13.5.2009 | 21:23
Utan þjónustusvæðis
Ég er á röngum stað, er þó samt í vinnunni. Ég var send á milli sókna.
Staður á Eyrarbakka - samkomuhús - íþróttahús. Ég sit í anddyrinu.
Rúðurnar í gluggunum eru mattar af sjóroki og salti, það er hvasst úti og mistur svo ekki sést til fjalla. Eyrarbakki er einangraður í rykskýi sem kemur með suðaustanáttinni alla leið frá Evrópu.
Ég fór áðan út á sjóvarnargarðinn og leit til sjávar, sá alveg út fyrir brimgarðinn, sem var þó ekki stórkostlegur. Ég hélt að í svona roki væri mikið brim en ég er nú ekki þaulkunnug sjólaginu við ströndina. Fyrir utan húsið berst fáni á stöng, eða öllu heldur slitrur af fána sem líklega hefur lamist þarna í allan vetur. Ekki gott að sjá hverskonar flagg er þarna á ferð, en sýnist þó hafa liti sveitarfélagsins eins og merkið á bílnum sem kom áðan. Hann stoppaði við grjóthrúgu sem er nærri fánastönginni og eftir góða stund komu tvær manneskjur út og krupu við hrúguna. Kröfsuðu eitthvað í kringum steinana en stóðu svo upp, fóru í bílinn og óku burt.
Annars er ekki mikil umferð. Einstaka bíll fer um götuna, rólega eins og þeir eigi ekkert erindi. Kannski eldri borgarar í bíltúr að skoða brimið - sem ekkert er.
Það virðist fátt af fólki á ferli í þessu þorpi. Skólabíllinn kom áðan og var greinilega að flytja heim börn eftir skóladaginn. Þau voru fjögur sem fóru hér úr og hlupu sitt í hverja áttina, væntanlega hvert heim til sín og þar hljóta þau þá að eiga foreldra. Einhverjir búa hér þó.
"Rauða húsið", sem einu sinni var, er hér handan götunnar. Það er enn rautt og með grænu þaki, en það er þar ekki neitt núna. Veitingastaðurinn Rauða húsið er austar, nær kirkjunni og bara rautt að hálfu. Hinn helmingurinn er hvítur.
Klukkan er tvö. Það er rólegt hjá mér núna. Ég er fylgdarkona stráka úr skólanum sem eru að læra nútímadans í salnum hérna. Mér finnst reyndar spurning hversu nútímalegur þessi dans sé, finnst ég hafa séð götubörn í New York dansa eitthvað svipað í bíómynd fyrir fjörutíu árum.
Fyrir hádegi voru hér fjörutíu 9. bekkingar, en nú eru bara tíu úr 10. bekk. Þeim finnst þetta gaman og eru ekkert að fela það. Það er gott.
Það er allt of fátt sem strákum á þessum aldri finnst gaman.Við förum aftur á morgun og svo verður sýning í íþróttasalnum á Sólvöllum á föstudaginn. Þá verða margir hissa, en ekki ég.
Þarna kom ein stelpa labbandi á móti rokinu. Hún hlýtur að vera að fara í sjoppuna?
Það er sjoppa hérna og svo líka kirkja. Það er verið að byggja hús hér fyrir vestan og það er með turni eins og kirkja, samt er það víst bara venjulegt hús.
Það er sjávarlykt í loftinu, líka inni. Og það lífsmark sem helst er að sjá eru stöku mávar sem láta vindinn feykja sér um loftið.
Enn kemur skólabíll, sá þriðþji á klukkutíma en hann er tómur. Kannski sleppti hann út krakka einhversstaðar á Túngötunni, það býr eitthvað af fólki við Túngötuna sagði húsvörðurinn mér, en hann sagði líka að hér væri varla nokkur maður kunnugur orðið, allt svo ólíkt því sem einu sinni var, þegar allir þekktu alla. Hann sagði mér líka söguna af Stað, húsinu sem einu sinni var hér, en stendur nú á Selfossi og fær að vera einhver ár í viðbót, þökk sé kreppunni. Hann sagði líka að það brimaði ekki á Bakkanum í suð-austan átt.
Fjórði skólabíllinn kom og svo sá fimmti, sem við fórum í og vorum flutt heim á Sólvelli. Bílstjórinn sagði mér að hann færi fimmtán ferðir á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar yfir daginn, eitthvað kostar það?
Það kostar allt svo mikið núna. Við förum aftur í dansinn á morgun og það kostar sjálfsagt sitt, en það er gaman.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmilegt takk.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 13.5.2009 kl. 23:31
Skemmtileg meditation. Ég fór eftir endilöngum Eyrarbakka í fyrradag. Í rútu með 39 öðrum gamlingjum úr Mosó. Við sáum varla lifandi hræðu nema þrjá menn sem voru að dudda við að laga hús einhvers staðar um miðbik götunnar sem ég veit ekki hvað heitir. En hún liggur sjávarmegin við kirkjuna.
Ég fylltist eins og ævinlega þegar ég fer um Eyrarbakka e-s konar upphafningu við minninguna um að þetta var verslunarstaður og viðskiptahöfn Suðurlands. Hefði bíllinn ekki komið til sögunnar og menn ferðuðust enn á fleytum þar sem því yrði við komið en annars á hrossum ef ekki bara gangandi væri Eyrarbakki sennilega höfuðstaður Íslands. Hann er æpandi minnismerki um þá félagslegu byltingu sem bíllinn olli á landinu.
En gersamlega lífvana á virkum degi í miðri viku. Talandi tákn að við sáum varla lífsmark þarna við sröndina fyrr en á álfa- og draugasetrinu á Stokkseyri!
Sigurður Hreiðar, 14.5.2009 kl. 11:15
Slæmt að geta ekki lagfært athugasemd þegar búið er að sleppa henni. Sé núna að t-ið hefur dottið úr ströndinni þarna í síðustu línunni.
Kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 14.5.2009 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.