1.1.2007 | 14:22
Bjart yfir árinu nýja
Einu sinni heyrði ég það, og trúi að sé rétt, að bjartviðri á nýársdag vísi til ársins sem framundan er. Við eigum von á góðu ári. Það var líka heiður himinn í gærkvöldi þegar við fórum að kíkja á brennur. Tunglið, nærri fullt, lýsti upp landið og skyggnið var svo gott að við sáum alla leið niður í Þorlákshöfn. Við fórum nefnilega út fyrir bæinn og sáum þá brennur allt í kring. Á þessum tímamótum verður mér oft hugsað til fyrri áramóta. Ég man áramótin´53 -´54. Við borðuðum alltaf heima, en fórum svo upp að Hvammi þar sem við eyddum kvöldinu í allskonar leikjum og svo kakói og kökum. Þegar áramótin nálguðust var sungið og Helgi spilaði á orgelið. "Stóð ég úti í tunglsljósi" og fleiri söngva sem tengdust áramótum. Svo loks "Nú árið er liðið". Um þessi sérstöku áramót var ég eitthvað óvenju viðkvæm og þegar kom að þessum söng um árið sem var að kveðja og myndi aldrei nokkurntíman koma aftur var mér allri lokið. Ég faldi mig á gólfinu á bakvið stól þar sem ég svo grét það fögrum tárum að þetta vesalings ár væri að eilífu horfið.
Ég man líka árið sem pabbi keypti flugeldana tvo. Þeim skaut hann í loftið eftir matinn áður en við fórum að Hvammi. Sennilega svo allir gætu séð, stákarnir voru svo litlir að þeir sofnuðu löngu fyrir áramótin. Við lágum í gluggunum og fylgdumst með pabba undirbúa skotin, hann var allt of lengi að því, við biðum svo lengi að ég var alveg orðin í spreng, hafði víst gleymt í spenningnum að undirbúa þessa merku athöfn sem skyldi.
Á endanum fór svo einn í loftið, enginn venjulegur flugeldur. Reyndar vissi ég ekkert þá hvernig "venjulegur flugeldur" leit út, hafði aðdrei séð slíkan fyrr. En þetta var stjörnuglitrandi hvít súla sem þaut upp frá jörðinni hæst upp í himininn. Með miklum hvin reis hún eins og eldstólpi upp til stjarnanna á himninum og var svo horfin. Ég var alveg að pissa í mig. Skyldi hann verða eins lengi að undirbúa hinn? Ég varð á endanum að gefast upp, hljóp fram á klósett, en heyrði á leiðinni þrumuna af þeim seinni þegar hann hófst á loft, örugglega var hann ekki síðri þeim fyrri. Auðvitað fannst mér slæmt að missa af síðari hálfleik, en ég sagði pabba aldrei frá því. Ég held að henn hefði orðið leiðari en ég að frétta af því að áhorfandi hefði misst af svo stórkostlegu atriði sem aldrei yrði endurtekið.
Okkur tókst í nótt að halda út til kl. 5.30. Í nærri 40 ár höfum við komið saman eftir kl. 12.00, nokkur hjón sem byggðum þetta hverfi í upphafi. Við hittumst í einhverju húsinu með öll börnin og sátum svo saman fram undir morgun. Á þessari nótt var gamla árið krufið og það nýja skipulagt. Ekki bara í okkar einkamálum hedur höfðum við ákveðnar hugmyndir um bæjar og landsmálin og töldum jafnvel að okkur væri fært að hafa þar nokkur áhrif á. Börnin léku sér saman og stundum fóru þau stærri út að tína prik á næstu lóðum. Undir morgun voru þau oftast sofnuð hingað og þangað um húsið. Við bárum svo heim þau sem minni voru, en drógum hin í svefnrofunum heim í rúmin sín. Þau sváfu þó sjaldan lengi því spenningurinn fyrir prikasöfnuninni var mikill. Að verða fyrst út þegar birti til að ná í fleiri prik en hinir.
Við vorum fyrst 6 hjón sem nú hefur fækkað niður í 4. Nú er komið skipulag á þessar samkomur, röðin gengur í hring og við förum öll í ákveðið hús þegar við komum úr heimsóknunum hjá börnunum okkar sem eru orðin stór og bjóða foreldrunum í sín hús á þessu kvöldi. Þegar allir eru mættir förum við út og skjótum upp flugeldunum sem skylda er að taka með sér. Nú höfum við engin börn að bera heim, en okkur tekst alltaf að sitja til morguns og við erum engu síður en áður fullkomlega fær um að leysa vanda og finna leiðir til betra gengis hjá bæ og ríki.
Ég vil þakka Rangæingum og öðrum forráðamönnum sveitarfálaga á Suðurlandi fyrir að leyfa barnabörnunum okkar að taka þátt í áramótaböllunum sem haldin eru í félagsheimilum þeirra. Mín fór á Hvolsvöll annað árið í röð og segir að þar sé gott fólk. Því trúi ég vel og alla vega standa þeir sig betur þar en við þekkjum í okkar bæ. Hér er ekkert gert fyrir ungt fólk sem langar til að skemmta sér og er orðið of stórt til að fylgja foreldrunum í heimahús eða tína prik í morgunskímunni.
Gleðilegt nýár og kærar þakkir fyrir það gamla.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.8.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 197657
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gleðilegt ár. Þú hefur ekki þurft að bera pabba heim?
GK, 1.1.2007 kl. 16:15
Þetta voru skemmtileg áramót í æsku.
Helga litla kom heim kl. hálf níu í morgun,eftir dans á Hvoli með fólki á öllum aldri.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 1.1.2007 kl. 16:36
Þetta var skemmtileg lesning. Það jú svolítið sorglegt að nýja ári fari og komi bara aldrei aftur. Reyndar væri fyndið ef gamla árið kæmi allt í einu aftur eftir 10 ár. Maður mundi upplifa það sama allt aftur. Nei segi bara svona....þetta er einum of mikið rugl.
En annars finnst mér alltaf svo gaman þegar það kemur nýtt ár. Það þýðir nýtt upphaf og ný tækifæri. Liðið er liðið en maður getur haft áhrif á framtíðina.
Gleðilegt ár og takk fyrir gamla árið. Þú hefur reynst okkur ótrúlega vel á þessu ári
Josiha, 1.1.2007 kl. 16:54
Sæl Helga og gleðilegt nýtt ár.
Já prikasöfnunin!!! Þetta var sko skemmtilegast við áramótin, það var að vakna fyrir allar aldir og safna prikum. Þvílíkt gott fyrir bæjarfélagið. Það þarf sko að virkja börnin í dag. Núna eru prik og kassar flæðandi útum allar götur. Það er sko af sem áður var.
Holtin hefðu átt að fá verðlaun fyrir snyrtilegustu götur bæjarsins á nýársdegi.
Hafið það sem allra best á árinu.
Kveðja
Berglind prikasafnari.
Berglind (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 11:48
Nei Guðmundur, hann gekk sjálfur í þetta sinn.
Guðbjörg, það er fátt hollara en að dansa við Rangæinga á "Ýmsum aldri.
Jóhanna, þetta er rétt hjá þér með nýtt ár, Þá eru öll tækifærin framundan.
Og Berglind mín, ykkar Guðmundar verður lengi minnst sem síðustu barnanna sem borin voru á milli húsa á nýársnótt.
Gleðilegt nýár.
Helga R. Einarsdóttir, 2.1.2007 kl. 13:31
Jórunn Sigurbergsdóttir , 2.1.2007 kl. 20:06
Jórunn Sigurbergsdóttir , 2.1.2007 kl. 20:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.