"Á misjöfnu þrífast börnin best"

Ég sá í gær, þegar við fórum í sveitina, að það er kominn haustlitur á kornakrana, kornið er að verða þroskað. Ég hef líka tekið eftir því í sumar að á Sandlækjarmýrinni var sáð einhverju öðru en korni í stórar sléttur. Ég hef ekki stoppað til að smakka á þessu en mér hefur dottið í hug að þarna séu hafrar, áferðin er ekki ólík.

Og þá rifjaðist upp fyrir mér hvað hafrarnir voru góðir á bragðið.

Fyrir óralöngu í uppvextinum heima var alveg ótrúlega fjölbreytt fæði hjá okkur krökkunum. Við fengum auðvitað að borða á matmálstímum eins og annað fólk, yfirleitt ágætismat, en það var bara brot af því sem við létum ofaní okkur.

Hvernig átti líka annað að vera en að við værum sísvöng, úti allan guðslangan daginn og ekki bara að leika okkur, við vorum látin vinna baki brotnu, svo líklega yrði kært til Evrópusambandsins núna.

Við systkinin vorum heppnari en margir, við gátum verið á beit í fjölbreyttari gróðri en flestir. Við gátum étið grænmeti allt sumarið eftir að það varð sæmilega vaxið. Gulræturnar voru að vísu ekki tilbúnar fyrr en í júlílok, en eftir það voru þær aðalfæðan hjá mér á milli mála. Ég stóð og pakkaði gulrótum amk. tvo daga í viku.

Hvítkál og blómkál var líka vinsælt og svo rófur, stundum skafnar með hníf, þá voru þær svo sætar og safaríkar.   Grænkálið fannst mér alltaf svolítið rammt, en steinseljan, sem við kölluðum nú bara persille, var ágætt á bragðið, leggirnir bestir, og mikið af þeim í einu. Tómatana máttum við ekki vaða í óhindrað, þeir voru meira svona "spari" og pabbi hugsaði alveg um þá.

Áður en grænfóðrið var tilbúið var hægt að bjargast á rabbarbara eða hundasúrum og kerfillinn á ruslahaugnum var ágætis bragðbætir, en ekki gott að éta mikið af honum. Síðsumars var umfeðmingurinn góður, blómin bláu voru sæt og góð. Rifsrunnana varð að verja svo við værum ekki búin að klára berin löngu áður en nokkur litur kom á þau.

Á veturna var allt í lagi að japla á töðunni í hlöðunni í Hvammi. Bragðið var gott af safanum sem úr henni kom, en mig minnir að tuggunni hafi yfirleitt verið spýtt þegar hún var orðin bragðlaus. Ég komst aldrei uppá lag með að jórtra eins og kýrnar og kindurnar. Hafrarnir voru aftur á móti étnir óðurrkaðir og þeir voru góðir.

Svo voru þeir settir í súrhey ef ekki var beitt á þá strax. Súrheyið fannst mér aldrei gott.  En á veturna var beljunum gefið mél,  á meðan var verið að mjólka úðuðu þær í sig þessu góðgæti og þá var stundum síldarmél, það var lostæti. Að taka fulla lúku úr pokanum og troða uppí sig, ég man enn að innsogið var stundum svo mikið að nefið fylltist og allt lenti í fári. Ég held að enginn hafi amast við þessu síldarmélsáti, það var nóg til. 

Hænsnakornið var hægt að bryðja í neyð, en hænsnamatinn sem hrærður var daglega langaði mig aldrei í, samt var hann búinn til úr mannamat. Afganginum af hafragrautnum, köldum kartöflum og allskonar afgöngum öðrum var hrært saman handa hænunum.  Þær voru sólgnar í þetta, en ég var aldrei svo svöng að ég hnuplaði frá þeim. 

Á þeim árum voru engir kornakrar í sveitinni, en ég efast ekki um að þar hefðum við fundið góða og holla næringu. Kannski ég smakki á því í næstu ferð? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Býsna skemmtilegur matseðill. Aldrei át ég allt það sem þú lýsir en sumt af því þó, og man ekki betur en alltaf væri tiltekinn kassi? eða var það skál? í skúrnum hjá honum pabba þínum með tómötum sem voru ekki nógu fallegir eða eitthvað gallaðir sem mátti laumast í ef menn kunnu sér hóf. Mig langar að bæta við einum rétti sem mér fannst prýðilegt nammi á sumrin, líklega þó einkum framan af sumri. Það voru peningagrösin -- ég lærði held ég aldrei annað nafn á þessu. En, þú manst -- maður fletti utan af „ávextinum“ sem var grænn og flatur og lúmskt bragðgóður, á stærð við litlafingursnögl…

Sigurður Hreiðar, 25.8.2009 kl. 19:09

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Jú frændi - það var kassi með "apatómötum", þessum sem voru ekki alveg eðlilega vaxnir eða þá með svörtum blettum í botninn. En það var aldrei mikið í þeim kassa. 

Svo var eitt sem ég mundi eftirá, það var kartöflusmælkið. Það sem var svo örsmátt að engum datt í hug að hirða, það var gott að borða í garðinum þegar sulturinn fór að segja til sín hálftíma fyrir mat.  

Svo þarf auðvitað ekki að nefna það, en vitanlega fór heilmikið af mold ofaní okkur með grænfóðrinu, það voru ekki alltaf aðstæður til að þvo. 

En peningablómin borðaði ég aldrei, reyndi frekar að nota "peningana"í einhverskonar viðskiptum. kv. 

Helga R. Einarsdóttir, 25.8.2009 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband