12.1.2009 | 22:00
Svona er dagur í mínu lífi
Mánudagur. Klukkan sjö fimmtán og ég var vakandi, útvarpið malaði við hliðina á mér, en ekki man ég hvað var þar efst á baugi. Meðvitundin ekki meiri en svo.
Rétt fyrir hálf átta fór ég á fætur. Ég leit út um gluggann og sá að það hafði gránað. Hlýindi síðustu vikna búin í bili. Sá þó þegar ég leit á mælinn að frostið var ekki nema eitt eða tvö stig. Eftir morgunstúss og jógúrt í glasi (moggafletting með hraði fellur undir þann lið) klæddi ég mig í útifötin. Kuldabuxurnar í fyrsta sinn á árinu, sem er nokkuð merkilegt, úlpu húfu og vettlinga. Kuldaskóna, og setti járnin undir. Hálka er það versta sem ég veit, svellaðir blettir undir þunnu snjólagi hafa gert mörgum ljótan grikk.
Ég tók með mér handklæði og stuttbuxur í poka. Það var leikfimi í dag og einn félagi minn leikur það stundum að "gleyma" því sem þarf. Ég sé við því.
Ég er fimm til sjö mínútur að labba út í skóla, það var gott veður og tunglið enn hátt á himni, einhversstaðar yfir Eyrarbakka. Ég er komin í skólann korter fyrir átta - alltaf.
Þess vegna er hægt að fara aðeins í kaffi á kennarastofunni, segja góðann daginn við þau sem þar eru komin og fletta fréttablaðinu, sem einhver er svo hugulsamur að taka með sér í vinnuna.
Komin fram á gang kl. átta, enn segjandi "góðan daginn" við alla sem koma inn. Margir eru þó komnir fyrr og búnir að fara í hafragrautinn í matsalnum. Ég fæ mér ekki hafragraut, finnst hann ekki góður og það er fortíðarvandi. En hann er ókeypis.
Einn kennarinn gleymdi lyklunum sínum svo ég varð að bjarga honum inní stofuna. Svoleiðis getur alltaf komið fyrir, en þessi kennari bætti fyrir gleymskuna með því að koma með fullan pakka af blýöntum, sem hann hafði keypt um helgina. Krakkarnir urðu ekki lítið glaðir þegar þau sáu það. Getur oft komið sér vel að kennarinn hafi nytjahluti til að lána - það gleymist svo margt - eða er kannski ekki alltaf til. Og undanfarnar vikur hefur ekki verið hægt að fá blýanta í skólanum. Þeir eru ekki margir til. (kreppan)
Þegar allir voru komnir í stofur fór ég á minn stað. Í þetta sinn í íþróttasalinn.
Ég var "böstuð", handklæðið og buxurnar í pokanum þurfti ekki að nota, minn maður gleymdi engu í dag. Tíminn gekk ágætlega, Krakkarnir komu vel undan helginni, ekkert nöldur eða leti. Bara vaðið í það sem átti að gera, þó ekki væri það allt svo létt. 2x20 armbeygjur og 15 + 15 "samfellur". Ég veit vel að þetta skilja bara fagmenn og það er allt í lagi. Ég lenti bara í einni lífshættu í þessum tíma. Stóð við markið í vítakeppni og fékk boltann úr þrumuskoti utaní annað eyrað. Fann af honum þytinn, en varð annars ekki meint af. Sá sem skaut varð hins vegar fölur og fár. Baðst margfaldlega fyrirgefningar og var enn miður sín þegar hann var búinn í sturtunni.
Svo komu löngu frímínúturnar og þá er ég í matsalnum. Alltaf á sama stað og hjálpa krökkunum að hafa stjórn á ruslinu svo það verði ekki að dóti á borðum eða gólfi.
Góður kunningi úr fimmta bekk kom að utan og kallaði "Helga, mig vantar poka, það var keyrt yfir kött"! Ég sótti höldupoka í eldhúsið, þeir urðu að vera tveir af því ekki voru til neinir plastpokar ,(kreppan) bara druslupokar og við þorðum ekki að treysta því að einn væri nóg undir dauðan kött.
Eftir frímínúturnar fór ég í kaffi og rakst í laiðinni á strák sem hafði verið sendur eftir töflutússi. Kennarinn hafði ekki fundið neitt nothæft í skúffunni sinni. Ritarinn leitaði og fann á endanum tvo notaða tússpenna grænan og rauðan. Strákurinn fékk þann rauða. "Kannski fáum við túss í vikunni" sagði ritarinn. (kreppan)
Svo liðu tímarnir einn af öðrum fram að hádegi. Nátúrufræði, danska, enska, samfélagsfræði. Ég þurfti að hitta deildarstjóra og fór inn til hans. Málið var leyst á staðnum. En þar - þar á staðnum - kom ég auga á plastkörfu - fulla af tússpennum. Ég sagði fyrst ekkert, horfði bara stíft á alla þessa tússpenna, svo leit ég á hann og hann á körfuna. Við sáum bæði að þetta leit hreint ekki vel út. Ég hafði aðeins orð á því að nú væri víst bara einn grænn til hjá ritaranum. "Já - er það" sagði hann, "þetta hefur víst safnast upp frá í haust". "Kannski flestir ónýtir"?
Eftir stutt hádegishlé fór ég í tölvutíma í fimmta bekk. Það er heilmikil áskorun og tíminn líður hraðar en nokkurn gæti grunað. Fimmti bekkur er furðulega fjölhæfur í tölvum.
Svo fór ég aðeins í stofuna okkar (10.bekkjar) að gá að dálitlu sem ég var beðin um að skoða og svo talaði ég við dönskukennarann okkar útaf morgundeginum. Ég kom við á skrifstofunni og sá þá - tússpenna! - allnokkra, á borðshorninu hjá ritaranum.
"Einhver" hafði lagt þá þarna, einhver sem ekki þurfti að nota þá alla.
Svo kom að því að dagurinn í skólanum var liðinn. Það var enn bjart þegar ég labbaði heim, en þó var klukkan orðin rúmlega fjögur. Það kemur bráðum vor.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Flott blogg. Og síðasta setningin er alveg yndisleg
Josiha, 13.1.2009 kl. 21:19
Jáhá ég ók einmitt fram á Dídu og dauða köttinn þennan morgun frekar subbulegt.
Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.