4.1.2008 | 20:47
Það vorar snemma!
Ég fór í dag til Reykjavíkur og það var sumarfæri. Ekki er svo langt síðan þessi leið var lokuð meira og minna allan veturinn. Ekki lengra en svo að það var búið að finna upp myndavélina og ég var fædd. Ég á mynd af bíl sem stendur í snjógöngum miklum sem höfðu orðið til þegar mokað vr í gegnum margra metra djúpa fönnina sem huldi Hellisheiðina þá.
Svona er allt breytingum háð.
Það er líka breytilegt hvað ég hef mikinn tíma - eða nenni að sitja við bloggið.
Undanfarnar vikur hef ég verið léleg, ég veit það alveg. En það er bara ýmislegt annað að gera. Jólin, eru tími sem maður hefur ákveðnum skyldum að gegna.
Afmælisveisla á Þorláksmessu, krakkarnir í mat á Jóladag og stórfjölskyldan í partíi á annan. " Amma - eruði ekki rosalega blönk eftir jólin, að halda öll þessi boð"? spurði hún nafna mín og á hrós skilið fyrir umhyggjuna.
Svo hef ég lesið nokkrar bækur í rúminu á kvöldin - og stundum fram á nótt. Harðskafanum lauk ég fyrir jól, en hann hélt ekki vöku fyrir mér fram á nætur. Ari Trausti í leit að fortíðinni gerði það hins vegar stundum og þá helst í fyrri hluta bókarinnar. Í heildina finnst mér sú bók ljómandi góð. Hún er persónuleg, einlæg og eitthvað svo sönn - samt er hún sögð skálduð. Aðeins sá ég þar smávægileg mistök prófarkarlesara, en truflaðist minna af þeim heldur en því að fólk og staðir voru ekki nefnd sínum réttu nöfnum.
Ég er líka búin með Jarlhetturnar hans Björns Th. heitins. Allt frá því ég byrjaði að lesa bækurnar hans og komst að því að við vorum bæði af ætt "Hraunfólksins", hef ég lesið allt sem hann skrifaði og ég komst yfir. Einstaklega læsilegur stíll og í þessari síðustu bók tekst honum að gera eldgamla íslendingasögu svo skemmtilega að ég las hana í einum fleng.
Næst fer ég norður á Strandir með Hrafni Jökylssyni og veit að það verður góð ferð.
Morgunstundirnar notaði ég fyrir drauma eins og áður er nefnt. Einn draumur var þá ónefndur sem mér fannst einna merkilegastur og vona að boði eitthvað gott: Ég var einhversstaðar úti á landi, líklega helst fyrir vestan og þar hafði ég fundið vegg, hlaðinn úr einhverjum eðalsteinum. Ég var að leita að fallegum steinum í hleðslunni og fann þá nokkra. Þar á meðal einn, sem var eins og hnefastór kristall, algerlega glær og fallega lagaður. Ég gekk svo frá veggnum þannig að hann var eins og áður. Undraði mig reyndar á því að ekkert sá á þó ég tæki nokkra steina.
Svo er nú bara skólinn byrjaður aftur. Við vorum í gær að gera allt sem við viljum fá að gera í friði fyrir krökkum. Tókum til á undarlegustu stöðum og veitti ekki af.
Svo komu þau í dag, þessar elskur. Brosandi - "hæ" og gleðilegt nýár Helga" - fékk mig til að fá það á tilfinninguna að vorið væri að koma, tíminn líður svo fljótt þegar manni er heilsað svona í vinnunni.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Helga Guðrún er nú meira krúttið!
Já, það er vor í lofti. Nú er sökkullinn (loksins) tilbúinn fyrir lagnirnar, búið að jafna út moldinni og mölinni - og allt að fara að gerast
Svo kemur sumarið með sól í heiði, blóm í haga og freknur á kinnum. Get ekki beðið. Get ekki beðið. Gleði gleði sem verður þá 
Josiha, 4.1.2008 kl. 21:31
Gleðilegt nýtt ár Helga!
Mikið ert þú búin að vera dugleg um jólin. Þú ert fljót að lesa þykir mér.
Gaman að sjá dóma þína um bókina Land þagnarinnar eftir Ara Trausta. Ég ætla að útvega mér hana við fyrsta tækifæri. Hér er um sjálfsævisögulegt verk er að ræða og Ari Trausti eyddi, líkt og sögupersóna bókarinnar, þremur árum í að leita afa síns í Þýskalandi. Sjá: http://www.visir.is/article/20071129/LIFID01/111290202&mrt=2
Fyrir stuttu las ég bók móður hans, Lífsganga Lydíu eftir Helgu Guðrúnu Johnson og í haust Fjallamenn eftir Guðmund frá Miðdal. Þá verður hringnum lokað!
Sigurpáll Ingibergsson, 5.1.2008 kl. 00:20
Þessi draumur hlýtur að boða gott. Ég hef líka ekki verið mikið á blogginu núna en alltaf er gott að kíkja inn hjá þér.
Mer finnst Björn Th góður líka.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 6.1.2008 kl. 12:26
Já, blessað krúttið hún nafna þín
Gleðilegt ár! Sjáumst
mýrarljósið (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 15:28
Sæl Helga og gleðilegt ár! Trúi vel að bókin hans Ara Trausta sé góð. Las bókina hans, Veglínur, um árið og fannst hún mjög vel skrifuð. Á eftir að lesa Harðskafa, ætla að gera það við tækifæri.

Þessi draumur þinn merkir að það þú getur tekið fullt af minningum (gimseteinum) úr hugarfylgsni þínu (hlaðni veggurinn) og sett á bloggið án þess að minningarnar skemmist neitt
Þorsteinn Sverrisson, 6.1.2008 kl. 19:53
Ha - ha, góður Þorsteinn. Á nú að reyna að draga eitthvað fleira fram í dagsljósið? Ég man reyndar eftir að hafa komið að Þverspyrnu frekar ung. Og það var sennilega fyrst þegar mamma og pabbi komu þar við á leið í berjamó, kannski til að fá leyfi. Á Hvammsjeppanum lánuðum einn sunnudag seint í ágúst. Það var nóg af berjum í Austurkróknum. Þau voru líka kunnug öllum systkinunum þarna. Stelpurnar voru kaupakonur um allt Grafarhverfið og svo voru þau öll virkir þátttakendur í félagslífinu í sveitinni. Valli gæti hafað verið svona tíu ára þegar ég kom þarna fyrst, ég einhversstaðar á milli fimm og tíu. Ánægður í bili?
Helga R. Einarsdóttir, 6.1.2008 kl. 21:53
Já ég man að þarna var víða gott berjaland, jafnvel þó það væru rollur á svæðinu. Það kom fólk víða að til að tína.
Þorsteinn Sverrisson, 7.1.2008 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.