1.12.2006 | 21:25
Hittumst við í Glaumbæ eða við Geitháls?
Þó ég væri saklaus sveitastúlka var mesta furða hvað mér tókst að kynnast næturlífinu í Reykjavík. Fyrstu skrefin í áttina þangað voru þó tekin þegar við krakkarnir í uppsveitunum skruppum á sumarkvöldum til að fá okkur pylsu á Geithálsi. Nú veit enginn hvar sá staður var. það var eðalsjoppa sem stóð við þjóðveginn á milli Rauðavatns og Gunnarshólma. Þar sem nú er beygt útaf ætli maður að fara Hafravatnshringinn. Við fórum miklu frekar þangað en til Hildiþórs, en hann átti sjoppu upp við Ingólfsfjall og seldi þar svið. Við vorum á eðalvögnum, stórum amerískum drossíum, af árgerðum undir´60 og það var ekkert mál að skjótast yfir heiðina þó malarborin væri og Kambarnir í krókum.
Þegar ég fór í fyrsta sinn á skemmtistað í Reykjavík var það í Vetrargarðinum. Við fórum tvær vinkonur saman og fengum að búa nokkrar nætur hjá frænku annarrar. Hún bjó við Rauðalæk. Við vorum 17 ára og ætluðum sko að "mála bæinn rauðan". Frænkan fór í sumarbústað með manninn sinn og við áttum að sjá um okkur sjálfar. Við eyddum mestu af tímanum heima í íbúðinni. Sváfum og elduðum okkur mat. Einu sinni man ég þó að við komumst niður á Arnarhól þar sem við lágum fáklæddar í sólbaði dagstund.
Svo kom laugardagskvöld og við fórum á ball. Við vorum flottar á því og pöntuðum leigubíl og báðum um flutning í Vetrargarðinn. Sá staður var í Vatnsmýrinni, nærri því sem Umferðamiðstöðin er nú. Í lágreistri braggabyggingu sem áður hafð víst tilheyrt Tívolíinu sem einu sinni var. Við komumst inn, ekkert vandamál með það, en ekki var þetta líkt því sem við þekktum í sveitinni. Hálfgert myrkur inni og við þekktum ekki nokkurn mann. Allir eldri en við.Við hringsóluðum þarna þó fram eftir kvöldi, en komum okkur svo út og vildum komast heim á Rauðalæk. Þar voru engir leigubílar og við vorum lengst útí mýri.
Eitthvað höfum við litið vonleysislega út í augum vegfarenda því fljótlega renndi bíll upp að okkur og kona rak þar út hausinn og sagði okkur að setjast inn. "Þetta er ekki staður fyrir ykkur stelpur mínar". Það var fleira fólk í bílnum og spurði hvar við ættum næturstað? Við sögðum það og vorum svo í snarheitum keyrðar þangað. Ég vona að við höfum haft rænu á að þakka fyrir okkur áður en við drifum okkur inn og skriðum í hjónarúmið, sem við höfðum þessa daga til einkaumráða. Betur væri að borgarbúar nútímans hefðu svona fyrir því að bjarga ungum stúlkum af glapstigum.
Ég fór bara einu sinni í Vetrargarðinn, en er núna nokkuð ánægð að hafa náð honum í safnið með öðrum stöðum sem nú eru löngu horfnir og gleymdir. Næst kom Þórskaffi, svo Röðull, Hótel Borg og svo sem betur fer Glaubær, áður en hann brann, "og fólkið þurfti að finna sér annan samastað".
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.8.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 197661
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég var að vinna á Þórskaffi sem salernisvörður
Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.12.2006 kl. 21:53
Góóóður Gunnar! Ég man eftir svoleiðis vörðum, að vísu kvennamegin.kv. Helga.
Helga R. Einarsdóttir, 1.12.2006 kl. 22:45
Veit nákvæmlega hvar Geitháls var. Komst aldei í Vetrargarðin en hina staðina sem þú nefndir.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 1.12.2006 kl. 23:00
Party animal
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 2.12.2006 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.