22.4.2008 | 21:24
Útburður í austurbænum
Ég var að bera út, söngskrána fyrir Karlakór Selfoss. Á hverju vori þegar tónleikar nálgast er söngskránni dreift til allra íbúa bæjarins og það er nú að verða nokkuð viðamikið verkefni, má nærri segja að þurfi að ganga um Sandvíkurhreppinn og Hraungerðis og svo Eyrarbakka og Stokkseyri til viðbótar því sem áður var.
En við erum mörg og spræk svo þetta gengur ljómandi vel. Í þetta sinn er söngskráin skemmtilegri en stundum áður, það eru í henni myndir frá kórstarfinu - fullt af þeim. Og svo tveir kaflar úr ferðasögum. Ég skrifaði þá nú reyndar sjálf. Þetta eru bara bútar úr lengri sögum, en ég skrifaði fyrir einhverjum árum sögur fjörutíu vorferða kórsins, og setti í möppur með myndum. Það verður hægt að grípa þar upp kafla og kafla í nokkrar söngskrár framtíðarinnar.
En það var gangan um bæinn sem ég ætlaði að tala um. Ég ber út í hverfið hér fyrir vestan mig, næst elsta hluta austurbæjarins. Fjörutíu ára gamalt hverfi eða svo.
Nú eru upprunalegu íbúarnir víða farnir úr húsunum. Sumir í ferðina löngu, aðrir á elliheimili eða í Fosslandið. Það er víða farið. En það kemur fólk í staðinn. Ungt fólk, ókunnugt fólk, fólk sem enginn kynnist jafnvel fyrr en það er farið aftur. Það er svo mikið um það núna, fólk sem kemur og fer en enginn veit hvaðan það kom eða hvert það fer, við hittum það aldrei.
Og húsin og lóðirnar gjalda fyrir þetta eilífa flakk. Engum dettur í hug að fara að mála hús eða gera við grindverk þegar þar á ekki að verða nein framtíð. Þess vegna eru nú í hverfinu mörg ómáluð hús og brotin grindverk. Skáldaðar stéttar og úr sér vaxinn trjágróður er líka áberandi. Jafnvel sinuþaktir grasblettir af því að ekkert var slegið í fyrra. Í þessu líka fína heyskaparveðri. Sums staðar hefur verið byrjað á einhverjum framkvæmdum fyrir löngu, en situr svo við sama í einhver ár.
En auðvitað er innanum fólk sem hefur alltaf verið hér og líka fólk sem hefur komið og ætlar að vera. Það snyrtir garðana sína og hugsar vel um húsin og það hefur víða núna, á síðustu vikum fellt alveg býsn af stórum trjám svo nú sér aftur til sólar þegar hún sýnir sig.
Ég tók í kvöld myndir af því sem ég sá fallegt, snyrilegt og skemmtilegt. Miklu betra að taka eftir því heldur en hinu sem ekki er gott.
Ég sá flottan nýjan brunahana, ég sá marga stubba og leifar af stórum trjám, ég sá lítil blóm sem eru að koma upp úr moldinni. Jafnvel blóm sem áttu bara að eiga eitt líf, í fyrrasumar, en eru nú að biðja um að fá eitt sumar enn. Svo sá ég regndropa á steini úti á bletti, svei mér þá, það voru dropar, samt fann ég enga rigningu.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 197259
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gegt flottar myndir!
Það var svaka stuð á árshátíð
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 22.4.2008 kl. 21:33
Dálítið raunarlegt með fólk sem kemur og enginn þekkir og svo fer það. Hús sem standa óviðgerð.
En mikið ert þú dugleg að skrifa. Hefur skrifað sögur 40 vorferða kórsins. Geri aðrir betur. Þetta eru flottar myndir.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 23.4.2008 kl. 00:57
Hvað þarf marga regndropa til að fylla fuglabaðið?
Myndirnar eru "gegt" flottar og stíll yfir brunahananum.
mýrarljósið (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 22:01
Æ- það er nú ekki fullt af rigningu núna, haldur bráðnum snjó frá því um jólin. Þetta var sem sagt einu sinni jólasnjór.
Helga R. Einarsdóttir, 30.4.2008 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.