Áttundi maí - fyrir langa löngu síðan

Afmælisveisla í Efra Langholti - hjá Boggu.

Ellefu eða tólf ára urðum við þetta vor, kynntumst fyrst í barnaskóla og þar byrjuðum við tíu ára gamlar.

Ég fór að heiman á hjóli. Pabbi hafði keypt tvö hjól á uppboði í Reykjavík, eitt strákahjól handa Erni og eitt stelpuhjól handa mér. Hann fór alltaf á uppboð ef það var í boði þegar hann fór til Reykjavíkur. Bæði voru þessi hjól notuð og báru reynslu fyrri ára utaná sér, lakkið var lélegt. En pabbi sá við því. Hann keypti í sömu ferð dollu með grænu reiðhjólalakki sem dugði á bæði hjólin.

Þau litu ekki lengur út eins og notuð hjól, en reyndar ekki heldur eins og ný, hvergi nokkursstaðar í heiminum voru framleidd hjól sem voru svona fallega græn. Alveg eins og tún á vori.

Það var aurbleyta í vegum uppsveitanna þennan áttunda maí fyrir langa löngu. Fram að Langholti var dágóður spölur, svona sex til átta kílómetrar trúi ég og töluvert af brekkum - aðallega upp i móti.  Það var þurrt í veðri en vegurinn allur í drullu. Hvert hvarfið tók við af öðru og ég í betri skónum. Uppreimuðum strigaskóm sem nú væru væntanlega rándýrir og kallaðir flottu nafni, Canvas eða eitthvað slíkt.

Ég varð að teyma hjólið megnið af leiðinni, draga það út fyrir veg til að komast hjá hvörfunum þar sem það var hægt, eða stikla á steinunum sem uppúr stóðu. Þetta var erfitt ferðalag. En ég komst í afmælið. Eins gott, því annars hefði ekki orðið nein veisla, ég var eini gesturinn. Og ég var með pakka.

Það var lítill pakki. Ef ég hefði sjálf fengið svona lítinn pakka í afmælisgjöf er ég viss um að mér hefði fundist hann einstaklega léleg gjöf.  En ég vissi hvað var innan í umbúðunum og fannst þetta mjög flott afmælisgjöf, svo flott að ég hefði alveg viljað eiga hana sjálf. En ég var nú samt rausnarleg og rétti Boggu gjöfina.

Hún tók umbúðirnar utanaf og í ljós kom lítil næla. Óskaplega falleg næla sem var í laginu eins og gítar, þessir sem spánverjarnir spila á þegar konurnar dansa í síðu skrautlegu kjólunum. Og gítarinn var líka skrautlegur, grænn og rauður og gulur, með brúnum hálsi þar sem mótaði fyrir örfínum strengjum.Og hann var ekki úr tré eða pappír eða öðru venjulegu efni, þetta var "plastik" gítar. Guð hvað ég vildi að ég ætti svona nælu. En pabbi hafði bara keypt eina afmælisgjöf þegar hann fór til Reykjavíkur, þarna þegar hann keypti hjólin á uppboðinu, og auðvitað valdi hann gítar, hann kunni sjálfur að spila á þessháttar hljóðfæri.

Bogga var auðvitað ánægð með gjöfina og sýndi öllum. Aldrei hafði sést svona falleg næla í Efra Langholti. Við fórum svo inn til Jóhönnu gömlu. Jóhanna var amman á bænum og átti sitt eigið herbergi. Það var einu sinni þannig á öllum bæjum, allar ömmur og líka afar áttu eitthvað sem var kallað "inni hjá sér". Jóhanna sat í stólnum sínum. Ömmurnar áttu líka alltaf stól til að sitja í, nema þær vildu heldur sitja á rúmstokknum, eins og hún Ingibjörg á Högnastöðum gerði.

Já - Jóhanna sat í stólnum sínum og Bogga sýndi henni næluna. Mikið dæmalaust fannst henni þetta fallegur hlutur, hafði víst aldrei séð annað eins. En hvað er þetta, vildi hún fá að vita? Það lá svo sem ekkert í augum uppi og gamlar konur sem voru fæddar 1800 og eitthvað höfðu víst ekki mörg tækifæri til að skoða búðadót frá Reykjavík.

"Þetta er gítar amma mín" sagði Bogga, og það á eð næla honum svona í sig, bætti hún við og festi gítarinn í barminn.

Jóhanna var svo aldeilis hissa hvað hægt var að búa til mikið fallegt og ég var víst alveg sammála, en kannski pínulítið öfundsjúk samt. Alla vega man ég enn í dag hvað nælan var falleg - og úr ekta plastik.

Til hamingju með afmælið Bogga mín.Scan10054


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband