24.11.2006 | 20:37
Þegar ég var bóndi
Þegar ég var að alast upp í sveitinni hafði ég alveg óskaplegan áhuga á skepnum. Foreldrar mínir voru garðyrkjubændur og við áttum engin dýr. Einu sinni tókst mér þó að veiða villikettling í hlöðu á nálægum bæ. Ég fór með hann heim, en hann var ekki velkominn. Kettir voru aldrei okkar megin við ána, þeir drápu fugla og það var ekki vinsælt.
En á meðan ég var til einskis nýt og lék mér alla daga, (sem var þó ekki nema fram að tíu ára aldri), var ég öllum stundum uppi í Hvammi, þangað var tveggja mínútna sprettur. Þar voru kýr og þar voru hestar. Á öllum mjaltatímum var ég í fjósinu og kunni þar skil á öllu. Ég lærði að mjólka og ég mokaði flórinn. Kálfunum gaf ég líka mjólk úr flösku með túttu. Ef ég hafði ekkert þarfara að gera dansaði ég sömbu fyrir fjósamennina og söng undir um "Dísu í dalakofanum".
Ætli ég hafi ekki verið tólf ára þegar Jói í Hvammi byggði fjárhús inni á Hveraheiði og fékk sér svo nokkrar kindur. Ég fylgdist spennt með þessum nýjungum í búskaparháttum í Grafarhverfinu og ætlað mér auðvitað að taka fullan þátt í fjármennskunni. En ekki vissi ég , eða grunaði, að pabbi hafði samið við Jóa um að ég fengi að verða meðeigandi. Með kindunum hans Jóa komu tvær sem pabbi hafði keypt handa mér. Ég varð fjárbóndi á einni nóttu og lífið varð fullkomið. Næstu ár bjuggum við Jói svo blómlegu félagsbúi þarna á Heiðinni. Ég fór til skiptis við hann að gefa kvöld og morgunn, ég fékk frí úr gullrótagarðinum til að smala þegar þess þurfti og ég vaktaði sauðburðinn á vorin.
Það kom að því að sambýlingur minn fann sér konu, ég var bara krakki, og hann fór til Reykjavíkur að gifta sig eitt vorið á miðjum sauðburði. Þá var ég "aðal" og stóð mig held ég bara vel. Ég fór um miðjar nætur að líta til kindanna, ég tók á móti lömbunum og hjálpaði til ef þurfti. Ég gaf greyjunum sprautu í nárann, ekki man ég nú við hvaða pest það var. Og á hverju vori rak ég á fjall. Ég verð að segja seinna frá þeim ferðum.
þessi ár átti ég oftast þrjár til fjórar ær og ég lagði nokkur lömb inn í sláturhúsið á hverju hausti. En það kom að því að garðyrkjubændur í hverfinu gáfust upp á ða verja garðana fyrir ágengum rollum og þessum búskap varð að hætta. Þá fékk ég inni hjá Geira á Hrafnkelsstöðum fyrir tvær rollur. Hann sá alveg um þær fyrir mig með því eina skilyrði að ég ræki með honum til fjalls á vorin. Og því hélt ég áfram árum saman. Botnurnar mínar voru örugglega margendurnýaðar og á endanum útdauðar þegar ég, þriggja barna móðir, komin fast að fertugu, loksins hætti fjallferðum.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.8.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 197662
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Jórunn Sigurbergsdóttir , 25.11.2006 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.