28.4.2009 | 22:00
Það var sagt "að sumarið væri tíminn"
En það er nú held ég misjafnt og fer eftir því hver á í hlut.
Hjá mér er það örugglega vorið sem fær þessa nafnbót. Auðvitað helst vegna þess að þá lifnar allt sem legið hefur í dvala yfir veturinn, en svo líka af því á þessum tíma er svo margt í gangi og mikið um að vera að það þarf meira en venjulega viku til að komast yfir það allt. Þetta með vorið og gróðurinn - ég opnaði vermireitinn minn fyrir rúmri viku - aðeins bara til að vökva í honum, það var dálítið þurrt. En þar var aldeilis sjón að sjá! Allt að lifna og grænka. Og bakkarnir sem ég sáði í haust flestir orðnir alþaktir litlum grænum blöðum sem voru að brjótast upp úr moldinni. Ég tók mynd sem þið fáið að sjá og lokaði svo aftur. Næstu mynd tek ég um miðjan maí og hvað verður þá að sjá?
Ég er löt í tölvu þessa dagana. Nenni stundum að henda inn athugasemdum við eitt eða annað, en almennilegar skriftir sitja á hakanum. Ævisagan er ekki komin lengra en að 1980 eða svo, það vill til að hún er til handskrifuð í 2 stk.A4 ef ég skyldi gleyma henni alveg. Ég er miklu duglegri við aðra handavinnu þessa dagana. Búin með klukkustrenginn sem ég gufaði upp á 1972 og svo er ég núna að hekla og prjóna úr öllu garni sem ég finn í pokum og skúffum. Á orðið þokkalegan lager af vögguteppum pilsum og ýmsu öðru skemmtilegu. Ég er hræddust um að ég lendi á glapstigum og fari í frekari garnkaup þegar fer að létta á lagernum.
Annars fór ég í óvissuferð á föstudaginn, út í Hveragerði með karlakórskonum - það var nú meiri óvissan. En við komumst aftur heim. Svo var ég vöknuð fyrir allar aldir og kaus eldsnemma. Það var til þess að ég fengi svo allan laugardaginn til að hreinsa til á lóðinni. Að vísu kom gestur á milli tíu og tólf og svo var smá grjónagrautspartí í hádeginu, en lóðin er orðin fín núna. Það var svo konsert í Hveragerði á sunnudag, ég seldi þar miðana. Ég sá engann sem ég hafði hitt á föstudagskvöldinu, sennilega annað fólk sem fer á karlakórstónleika í kirkjuá sunnudegi, en það sem stendur í "óvissu brölti " um kvöldin. Á föstudaginn ætlum við í leikhús í Borgarnesi og svo fer að nálgast karlakórsferðalag og það þarf að bera á pallin áður en tjaldið verðu reist hjá hjólhýsinu. Ég segi ekki að ég þjáist af verkkvíða, enda eru þetta svo sem engin verk, bara eintóm skemmtun.
Það er vinnan nú reyndar líka, og nú þarf ég að fara að búa mig undir að kveðja bekkinn minn. Við erum búin að eiga saman súrt og sætt í nærri tíu ár og vitum held ég, hvorki ég né þau, hvernig við komumst af án hvers annars.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið hlakka ég til þegar garðurinn verður kominn í stand hjá okkur svo að við (ég) getum verið með matjurtargarð. Skyldi maður rækta rófur? Það er aldrei að vita
Josiha, 28.4.2009 kl. 23:08
Æðislegir skór!!
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 29.4.2009 kl. 10:14
Þessir skór eru dásamlegir!! Kveðjur úr112.
Kata mágkona (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.