Enn á ferð í Hrunamannahreppi

Annar hluti:

Fyrir okkar heimili var þetta mannvirki hin mesta búbót, þar sem við höfðum ekkert baðherbergi með nútíma þægindum svo sem sturtu eða baðkari.

Frá frumbersku vorum við böðuð í bala svo lengi sem hann var nógu stór, en eftir það fórum við í laugina allt árið um kring.  En þegar þróin kom í hólmann varð hún miklu betri kostur, sérstaklega á veturna. Þá var hverinn látinn renna í þróna og svo látið kólna þar til hægt var að komast ofaní. Kannski var þarna einn fyrsti heiti potturinn á Íslandi. Ég man sérstaklega eftir einu jólabaði á aðfangadag. Við máttum ekkert vera að bíða eftir að vatnið kólnaði og píndum okkur ofaní allt of fljótt. En það vandist furðanlega og ekkert þótti tiltökumál þó við værum eldrauð og kannski hálfsoðin þegar við skriðum uppúr til að klæða okkur í jólafötin.

Ég man ekki sérstaklega eftir því að ég lærði að synda. Ég hef líklega verið fimm eða sex ára, og ég veit að það var Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá Hruna sem kenndi mér ásamt Solveigu dóttur sinni. Örugglega höfum við kunnað eitthvert hundasund og verið færar um að bjarga okkur, en hann kenndi okkur sundtökin.   Í lauginni vorum við á hverjum degi allt sumarið, fórum kannski heim ef við urðum svöng en síðan aftur í laugina.

Laugin var merkilegt fyrirbæri. Hún var þannig gerð að veggir voru hlaðnir á þrjá vegu úr grjóti og þéttað með torfi að utanverðu. Þannig var gerð fyrirstaða fyrir afrennsli hveranna í hólmanum.  Grynnst er hún næst hólmanum, þar sem farið var útí, en svo nokkuð djúp  lengra frá. Þessi laug var í mörg ár sú eina í uppsveitunum og notuð til sundkennslu þar til byggðar voru aðrar og flottari laugar í sveitunum. 

Laugin var hreinsuð öðru hvoru, kannski einu sinni á ári. Þá var vatninu hleypt úr, um botnloku sem var á þeirri hlið sem sneri að læknum fyrir utan, sem rann svo út í á. Þegar laugin var orðin tóm var Tanni, vagnhesturinn besti í Hvammi, teymdur ofaní, með einhvern slóða á eftir sér. Hann var svo teymdur fram og aftur um allan laugarbotninn til að hreinsa gróður og drullu sem kannski hafði sest þar að. Svo var lokað aftur og vatnið byrjaði að safnast fyrir. Ég man að hreinsunardagar voru ekki góðir dagar. Við gátum ekki farið í laugina. Varla hafa þeir þó verið margir í hvert sinn.

Þegar byggð var laug við skólann á Flúðum var hætt að nota þessa laug til kennslu og hún varð bara okkar einka. Þegar við svo stækkuðum fórum við að sækja í félagsskapinn þar og minna varð um hreinsun á gömlu lauginni. Eitthvað fórum við þó áfram í hana en á endanum var gróðurinn orðinn svo mikill og dýralíf í honum að okkur var ekki vært þar lengur. Komum uppúr bitin og bólótt, (væri sjálfsagt fréttaefni nú á tímum). Okkur klæjaði í bólurnar, en þær hurfu og við fórum bara aftur ofaní. En með okkar kynslóð var víst að mestu lokið verulegri notkun á þessari stórmerkilegu laug. Hún stendur enn og er alveg eins og áður. Og á síðasta ári var hún tæmd og hreinsuð svo þar eru nú vist engar pöddur lengur. Gott framtak hjá honum Bjössa í Hvammi.   

Sundskýlið við laugina var hólfað í tvennt. Í öðrum endanum var búningsklefi með bekkjum við veggi, en í hinum endanum var gufubað. Hár bekkur við einn vegginn, en í öðru gólfhorninu á móti kom gufan inn, jafnt og þétt, þangað leidd í stokki frá einum hvernum fyrir utan.  framh...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Kvitt...erum komin úr sólarhringsferð úr Leynigarði

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 13.1.2008 kl. 17:21

2 identicon

Svo meir að segja hefur sundskýlið ratað á forsíðu geisladiska og í efnisyfirlit.. kíkið á Apana í Eden frá Baggalúti þar eru þeir í sundskýlinu með ananas og í Hawaii skyrtum..

Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband