Ég reyndi að bjarga lífi

Af ótilgreindum ástæðum datt mér nú í hug nokkuð sem ég var fyrir nokkru beðin um að rifja upp.  Ekki var það neitt skemmtilegt og hefði satt að segja getað orðið aðlveg skelfilegt. En svona var það. 

Ég vann í Fossnesti allmörg ár og á þeim tíma var þar vinsælasta sjoppan á Suðurlandi öllu. Þetta er alveg satt. Það var líka alltaf gaman að vinna þar á þeim tíma. Alltaf fullt að gera og maður hitti fólk af öllum landshornum.  Ég sakna þess enn þegar gerir vitlaust veður. Í blindbyl og bullandi ófærð vorum við oft beðin að halda opnu langt fram eftir nóttu til að taka á móti rútum og flutningabílum sem höfðu farið síðdegis úr bænum en náðu ekki austur fyrir lokun kl. hálf tólf. Þá hituðum við súpu og biðum svo eftir þeim. Við vorum bjargvættir.Ég gerði þetta nokkrum sinnum og var ekki komin heim fyrr en tvö eða þrjú um nætur.  Það var hentugt að biðja mig að bíða af því ég átti svo stutt heim og gat klofað skaflana á fimm mínútum. Það kom líka nokkrum sinnum fyrir að ég hafði þá með mér olíubílstjóra, samstarfskonur eða bensíntitti sem ekki komust heim til sín. Gaman - gaman.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja, það var óhappið.   Ég var að vinna um kvöld þegar ungur maður sem ég kannaðist við kom að fá sér pylsu. (Það á að skrifa pylsu þó margir segi pulsu. ) Hann fékk afgreiðslu,  fékk sér líklega tvær, hann var svo stór og þrekinn að ein hefði örugglega ekki verið nóg. Svo fór hann frá borðinu og út í horn þar sem við sáum ekki til hans. Góð stund leið, við héldum áfram að afgreiða tíðindalaust. þá heyrðum við allt í einu stunur og hljóð úr horninu og pilturinn kom fram í einum keng, helblár í framan. Hann stundi einhvernvegin upp svo við skildum:"Ég er að kafna"! Pylsan stóð í honum. Við frusum augnablik, hvað gátum við gert?  En auðvitað varð að gera eitthvað, hann stóð enn í lappirnar, en var algerlega bjargarlaus. Ég snaraðist fram fyrir borðið.  Stóð hjá honum og varð um leið ljóst að mér voru allar bjargir bannaðar. Ég náði honum rúmlega í mitti og  þó ég væri á þeim tíma nokkuð vel í holdum var hann alveg tvisvar sinnum ég. Ég barði hann þó í bakið nokkrum sinnum, en það var eins og fluga á fílsbaki, það hafði auðvitað engin áhrif. Mér datt í hug að láta hann leggjast á magann og hoppa svo á bakinu á honum, það hlaut þó að ganga betur. Samstarfsfólk og viðskiptavinir stóðu álengdar og höfðust ekki að. Mér varð það til happs að einmitt í þessu kom vinnuflokkur frá RARIK inn, allt fílefldir karlmenn og einn þeirra lögga að auki. Ég hrinti þjáningabróður mínum til þeirra og þeir tóku við. Tóku hann á milli sín og fóru með hann út. Mín martröð var á enda. En það tók þá nokkra stund að ná fjandans pylsubitanum og þar með bjarga lífi stráksins, en það tókst að lokum.  Þökk sé Guði og Rafmagnsveitu ríkisins .

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

 Nú hló ég svo mikið að ég sé ekki útúr augum fyrir tárum.

Það var sko mont að eiga Helgu mömmu í Fossnesti,það þekktu hana allir á landinu,þannig starfsstúlkur eru nú útdauðar.Auðvitað er ég enn rígmontin að eiga svona merkilega og góða mömmu!

Hún var með allt á hreinu,hvort sem það var ísvélin eða mannleg samskipti...sorry mútta þetta hljómar eins og minningargrein.

Ég skora á grínverjur að koma með skemmtilegar sögur um mömmuna í Fossnesti s: 98-1266.

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 14.11.2006 kl. 22:49

2 Smámynd: GK

Ég notaði aldrei 98... bara 1266... Jamm, einhverntíman var ég veikur eða viðbeinsbrotinn og fékk að liggja inni hjá Sveini leigubílstjóra... og spila við kallana....

GK, 14.11.2006 kl. 22:53

3 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Ég fékk að raða eldspítustokkum í grind og telja kóktappa úr fötunni.

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 14.11.2006 kl. 23:05

4 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Þér er ekki fysjað saman.Kveðjur Jórunn

Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.11.2006 kl. 23:19

5 identicon

Sú óheflaða grínverja ekki segir hún frá því þegar hún lagði sig smá stund heima. Mætti frekar snemma í vinnuna aftur þá meina ég snemma en hún reddaði því raðaði bara stólum saman og lagði sig aftur.

Inga Guðlaug Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 17:13

6 identicon

 

það þurfti alltaf að koma við í Fosnesti hjá Helgu áður en að það var farið heim eftir "bæjarferð" og ef að maður þurfti að vera ( alvöru og þekkja einhvern) þá sagði maður stolltur að Helga í Fossnesti væri frænka mín og í flestum tilvikum þekkti viðmælandi til Helgu líka.. 

Erla Björg og nýja viðhengið. (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 18:47

7 identicon

Ég vann líka í Fossnesti og síðan hefurðu ekki losnað við mig.

mýrarljósið (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 22:43

8 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég þakka ykkur öllum fyrir góðar kveðjur.

Erla Björg, er ekki kominn tími til að taka þetta nýyrði af stráknum, margir myndu kalla þetta eldgamalt samband. 

Helga R. Einarsdóttir, 16.11.2006 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband