15.11.2006 | 21:29
Að mæta snemma til vinnu
Það er gott að fá ábendingar og hjálp við að rifja upp gömul afglöp.
Það var svo margt sem gerðist á Fossnestisárunum að ég get ómögulega munað eftir því öllu í einu. Þar var opið til kl. hálf tólf á kvöldin - og svo þurfti að ganga frá og loka öllu vandlega áður en heim var haldið, svo oftast var farið að líða fram yfir miðnætti þegar loksins var komið í koju. Kvöldvakt fylgdi yfirleitt morgunvakt næsta dag, það vildi til að maður var sæmilega hress. Mætt í vinnu og búið að opna k. átta. Það kom fyrir að við vorum á leigubílavakt ef við áttum ekki sjoppuvakt og þá sátum við í herbergi bílstjóranna, stundum alveg til sex á morgnana.
Ég var á sjoppuvakt eina helgi um hávetur. Farin að sofa um kl.eitt og vaknaði svo eldsnemma næsta morgun. Ég vakna oft klukkulaust og þannig var það í þetta sinn. Snaraðist framúr og í fötin. Ég lauk mínu morgunstússi með hraði, ég var á þessum árum ekkert að dunda við hlutina í morgunsárið. Klæddi mig í útifötin og fór út í myrkrið. Ég er ekki nema þrjár mínútur að hlaupa þennan spotta og var fyrst á staðinn.
Ég hef aldrei verið myrkfælin og fannst reyndar bara notalegt að dunda ein við morgunverkin. Kveikja öll ljósin, starta ísvélinni og gera pylsupottinn kláran. Sótti skúffurnar í peningaskápinn og setti þær í kassana. Svo fór ég fram að opna. Á þeirri leið heyrði ég einhvern umgang í bílstjóraheberginu sem var í hinum enda hússins. Ótrúlega voru þeir lengi að þessa nótt? Ég leit á klukkuna á veggnum - vantaði korter í fimm! Kræst! ég var of snemma á ferðinni, karlarnir á stöðinni allir hinumegin við vegginn. Ég hentist aftur innfyrir og slökkti ljósin í snatri. Svo paufaðist ég í myrkrinu við að slökkva aftur á öllu sem ég var búin að setja í gang. Ekki gat ég hugsað mér að láta bílstjórana skemmta sér yfir minni snemmbúnu fótaferð. Þegar kom að því að setja peningaskúffurnar aftur í skápinn hægði ég ferðina, ég nennti nú eiginlega ekki að ganga frá þeim aftur. Og átti ég þá bara nokkuð að fara heim, bara vesen? Ég fór og læsti innganginum á bakvið. Fór inn í grill, dró þar saman nokkra bólstraða stóla, sótti mér úlpu og peysur og bjó mér þarna besta ból. Lagðist fyrir og sofnaði.
Þegar vinnufélagarnir komu svo á réttum tíma var ég nývöknuð og ágætlega hress. En ég gat ekki með nokkru móti þagað yfir þessu næturbrölti mínu. Það var of skemmtilegt til þess.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ert óborganleg!
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 15.11.2006 kl. 22:11
Ég man, þú sagðir mér frá þessu. Ég var nú ótrúlega ung þegar þú varst að ala mig upp í sjoppufræðum og þú varst best!
mýrarljósið (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 22:48
Hvernig væri að þú sameinaðir hæfileika þína og stofnaðir sjoppuskóla. Flest allt sjoppufólk og verslunarfólk þessa lands er úti að aka.
Ef mikið er að gera: Þá flýtir sér í ofboði að skanna mjólkurfernurnar manns og ýtir þeim burt frá sér. Maður byrjar að troða öllu draslinu í poka, en þarf að vera glaðvakandi til að taka eftir því hvenær skannasistinn er búinn að skanna allt og vill nú fá greitt. Þá þarf maður að taka hlé frá pokun til að fylgjast með því hvort það slær inn réttar tölur. Já, takk það má bjóða mér strimilinn. Nú er hægt að halda áfram að troða í þessa fínu keyptu poka sem maður áætlaði að maður þyrfti fjóra. Ekki bætir ástandið að maður er með duglegt einsárs barn með sér, sem reynir að teygja sig í allt sem það ekki má. Skannasistinn er hinsvegar farinn að skanna fyrir næsta mann, og treður nú ofan á mitt dót, eða í besta falli opnar nýja akrein á afrennslisborðinu. Næsti maður horfir óþolinmóður á mig og barnið duglega á víxl. Enginn húmor fyrir einsárs barni sem vill skoða Séð og Heyrt úr rekkanum sem er fyrir mér á minni akrein. Næsti maður er greinilega í miklu betri æfingu og búinn að troða í sinn einn poka. Hann er að klemmast á milli mín og næst næsta manns. Skannnasistinn heldur bara áfram að skanna í akkorði. Nú eru pokarnir fjórir orðnir fullir, ætli sé ókei að stela tveimur í viðbót? Eða verður manni troðið í djeilið með Jóni Ásgeiri, eiganda búllunnar? Fyrir pokadrátt?
Hinn möguleikinn er að það sé lítið að gera. Þá er skannnasistinn með hugan við allt annað en að skanna. Hann þarf að setja kókómjólkina í kælirinn, henda út myglaða brauðinu og rífa forsíðurnar af Séð og Heyrt. Eða... hann er að lesa séð og heyrt. Horfir ekki upp úr vandamálum Lindu Pé þegar hann skannar. Viltu strimilinn? Já takk. Allan strimilinn? Nei bara hvíta hlutann með stöfunum. Áttu annars ekki að vera að í skóla? Þarftu ekkert að læra heima?
Í útlöndum, þar sem ég þekki mjög vel til er hjálplegt fólk í búðum sem setur vörurnar manns í pokann fyrir mann. Því er uppálagt að heilsa viðskiptavinum, horfa í augu þeirra og þakka fyrir viðskiptin. Þetta gildir jafnt um dýrar búðir og þær búðir sem hér eru kallaðar lágvöruverslanir. Samanborið við útlenskar búðir ætti að kalla þær allar lágkúrubúðir.
Einar Örn. S. Hallgr. (IP-tala skráð) 16.11.2006 kl. 12:49
Hjartanlega er ég sammála þér bróðir sæll!
Þetta með útlendu afgreiðsluna var mér kennt áður en ég byrjaði í Höfn h/f s.s. að þeytast kringum kúnnann og brosa sínu breiða.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 16.11.2006 kl. 15:24
Takk fyrir falleg koment Guðbjörg.
Ljósið mitt besta: Ég man þegar ég vann fyrir þig kvöldstund af því þú þurftir að fara í bíó með strák. Pabbi þinn kom og spurði mig hvar þú værir? Ég átti mikið bágt þá, vissi að þú varst ekki þar sem hann vildi, en fékk mig ekki til að skrökva. Hann var ekki blíður á brúnina þá. En þessi strákur varð svo tngdasonur hans og ég held hann hafi reynst vel, svo gamli er væntanlega löngu búinn að fyrirgefa þessa bíóferð. Ég man líka eftir einni samstarfsk. sem sat hjá mér frá opnun og fram að hádegi á laugardegi af því hún hafði sofið hjá kærastanum um nóttina og þorði ekki heim. hringdi á endanum í bróður sinn og bað hann fylgja sér heim í ljónagryfjuna.
Einar: það er ekki von að þessi grey í búðunum kunni nokkurn skapaðan hlut, það er enginn til að kenna þeim. Það ætti að yfirborga tífalt gamlar konur, nokkrar í hverri búð, til að kenna þessum blessuðum óvitum.
Helga R. Einarsdóttir, 16.11.2006 kl. 20:20
Ég man líka eftir þessu, ósköp að vita þetta, aumingja pabbi
mýrarljósið (IP-tala skráð) 19.11.2006 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.