Enn á ferð í Hrunamannahreppi

Fyrri hluti af grein um Hverahólmann.

Þetta hefur að vísu verið birt fyrr, í bók sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Voru reyndar tvær bækur saman: Hrunamenn - byggðir og bú - 1 og 2. 

En mér er sagt að það eigi ekki allir þessar bækur - sem mér finnst alveg undarlegt!

Hverahólminn - fyrri hluti:

Mínar fyrstu minningar frá Hverahólmanum snúast aðallega um þvott, og konurnar sem komu með þvottinn á hverinn, eins og sagt var.  Þær komu sumar snemma morguns og voru allan daginn í hólmanum að þvo.

Ein þeirra var hún Lína á Sólheimum, líklega var hún sú sem kom lengst að, ríðandi og teymdi vagnhest.  Á meðan sauð í balanum um miðjan daginn tók hún sér smá hvíld og og þá  heimsótti ég  hana gjarnan. Hún bauð mér nefnilega stundum á bak. Varla meira en fimm ára var ég farin að sitja um að hitta Línu til að fá að fara á hestbak. Þá varð vagnhesturinn að glæstum reiðskjóta og við fórum stundum alla leið upp að Áslæk.    Ein ferð er mér minnisstæðari en aðrar þó ekki hafi hún verið neitt sérlega vel heppnuð.        Við fórum  austur eyri og þar yfir Litlu Laxá, um Kvíadalinn og upp á mela - og við komumst alla leið upp að Áslæk.  Á melunum var vegurinn beinn á löngum kafla og upplagt að  láta þar  lausan tauminn og taka dálítinn sprett. Það þótti mér venjulega ákaflega skemmtilegt, en í þetta sinn fór haldur verr en ég vildi. Ég reið berbakt eins og ævinlega, en var í þetta skipti svo óhappin að vera í stígvélum, heldur í stærra lagi. Þau dingluðu smám saman niður af fótunum á mér og ég gat ekkert að gert, hafði ekkert til að spyrna í. Ekki þorði ég að kalla til Línu og segja henni frá vandræðunum, mér fannst útilokað að biðja hana að hægja á feðinni útaf svona aulalegum vanda. Auðvitað endaði þetta með að stígvélið datt og þá var útilokað að dyljast lengur, ég varð að kalla til hennar og segja frá óhappinu. Sjálfsagt fussaði hún svolítið, snaraðist af baki, náði í stígvélið  og kom því fyrir á sínum stað. Síðan var snúið til baka í Hverahólmann til að taka þvottinn úr suðunni og setja í skol.

Tobba á Högnastöðum var önnur þvottakona í hólmanum. Hún var vinnukona á Högnastöðum frá því ég fyrst fór að þekkja þar til og það sem hún átti eftir ævinnar. Á sínum yngri árum hafði hún verið vatnsberi í Reykjavik, en á þeim árum var allt vatn borið frá brunni í húsin. Varla hefur það verið neitt sældarbrauð að standa í slíku allan ársins hring hvernig sem viðraði. Kannski var hún þá unglingur að vaxa úr grasi við fábrotið mataræði og kröpp kjör. Hún bar þess merki, okkur krökkunum var sagt að það væri vegna harðræðis í æsku, að hún var mjög bogin í baki. 

En stritinu var ekki lokið þegar hér var komið. Hún kom með þvottinn allan ársins hring, hvernig sem viðraði. Stundum á vetrum var garðurinn framan við laugina, þar sem gengið var, svo ísi lagður að þar var gjörsamlega ófært fyrir gamla konu með stóran poka á bakinu fullan af blautum þvotti. Jafnvel fór hún skríðandi  yfir svellbunkann og það kom oft fyrir að pabbi hjálpaði henni ef hann varð var við að illa gekk.

Fleiri konur komu á hverinn til að þvo þó þessar séu mér minnisstæðastar. 

Fyrst hefur verið þvegið í hverunum eins og nafnið á Vaðmálahver bendir til, en seinna var steypt þró í hólmanum og þótti það hin mesta framför.

Hólfin í þrónni voru þrjú, tvö minni fyrir sápuþvott og svo eitt stærst þar sem skolað var.  --- framhald ---


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband