8.1.2008 | 17:22
Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt
Annar kafli:
Þessar rekstrarferðir voru alveg meiriháttar. Geiri kenndi sínu rekstrarfólki, sem oftast voru auk mín, systkini hans Gunna og Haraldur og svo Pálmar sonur hans. Haraldur eignaðist svo sitt eigið bú og fór að reka sjálfstætt, en það voru fleiri sem vildu koma með okkur og gerðu það nokkrir til skiptis. En við Gunna vorum á eins konar fastráðningarsamningi og létum okkur helst aldrei vanta.
Geiri kenndi okkur að þekkja leiðina með örnefnum. Allir hólar, mýrar, ásar og fjöll áttu sín nöfn sem við lærðum, og oftar en ekki fylgdi saga með sem skýrði hvers vegna nafnið var til komið.
Við rákum ekki kindurnar til fjalls bara si svona. Ekki aldeilis. Við fórum framhjá Bryðjuholti og uppúr Kirkjuskarðinu og yfir foraðsmýrina í Núpagerði. Þar lá allt í og varð að gæta vel að svo ekki færi allt á svartakaf og lömbin træðust jafnvel undir. Að fara þar yfir á hesti, var í vætutíð bara bölvað brask. Svo áfram yfir Skipholtfjallið, þar sem byrgið hans Fjalla Eyvindar var. Þangað fór bróðir hans í Skipholti með mat sem Eyvi gat svo nálgast við tækifæri. Væri kalt og kannski blautt var gott að fara af baki og teyma þarna á fjallinu. Hellugrjótið var gott að ganga á. Steinbogamýrin tók svo við þegar komið var norður af Skipholtsfjalli.
Alltaf var áð á sömu stöðum ár eftir ár. Við áðum við túngarðinn á Fossi og oftast kom þá einhver hlaupandi heiman frá bæ og bauð í kaffi. Svo var farið inn yfir Skerslin og upp á Hlíðartorfur, þar sem áð var um kvöldmatarleytið. Þegar við Jói rákum okkar fé fengum við stundum sendan heitan mat þangað. Bílaöldin hafði haldið innreið sína í Grafarhverfið, þar voru til jeppar og annaðhvort kom pabbi, eða einhver frá Hvammi með mat. Oftast stóran pott með kjarngóðri kjötsúpu.
Eftir góða áningu þarna var haldið inn á Tungufellsdal og áð þar um lágnættið, á meðan döggin settist á stráin og mófuglarnir þögnuðu stundarkorn.
Geiri kenndi okkur að passa hestana og fara vel með þá, og hann kenndi okkur að umgangast kindurnar af virðingu.
Svo reyndi hann að kenna okkur vísur og kvæði og alltaf fylgdi nafnið á höfundinum með. Unglingseyrun voru misnæm fyrir þessum fróðleik, en hann lét það ekkert á sig fá.
Eftir miðnæturáninguna var haldið áfram yfir Deildarklifið grýtt og bratt, inn í Deild og svo þaðan inn að afréttargirðingunni með úðann af Gullfossi á vinstri hönd og eyðibýlið Hamarsholt horfið ofan í svörðinn.
Þarna fannst mér oft langur áfangi, svefninn sótti að og umhverfið var fábreytt. Sandur og grjót hvert sem litið var og klukkan á bilinu 4 - 6 að morgni.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.