1.2.2008 | 22:28
"Að þreyja Þorrann og Góuna"
Mér hefur alltaf fundist gott að hafa þetta orðatiltæki í huga á frostköldum og dimmum vetrarkvöldum. Þegar þessir tveir mánuðir eru liðnir er öllum þrautum vetrar og kulda lokið í bil. Og tíminn líður svo hratt. Ein vikan enn horfin út í buskann og þar með 1/4 af Þorranum sem er nýbyrjaður.
Hvað er mér minnisstætt frá vikunni sem var? Snjórinn - og kuldinn, en það gerist ekki neitt. Auðvitað gerist alltaf eitthvað, en það er svo ómerkilegt og enginn veit af því.
Ég hef labbað í vinnuna alla vikuna, það er ekkert óvenjulegt, það geri ég oftast. En núna er það seinlegra en hina dagana út af öllum fötunum. Þessum ósköpum af fötum sem ég klæði mig í áður en ég fer út á morgnana og svo aftur fyrir heimferðina. Ég enda á að fara í kuldaskóna með mannbroddunum undir og er stundum orðin bullsveitt áður en ég kemst út. Eins ef ég þarf að koma við í búð á heimleið. Röðin má ekki vera löng við kassann í Bónus svo ég komi ekki þaðan út rennsveitt.
Á mánudaginn var búið að ryðja alla mína leið í skólann, það var ágætt, ég þurfti ekki lengur að klofast í sköflunum. En þó aðeins. Ég stytti mér alltaf leið við leikskólann og grasvöllinn, en þangað hafði þá snjó verið mokað í stóra dyngju mitt á mína gönguleið.
Ekki lét ég það samt flæma mig af leið, miklu lengra að fara þar sem mokað var. Ég bara klifraði upp á ruðninginn - svona tvær mannhæðir, og gekk vel. Svolítið bratt og hart en broddarnir gerðu sitt gagn. Á toppnum leit ég í kringum mig heldur ánægð, svona hátt hafði ég ekki farið á leið í skólann fyrr. Það hefði nú alveg mátt moka skólalóðina fyrir framan líka, en þessi hreinsun var víst gerð fyrir bílastæði út af þorrablótinu.
Svo lá leiðin ofan af hólnum og ég steig þungt niður í fyrsta skrefi. Betra að gera það svo broddarnir næðu gripi, annars gæti ég runnið á rassinn. En þarna megin var haugurinn eitthvað öðruvísi. Þetta fyrsta skref fór í gegnum þunna skel, en varð svo aldeilis botnlaust. Ég sökk í snjó upp í klof á annarri löpp. En allt annað en þessi eina löpp hélt ferðinni áfram niður brekkuna og lenti í láréttri stöðu utaní fönninni. Ég hló. Ég gerði ekki einu sinni, eins og manni oftast verður á, að líta í kringum mig eftir áhorfendum. Vonlaust, ekki kvikindi þarna á ferð fyrir hálf átta á mánudegi. Ég tosaði löppina uppúr hrúgunni og fleytti mér á maganum niður á jafnsléttu. Og flissaði svo með sjálfri mér það sem eftir var inn. Svona getur verið gaman á leiðinni í skólann.
Í gær og í dag var vitlaust veður í Færeyjum, Noregi og Sviþjóð. Það er aldrei sagt frá því í fréttum þó eitthvað gerist í þessum löndum. Af hverju skyldi það vera? Nú hljóta að vera til myndavélar og svoleiðis græjur þarna alveg eins og í Kenýa og Pakistan. Miklu frekar hefði ég áhuga á fréttum frá löndunum í kringum okkur, en fæ víst engu um það ráðið.
Ég er hálfnuð með bókina, þessa sem heitir nafninu, þarna með tveimur Háum en má ekki segja það seinna svo krakkarnir verði ekki vitlaus. Ég bannaði þeim alltaf að segja þetta og nú allt í einu muna þau það svo vel. Bókin er góð, hingað til. Það er eins og maður sé að lesa mynd, eldgamla mynd, sem er samt eitthvað svo kunnugleg. Þarna var hann langafi.
Á heimleðinni í dag þurfti ég að koma við í bankanum, þar hitnaði nú aldeilis í mér. Ég kem orðið alltaf að bankanum bakvið, ágæt gönguleið þar frá bílastæðinu. Þar í kjallaratröppunum hef ég stundum séð konur sem fara út til að reykja. Greyin í þessum kulda. Þar voru nú reyndar engar konur í dag, en ég heyrði í körlum án þess að sjá nokkurn. Forvitnin var vakin og ég leit betur í kringum mig. Það eru svalir uppi á efri hæðinni! Þær hef ég aldrei fyrr séð. Og þar sá ég tvo frakkaklædda menn standa reykjandi. Jahhá - það er semsagt reyksvæði bæði fyrir háa og lága í bankanum. Karla og konur.
Svo - úr því ég var orðin sveitt hvort sem var fór eg aðeins inn í Bónus. Keypti bara smá og fór svo í langa - langa röð við kassa. En það getur verið gott að bíða lengi við kassa. Á meðan ég beið gat ég lesið alla forsíðuna á "Séð og heyrt", þar voru nú ekki svo lítil tíðindi þessa vikuna!. Sigmar og Þóra bara "hætt saman". Ég get aldrei sætt mig við þessi orð "hætt saman", eða "byrjuð saman". Ekki þó með Sigmar eða Þóru sérstaklega í huga, þau verða að sjá um sig sjálf. En af hverju má ekki segja: "hætt að vera saman", eða öfugt? Pirrr. Ég var að byrja að lesa Vikuna líka, en þá fór konan sem var á eftir mér að kvarta við mig vegna þess að hún hafði ekki fundið nein lambalæri í búðinni. Hún hafði grafið alveg niður á botn, eins og sýnt var að ætti að gera, en fann ekki neitt. Ég samsinnti henni auðvitað að þetta næði ekki nokkurri átt og svo var komið að mér. Sú sem var á undan mér borgaði átjánþúsund krónur og gleymdi svo blómunum sem hún hafði borgað. Ég nennti ekki að elta hana svona mikið klædd, lét bara búðarstrákin, sem var skólafélagi minn fyrir fáum árum sjá um blómin.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 197619
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.