3.11.2008 | 20:34
Leikið með kjálka og skeljar
Í mínu ungdæmi voru kjálkarnir kýr og leggirnir hross. Völurnar voru hundar en engar kindur áttum við í búinu, hvað var notað fyrir sauðfé bara veit ég ekki?
Í fjörunni neðan við Hulduhóla fundum við skeljar, en þær voru ekkert í búinu, bara skeljar og hörpudiskar til að safna saman og bera heim til ömmu og afa. Ég hef alltaf tínt skeljar í fjöru, eigi ég leið þar um. Og síðasta sumar var nokkuð fengsælt í þeim efnum. Og þegar ég hef gert sviðasultu undanfarið hef ég geymt kjálkana, ekki veit ég hvers vegna. Kannski undirmeðvitundin hafi hvíslað að mér að dót gæti orðið dýrt á næstu árum og barnabörnin hefðu jafnvel gaman af því sem einu sinni var.
Ég treysti mér alveg til að kenna þeim að nota gömlu gullin rétt.
Júlía kom hér um helgina og þá gerði ég tilraun. Lét hana hafa safnið og bauð að leika.
Fyrst tók hún kjálka og mundaði eins og skambyssu. Ég var ekki sein að leiðrétta misskilninginn og sagði henni að þetta væri belja. Útskýrði svo nánar, haus og tennur, spena og malir. Verst hvað illa gekk að láta kúna fóta sig á parketinu. En Júlía hætti að reyna að skjóta mig með beljunni. Þetta varð viðurkennd afburða mjólkurkýrin Búkolla.
Svo kom að skeljunum og það fór eins og á Hulduhólum forðum, raðað á gólfið, parað saman og snúið á alla kanta. Reyndar fann Júlía út að kúskeljar mætti nota á ýmsa vegu, höfuðföt, drykkjarílát, eða diska. Hver veit nema þar hafi lítill "sproti" skotið rótum.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hehe, sniðug tilraun! Mér finnst hún hafa stækkað síðan í ágúst.. ó boj
Helga Krónprinsessa (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 22:06
Þetta var skemmtileg tilraun og þú cool amma að leggjast í gólfmyndatöku
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 3.11.2008 kl. 23:54
Skemmtileg frásögn -- kalla gott að blessað barnið vissi hvað belja er og hvað á slíkri skepnu hangir. Telpan hefði varla getað áttað sig á því hvað kýr væri.
Nú er orðið fátt um fjöruferðir ofan fyrir Hulduhóla. Þar sem í öðrum fjörum hér nærsveitis er þar orðið fátt að tína nema helst golfkúlur. . .
kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 4.11.2008 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.