"Drullupottatíminn"

Nú ætla ég bara að blogga um daginn og veginn og eiginlega ekki neitt.

Kannski ég annars skjóti hér að í leiðinni upprifjun á því sem var helst að gerast á apríldögum í sveitinni fyrir "nokkrum" árum. Eða "allmörgum" kannski.Whistling

Það var "drullupottatíminn".

Í apríl vorum við enn í skólanum, fengum oftast ekki fríið fyrr en um mánaðamótin apríl maí. En  þegar nálgaðist miðjan apríl,  áttum við að flýta okkur heim eftir skóla svo hægt væri að hafa gagn af okkur. Þá var byrjað að "potta kálið". Þá hafði verið sáð nokkru fyrr, hvítkáli, blómkáli og rauðkáli og nú var komið að næsta skrefi í ræktuninni, að prikla plöntunum í drullupottana.

Í skúrnum var stór moldarhaugur á gólfinu, í horninu næst stóru dyrunum. Þar hafði pappi flutt inn venjulega gróðurmold, úr skurðsruðningum og svo plandað þar saman við slatta af kúaskít. Þessu hrærði hann svo saman með skóflu og bætti í einhverju af tilbúnum áburði. Hann "blandaði moldina".

Þarna í horninu hjá moldarhaugnum stóð svo líka pottavélin. Á þremur járnfótum, virðuleg og margreynd vél sem engan hafði þó mótorinn. Hún var drifin af eintómri líkamsorku. Moldinni var mokað uppá brettið á vélinni og svo stóð einn af strákunum og stundum ég, til hliðar við og ýtti moldinni af brettinu niður í vélina. Á henni var skífa með sex eða átta holum og ofaní þau var moldinni troðið. Það hét að "troða í".  Yfirleitt varð sá sem tróð að hafa kassa til að standa á svo hann næði sæmilega til þess sem hann(eða hún) átti að gera.

Pabbi sneri svo skífunni með handfangi og steig á fótstig um leið, allt saman í ákveðnum takti. Það var eins gott að passa puttana við að troða svo þeir ekki væri fastir í holu þegar skífan snerist. Þegar hann steig á pedalann fór pinni ofaní hólfin og gerði í moldardrulluna passlegt gat fyrir plönturnar og í leiðinni lyftist annar pottur af skífunni, tilbúinn, var tekinn og settur í kassa til hliðar. Svona voru steyptir fleirihundruð pottar eftir skóla á hverjum degi og svo auðvitað laugardaginn allan. Það var margoft blönduð ný moldarhrúga á gólfinu.

Næsta skref var að prikla í pottana. Það gerði mamma og yfirleitt ég með henni. Það þurfti við það svolítið "kvenleg" handtök, sem ég leyfi mér að halda fram að strákarnir hafi ekkert ráðið við. Enda höfðu þeir allt annað að gera.

Við tókum kassa með pottum(eða mamma til að byrja með, þeir voru þungir) og settum uppá borð. Við borðið þurfti ég líka kassa til að standa á fyrstu árin. Svo var stráð léttri gróðurmold yfir pottana, þjappað á og svo priklað með "priklupinna"þar sem við af eintómu hyggjuviti og þjálfum, vissum að götin í pottunum væru.  Plönturnar voru agnarlitlar, bara tvö blöð, og vottaði fyrir tveim næstu. Það varð að fara vel með svo ekki skemmdust plöntur, þá yrði einum kálhausnum færra, sem var ekki gott.

Svo voru kassarnir settir til hliðar, eða raðað beint á brettið á hjólbörunum, sem voru svo keyrðar útí vermireiti þar sem pottunum var raðað uppúr kössunum. Hjólbörurnar voru notaðar við þetta  þó traktorinn væri kominn, reitirnir voru allir heimavið og strákarnir hefðu verið vísir til að "delera" hefðu þeir fengið að vera á traktornum.

Þeir voru stundum klaufskir á hjólbörunum, eða kannski, held ég núna , hafa þeir bara verið svo linir og litlir að þeir réðu varla við svona farartæki, með stóru bretti ofaná og kannski fjórum kössum þungum af drullublautum pottum. Það kom "sárasjaldan" fyrir en gerðist þó, að allt fór á hliðina og það var ekkert grín.

Í reitnum sátu svo oftast tveir og "röðuðu út". Ég gerði það líka oft og það var frekar leiðinlegt. Manni fannst einhvernvegin ekkert ganga að fylla reitinn. Alveg vonlaust að vera ein við það, félagsskapur og stundum sögur flýttu heilmikið fyrir.

Svo voru settir glergluggar yfir reitina og plönturnar byrjuðu að vaxa. Stundum var tekið ofanaf og vökvað, og það var "loftað" á heitum dögum. En alltaf varð að loka fyrir nóttina, það var von á næturfrosti fram í maí. Ég man eftir að hafa oft verið send út á kvöldin til að loka.  Tjaldarnir voru þá komnir og létu vel til sín heyra á eyrunum við ána.

Þessi aðferð, drullupottasteypan og allt það, var notuð alveg fram að "plastvæðingu", þegar farið var að nota græna bakka úr plasti sem fylltir voru af mold,    sennilega ca. 65 + 

Uppúr miðjum maí var svo kálinu plantað út í garðana og það var heilmikil vinna sem ég kannski lýsi seinna. Á þessum árum var í sveitinni gott að eiga nokkuð mörg  börn, líka þó að traktorinn væri kominn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt orð "prikla", ætli það sé komið úr dönsku?

Ásgeir Kolbeinsson (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 21:25

2 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Skemmtiefni

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 3.4.2008 kl. 00:04

3 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Skemmtilegar minningar.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 3.4.2008 kl. 11:51

4 identicon

Sæl Helga

Alveg finnst mér frábært að sjá þessa lýsingu.  Minnir mig á þegar ég var í vinnu hjá Sigga Tomm. Man eftir að hafa þurft að hlaupa af páskamóti úr félagsheimilinu í gróðurhúsin á Hverabakka til að fara að prikla :)  Það var þó eftir ´65 og grænu bakkarnir komnir. Líka var miniútgáfa af þessu í Miðfelli þar sem allaf var ræktað kál og rófur og öllu raða út í reit þar sem bæði þurfti að lofta og vökva eins og þú lýsir.

Gaman að hafa dottið inn á síðuna þína.

Kv. Herdís Skúladóttir frá Miðfelli

Herdís (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 19:37

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Gaman að fá þig í heimsókn Herdís. Hér eru allir velkomnir, og sérstaklega allir sveitungar. Verst hvað þeir láta lítið vita af sér - en ég veit þeir eru þarna og það er gott. Líttu við sem oftast. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 5.4.2008 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 197185

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband