14.9.2009 | 20:49
Réttir, brúðkaup og uppskerustörf
Fjárrekstrar á Skeiðunum í fíngerðum rigningarsudda, hlýju og logni.
Ég fann til samkenndar með rekstrarmönnum, gallaklæddum, ýmist gangandi eða ríðandi alsælir fylgdu þeir kindunum sínum heim úr réttunum. Á svona dögum skiptir veðrið engu máli, allt er gott. Síðustu ár finnst mér að rekstrar á þessari leið hafi verið fáir og smáir. Alla vega þó einn bærilega stór Flóarekstur, en nú mættum við fjórum hópum. Fyrst kom rekstur frá Löngumýri, svo kom Litlu- Reykja reksturinn, síðan Flóareksturinn stóri. Ég ætla ekki að halda því fram að ég þekki svipinn á rollunum á bæjunum, en fólkið þekki ég.
Síðast sáum við svo til rekstrar á Húsatóftaholtinu og bílalestin hægði á sér einu sinni enn. Stoppaði alveg. Þessi rekstur var ekki stór, en það var mikið að gera í kringum hann. Kindurnar voru útum allt, á veginum og svo einhver slæðingur báðumegin við. Ein rolla tók sig til og hljóp í átt að Húsatóftum en hún komst ekkert upp með það, tíu manns, vel ríðandi eltu hana og komu á rétta leið. Með öllum þessum rekstrum var fjöldinn allur af fólk, en með þessum síðasta þó miklu meira af gangandi börnum. En þarna þekkti ég engan. Mér datt í hug að einhver væri þarna á ferð sem hefði nýlega sest að á Skeiðunum til að lifa af landsins gæðum og það væri bara gott.
Svo var brúðkaupið. Erla Björg og Vilberg giftu sig í Hrunakirkju og buðu síðan vinum og ættingjum til veislu í félagsheimilinu. Enn var súld og milt og lygnt. Það er örugglega gott veður fyrir brúðkaup, ég held að hjónin eigi þá að lifa kyrrlátu lífi og efnast vel.
Á sunnudagsmorgni eftir náðuga nótt í Mýrinni vorum við svo tímanlega á fótum og tilbúin í uppskerustörfin. Við vorum vel mönnuð með allflesta afkomendur í vinnu.
Við tókum kartöflurnar allar upp, en rófurnar létum við vera. Þær vaxa langt frameftir haustinu. Laukurinn var líka tekinn og jarðarberin sem nothæf voru. Sniglaskrattarnir höfðu farið illa með þau. Hindberin eru orðin ágætlega þroskuð og berjatínslukonurnar fylltu þar glösin sín. Það var nú reyndar upp og ofan hvort þær fylltu og tóku með heim eða supu bara úr glösunum þegar slatti var kominn í.
Svo var endað á að elda dýrindis súpu úr hráefni sem allt hafði verið tekið upp þarna samdægurs. Hún var einstaklega kjarngóð og ljúffeng.
Hér eru nokkrar myndir: í fyrsta lagi af brúðarbílnum á leið frá kirkjunni, svo af "gömlu" hjónunum í kartöflugarðinum, hindberjunum og svo stúlkunum sem tíndu berin.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta var aldeilis skemmtileg, manstu þegar ég fór með þér að skera hvítkálið þarna um árið?
mýrarljósið (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 20:59
Já ljósið mitt, það man ég. Við vorum góðar þá - og erum enn. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 14.9.2009 kl. 21:08
Þetta var góð helgi
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 15.9.2009 kl. 15:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.