22.1.2009 | 21:36
Ég ætla í útilegu
Hvað er betra á vetrarkvöldi, ein heima, ekkert á prjónunum og lítið í sjónvarpinu, en að plana útilegu fyrir næsta sumar.
Ég held að við förum á flakk í sumar. Ekki endilega svo langt eða í margar vikur samfleytt, heldur oft og stutt, á staði sem alltaf hafa orðið útundan.
Upp á Rangárvelli til dæmis. þar höfum við ekki tjaldað síðan um árið þegar við lentum í lausamölinni í ánni á leið í Veiðivötn. Bíllinn drap á sér og grófst svo niður í botninn. Mogginn sem var í afturglugganum (Opel´55) og hafði verið tekinn með til að lesa í tjaldinu, varð gegnblautur og aldeilis ónýtur þangað til búið var að dreifa honum til þerris á þúfunum í kjarrinu niðri á Rangárvöllum. Á þeim árum var prentsvertan ekta og leystist ekki upp þó lægi í bleyti nokkra tíma.
Það er líka hægt að fara upp í Þjórsárdal, þar hef ég ekki sofið í tjaldi síðan um árið þegar við vorum þar tvær vinkonur úr Ytri hreppnum næturlangt um verslunarmannahelgi. Pabbi keyrði okkur þangað og skildi eftir síðdegis á laugardegi. Við fórum á ball í Ásaskóla og vorum svo sóttar aftur síðdegis á sunnudegi, þegar við vorum búnar að fara í miðdagskaffi til hennar Dísu á Skriðufelli. Hún seldi gestum kaffi og með því í stofunni sinni um verslunarmannahelgar. Á ballið höfum við væntanlega komist með hjálp einhverra herramanna sem hafa átt leið hjá, varla höfum við farið það gangandi.
Verslunarmannahelgar á þessum árum einkenndust af því að alltaf var þurrkur og mikið að gera í heyskap í Efra-Langholti og uppskerutími grænmetis í hámarki heima hjá mér. Þess vegna höfðum við vinkonurnar ákaflega knappan tíma til útihátíðarhalda.
Í fyrsta skipti sem ég svaf í tjaldi var því tjaldað í Kiðagilinu, fyri framan bæinn í Hvammi og út um ganggluggann heima var hægt að fylgjast með útilegufólkinu, sem var víst um tíu ára aldurinn. Við vorum líklega þrjú eða fjögur.
Þetta gekk ágætlega, við fórum að sofa á kristilegum tíma og foreldrarnir fóru áhyggjulausir í rúmið. En um miðja nótt kom hersingin öll grenjandi í hús. Við höfðum vaknað við það að hestshaus kom yfir okkur, um gat á tjaldhimninum. Árans bikkjan hafði nagað gat þar á og tróð svo hausnum í til að kanna betur innihald þessa fyrirbæris sem hafði verið sett þarna niður, mitt í gómsætu grængresinu í Kiðagilinu.
Þetta var hann Blakkur, ég man það enn. Sonur hennar Jarpar, hennar annað folald á eftir Tinnu. Bæði voru þau hálfgerðar truntur, hann átti þó að heita reiðhestur en hún lagðist í lauslæti og eignaðist folöld á færibandi án þess nokkur maður vissi hvernig þau gætu hafa komið undir. Talað var um folaskratta í Ási. Þar var allt skjótt og vissulega var hún Skjóna litla nokkuð glöggt merki um faðerni af Hrunavellinum.
Það er ekki bara hún Anna á Hesteyri sem getur rakið nöfn og ættir búfjár á miðri öldinni sem leið.
En þetta kemur nú útilegum ekkert við.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hljómar vel Helga Af fyrri reynslu ráðlegg ég þér að fara í Þjórsárdalinn annað hvort snemma í vor eða um verslunarmannahelgina því flugan þarna gerir alla heilbrigða menn geðveika Það er ekki líft þarna fyrir flugu í júní og meirihlutann í júlí, úfffff!
Annars segi ég bara góða skemmtun í útilegunum
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 24.1.2009 kl. 11:58
Þá meinti ég um verslunarm.helgina í FYRSTA lagi. Held að ágúst sé í lagi
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 24.1.2009 kl. 11:59
Takk fyrir góðu ráðin Rannveig.
Reyndar væri alveg hægt að fara núna, ég held að það sé sex stiga hiti.
Einu sinni vorum við í útilegu í Bolungarvík í fjögurra stiga hita (kulda) það var víst frost við jörð. En við tjöldum nú reyndar vagni. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 24.1.2009 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.