Við áttum allan heiminn

Það var ekkert smáræði sem við gerðum í hreystitímanum í dag - við fórum á skíði í Bláfjöllum! Við fórum frá skólanum á réttum tíma, rétt fyrir 11.30, á rútu frá Gvendi Tyrfings, með skíði og bretti í lest, nesti í kassa og aukaföt í svörtum ruslapoka. Þrjátíu og sex krakkar og þrír fullorðnir. Hvernig er hægt að hafa það betra.

Við beygðum inn á Bláfjallaafleggjarann rétt um kl. tólf og heyrðum í útvarpinu að Fischer væri dáinn. Hér eftir munum við alltaf hvar við vorum stödd þegar sagt var frá því.  Það var dimmt yfir fjöllunum og þarna fór að slíta úr eitt og eitt snjókorn - og þeim fjölgaði. Þegar við nálguðumst skíðasvæðið mátti heita alblint - við sáum bara það sem næst var. Bílstjórinn komst samt með okkur á áfangastað og eftir að farið var inn, til að spyrjast fyrir um hvað við mættum leyfa okkur þarna á staðnum, var krökkunum sleppt lausum. Þau voru ekki lengi að taka á rás, festa á sig skíði og bretti og raða sér við litlu lyftuna sem var sú eina í gangi. Í sjónvarpi í gær var sagt að enga þjónustu væri þarna að hafa, en þau sem þess þurftu fengu samt bretti á lappirnar. Það var þarna einn maður sem var líklega svona fjölhæfur, hann svaraði spurningum og leigði bretti.

Ég fór inn í skálann með nestið og við lögðum undir okkur þrjú borð með stólum í salnum. Þarna er ágæt aðstaða, en frekar var klístrað á borðunum. Þegar við komum var þarna fyrir ein rúta með krökkum - litlum á okkar mælikvarða, og ég sá bara eina konu með þeim. Hún fór fljótlega að smala þeim saman og gerði það á íslenskublandaðri útlensku. Svo fóru þau. Við áttum Bláfjöllin alein. En það var nú reyndar ekki lengi. Það kom fljótlega önnur rúta sem hleypti út krakkahóp. Þessi voru þó stærri en hin, eiginlega bara eins og við og það var nóg pláss fyrir alla.

Litla lyftan var notuð óspart og þar var gaman að sjá hvernig gekk. Við sem vorum fyrir neðan sáum þó ekki nema svona hálfa leið upp, en á þeim spotta fengu margir byltu bæði á leiðinni upp og niður. 

Svo var farið inn að fá sér bita og hvíla smá stund. Það rauk upp af krökkunum, sveittum og rjóðum, sem gófluðu í sig samlokum, kakói, skyri eða ávöxtum.  

Þessi hópur var mun hraustlegri en við  eigum að venjast, og enginn fúlsaði við nestinu, það var allt jafn gott og þurfti stundum meira.

Svo fóru þau út aftur en ég leit yfir "völlinn". Mig vantaði tusku.

Ég fór þar inn sem var merkt starfsfólki og fann þar sex eða átta manns sem sátu og átu, konur og menn.  Það voru þá fleiri hér í vinnu en við héldum.

"Mig vantar borðtusku", sagði ég og horfði yfir hópinn. Enginn leit upp, eða sýndi nein viðbrögð. Ég endurtók yfirlýsinguna heldur hærra, kannski hafði ég verið of lágmælt? Enn svaraði mér enginn. Þá skildi ég - auðvitað, pólverjar. "Skiljiði ekki íslensku"?  spurði ég nú full skilnings og alveg nógu hátt. Ein stúlkan leit upp - "þú veist hvar ræstikompan er", sagði hún, þar eru tuskur.  Ha - hvernig átti ég að vita hvar ræstikompan væri, hélt hún að ég væri gamla ráðskonan framliðin? Þá var varla von að þau sýndu mér áhuga, héldu bara að ég væri draugur og þorðu ekki. Ég sagðist því miður ekki vita um kompuna?

  Þá loksins varð eins og ég væri þarna. Hvert af öðru vildu þau nú leiðbeina mér að ræstikompunni þar sem tuskurnar voru geymdar, og öll á ágætri íslensku.

Ég náði í tusku eftir þessum leiðarvísum og snaraðist í að þrífa borðin sem við höfðum notað. Þar varð á endanum miklu flottara en var þegar við komum, ég lét samt öll hin borðin eiga sig, það var ekki jafn mikið mannahallæri þarna og við höfðum haldið. 

(Ó mæ- þetta átti bara að verða myndablogg.)

Ég fór svo í útifötin og aftur út til félaganna. Sumir voru orðnir ansi snjóbarðir. Húfulausir hausar uppfenntir og  lopavettlingarnir sem hún amma prjónaði klepraðir eins og kind í stórhríð. Hettupeysur gegndrepa. Við fundum peysur til skipta, húfur og aðra vettlinga.

Nú fór að birta til og jafnskjótt skriðu nú starfsmen úr hýði sínu og opnuðu eina lyftu í viðbót. "Þá lægstu af þeim stóru", sögðu krakkarnir sem voru hagvön. 

Nú varð miklu meira gaman. Í hópnum voru nokkrir sem kunnu vel, bæði á bretti og skíði. En svo voru kannski aðrir sem ætluðu sér um of. Fóru á toppinn og lögðu af stað niður, með misjöfnum árangri. Komust þó alla leið og sögðu þessa brekku "gildru dauðans", sem þeim hafði þá víst með einstakri heppni tekist að sleppa úr.

Þá sá til sólar, það var stytt upp. Og við áttum að fara heim. 

Myndirnar sem fylgja áttu eiginlega að segja þessa sögu, ég bara get aldrei setið á mér.

1. það getur verið snúið að hjálpa félaga sínum að festa brettið.  2. strákar og stelpur, nærri óþekkjanleg í bylnum. 3.Einn á leið upp, annar niður, þriðji fallinn.  4.Nestistíminn. 5. Sólin skein á Esjuna þegar við fórum heim. 6DSCF6289DSCF6357 Heima.

Ég veit ekki hvers vegna rútan og kirkjan þurftu að troðast þarna efst og rugla röðinni. Þið bara skoðið myndirnar  með réttu hugarfari.

DSCF6204DSCF6265DSCF6222DSCF6244


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ohh væri til í að fara í 9. bekkjar skíðafeðrina aftur!

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 22:57

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Þetta gerði ég - kannski þú seinna.kv.

Helga R. Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband