Saga Jólatrésins

Við sóttum það austur að Tumastöðum vorið 1972. Ósköp lítið tré, ca. 50cm. eða svo.   því var plantað fyrir framan húsið, á besta stað. Þar lifði  það góðu lífi tvö eða þrjú ár, en var þá flutt og sett niður bakvið og lengra frá húsinu. Það hefur öll árin vaxið frábærlega vel, langur toppur hvert haust og nú er það eitthvað töluvert yfir tíu metra. Þó hefur það orðið fyrir áföllum. Toppurinn hefur þrisvar sinnum brotnað af, einu sinni af knattspyrnuslysi en svo í hávaðaroki. Mörgum sinnum hafa þrestir gert sér hreiður í trénu og ungarnir sem þar hafa komist úr eggjum skipta tugum. Það hefur á hverju sumri verið ærið verkefni að flæma ketti úr garðinum á þeim tíma sem þeir eru að yfirgefa hreiðrin, og mörgum unganum hefur hér verið bjargað úr kattarkjafti.

En það hafa líka orðið slys, það er langt í frá að allir ungar sem alist hafa upp í Rauðholti hafi náð því að gera sér hreiður seinna meir. Fyrir tveimur árum var hreiður í trénu, hátt uppi, trúlega svona í fjögurra metra hæð. Við tókum eftir þegar mamman fór að bera maðka í búið, það voru komnir ungar.  En einn laugardagsmorgunn vaknaði ég upp við hræðslu og sársaukahljóð í þröstunum. Kattarhe------ í næsta húsi! Ég rauk út, í fáklæddara lagi, en varð of sein. Ófétið var búið að drepa fullorðinn þröst. Í lengstu lög vonaði ég að það væri ekki mamman, en ég sá hana ekki allan daginn. Enginn var að bera orma til unganna í hreiðrinu. þegar leið að kvöldi fórum við að heyra sultarlegt tíst frá trénu, þeir voru orðnir svangir. Við vorum boðin í afmæli um kvöldið, bjuggumst sparifötum og fórum í partí. Ég var í veislunni alltaf með hálfan hugann hjá ungunum, hvað skyldu svona grey lifa lengi matarlausir.  

Þegar við komum heim um nóttina, vel hress úr veislunni gat ég ekki hugsað mér að fara að sofa fyrr en ég væri búin að reyna að gera eitthvað fyrir munaðarleysingjana.  Það var langur stigi í bílskúrnum, ég náði í hann og reisti upp við grenitréð stóra.      Ekki stóð hann nú stöðugur svo S.K. tók að sér að styðja á meðan ég klifraði upp.      Ég hafði ekkert mátt vara að því að hafa fataskipti, var í háhæla skóm, pilsi og ermalausum bol. Það var hlý sumarnótt. Ég klifraði nú upp stigann, sem sveiflaðist til utaní trénu. Þar sem ég var í fáklæddara lagi var návígið við greninálarnar frekar óþægilegt. Stuðningurinn á jörðu niðri fannst mér heldur ekki til að hrópa húrra fyrir. En ég komst alla leið, þegar þrjú þrep voru eftir af þessum óralanga stiga kom ég þar sem hreiðrið var og horfðist nú í augu við fjóra berstrípaða unga, sem fögnuðu mér með sultartísti. En ég átti engan orm. Þarna sveiflaðist ég til í fjögurra metra hæð og því varla von á öðru en þessir litlu svöngu angar héldu að ég væri mamma. 

Ég ákvað að bregðast þeim ekki, " ég skal verða mamma ykkar", hvíslaði ég að ungunum  og tók hreiðrið af greininni. Svo hófst ferðin niður á jörðina aftur. Það vildi til að það var hánótt svo nágrannarnir  sváfu á sitt græna.  Við komumst  öll niður og þá setti ég hreiðrið í kassa inní skúr. Svo fór ég að leita að ormum, enn í sparifötunum. Ég fann orma og sleit þá í sundur í mátulega bita. Hvað vissi ég annars um  hvað væri mátulegt fyrir  þrastarunga á frumstigi? En þeir tóku við,  reyndar svo vel að ég bara hætti þegar mér fannst  komið nóg.  Svo fór ég að sofa.

Þeir lifðu einhverja daga greyin, ég gaf þeim samviskusamlega og hirti úr hreiðrinu það sem þeir létu frá sér. En ég var víst engin almennileg þrastamamma og þeir voru að síðustu jarðaðir á bakvið bílskúrinn.  En það getur verið við ýmislegt að fást eigi maður jólatré í garðinum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta var sorglegt

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.12.2006 kl. 23:06

2 identicon

Mikið var ég nú skammaður eftir þessi tæknilegu mistök sem mér urðu þarna á og þú kallar nú "knattspyrnuslys"  Afstaðan virðist aðeins hafa mildast.

Einar Ö. S.H. (IP-tala skráð) 2.12.2006 kl. 23:39

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Undanfarið hef ég lært að öllum geta orðið á "tæknileg mistök". Og ég hef líka komist að því að öll þannig mistök hverfa útí veður og vind ef maður bara biðst afsökunar.

Helga R. Einarsdóttir, 3.12.2006 kl. 00:20

4 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Haha ég man þegar ég kom að skoða þessi nýju fósturbörn þín,það var nú meira líf í kassanum en þrastarungar

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 3.12.2006 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 197662

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband