6.6.2008 | 20:43
Eins gott að rabbarbarinn kom snemma til í ár
Framhaldssagan um jarðskjálftann og konuna í austurbænum.
Þeir feðgar hurfu inn til sín og ég varð aftur ein. Tiplaði til baka yfir götuna á tásunum berum og sá um leið betur hvað gangstéttin var illa farin. Töluvert margir steinar(hétu þeir ekki Óðalssteinar) voru í haug og nokkuð stór hluti af steyptri stéttinni reis uppá rönd við hrúguna. Það var galopið út, ég hafði ekki haft fyrir því að loka á eftir mér.
Af tröppunum sá ég inn eftir húsinu, alveg inn í gafl í stofunni. Allt í klessu? Kannski hefði ég ekki átt að þora, en var of forvitin. Ég fór inn.
Veggsamstæðan í stofunni hafði fallið fram á gólfi, öll hólfin eins og þau lögðu sig. Ofaná borðið sem við keyptum í síðustu viku, og þar á hafði staðið lampinn flotti sem var keyptur í fyrra. Borðið og lampinn brotin. Allt sem hafði verið í efri hæð samstæðunnar var á gólfinu. Blómasúlan sem amma gaf mér var fallin og friðarliljan sem á henni stóð var á gólfinu. Súlan þó heil og potturinn óbrotinn. Ekki einu sinni mold á gólfinu. Hafði blessað blómið ekki haft mold í pottinum sínum? Séniverbrúsinn sem Haddi bróðir gróf uppúr jörðinni við mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli var heill. Hann gaf mér brúsann af því ég var sú eina í fjölskyldunni sem mundi almennilega eftir séniver í svona íláti. Ég fór í skó.
Ég tók myndavélina af tölvunni og fór aftur út. Nú var aftur líf í austurbænum. Bílar á götunni og fólk á ferð. Ég fór í næsta hús að líta til hjónanna þar. Mér fannst eins og enginn væri þar heima, ekkert lífsmark höfðum við Kiddi séð þar áðan. Ég hringdi bjöllunni og var hleypt inn. Þarna var allt í lagi, engin ástæða til að rjúka út úr húsi. Nokkrir bókaskápar og laust glingur hafði fallið en ekkert sem tók því að gera veður útaf. "Allir heilir" eins og maðurinn sagði.
Ég var komin út aftur þegar eiginmaðurinn kom hjólandi úr vinnunni til að líta eftir eigum sínum. Hann átti eiginlega ekki von á mér heima, ég hafði komið í fyrra lagi. Hann leit lauslega inn um útidyrnar, en fór svo og opnaði bílinn. Útvarpið. Það hlaut að koma eitthvað um þetta í útvarpinu. Svolítið skrýtið að fara að hlusta á útvarp til að heyra hvað hefði gerst, við vissum það víst betur en aðrir landsmenn.
Það var farið að heyrast í sírenum um allan bæ og í útvarpinu sögðu þeir að skjálftinn hefði verið yfir 6 á Richter. Kannski nær 7 héldu þeir í Ameríku. Guðbjörg kom með Júlíu með sér. Þær höfðu verið nýkomnar úr bænum og sátu inni í eldhúsi. Ívar í skólaferðalagi í Þórsmörk og Lalli í fjórhjólatúr fyrir vestan. Helga í vinnunni. Heima hjáþeim var allt í lagi, datt bara eitthvað smá en brotnaði eiginlega sáralítið.
Nú sögðu þeir í útvarpinu að við ættum ekki að fara inní húsin. Veðrið var einstaklega gott, sólskin og nærri logn. Við fórum að búa um okkur á bakvið hús. Nágrannar komu að spyrja frétta og við fréttum af þeim. Það voru margar og ólíkar lýsingar. Hjá einhverjum allt í lagi en verra annarsstaðar. Það var víst búið að loka öllum búðum og nú fannst mér allt í einu enginn matur til. Ég hafði ekkert verið búin að fara í búð. Helga Guðrún kom og hún fór fljótlega að kanna þá hlið málsins. Þó ekki mætti vera í húsinu varð nú einhver að fórna sér til að leita að vistum og öðrum nauðsynjum. Ekkert brauð, en eitthvað kex þó. Langloka frá því í fyrradag þegar við fórum í sveitina. Ég fór að hugsa. Rabbarbarinn var orðinn nokkuð vel vaxinn og í skúrnum var til fullt af rifsberjahlaupi frá því í haust. Grillið var þar líka og kjöt í frysti í þvottahúsinu. Við myndum alveg komast af í nokkra daga. Tjaldið var líka í skúrnum. Það var ekki beðið boðanna heldur byrjað að borða þarna á baklóðinni allt það sem Helgu tókst að finna freistandi í ísskápnum. Hún skaust bara inn og út á örskotsstund. við fundum jörðina krauma undir okkur eiginlega stöðugt. Sitjandi á stólum eða standandi við dyrastaf í skúrnum, fundum við nærri stöðugan titring. Var þessi 3 eða meira? Kannski nærri 4.
S.K. Hætti lífinu og sótti litla sjónvarpið inn í svefnherbergi. Það var farið að kula aðeins svo við sóttum föt og teppi og bjuggum svo um okkur í skúrnum. Það var ekkert símasamband svo við gátum ekki frétt að Sandvíkingum eða nýja fallega húsinu þeirra. framh - gestir
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 197259
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bíð eftir framhaldi. Leiðinlegt með borðið og lampann.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 6.6.2008 kl. 22:10
Var óhætt að vera í skúrnum? Ekki sváfuð þið þar um nóttina?
Æ já ég verð víst að bíða eftir framhaldinu. En ég er nú ekki sú þolinmóðasta og ekki hefur það lagast við helv.... skjálftann %&$#"&%
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 6.6.2008 kl. 22:50
Það kom sér vel að eiga tjaldvagn sváfum þar í tvær nætur, en allt fór þetta nú vel ekkert manntjón!
Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.