14.1.2008 | 21:05
Hrunamenn - einn ganginn enn
Ég held ég sé búin að finna mína köllun í lífinu. Mér datt það í hug í gær þegar ég fór í bíltúr um Flóann, og hafði ákveðið að enda þann túr með því að kaupa mér kaffi á einhverjum góðum stað. Eftir því sem leið á ferðina varð meiri spurning hvort þessi góði staður væri til? Hvar var hægt að kaupa sér kaffi og kannski köku í Flóanum á sunnudegi í janúar? Þarna - þegar útlitið var ekki alveg nógu gott, datt mér í hug að taka þá bara næst besta kostinn, ( sem líklega hefði þó verið sá besti) að fara bara heim á einhvern bæinn og láta bjóða mé í kaffi. Það er alveg hægt að gera það, eða alla vega var það hægt fyrir ekki svo löngu og ætti bara að vera enn.
Svo að málið er, þetta með köllunina, mér datt í hug að fara bara að ferðast um uppsveitirnar og fara í heimsóknir. Væri það svo galið? Þetta gera þingmenn, eða segjast alla vega gera það, og hvers vegna þá ekki ég? Ég gæti í leiðinni safnað í sarpinn sögum og minningum og svo skrifað þær í bók til að gefa út á jólunum?
Ekki kom þó til neinnar innrásar á bæi í þetta sinn. Það var opið í Rauða húsinu á Eyrarbakka og þar fengum við kaffi og vöfflur með rjóma. Prýðisgott.
Nú kemur annar kafli sem fyrr var birtur í bókunum um Hrunamenn:
Litla Laxá - fyrsti kafli:
Litla Laxá er ekki bara lítil bergvatnsá, sem gefur einstaka lax þegar vel árar. Við sem ólumst upp við árbakkann áttum þar leikfélaga sem aldrei brást og bauð uppá margar leiðir til ótrúlegustu uppátækja.
Á fyrstu árunum var okkur kennt að við ættum ekki að koma nálægt ánni, en það bann hefur varla staðið nema svona til fimm ára aldurs. Þá var byrjað að prófa hvað þyrfti að fara langt útí til þess að fara uppfyrir vaðstígvélin og það leiddi af sér fjöldamörg fleytifull stígvél.
Fyrstu reglulegu ferðirnar yfir ána fórum við á hestvagni, þegar mjólkin var flutt frá Hvammi upp að Grafarbakka. Tanni, sem dró vagninn með mjólkurbrúsunum og okkur, rataði yfir ána og af honum lærðum við að þekkja vaðið.
Um sumartímann var stundum komið upp göngubrú yfir ána fyrir framan bæinn heima, en hún stóð ekki nema yfir sumarið. Vetrarflóðin hefðu rutt henni úr vegi svo hún var tekin á land að hausti og geymd til næsta vors.
Á heitum sumardögum var hádegis hvíldartíminn gjarnan notaður til að fara í ána, þá var svamlað þar í sundfötum eins og á fínustu baðströnd. Á heitustu dögum var matartíminn jafnvel framlengdur til þess að hægt væri að njóta þessara lystisemda sem best. Og það voru stórir jafnt sem smáir sem léku sér í ánni á svona dögum.
Svo var vinnudeginum lokið og sólin hvarf vestur yfir Högnastaðaásinn. Þá klæddumst við gallabuxum og gúmmískóm, eða bara fórum eins og við stóðum - aftur út í á. Þá voru farnar langar gönguferðir upp og niður eftir ánni. Hyljirnir kannaðir og lagst þar til sunds ef ekki náðist til botns. Við urðum okkur úti um tunnur sem við klofriðum niður strauminn og reyndum að komast hjá því að velta og lenda í kafi. En þó svo færi var það síður en svo verra.
Beint fram af hverahólmanum var hylur, með brattri klöpp við landið sem við notuðum sem stökkpall út í strenginn, sem svo skolaði manni fram á grynningarnar fyrir neðan. Aldrei var vatnið svo hlýtt að við sypum ekki hveljur og hljóðuðum meira og minna við dýfurnar.
Á veturna var áin oftast ísi lögð ofan hverahólma, en frá honum kom svo mikið heitt vatn að hún var auð alla sína leið í gegnum Grafarhverfið. En á ísnum austan við hólma lékum við okkur og þá finnst mér að alltaf hafi verið tunglsljós og ísinn spegilsléttur. Yfirleitt drógum við sleða, eða vorum dregin. Ég man eftir grænum sleðum sem pabbi smíðaði handa okkur Erni og við notuðum þá mikið. Við áttum aldrei skauta eða skíði, enda var sjaldan færi fyrir svileiðis tæki. Það hefði líka verið vonlaust að fara að kaupa á okkur skauta, við hefðum strax vaxið uppúr þeim.
Sleðarnir voru langbesti kosturinn, við gátum dregið þau yngstu á þeim, en það var ekki óalgengt að við værum þarna öll á ferð - tíu frá Grafarbakka og svo við fimm. Þetta var góður hópur að vera með á svelli undir stjörnubjörtum himni. Sá elsti af Grafarbakkasystkinum Jón, var þremur árum eldri en ég, og svo voru þeir yngstu, Öddi og Hreinn jafngamlir. Við vorum helmingi færri en það mátti heita að við værum öll á sama aldri.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær hugmynd ég skal vera einkabílstjóri alltaf gaman að keyra um sveitirnar!
Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 21:29
Já takk, líklega ekki galið tilboð - alla vega eru þingmennirnir oft með bílstjóra?
Helga R. Einarsdóttir, 14.1.2008 kl. 21:45
Skemmtilegar minningar. Tunglsjós og ís.
Ég hélt fyrst að þú ætlaðir að opna kaffistofu í Flóanum en það var nú ekki.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 15.1.2008 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.