30.12.2006 | 22:41
Andvökunótt í Skötufirði
Þegar ég las bókina um hana Rögnu á Laugabóli rifjaðist upp fyrir mér sumarnótt í tjaldi fyrir vestan. Ég er ættuð úr Ögursveit, þaðan var hann Einar langafi minn og meira að segja frá Laugabóli. En forfeður hans höfðu búið á öðrum bæjum í sveitinni, stundum sjálfstæðu búi, en líklega oftar annarra þjónar. Ég fór í ferðalag vestur, pílagrímsferð, og leitaði ummerkja eftir löngu liðna afa og ömmur. Hafði áður lesið mér svolítið til og vissi ýmislegt.
Á Borg í Skötufirði: Gist í tjald síðsumars, einstakt blíðviðri og kyrrðin alger. En ég gat ekki sofnað. Velti mér fram og aftur í pokanum, hugsaði til hennar Maríu Svarthöfðadóttur langa langa langa langa langömmu minnar, sem dó hér á Borg árið 1836, þá fátæk húskona. Mér fannst allt þrengja að mér og vildi komast út. Renndi lásnum niður, eins hljóðlega og ég gat til að vekja ekki félagana. Þau voru löngu sofnuð.Ég þokaði mér út fyrir skörina, úti var skuggsýnt en þó sá ég móta fyrir kennileitum. Það voru bæjarrústir innan girðingar hjá sumarbústaðnum og aðrar neðan við túnið. Hér var áður tvíbýli, Borg var ekkert kot. Það var stafalogn og alger þögn eins og alltaf um lágnættið. Allt og allir sváfu.
´
Ég sá hana koma gangandi frá neðri tóftunum. Hún fór ósköp hægt og horfði beint fram fyrir sig. Í dökkum fötum, síðu pilsi og treyju, ekki sparilegum, með skýluklút á höfðinu. Hún gekk rakleitt til mín, staðnæmdist svo sem í seilingarfjarlægð og horfði á mig litla stund. Svo brosti hún svolítið. Hún hafði falleg augu, blá stór augu og þau brostu við mér. Henni virtist þykja vænt um að sjá þennan langt að komna afkomanda í túninu hjá sér. Ég áttaði mig strax á því hver hún var, María Svarthöfðadóttir, ég stóð eins og negld niður í jörðina, var viss um að hún myndi fara ef ég hreyfði mig.
Svo fór hún að tala. Hún sagðist vera búin að bíða svo óralengi eftir mér og hvað hún væri fegin að eg skyldi loksins koma. Hún sagði mér frá lífinu á Borg þegar þar var blómlegur búskapur og fjöldi fólks á báðum bæjum. Hún átti aldrei með sig sjálf, þau Einar voru lengst af annarra þjónar, í húsmennsku þegar best lét. Það var lán að þau eignuðust ekki nema þessa einu dóttur, hana Guðbjörgu, nógu var nú róðurinn þungur samt. þau höfðu verið víða áður en komið var að Borg, síðast í Þernuvík i skjóli dótturinnar, sem bjó þar, en skildi svo við manninn sinn. Þá var ekki til setunnar boðið og leiðin lá hingað að Borg þar sem María endaði sína jarðvist. Hún var þá orðin 57 ára gömul og margföld amma, það náðu því ekki allir á þessum árum. Síðan sagðist hún hafa beðið eftir mér. Þó hún eignaðist bara þessa einu dóttur voru afkomendurnir orðnir svo margir að einhver hlaut að lokum að koma hér. Ég stóð jafn frosin sem fyrr. Hvað var hægt að segja við langa langa langa langa langömmu sem var til fyrir 156 árum og átti aldrei þak yfir höfuðið?
Að síðustu þakkaði hún mér fyrir komuna, sneri frá og gekk aftur til baka að tóftunum. Dökkur klæðnaðurinn samlagaðist rökkrinu og svo sá ég bara grjótið úr föllnum veggjunum-----------
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er mögnuð saga... Annars er ég frekar svekktur yfir því að það má ekki lengur skíra drengi Svarthöfða. Svarthöfði Guðmundsson gæti hafa verið næstur á dagskrá.
Gleðilegt ár!
GK, 31.12.2006 kl. 15:37
Nei Guðmundur Karl!
mýrarljósið (IP-tala skráð) 31.12.2006 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.