13.7.2011 | 20:11
"Atson" stendur fyrir sínu
Það var þó ekki rígning- í bili, en allt blautt eftir nóttina og það var gott, okkur vantar almennilega vökvun.
Ég er ekki ein þeirra sem sinnir moldarvinnslunni af samviskusemi og kunnáttu. Kassinn er þriggja hólfa og hefur ekki verið neitt almennilegt skipulag á því í hvert þeirra er hent hverju sinni. Og ekki geri ég mér ferðir út í kulda og trekk til að henda þarna eggjaskurn eða kaffikorgi, ég er alls ekki endurvæn eða umhverfisfróð.
Ég veit alveg að ég ætti að standa mig betur og framleiða alla mold sjálf, en moldarbændur í uppsveitum þurfa jú líka að lifa.
Grasið af blettinum fer í kassann, afklippur af runnunum og annar garðúrgangur og ekki get ég svarið fyrir að stundum lendi þar kvistir og greinar sem ættu að fara beint á haugana.
Moksturinn gekk nokkuð vel og sigtið fína sem bóndinn smíðaði fyrir mig í fyrra svínvirkar.
Í hjólbörurnar kom fínasta mold og það var ekkert mikið sem ég henti svo í ruslahrúguna.
Smá spýtukubbar og grófar greinar og mosi- mosinn af hýjasintuskreytingunum virðist bara alls ekki verða að mold. Ég fyllti margar hjólbörur og tæmdi þær jafnóðum í hrúgu, sem ég á svo eftir að bæta aðeins með vikri, og öðrum efnum sem ekki má nefna í svona "endurvinnslubloggi".
Það byrjaði aftur að rigna, en ég var komin niðurfyrir miðju í kassanum, og rigningin var ekki köld- ekta grasveður.
Ég kom auga á eitthvað í sigtinu- eitthvað sem var öðruvísi og ég tók það upp-- seðalveski!!
Heilt tvöfalt veski fullt af kortum, makað í mold og dullu. Ég skolaði af því í vatni og tók kortin úr.
Plastkortin heil, en engir peningar, nafnspjöld og þesslags pappírsdót bara brún drulluskán utaná plastinu.
Ég gat þó greint í einni skáninni nafn þjónustufulltrúa í banka-- fyrir hrun.
Nú fór að rigna fyrir alvöru og það var komið hádegi, ég fór inn með veskið.
Erlent ökuskírteini, bílaleigukort og einhver fríðindakort frá fyrirtækjum og félögum, engin kredit eða debet.
Ég þekki konuna sem átti þessi kort. Veskið sjálft var sæmilega útlítandi eftir þvott og það var stíheilt, brúnt veski frá "Atson", veski fyrir seðla og kort. Leðrið var svolítið máð utaná, en allir saumar heilir og tauið innaní líka, alveg glansandi fínt silki sýndist mér eftir þvottinn. Eignist maður svona veski er greinilega engin hætta á að það eyðist eða slitni á undan peningum eða kortum sem í því lenda.
Ég fór svo síðdegis og skilaði öllu saman til eigandans, og hún varð bæði hissa og glöð.
Veskinu hafði verið stolið fyrir einhverjum árum- sennilega nærri tíu.
Lóðin mín liggur að róluvellinum og þetta austurhólf í kassanum er þar næst.
Stundum á kvöldin höfum við orðið vör við óknyttakrakka þarna á róló, reyndar minna um það í seinni tíð.
Á morgun ætla ég að halda áfram að moka, hver veit nema einhver verðmæti séu neðar í kassanum- alla vega hefur svona fundur hvetjandi áhrif á moldarframleisluna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2011 | 22:30
Nú vantar mig rigningu
Þegar "vorverkunum" er lokið í heimagarðinum, verður að snúa sér að því að gera fínt í Mýrinni.Ég er "lurkum lamin" eftir dagsverkið, búin að skríða um allan sparigarðinn, reyta frá fínu trjánum og raka svo allt stykkið og "hirða heyið". Ætli sé ekki mögulegt fyrir "smábændur" að selja hey til þeirra sem búa með td. kanínur og hamstra? Ég á alla vega fullt af fínni töðu ef einhver vill. Nú er allt fínt inní Mýri- búið að reyta og grisja rófur og rauðrófur, kartöflurnar vel komnar upp og gulræturnar líka. Aspasinn lifir góðu lífi og vex, samt á hann nú aðallega að koma sér fyrir í jörðinni þetta sumarið, ekki uppskera fyrr en næsta ár. Allt er slegið og rakað og þar að auki stórt stykki slegið af órækt. Það liggur reyndar flatt og má vel þorna áður en reynt verður að raka saman. Eiginlega vantar mig múgavél- vita ekki allir hvernig vél það er? Þetta varð heldur meira en til stóð og örugglega mesta puð að raka saman með handaflinu einu.
Samt myndi ég frekar vilja rigningu, væri alveg sátt við að "fá ofaní" flekkinn stóra sem liggur flatur, það vantar svo sárlega vökvun á ræktunina. Ekki bara hjá mér, heldur öllum hinum sem hafa lifibrauðið af hvers konar ræktun. Það er víða búið að slá og rúllur eru á túnum, enginn vandi að heyja í þessari tíð. En rúllurnar eru færri en stundum áður, það hefur ekki verið nein rífandi spretta fram að þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2011 | 22:25
Aldrei of seint að iðrast - og bæta ráð sitt
Það er orðið alltof langt síðan ég hef bloggað eitthvað af viti. Þegar ég "datt í fésið", fyrir ótöldum mánuðum hætti ég satt að segja alveg að hugsa, nema bara í stuttum setningum og klausum. Ég lenti satt að segja í eintómri feisbúkk óreiðu.Nú er ég búin að vera í sumarfríi frá júníbyrjun og hefur á þeim tíma tekist að fara á þrjú ættarmót, eina ferð til Rússlands og Finnlands, og svo stutta reisu norður í land.
Auk þess þurfti að taka til hendinni hér í garðinum og svo er allnokkur ræktun í gangi í Mýrinni. Það sér hver heilvita maður að með öllu þessu hefur ekki verið hugsað mikið- nema þá kannski í stuttum og takmörkuðum fesbúkksetningum.En nú er svo komið að velflestum ferðum og mótum er lokið. Ég tala ekki um tvær eða þrjár afmælisveislur og svolítið skógarhögg inní Mýri. Í skóginum er reyndar alveg ljómandi gott að hugsa- jafnvel í löngum setningum og stundum vitrænum pælingum(finnst mér).
Já nú er bara svo komið að ég hugsa lengur og pæli meira en undanfarna mánuði og ætla þess vegana að færa mig að einhverju leyti aftur á bloggið. Eins og góð kona sagði einhverntíman við mig " þú bæði bloggar og búkkar", og ég þarf bara að láta frá mér meira en rúmast á fésinu svo vel sé. Best að láta á það reyna hvernig tekst að skila því frá mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2011 | 20:30
Blíðublogg með myndum
Sólskinsdagarnir á Suðurlandi eru nú orðnir allnokkrir og kannski væri bara allt í lagi að blíðviðrið færðist til vina og frændfólks fyrir norðan og austan. Alla vega fá þeir hér sýnishorn úr garðinum í Rauðholti til að gleðja augað.
Satt að segja þurfum við að fá rigningu fljótlega og væri bara gott að sólin skini á aðra landshluta á meðan- gott væri samt að fá aftur blíðviðri um helgina, eiginlega nauðsynlegt vegna veisluhalda. Eftir það er mér alveg sama-- á eftir að komast í fjöldann allan af heimsóknum- maður heimsækir ekki fólk í sólbaðsveðri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2011 | 20:37
"Rembingshnútur"?
Þarna hljóta menn að rembast alveg í hnút við að fá einhvern botn í samningana- eða er það?
Kannski er ég bara að rugla en mér finnst "rembihnútur" líklegra orð, en getur bara verið að rithátturinn sé svona þó manni heyrist annað? Hjálp!
Kjaradeila í rembihnút | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2011 | 09:32
Ertu alveg hætt að blogga?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2011 | 22:26
Sumardaginn fyrsta á föstudaginn fyrir kosningadaginn og frídagur verkalýðsins mánudaginn eftir
Þá má bara safna öllum málum saman og kjósa á einu bretti án þess að þurfi að funda og funda og rífast og þræta um dagsetningu fyrir hvert og eitt.
Bara ákveða fyrsta laugardag í maí ár hvert, til að kjósa um allt klúður sem upp kemur á árinu.
Þá væri líka hægt að færa sumardaginn fyrsta frá fimmtudegi, sem aldrei er á sama mánaðardegi hvort sem er, og setja hann á föstudaginn fyrir þessa sömu helgi. Gæti kannski verið aðeins hlýrra þá en alltaf er í apríl þegar skátagreyin verða að troða sér í lopapeysur og föðurlandsbrækur undir einkennisklæðnaðinn svo þeir ekki eigi á hættu að veikjast alverlega. Þetta stórspillir iðulega sýnilegu vaxtarlagi krakkanna, sem annars gætu verið glæsileg að sjá meða fána á lofti. Jafnvel gæti hent að í maí væri hægt að klæðast stuttbuxum við þetta tækifæri?
Fyrsta maí, sem hefur oft þann hvimleiða galla að lenda á laugardegi eða sunnudegi verkalýðnum til eintómra leiðinda, mætti svo setja á mánudaginn eftir kosningahelgina. Hann héti þá bara "frídagur verkalýðasins án dagsetningar". Þarna værum við þá búin að fá langa og ljúfa helgi, á dögum sem janfvel gætu verið hlýir og fallegir vordagar.
Væri þetta ekki bara fínt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2011 | 12:00
Skelfilegur klaufaskapur blaðamanna
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2010 | 20:51
Ferðast í skímu dagsins
Það er sama þó ég vakni upp kl. 4.00 um nótt, við háværa tertuskothríð frá nærliggjandi húsi, eða liggi við lestur langt fram yfir miðnætti, alltaf skal ég vakna klukkan sjö.
Eftir því sem líður á jólafríið hefur mér þó tekist æ oftar að bæla mig aftur og blunda - janvel fram undir birtingu stundum. Í morgun fór ég ekki í sund, heldur ráfaðist hér heima í eintómu tilgangsleysi, ef frá er talið morgunbaðið, Morgublaðið og morgunverðurinn, allt í þynnra lagi þó.
Fótaferðin fékk ekki tilgagang fyrr en mér varð litið útum eldhúsgluggann kl. 10.14 - sólin var að koma upp. Ég fór út með myndavélina, í náttsloppnum einum fata með inniskó á fótunum. Það var ekki mikið frost, pallurinn aðeins hélaður og ég stóð þarna góða stund og tók myndir af sólinni. Nógu lengi til að skilja eftir mig bráðin spor í hríminu þegar ég fór aftur inn.
Í hádeginu héldum við af stað til fjalla. "Að halda af stað til fjalla" þarf hér ekkert að merkja að við værum að fara í fjallgöngu. Á flatneskjunni Selfossi er eiginlega sama í hvaða átt er farið útúr bænum, alltaf er það í átt að einhverjum fjöllum. Nema farið sé á ströndina, en hver gerir það á frídegi? enginn sem á rætur í uppsveitunum.
Í þetta sinn héldum við til Tungna og Hreppafjalla. Við fórum leiðina upp Grímsnes og Tungur til að fara yfir nýju brúna á Hvítá. Það er gaman að prófa ókunnar leiðir og sjá landið frá nýju sjónarhorni. Við komum svo víða við í sveitinni góðu, í besta veðri sem völ er á í desemberlok. Nokkrar heimsóknir bæði hjá látnum og lifandi. Fórum "Maríuhringinn" skoðuðum réttirnar, sem nú er verið að endurbyggja með myndarbrag. Skröltum að Hrunalaug sem er heldur illa komin, en tekur sig þó vel út á mynd. Fórum í Mýrina en sáum þar ekkert kvikt nema hvað einum ketti svarthvítum brá fyrir á hlaupum. Enginn var þar fuglasöngurinn í þetta sinn. Logn og hiti við frostmark, einmitt veður til að rölta um í skóginum og líta eftir trjánum sem verða orðin græn eftir fáar vikur- sólin kemur upp kl. 10.13 á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2010 | 22:29
Julegave fra familien Dehs í Vågåmo
Jólin 1962 eru mér minnisstæðari en önnur jól. Þann vetur var ég í skóla í Guðbrandsdalnum í Noregi, "Gudbrandsdal Fylkesskule" hét hann og var góður skóli. Engin áform höfðu verið gerð að heiman um þessi jól, líklegast að skólastjórahjónin myndu taka mig að sér af sinni alkunnu góðsemi, sem enginn þekkti þó til á Íslandi. Fyrirfram hafði ég engar áhyggjur af jólunum frekar en öðru, ég var búin að ákveða að vera þarna heilt ár og sennilega hefði ég bara þraukað um jólin í herberginu mínu hefði ekki annað komið til. Mér finnst stundum ótrúlegt að hugsa um það hvað ég get gert með þrjóskunni einni saman.
En þegar leið að því að allir krakkar færu heim í jólafrí var ég svo heppin að stúlka sem var með mér í herbergi bauð mér að koma með sér heim og dvelja yfir jól og áramót. Auðvitað þáði ég það. Ég var búin að fá pakka að heiman, en aldrei talaði ég við foreldrana í síma, það bara var ekkert hægt. Sennilega sagði ég þeim frá boðinu í bréfi, einu af fjöldamörgum sem ég skrifaði þetta ár.
Ég tók svo saman dótið mitt um leið og allir aðrir og steig uppí lest sem flutti okkur upp eftir þessu langa landi. Eins og talað er um "uppsveitir Árnessýslu eða Borgarfjarðar" hefði víst verið sagt að við hefðum haldið til uppsveita Guðbrandsdalsins- til Vågå.
Vågå var í minningunni frekar lítið þorp í sveit, líklega hét sveitin sjálf Vågå en þéttbýlið var kallað Vågåmói. Þarna var allt á kafi í snjó, alveg ekta jólastaður og ef þar var borinn út póstur hefur það örugglega verið gert á sleða. Þarna átti ég svo yndisleg jól með fjölskyldunni hennar Kari. Þau vissu ekki hvað þau gátu best fyrir mig gert og ég fékk gjafir frá öllum - kettinum líka. Við fengum kódelettur sem hétu ribbe og surkål - sem ég get núna keypt í Júróprís og heitir bara súrkál. Þau voru svolítið að vorkenna mér fjarlægðina frá foreldrunum, en þess þurfti ekki neitt, mér leiddist ekki.
Ég á enn eina af gjöfunum frá "familien Dehs", fallegan málaðan trédisk, koparskálinni sem kötturinn gaf mér er ég hins vegar búin að týna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar