8.1.2007 | 21:33
Eins og mánudagar eru
Það var kalt að labba í skólann í morgun en ég hafði vit á að fara í kuldabuxurnar og setja á mig almennilega húfu. Jólaljósin eru víðast horfin af húsunum, þó eru nokkrir sem láta þau loga og sjálfsagt margir sem ætla að taka seríurnar niður í vor. Ég hef þó séð að það vill gleymast alveg og svo verður fjárans vesen að fá ljós á þær aftur um næstu jól. En það er þeirra vandamál.
Dagurinn byrjaði á enskutíma, það er alltaf gott í ensku, við höfum góðan kennara. Ég er svo inngróin í þennan bekk að mér finnst stundum að ég hugsi alveg eins og krakki. Ég skoða kennarana með þeirra augum, en vona þó að mér takist að vera réttu megin við borðið þegar það á við. Aðeins hefur borið á púðurlykt á göngum þessa daga eftir jólin, ekkert mikið þó, og hefði víst hér áður fyrr þótt heldur lítið til koma. Það er margt sem er öðruvísi nú en þá og ég get ekki sagt að mér finnist unglingar vandamál, þau eru bara flest í mjög góðum málum.
Eftir hádegið datt ég inní bekk þar sem kennarinn tafðist. Þetta var í einum af yngri bekkjunum og ég hafði ekki verið með þeim áður. Í svona tilvikum fer ég oft í leik með krökkunum á meðan við bíðum og það gerðum við í dag. Leikurinn felst í því að ég á að geta uppá nafninu þeirra og reyna svo að komast að ætt og uppruna. Hér áður fyrr var þetta enginn vandi, ég þekkti alla með nafni og mömmurnar og pabbana líka, og afa og ömmur. En nú er þetta orðið erfiðara, það hafa svo margir flutt hingað á síðustu árum að það er hreint ekki sjálfgefið að ég hafi unnið með mömmu eða viti úr hvaða sveit hann afi er. Svo eru líka fjölskylduflækjur sem þarf að vara sig á. Samt gekk nokkuð vel. Flest nöfnin þekkti ég, en það voru víst þrjú eða fjögur sem áttu uppruna annarsstaðar á landinu, jafnvel í útlöndum.Þá verður maður að finna eitthvað skemmtilegt til að segja um þann ákveðna stað. Ég hafði unnið með nokkrum ömmum og mömmum, ein amman var með mér í handbolta fyrir óralöngu. Þau "tóku" mig þó í einu tilfelli, það var gestur í bekknum í dag og þar var ég mát. En þá fékk ég bara að vita hvaða skóla hann væri í og gat gert gott úr því. Við náðum að ljúka við alla áður en kennarinn kom, hann hafði víst þurft að leysa mikinn og langan vanda.
Þegar ég kom heim voru þrestirnir mættir á baklóðina, þeir voru að tína uppí sig reyniberin sem ég gaf þeim á jólunum. Það var svo hlýtt um jólin að þeir komu aldrei þá, hafa haft nóg í sig annarsstaðar. En nú er komið frost og snjór og ég gaf þeim meiri ber. Það er nóg til í skúrnum, allir útsæðiskassarnir fullir af berjum sem ég tíndi í haust. Það er gott að vera þröstur í austurbænum
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.8.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 197657
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er líka gott að vera snjótittlingur eða starrahelvíti.
Er Rúnar Larsen alveg hættur að sprengja kínverja í skólanum?
GK, 8.1.2007 kl. 22:39
Það var mikið sprengt inni í skólanum þegar ég var þar á unglingastigi...þá kippti enginn sér upp við að rata ekki á réttu stofurnar fyrir reyk.
Guðmundur Karl: þú sagðir "orðið"
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 8.1.2007 kl. 23:38
Honum er fyrirgefið í þetta sinn. Erfitt að varast óværuna þegar hún hangir á öðru slæmu. s.s. starra.
Helga R. Einarsdóttir, 9.1.2007 kl. 10:26
Já, þetta var samsett orð...
GK, 10.1.2007 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.