Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt

Verður nú fram haldið birtingu á þokukenndum minningabrotum frá liðinni öld.

Væntanlega nær þessi upprifjun einum fjórum eða fimm köflum, svo að þeir sem ekki treysta sér til svo langrar lesningar ættu bara að hætta hér.

Fyrsti kafli: 

Það er ekki hægt að skrifa um rekstrarferðir, hesta og kindur í Hrunamannahreppi á síðustu öld án þess að nefna hann Geira á Hrafnkelsstöðum.  

Hann valdi hestinn sem ég fékk í fermingargjöf og fór með mér í reynsluferðina. Í þeirri ferð flaug ég fram af hrossinu niður á malarborinn lækjarbakka, beint á andlitið og varð nokkuð skrámuð og blóðrisa.   Þetta kenndi hann sér um, taldi að auðvitað hefði hann átt að vita að fákurinn myndi stökkva útundan sér, hlaupa einn góðan sprett og snarbremsa svo við lækinn. 

Hann dæmdi gæðinginn samstundis ónothæfan með öllu. Setti á hann leynitaum og teymdi svo undir mér það sem eftir var ferðarinnar. 

Svo valdi hann annan hest og sá um skiptin.  Það var upphafið að mínu hrossabraski og var Geiri alla tíð sjálfsagður leiðbeinandi í þeim efnum. 

Þegar fjárbúskapur hófst í Hvammi og ég vildi taka þátt í því eins og öðru á þeim bæ, var hann garðyrkjubóndanum föður mínum innan handar um val á bústofni. Sumt kom frá honum sjálfum og varla dýru verði selt.

Ég fékk að nota markið hans afa á Hulduhólum, það var nógu langt á milli okkar. "Sýlt á báðum og biti aftan hægra", frábært mark, auðmarkað og gott að þekkja. Brennimarkið var GARÐUR og það smíðaði hann Maggi maðurinn hennar Kristrúnar móðursystur. 

Seinna þegar sýnt þótti að sauðkindin yrði að víkja úr Grafarhverfinu, sem var þá orðið meiriháttar garðyrkjusvæði og rollur þess vegna meindýr, stóð stelpan uppi landlaus og húslaus með hjörðina á vergangi. 

Að vísu var þá skorið niður að hluta og sumt selt til lífs, en Geiri bauðst til að fóðra fyrir mig, nóg til þess að ég gæti áfram talist fjárbóndi og átt númer hjá S.S. Því númeri gat ég svo vísað fram hjá fyrrnefndu S.S til að kaupa þar bjúgu með afslætti. En það varð nú ekki fyrr en löngu seinna.

Þennan greiða þurfti ég þó að  launa Geira með einhverju móti og hann fann leið til að það yrði mér ekki of þungur baggi að bera. Ég átti að reka á fjall með honum á vorin og þóttu mér þau kjör aldeilis vel við unanadi. 

Þegar hér var komið sögu hafði ég reyndar rekið á fjall í fjölda ára. Byrjaði líklega svona tíu ára að fylgja, fyrst upp að Fossi, svo inn á dal og síðan alla leið.

Við Jói í Hvammi byrjuðum á að vera i samfloti við Reykjadalsmenn í rekstrum, svo einu sinni eða tvisvar með vesturbænum á Grafarbakka. Það var þegar Dagbjartur, seinna stórútgerðarmaður í Grindavik, var þar vinnumaður og eftirsóttasti kostur kaupakvenna í Hrunamannahreppi. Ég var bara krakki og hafði svosem enga skoðun á honum, nema hvað hann var heldur fyrirferðarmikill og söng oft hátt í stofunni heima.

Svo fórum við Jói bara að reka sjálf, þegar hann var búinn að læra að þekkja leiðina. Einu sinni rákum við reyndar með Guðjóni í Hruna og fórum þá allt aðra leið en venja var og flestir fóru.    Við fórum inn með Berghylsfjallinu að austanverðu og svo beint innyfir Hrunaheiðarnar þangað til kom að hliði á afréttargirðinunni sem var miklu austar en það sem venjulega er notað.

Í þeirri ferð fékk ég örugglega að koma á bak honum Bleik hans Guðjóns, sem ég fékk reyndar oftar að reyna. Það var hreint ekki lítils virði að vera trúað fyrir honum, ég vissi að Guðjón lét hann ekki öllum eftir. Kannski var Bleikur það besta og dýrmætasta sem hann eignaðist á ævinni.  

Jæja - þegar kom að búskapar samskiptum okkar Geira var ég sem sagt búin að reka á fjall hvert sumar í nærri því heilan áratug, svo ég hefði verið heldur illa stödd hefði þeim ferðum lokið skyndilega vegna grænmetisframleiðslu í Grafarhverfinu. 

Nú varð það árviss viðburður að Geiri hringdi, oftast í Júlíbyrjun, og sagði eitthvað á þá leið "að nú stæði til að reka eftir einn eða tvo daga, væri nokkur leið að ég gæti hjálpað honum"? Auðvitað gat ég það, þó feykinóg væri við að vera heima, oftast verið að keppast við að grisja gulræturnar. Stundum sagði pabbi sem svo " að ef ég gæti lokið þessum fjórum eða fimm gulrótabeðum fyrir kvöldið mætti ég fara".Kannski herti ég á mér einhverja stund og jafnvel var lokið einhverjum áfanga, en aldrei held ég að hefði komið til þess að leyfið væri ekki veitt. Hann pabbi átti bara þessa einu stelpu  - og hún fékk víst það sem hún vildi.

Seinna meir var ég eitt ár úti í Noregi og svo var ég tvisvar ólétt, en annað kom ekki í veg fyrir að ég ræki á fjall árlega fram á fertugsaldur. Þá var reyndar minn eigin fjárstofn löngu útdauður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fékk einu sinni að reka með Haraldi og Hönnu frá Hrafnkelsstöðum niður að Litlu-Laxá á henni Vindu gömlu. Gleymi því aldrei, fannst þetta heljar ferðalag enda ekki mjög gömul. Ég fór svo alltaf í sauðburð til Geira og átti þar eina  svartbotnótta. Geira fannst mikið í lagi að ég skírði hana Birtu þó það ætti ekki við litinn á henni. Þetta eru góðar minningar

Kristín G. (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 08:28

3 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Alltaf gaman að lesa minningarnar þínar.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 8.1.2008 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband