upp í einni nokkuð brattri. 

Bílstjórinn, sem var stúlka, smávaxin og barnaleg svo sumum þótti nóg um, gat þó komið druslunni í gang aftur og upp á brekkubrún.  Eftir dálitla stund þegar við vorum komin á veginn sem liggur til Bláfjalla sagðist hún þurfa að stoppa aðeins til að hreinsa gruggkúluna.  Hún fór svo út, en kom strax inn aftur og sagðist þurfa smá aðstoð, sem ég var tilbúin að veita. Ekki vissi ég þó áður að ég kynni nokkuð til rútubílaviðgerða. Við fórum afturfyrir bílinn og þar átti ég að hjálpa henni að opna "húddið", sem var á þessum bíl nokkuð stór og þungur hleri aftaná. Okkur tókst þetta og þá blasti gruggkúlan við. Ég fylgdist svo með stúlkunni losa hana úr og hreinsa vandlega. Eiginlega er ég viss um að mér tækist að gera þetta ef á þyrfti að halda, hún lýsti svo vel fyrir mér hvað hún gerði og hvers vegna. Svo bara lokuðum við hleranum aftur og héldum áfram heim yfir Hellisheiði.  Nú veit eg hvernig áttunda bekkjar ferðin er.


Þá flýg ég út í heiminn

Það styttist "óð-fluga". Á morgun förum við í ferð í Krýsuvík og dúkum svo borðin. Á föstudag förum við í umbunarferð á Stokkseyri, við eigum að fara í kajakasiglingu. Ég veit nú ekki alveg hvort ég fer á flot. Eftir það gerum við klárt fyrir útskrift 10. bekkjar, leggjum á borðin og gerum rosalega fínt. Svo förum við niður í kjallara með það sem eftir er af bókum, teljum og færum til skráningar í "bókatíðindum" ársins.  Miðað við fjölda krakka í skólanum er ekki ólíklegt að við séum búnar að ganga frá og telja þarna á fjórða þúsund bækur. Um helgina þarf svo að undirbúa "fráhvarf" fjöldamargra húsmæðra á Selfossi. Á mánudaginn, þegar við erum búin að ganga aftur frá öllum borðunum og stólunum eftir veisluna á föstudagskvöldið, og allir krakkar hafa fengið einkunablöðin sín, þá förum við skólafólkið í ferðalag til Bretlands. Með aðsetur í Leeds og Manchester. Það verður vonandi hægt að hvíla sig þar?

Sláttur hafinn.....

Og þykir engum mikið. Það hefur verið kappsmál hjá okkur mörg undanfarin ár að vera á undan þeim á Þorvaldseyri. Og ég verð nú bara að hreykja mér af því að það hefur tekist oftar en ekki. Við höfum ekkert verið að tilkynna þetta til fjölmiðla hvert vor, ekki einu sinni árið sem slegið var 12. maí. Það ár var vorið líka alveg einstaklega gott.

Það er annað sem við höfum fram yfir þá á Þorvaldseyri, við sláum miklu oftar,  væntanlega 15 sinnum þetta árið. og það er allt í lagi þegar ekki þarf að hafa meira fyrir heyinu en að henda því í safnkassann á bakvið húsið. 


"Það er þjóðlegur siður, að stinga útsæðinu niður"

Við fórum í dag og settum kartöflurnar niður í mýrinni. Auðvitað setur enginn óvitlaus maður kartöflur niður í mýri, en mýrin okkar var þurrkuð upp fyrir langa löngu og er nú skógi vaxið land með góðum blettum fyrir kartöflur eða annað sem okkur dettur í hug að stinga þar niður.

Erla og Vilberg komu líka og settu sínar niður og Guðbjörg og Lalli voru að vinna í bústaðnum. Haddi og fjölskylda voru að undibúa fyrir sitt hús í Miðgarði og Öddi og Hrönn komu svo og stikuðu út fyrir sínu. Það er allt í gangi þarna núna. Við fórum svo í Gamla-Garð og tókum aðeins til eftir veturinn, helltum á könnuna og svol. Guðbjörg var að bera á spýtur við Leynigarð þegar við fórum heim. Þar er allt að verða rosalega fínt.

Við fengum svo síðdegis litla stúlku í heimsókn og gistingu. Hún heitir Una og vinkaði bless á ömmu sína þegar hún var búin að fá pelann sinn í rúmið. 


Fyrsta "stóra" ferðahelgin

Svona er Hvítasunnuhelgin kynnt fyrir okkur í þetta sinn eins og svo oft áður.  Og ótrúlega erum við mörg sem látum að stjórn, þeirra sem kalla sem hæst. "Út út - bara eitthvað út í rokið og frostið". "Nógu langt að heiman, svo þið þurfið að vera sem lengst úti á einbreiðu slóðunum með hjólhýsin, tjaldvagnana, fellihýsin og húsbílana". "Verst að það var búið að skikka ykkur til að taka vetrardekkin undan, það snjóar nefnilega um allt norðan, vestan og austanvert landið". "En farið samt, endilega drífið ykkur af stað!"

Og við förum, eins og alltaf látum við teyma okkur á asnaeyrunum út í buskann, þó að  undir niðri vitum við að miklu væri notalegra að kúra heima í sófanum.

Við vorum að koma úr bænum áðan. Skruppum eftir vinnu í smá búðarferð og svo heimsókn á Hraunteig. Á hemleiðinni fór það ekki fram hjá neinum að "útkallið" hefur heppnast fullkomlega í þetta sinn.  Við Rauðavatn geystist fram úr okkur húsbíllinn Faxi, hann fór greitt og var horfinn skömmu seinna. Nú var fyrir framan okkur jepplingur með Húsasmiðjukerru aftaní. Kerran var þunghlaðin timbri og svo var þar líka grill eitt gríðarstórt. Þarna urðum við að fara framúr við fyrsta tækifæri, enda léttfær mjög, kerrulaus með öllu.

Á Sandskeiðinu geystist fram úr okkur ofurjeppi af stærstu gerð, með öllum fylgihlutum og  mögulegum viðbótum. Skammarlegt að ég kann ekki á honum nafnið. Aftaní þessum dýrgrip skoppaði pínulítil kerra, hún hefði jafnvel verið í minna lagi fyrir Willys´46. Ekki sá ég innihald kerrunnar, yfirbreiðsla blakti yfir henni og allt um kring og ég efast um að hún hafi tollað á upp fyrir Hveradali. En það sá ég ekki þar sem gandreiðin var horfin á einni svipstundu. Nú vorum við stödd á milli nokkurra hjól og fellihýsa og lítið að gera annað en að fylgja lestinni. Flest fóru þau þó nokkuð greitt og hurfu frá okkur, en svo fórum við líka framúr einhverjum.

Á miðri Hellisheiði vorum við allt í einu komin með nýtt undur fyrir framan okkur. Fólksbíll í minna lagi með heljarstóra kerru, járnslegna en ekki frá Húsasmiðjunni. Hún var stærri en nokkur kerra sem þeir eiga þar.  Og hún var með háum "hrútagrindum". Við sáum engan bíl á undan kerrunni, hann var svo lítill. En auðvitað hlaut það að vera bíll sem dró.

Í þessari kerru var eitt lítið barnarúm, bara nokkuð snoturt rúm, fururúm sem vel gat verið keypt í Rúmfatalagernum. Þetta litla sæta rúm eltum við svo allt að Hveragerði, en þar beygði þessi litli duglegi bíll útúr hringtorginu. Þegar hann var horfinn tók við nýr undanfari - en - nei - kannski ekki alveg nýr. Hann Faxi, sem tók framúr við Rauðavatn hafði greinilega iðrast og hægt á svo við gætum orðið samferða. Hann fór svo fyrir alla leið á Selfoss og stoppaði við Nóatún. Það þarf alls ekki að vera leiðinlegt að keyra hér á milli. Það er ýmislegt að skoða og margt hægt að spá, alla vega á svona "stórri ferðahelgi".


Glataði sonurinn snýr aftur

Og var þá ekki slátrað lambi?  Nei ætli ég sé nokkuð að því, enda hef ég ekki átt lamb til slátrunar síðan árið 1978 þegar síðustu botnóttu lömbin mín voru skotin og skorin hjá S.S. á Selfossi.  En strákurinn er sem sagt að koma heim eftir þriggja daga, þriggja borga og eins fótboltaleiks ferð um Evrópu. Ég er nú eiginlega hálf fegin. "Það segir fátt af einum", eins og máltækið segir.

En talandi um lömb. Ósköp held ég sé kalt að koma í heiminn þessa dagana. Ég veit að bændur láta bera inni eftir því sem hægt er, en það er ekkert grín þar sem margt er, og óskapleg vinna í kringum það. Folöldin eru líka farin að sjást, völt á löngum leggjunum í móunum meðfram vegunum. Veðrið í dag, og víst líka á morgun, er ekki það besta fyrir allt nýja lífið sem er að vakna þessa dagana. En mér er sagt að merarnar geti frestað kasti ef illa viðrar, vonandi að þær geri það sem flestar.                                             Ef við gætum það nú mannfólkið - "æ - það stendur ekki beint vel á núna - ég ætla ekki að eiga fyrr en eftir helgina".

Nú er ég fari að röfla, enda ein heima og veðrið eins og það er.  Það er hávaðarok svo hvín í trjánum eins og  vetrarnótt væri. Ég ætla að skríða uppí rúm og breiða upp fyrir haus . Þá get ég hugsað mér að allt sé eins og á að vera um miðnættið í maílok.

Hér austur í flóa er lítið folald rauðblesótt að rölta um tún við hliðina á henni mömmu sinni. Það er  bara nokkuð stöðugt á löngum löppunum, enda komið í heiminn fyrir meira en viku. það er háskýjað og vottar enn fyrir bjarmanum af sólinni sem settist fyrir handan heiði fyrir rúmum klukkutíma. það verður aldrei alveg dimmt. Það er raki í loftinu eftir skúrirnar í dag og dalalæðan fyllir allar lægðir. það er eins og skýin hafi dottið ofan af himninum og lagt sig í lautirnar á milli hraunhólanna.

Mófuglarnir eru þagnaðir. Folaldið litla hættir að elta merina, og leggur sig á milli þúfna. Hún heldur dálitla stund áfram að narta í sig grænu stráin, sem gægist uppúr sinunni, en gefur afkvæminu auga öðru hvoru. Svo leggur hún sig líka, það er komin nótt og grasið verður líka grænt á morgun.


Barnið er í Aþenu

Ég er að horfa á leik, það er ekki oft sem ég geri það. Ég er að horfa á fótboltaleik í Aþenu. Ég er að horfa á Liverpool og AC Milan keppa í meistaradeildinni.

En það er ekki af áhuga á fótbolta sem ég er að glápa þetta, nei ekki aldeilis. Heldur er það af  áhuga á börnunum mínum. "Litli" sonurinn er nefnilega einhversstaðar þarna á skjánum. Ég reyni eins og ég get að koma auga á hann en hefur ekki tekist enn. Ætli ég verði ekki að halda með Liverpool? Ég held að ég geri það - svona bara fyrir Guðmund af því hann er svo óskaplega langt í burtu.


Ég sé hvert stefnir

Og ég er víst ekki sú eina. Það er undarleg tilfinning að vita af þessu með góðum fyrirvara  en geta ekkert gert til varnar. Auðvitað átti ég von á þessu, gat sagt mér það sjálf fyrir mörgum vikum. En af einhverjum ástæðum vill maður reyna að halda í vonina í lengstu lög. Auðvitað get ég ekki lofað því að þetta verði eins og ég held, en ætla samt að gera ráð fyrir þvi - í bili.

Málið er að ég er orðin löt við bloggið. Alveg viss um að dagleg skrif heyra sögunni til - í bili. Það er ekki eins og það sé sólin og vorið sem orsaka þessa skyndilegu leti - í dag hefur snjóað á Suðurlandi. Allt sem við eðlilegar ástæður ætti að vera gróðrarskúrir kemur niður í éljum.  Getur verið að ég sé bara með tímabundið þunglyndi og bloggleti vegna veðurs?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband