18.11.2006 | 21:53
Í Kaupmannahöfn hjá Jóni Helgasyni og Þórunni frænku
Ég fór með ferjunni frá Ósló til Kaupmannahafnar haustið 1962. Eftir að ég hafði verið í Noregi eitt ár og komið var að heimferð bauð ömmusystir mín, Þórunn Ásta, mér að koma og heimsækja sig í Kaupmannahöfn.
Áður hafði ég búið nokkra daga hjá annarri frænku, Guðrúnu Brunnborg, en hún bjó skammt fyrir utan Ósló. Þar var ég að tína epli og það ekkert smáræði. Ég var nú orðin nokkuð sjálfbjarga í útlöndum og fór einhvern daginn að heimsækja gömlu konurnar sem tóku á móti mér ári áður. Vinnukonan fór þá með mér í skoðunarferð um Óslóarborg og við komum í Vigelandgarðinn sem ég man að mér fannst flottur.
En nú átti ég að koma mér hjálparlaust á milli landa. Ferjan var auðfundin og ég komst þar um borð tíðindalaust. Þetta var næturferð og ég man lítið annað en að ég fékk koju í klefa og svaf lengst af leiðinni. Svo var tekið á móti mér við komuna, það var Helgi, sonur Jóns og Þórunnar sem það gerði og flutti mig heim til þeirra. Mér var vel tekið á þessu heimili, sem var á þessum tíma athvarf Íslendinga, og það oft ekki aldeilis ómerkra Íslendinga. En það vissi ég þá ekkert um. Ég var hjá þeim í nokkra daga og fór í Tívolí, dýragarðinn, og á Strikið. Svo fór Helgi og fjölskyldan hans með mig í ferð út á land og er mér minnistætt að við komum þá til gamallar konu sem bjó í rosalega flottu eldgömlu húsi með stráþaki. Við komum þá líka við i listasafni, gæti verið Luisiana safnið ef ég man nafnið rétt? Helgi bjó þá með konu og börnum í borginni, Sólveig var flutt til Íslands og líklega Björn líka, þó er ég ekki viss um það.
Eftir þessa heimsókn fór ég svo aftur til Noregs með ferjunni og nú lenti ég í klefa með tveim konum sem voru báðar svo sjóveikar að mér var þar ekki vært. Ég kom mér út úr klefanum og fann mér skemmtilegri félagsskap. Landslið Noregs í skotfimi, var á heimleið úr keppnisferð, og með þeim skemmti ég mér það sem eftir var ferðar. Þeim fannst ég eitthvað einmana og vildu allt fyrir mig gera og ég man að þeim þótti merkilegt að ég væri Íslensk. Íslenskar stelpur, einar á báti, voru víst ekki algeng fyrirbæri á Skagerak og Kattegat á þessum árum.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er ekki af þér skafið kona.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 19.11.2006 kl. 00:10
Einar á báti?
Einar á Báti (IP-tala skráð) 21.11.2006 kl. 21:23
Einar er góður "á báti", ég hef sjálf séð hann róa.
Helga R. Einarsdóttir, 21.11.2006 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.