Bláfjöllin og skíðin og ég

Ferðin í gær kom mér til að rifja upp þau afrek sem ég hef unnið á sviði skíðaíþrótta.

Ég tók ekki með mér skíði, á þau ekki og datt ekki í hug að fá lánuð. Mitt hlutverk í skíðaferð frá skólanum er líka þannig að ég get ekki verið út um allt í brekkunum, ég á að vera svona um það bið á vísum stað svo krakkarnir geti leitað til mín ef eitthvað kemur uppá. Svo líka ef ég færi að ferðast með lyftum upp á brekkubrúnir myndi ég þurfa að koma mér niður aftur og það gæti ég aldrei ábyrgst að ég gerði óbrotin. Og brotin hjálparkona í skíðaferð er heldur gagnslítil kona.

Ég man einu sinni eftir að hafa reynt fyrir mér á svigskíðum. Úti í Noregi. Reyndar var þar engin lyfta, en mér bara fannst það svo hundleiðinlegt að ég hef ekki séð ástæðu til að eiga við það síðan.

En hins vegar vann ég nokkur ógleymanleg afrek á gönguskíðum, hérna um árið sem ég var úti í Noregi. Þegar ég fór þangað í september, var enn alautt í Guðbrandsdalnum. En fljótlega fór að snjóa og það gerði ekki annað en að bæta í, fram í apríl.  Svoleiðis bara var það þarna, enginn svona skyndisnjór, sem kom og fór, heldur bara eilífðarfönn sem sat sem fastast til vors.

Fljótlega eftir að fór að snjóa um haustið var blásið til skíðaferðar frá skólanum. Þessir norsarar eru vitlausir í skíðaferðir og allir áttu skíði og kunnu að nota þau. Ég hafði aldrei stigið á skíði, en engum datt í hug að spyrja að þvi. Bara fundin handa mér lánsskíði af því það hafði verið of mikið vesen fyrir mig að koma með mín með mér. Auðvitað datt engum annað í hug en allir á Íslandi ættu skíði og væru ólmir í skíði. Nafnið á landinu bara bauð ekki upp á annað.

Þetta var áður en ég byrjaði að tala. Engin leið að leiðrétta þennan misskilning.           Ég nefnilega hlustaði bara fram að jólum, en sagði ekki neitt. Eftir jólin hætti ég að hlusta og fór að tala. 

En alla vega - ég var komin með skíði í hendurnar, og skó með og var að fara í skíðaferð sem ég vissi ekkert hvernig færi fram.

Við voru send af stað í rútu, líklega svona 25 krakkar. Þetta var sá hópur sem var á því sem hét "íþróttabrautin " í skólanum. Krakkar sem kunnu ýmislegt fyrir sér á íþróttasviðinu, höfðu verið liðtæk hjá sínum félögum og voru nú að búa sig undir frekari afrek á því sviði. Öll nema ég. Það taldi ekki mikið þarna að hafa synt nokkrum sinnum á sundmóti Skarphéðins eða hlaupið 100 metra á félagsmóti á móti eystri hreppnum.

Okkur var ekið upp á það sem ég heyrði þau kalla "féllet" og sturtað þar úr rútunni.

Við vorum svo látin festa á okkur skíðin og einhver aðstoðaði mig við það. Bara einhver strákurinn minnir mig, og kannski læddist þar grunur að viðstöddum að ég væri  ekki á réttri hillu. En það varð ekki aftur snúið. Við voru stödd við allstórt stöðuvatn og allt á kafi í ótroðnum snjó. Vatnið gæti hafa verið á stærð við Laugarvatn. Nú vorum við látin hafa blað og blýant í vasann og svo sagt að leggja af stað. Svo mikið skildi ég að við áttum að ganga hringinn í kringum vatnið og finna einhverjar stöðvar á leiðinni og skrá á blaðið.

Í fáum orðum sagt þá komst ég alla leið, en ekki held ég að mér hafi tekist að finna mikið af því sem leita skyldi.  En þetta tók eiginlega allan daginn. Og ég get hrósað mér af því að einn strákurinn kom ekkert úr þessu ferðalagi. Hann bara var týndur. Fyrst var beðið fram í myrkur, en svo var okkur skilað heim. Hann kom svo víst fram einhvers staðar langt í burtu, í einhverri allt annarri "kommúnu" eins og þeir segja í Noregi.  Þarna vann ég mitt fyrsta afrek á skíðum. 

Svo fékk ég nú eiginlega alveg frið það sem eftir var vetrar, kannski var ég búin að sanna mig, annaðhvort sem nógu góða, eða algerlega vonlausa, á skíðum. Alla vega voru engar frekari skylduskíðaferðir farnar þennan vetur. 

Svo komu páskarnir. Ég var boðin heim til vinkonu í páskafrínu, sem var fínt. Ég fékk þá að ferðast svolítið um landið. Hún átti heima hálfa leið upp til Þrándheims og ekki var minni snjórinn þar. Í litlu sveitaþorpi með fjöllum allt í kring. Og unga fólkið í þessu þorpi, það var ekkert að hanga heima hjá sér í páskafríiinu. Ekki aldeilis. Það var farið á  "féllet", sem ég vissi nú orðið allt of vel hvað var. Þar voru "hyttur" sem allar myndu fyllast af fólki um páskana. Bara ungu fólki, stöðug partí, var mér sagt. Það mátti nokkuð til vinna.

Það var stigið á skíðin á tröppunum heima, poki á bakið með öllu sem þurfti til fjögurra daga, og svo lagt í hann.  Ég líka. Þetta var dagleið og allt á fótinn. Það vildi mér til að þegar þarna var komið hafði ég verið á íþróttabrautinni allan veturinn og var orðin nokkuð hress. En ég segi það satt, að ég átti ekki von á neinu nema dauða mínum, hvað eftir annað þegar leið á daginn. Með svima og æluna í hálsinum, staulaðist ég upp brekkurna og reyndi að tefja ekki ferðafélagana. Guð minn hvað þetta var erfitt.   En ég komst alla leið, lagðist í koju og var ekkert viss um að vakna næsta dag. En það gerði ég þó!   Þetta var mitt annað afrek  á skíðum.

Dagarnir sem eftir komu fóru svo meira og minna í alls konar skíðabrölt. Ég lét mig hafa það að fara á staðina á skíðunum, en lét eiga sig að taka þátt í keppni. En það voru "brilljant" partí öll kvöld,  í einni "hyttunni" af annarri, og það var farið á milli á skíðum. Svo varð ég auðvitað að koma mér aftur til byggða, en það var nú undan brekkunum að mestu.

Vorið var að koma og með því hvarf snjórinn. Ég vissi að ég yrði ekki annan vetur þarna  og hef líklega ákveðið að með þessu væri mínu framlagi til skíðaíþróttarinnar lokið. Ég lifði þó af. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Seig varst þú og hefur víst alltaf verið.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 20.1.2008 kl. 18:55

2 identicon

Það er ekkert annað!

Skemmtileg frásögn!

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 00:02

3 identicon

Það þarf ekkert að vera á skíðum í skíðaferð!

mýrarljósið (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 20:00

5 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

og fékkst að fara í partý

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 22.1.2008 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband