11.10.2009 | 19:39
Lóan fer ekki fet
Á ferð um lágsveitir í dag sá ég, eins og reyndar um síðustu helgi líka, stóra lóuhópa á öllum túnum. Við fórum í dag austur að Skógum að heilsa uppá Þórð. Hann var eins og alltaf, hinn hressasti. En ekki alveg nógu ánægður samt. Við ætluðum að fá okkur kaffi í safninu, en þar var þá ekkert kaffi að hafa. Þórði þótti skömm að því og hringdi á bæi til að biðja konur undir fjöllunum að hella á, þó ég reyndi að sannfæra hann um að við myndum alveg lifa af. Hann rétti mér svo símann og bað mig að tala við þessa konu sem hafði víst að engu óskir hans um sjálfsagða gestrisna, að honum fannst.
Ég sagði hins vegar konunni að við værum ekkert illa komin og allt í lagi þó við færum kaffilaus til baka. Enda hefðum við ekki verið í vandræðum með að leita á eigin spýtur til vina og kunningja í sveitinni. Við skoðuðum framkvæmdir í Bakkafjöru og vorum ekki þau einu. Þangað lá óslitinn straumur farartækja á breiðum og beinum veginum sem okkur fannst furðu langur. Enda er maður á leiðarenda nærri kominn til Eyja.
En það sem undraði okkur mest í þessu ferðalagi voru lóurnar. Öll tún frá Selfossi að Skógum voru þakin stórum hópum af lóu. Mér er sagt að eðlilegast sé að þær kveðji landið seint í ágúst og svo fyrri hluta september, en nú virðast þær allar sitja sem fastast. Í vetrarbúningi sem við höfum aldrei áður séð. Svarta bringan orðin grá eins og reyndar fuglinn allur, en kollurinn þó dökkur.
Hvað það er sem veldur þessum breytingum gæti maður fyrst látið sér detta í hug að væru óhagstæðir vindar? Er búin að vera stöðug sunnan eða austanátt í margar vikur eða jafnvel mánuði? Á hún ekki að fara til Bretlands - alla vega í fyrsta flugi? Er hún að lýsa frati á Bretana - sýna samstöðu með okkur? Geta þessi grey með nokkru móti lifað veturinn hérna?
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 197259
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.